sunnudagur, febrúar 22, 2015

Allt er betra í útlöndum (allavega veðrið)

Íslenska aðferðin við að losna við kvabb
Eitthvað voru kunnugleg vinnubrögð borgarstjórnar að leyfa Valsmönnum að byrja að byggja á flugvallarsvæðinu í stað þess að bíða eftir niðurstöðu Rögnunefndarinnar. Þetta er svipuð aðferð og hefur verið notuð þegar byrjað er á tilraunaborunum eða álíka jarðraski áður en úrskurður fellur um hvort vernda eigi landsvæði, og þá er sagt „úps, of seint, við erum komnir svo langt að það er ekki hægt að hætta við“. Þetta eru ómerkileg vinnubrögð hjá borgarstjórn.

Það var eflaust peninga- og tímasparandi að fá Brynjar Níelsson til að skoða ásakanir Víglundar Þorsteinssonar og úrskurða um réttmæti þeirra, en býður jafnframt uppá gagnrýni þeirra sem eru ósammála niðurstöðunni. Ég er ekki ósátt við niðurstöðuna sem slíka en tel að þó að Brynjar sé auðvitað ekki að hlífa Steingrími Joð og Jóhönnu þá er hann þar í flokki staddur þar sem menn draga ávallt taum lögfræðinga og bankamanna. Þessvegna hefði frekar átt að stofna nefnd og rannsaka þetta almennilega ef á annað borð átti að sinna þessu kvabbi Víglundar.

Bretar til fyrirmyndar
Bresk yfirvöld ætla að banna Bretum að reykja í bílum ef börn eru með í för. Frumvarp þess efnis var samþykkt með miklum meirihluta á breska þinginu í gær. Lögin taka gildi í október en þeim er ætlað að vernda börn fyrir óbeinum reykingum.

Sem minnir mig á. Eitt sinn gisti ég í heimahúsi í höfuðborg Bretlands og sá mér til nokkurrar skelfingar að kirkja var handan götunnar. Bjóst ég við að ekki yrði svefnfriður á sunnudögum vegna hávaða, eins og víða er raunin í Reykjavík. Mér var sagt að ég hefði ekkert að óttast því bannað væri að hringja kirkjuklukkum í íbúðarhverfum (hvort sem það var nú rétt eða ekki, það var ekki innfæddur íbúi sem sagði mér þetta). Ég fékk því að sofa út í friði enda eru frí til þess gerð. Nú sé ég á frétt sem segir að í Reykjavík berist bara ein kvörtun á ári vegna kirkjuklukkna, sem vekur mér nokkra furðu. Ég verð greinilega að fara að herða mig í símhringingunum og breyta röddinni.

Efnisorð: , ,