miðvikudagur, febrúar 25, 2015

Viðskiptaráð: Einkavæðing, taka tvö (hvað getur klikkað?)

Það vakti nokkra athygli um daginn að Viðskiptaráð birti skýrslu sem heitir „Hið opinbera: tími til breytinga“ þar sem lagt var til að selja „opinber fyrirtæki fyrir 800 milljarða króna og helminga þannig opinberar skuldir“. Framkvæmdastjóri þess segir
„Við sjáum fátt því til fyrirstöðu að fara að selja eignarhlut í Landsbankanum og að hefja undirbúning á að minnsta kosti hluta á eignarhlut í Landsvirkjun.“
Skýrslur Viðskiptaráðs hafa reyndar áður vakið athygli, sérstaklega sú frá árinu 2006 þar sem mótuð er framtíðarsýn til 2015:
„Viðskiptaráð leggur til að Ísland hætti að bera sig saman við Norðurlöndin enda stöndum við þeim framar á flestum sviðum.“
Þetta sama Viðskiptaráð hreykti sér af því að á árunum fram að hruni hefði ráðið fengið um 95% af stefnumálum sínum framkvæmd af ríkisstjórnum Íslands. Og síðan — með öllum þessum fínu ráðstöfunum — varð hrun. En Viðskiptaráð vill semsagt taka annan snúning. Það er mikilvægt að gefa því gaum í ljósi sögunnar.


Fyrst eftir hrunið hrópuðu margir í örvæntingu að enginn hefði séð í hvað stefndi og enginn hefði varað við því að bankarnir væru að hrynja. Allir hefðu verið ánægðir með það sem var að gerast og héldu því fram að allir hefðu verið ánægðir með það sem var að gerast og enginn gagnrýnt neitt. Margoft var reynt að benda því fólki á að vissulega hefði verið varað við bankahruni (þeir sem það gerðu voru aðallega útlendingar sem ekki þótti mark á takandi) og ítrekað var varað við skaðsemi frjálshyggjunnar og einkavæðingarstefnunnar. Eins og svo kom í ljós.

Þannig að nú tók ég saman nokkrar greinar (og stytti og þjappa saman að hentugleika) þar sem er varað við því að fara að ráðleggingum Viðskiptaráðs. Eflaust eru fleiri sem hafa lagt orð í belg en ég læt þetta nægja, bara svona til að hafa fyrir sjálfa mig á einum stað þegar næst verður hrópað „en það sagði enginn að frjálshyggjuleið Viðskiptaráðs gæti endað með ósköpum“.

Stefán Ólafsson skrifar, í kjölfar þessarar nýju skýrslu, um Viðskiptaþing sem hann kallar hina árlegu revíu Viðskiptaráðs. Hann segir að fyrir hrun hafi þessar samkomur verið vinsælar.
„Menn töldu að spekingar Viðskiptaráðs hefðu höndlað sannleikann og mændu upp í nasir þeirra. Sannleikur þeirra reyndist vera einföld útgáfa af bandarískri nýfrjálshyggju og ræningjakapítalisma.

Viðskiptaráð hældi sér af því að á árunum fram að hruni hefði ráðið fengið um 95% af stefnumálum sínum framkvæmd af ríkisstjórnum Íslands.

Nú heimta Viðskiptaráðsmenn á ný að Landsvirkjun og Orkuveita Reykjavíkur verði seld ódýrt til braskara í einkageiranum. Þeir eru meira að segja búnir að verðleggja góssið sjálfir!

Viðskiptaráð vill einnig að ríkið selji alla aðra fýsilega starfsemi sem það hefur á sinni könnu og leggur meðal annars til að heilbrigðisþjónustu, menntun og störfum sýslumanna verði úthýst til braskara í Viðskiptaráði. Næsti bær við er úthýsing löggæslunnar og ríkisstjórnarinnar.

Stefán bendir á að „eftir þá reynslu sem þjóðin fékk af hrunadansinum þá væri það vitfirring að fylgja ráðum Viðskiptaráðs nú. Hrein og klár vitfirring. Viðskiptaráðsmenn ættu að hafa hægt um sig eftir reynsluna af stefnu þeirra sem færði okkur hrunið. Þeir hafa ekkert lært af reynslunni.“
Og Stefán spyr, skiljanlega nokkuð áhyggjufullur: „Er búið að útvista ríkisstjórninni til Viðskiptaráðs?“

Ögmundur Jónasson skrifar einnig um fyrri og síðari tilraun Viðskiptaráðs:
„Á tíunda áratug síðustu aldar og upphafsárum nýrrar aldar var Viðskiptaráð og forveri þess, Verslunarráðið, óhemju duglegt. Þetta var í aðdraganda hrunsins. Ætli nokkur stofnun, nema ef vera skyldi Samtök banka og fjármálafyrirtækja, hafi verið eins dugleg í baráttunni fyrir „einfaldara Íslandi“ einsog það hét þegar talað var fyrir afnámi alls þess sem þótti setja markaðsviðskiptum hömlur.“

Hafist var handa um lagabreytingar í framangreindum anda, reynt var að skerða réttindi opinberra starfsmanna þannig að kostnaðarminna yrði að reka þá og síðast en ekki síst var farið að selja/gefa ríkiseignir, banka og orkustofnanir því allt átti að verða betra á markaði en hjá hinu opinbera. Meira að segja varð það bannorð að ríki og sveitarfélög ættu húsnæðið undir starfsemi sína heldur bæri að selja það og leigja síðan af nýjum eigendum. Samkvæmt forskriftinni átti þetta að verða miklu betra. Varnaðarorðum var engu sinnt.

En nú stígur Viðskiptaráðið aftur fram eins og ekkert hafi í skorist með glænýrri áskorun en um leið svo gamalkunnri: Ríki og sveitarfélög eiga að selja eignir fyrir 800 milljarða, hefja á sölu Landsvirkjunar og Landsbankans, eina ríkisbankans, auka þarf framleiðni í umönnunargeiranum og hjá lögreglunni.“

Guðmundur Andri Thorsson skrifar pistil um dómana yfir Kaupþingsmönnum („Það er fráleitt að láta eins og mannréttindi hafi verið brotin á mönnum fyrir þá sök að rétta yfir þeim fyrir markaðsmisnotkun og sýndarviðskipti sem urðu til þess að gjaldeyrisvarasjóður íslensku þjóðarinnar gufaði upp í Money-heaven.“) og trúna á að „Markaðurinn væri óbrigðull og óskeikull, Forsjónin sjálf.“ Lokaorð hans eru:
„Og næst þegar samþykktir koma frá Viðskiptaþingi skulum við ekki leyfa þeim að verða að ríkjandi kenningu heldur láta okkur þær að kenningu verða.“

Einkavæðing Landsvirkjunar er nógu mikið áhyggjuefni, enn verra væri auðvitað ef frjálshyggjumönnum tækist að koma í kring helsta áhugamáli sínu: að rústa heilbrigðiskerfinu til að geta einkavætt það. Í skýrslu Viðskiptaráðs segir á bls. 41:
„Mörg af stærstu tækifærunum til að auka hagkvæmni í opinberri þjónustu með auknum einkarekstri má finna í heilbrigðiskerfinu.“

Svandís Svavarsdóttir hefur skrifað tvær greinar um einkavæðingu heilbrigðiskerfisins (fyrri grein, seinni grein) og tekið málið upp á þingi. Hún byrjar á að rekja að „í yfirlýsingu milli ríkisstjórnarinnar og Læknafélags Íslands vegna nýfenginna kjarasamninga hafði verið laumað inn setningu um aukna einkavæðingu í heilbrigðiskerfinu“. (Ég skrifaði um yfirlýsinguna hér.) Hún bendir á að einkavæðing sé dýrari fyrir skattgreiðendur, og nefnir Bandaríkin sem dæmi, sjúklingar fái verri þjónustu, laun starfsfólks séu lakari – nema stjórnenda sem fleyti rjómann ofan af — en eigendurnir græði og sendi jafnvel gróðann í skattaskjól. Grundvallarspurning Svandísar er einmitt þessi:
„En til hvers og fyrir hvern er verið að leggja til aukna einkavæðingu í heilbrigðiskerfinu? Hver ætli hagnist á því?“

Katrín Jakobsdóttir ræddi einnig einkavæðinguna í grein og benti á að
„Rannsóknir hafa sýnt að félagslega rekin heilbrigðiskerfi tryggja besta aðgengið að þjónustunni, besta lýðheilsu og eru fjárhagslega hagkvæmust. Einu rökin fyrir því að auka vægi einkarekstrar er pólitísk hugmyndafræði … Góð heilbrigðisþjónusta er samfélagsleg verðmæti sem við eigum að eiga saman. Hún á ekki að vera gróðavegur einkaaðila á kostnað annarra í samfélaginu.“

Á meðan sat Viðskiptaráð og skrifaði skýrslu.
„Til að slíkar umbætur nái fram að ganga þurfa langtímasjónarmið að ráða ferðinni í stað skammtímalausna. Í því ljósi er nauðsynlegt að leiðtogar í stjórnmálum, stjórnsýslu, atvinnulífi og félagasamtökum veiti þessum umbótum forystu í meiri mæli en áður hefur verið gert“ (bls. 56).

Með aðra eins djöfulsins snillinga og eru í ríkisstjórn er full ástæða til að hafa áhyggjur af einkavæðingarstefnu Viðskiptaráðs.

Efnisorð: , , , ,