sunnudagur, apríl 05, 2015

Vörn fyrir orð

Alveg finnst mér það hrikalega vond hugmynd að nota enska orðið „nipple“ í staðinn fyrir geirvarta.

Til þess að rökstyðja það að hætta eigi að nota orðið er rifjað upp að það var valið ljótasta orð íslenskrar tungu — af 250 manns. Ég efast um að það þætti marktækt úrtak í skoðanakönnun, hvað þá ef fólk ætlar að láta eins og þetta val hafi eitthvað gildi.

En ef það á að fara að gera notkun orðsins hallærislega, þá finnst mér eins og það séu þarmeð skilaboð til íslenskra kvenna (og annarra geirvörtuhafa) að þær eigi að skammast sín fyrir geirvörtur sínar. Það var varla meiningin með brjóstabyltingunni.

Þá finnst mér ámælisvert að íslenskufræðingar lýsi sig hlynnta því að skipta geirvörtu út fyrir útlent orð, jafnvel þótt það eigi að vera hægt að nota á það íslenskar beygingarendingar. Geirvarta er nefnilega orð sem þeir ættu að kannast við af lestri Íslendingasagna. Því svo gamalt er orðið geirvarta.

Í Flóamanna sögu segir frá Þorgilsi Þórðarsyni (938 - 1020) sem einnig var kallaður Þorgils örrabeinsstjúpur. Hann bjó í Traðarholti í Flóa en þekktist heimboð frá Eiríki rauða og sigldi því til Grænlands. Ekki gekk þrautalaust að komast til Brattahlíðar því Þorgils varð skipreka í tvö ár ásamt fylgdarliði í vík undir Grænlandsjöklum. Á þeim tíma fæddist Þorgilsi og Þóreyju konu hans sveinbarn, en stuttu síðar er hún drepin.
„Og er þeir komu þar sjá þeir að hún var önduð en sveinninn saug hana dauða. Leituðu þeir um hana og fundu ben litla undir hendinni sem mjóvum hnífsoddi hefði stungið verið. Mjög var þar allt blóðugt. Þessa sýn hafði Þorgils svo séð að honum þótti mestur harmur í vera. Burt var sópað öllum vistum.

Um nóttina vill Þorgils vaka yfir sveininum og kvaðst eigi sjá að hann mætti álengdar lifa „og þykir mér mikið ef eg má eigi honum hjálpa. Skal það nú fyrst taka bragða að skera á geirvörtuna mér“ og svo var gert. Fór fyrst út blóð, síðan blanda og lét eigi fyrr af en úr fór mjólk og þar fæddist sveinninn upp við það.“
Restina af hrakningasögunni, og reyndar allt það sem á undan kom, má lesa í Flóamanna sögu, hún er hér í rafrænu formi en upphaflega var hún skráð á skinn á 14. öld. Í Gull-Þóris sögu sem er einnig frá 14. öld er einnig minnst á geirvörtu, þá í bardagalýsingu.
„Slær þar þegar í bardaga og snýr Þórir að Þorgeiri og höggur til hans með Hornhjalta og kemur á öxlina og sníður af höndina fyrir utan geirvörtuna.“
Elstu dæmin um notkun orðsins sem ég veit til að sé að finna í Íslendingasögum, er að finna í snoturri sögu frá 13. öld sem kölluð er Laxdæla. Þar er þar sjálf Guðrún Ósvífursdóttir sem nefnir geirvörtur í samtali sínu við Þórð Ingunnarson en hún er þá nýskilin við fyrsta eiginmanninn til að geta gifst Þórði. En í síðara Laxdæludæminu er framhald af því fyrra því þar er það fyrrverandi eiginkona Þórðar sem hefnir sín á honum eftir að hann er genginn í hjónaband með Guðrúnu.
„Þá vakti Auður Þórð en hann snerist á hliðina er hann sá að maður var kominn. Hún brá þá saxi og lagði á Þórði og veitti honum áverka mikla og kom á höndina hægri. Varð hann sár á báðum geirvörtum. Svo lagði hún til fast að saxið nam í beðinum staðar. Síðan gekk Auður brott og til hests og hljóp á bak og reið heim eftir það.“
Þórður lifði þó tilræðið af en drukknaði síðan samviskusamlega til að rýma sviðið fyrir Kjartans-og-Bolla dramað.

En semsagt. Allt frá 13. öld (og örugglega löngu fyrr) hefur orðið geirvarta verið notað um þennan líkamshluta. Ég sé ekki þörf á að breyta því til að þóknast fólki sem finnst íslenskan ekki nógu tvítanleg og töff.

Efnisorð: , ,