miðvikudagur, apríl 08, 2015

Ömurlegt drasl!

Rektorskjör í Háskóla Íslands stendur fyrir dyrum. Óvenju margar fréttir af rektorsframbjóðendum og hugðarefnum þeirra hafa birst en líklega er það vegna þess nýmælis að einn frambjóðenda er ekki úr akademísku starfsliði skólans. Nú vill svo til að ég hef fylgst með skrifum þessa frambjóðanda í mörg ár og get engan veginn mælt með honum í starf rektors Háskóla Íslands. Það má vel vera að hann yrði stórkostlegur rektor einhvers annars skóla, en hann á ekkert erindi í þetta starf í þessum skóla.

Ekki ætla ég að leggjast í miklar rannsóknir á sálarlífi, ferli eða persónugöllum Einar Steingrímssonar, en vil þó koma á framfæri nokkrum atriðum sem nemendur og starfsfólk HÍ ættu að hafa í huga ef þeir íhuga að kjósa Einar.

Ég tel mig ekki þurfa að hafa um það mörg orð sjálf, best er að vitna beint í manninn sjálfan. Fyrir þau sem ekki þekkja til er þó líklega best að taka fram að Einar hefur horn í síðu feminista og feminískra fræða (og er það vægt til orða tekið, raunar er hann haldinn stæku feministahatri) sem birtist með ýmsum hætti. Væri hægt að skrifa langan pistil um það en vegna rektorskjörsins verður þó einblínt á ummæli sem hann hefur látið falla um háskólann, háskólagreinar og akademíska starfsmenn skólans.

Ég er ekki ein um að hafa áhyggjur af viðhorfi Einars til feminsta og feminískra fræða því Jafnréttisnefnd Háskóla Íslands sendi honum fyrirspurn um viðhorf hans til jafnréttis. Hann virðist hafa tekið fyrirspurninni sem áskorun og snýr útúr spurningunum sem mest hann má. Þannig tekst honum alveg að hunsa undirliggjandi spurninguna (sem hefði vissulega mátt svara beint): hver eru viðhorf þín til kynjafræðikennslu í Háskóla Íslands? Útúrsnúningssvör hans má lesa hér.

Einar hefur nefnilega ekki farið dult með andúð sína á kynjafræði. Þetta hefur hann t.a.m. að segja í bloggpistli:
„Ég fjallaði svolítið um umrædda „rannsókn“ í áðurnefndum pistli en mun gera það nánar síðar, enda virðist hún lýsandi dæmi fyrir þá afstöðu til raunveruleikans sem einkennir hina svokölluðu kynjafræði við Háskóla Íslands.“
Og á öðrum vettvangi:
„Þetta eru sams konar rök og þegar maður gagnrýnir þvæluna í "kynjafræðingum": Æ Þú skilur ekki hvað þú ert mikil karlremba af því að þú hefur aldrei lært kynjafræði.““
Það getur varla verið heppilegt að rektorsefnið hafi svo lítið álit á fræðigrein sem kennd er innan skólans sem hann vill stýra.

Fyrir nokkrum árum skrifaði Einar einnig um tilgangsleysi kennslugreinar sem kennd er á menntavísindasviði háskólans.
„Ég held að það sé óþarfi, og því rangt, að krefjast þriggja ára bóklegs háskólanáms, hvað þá fimm, af leikskólakennurum. Ég held líka að rangt sé að líta á leikskóla sem undirbúning fyrir grunnskólanám. Fólk sem vinnur á leikskólum þarf að geta haft ofan af fyrir börnunum, þ.á.m. með áhugaverðum leikjum og föndri og jafnvel stundum einhverju sem gæti líkst því sem gert er í fyrsta bekk grunnskóla, en til þess þarf enga sérstaka menntun, a.m.k. ekki umfram grunnskólamenntun. Umfram allt þarf þetta fólk að geta látið börnunum líða vel og séð til þess að þeim leiðist ekki mikið. Hins vegar ætti að greiða leikskólakennurum hærri laun, hafi ég skilið rétt hver laun þeirra eru.“
Fleiri en ég hafa greinilega verið að gúggla viðhorfum Einars í tilefni rektorskjörsins og fundið facebook þráðinn þar sem umræðan um leikskólakennaranámið fór fram, og hefur umræðan tekið kipp nú í mánuðinum, og þá segir frambjóðandinn Einar þetta:
„Ég man ekki í hvaða samhengi ég lét þessi orð falla, en ímynda mér að það hafi verið einhvers staðar þar sem ég vildi gjarnan fá opinskáa umræðu um hlutverk leikskóla, enda finnst mér sjálfsagt að ræða þetta eins og allt annað í samfélaginu hispurslaust og án þess t.d. að gefa sér fyrirfram að tiltekin störf séu merkilegri en önnur.“
Og
„Svo er líka rétt, þar sem þessi þráður varð til fyrir tveimur og hálfu ári, að undirstrika það sem ég hef hamrað á þegar ég er spurður um hinar og þessar greinar innan háskólans, og hvernig ég myndi taka á þeim sem rektor, að ég tel ekki að rektor eigi að taka ákvarðanir um einstakar greinar innan skólans og hvernig þær eru stundaðar. Þar er leikskólafræði og menntun leikskólakennara engin undantekning; ákvarðanir um akademískt starf innan skólans á að öllu jöfnu að taka í því jafningjasamfélagi sem það tilheyrir, yfirleitt innan viðkomandi sviðs eða deildar.“
Og svo bakkar hann rosalega hér (enda í framboði):
„Ég dreg hér með tilbaka það sem ég sagði um að það þyrfti enga menntun umfram grunnskóla til að vera leikskólakennari. Það var of langt gengið.“
Og
„Eins og þú hefur tekið eftir tel ég ekki að leikskólakennarar þurfi ekkert nám, enda var þessi status ekki skrifaður (fyrir tveim og hálfu ári) sem stefnuyfirlýsing byggð á ítarlegri undirbúningsvinnu, heldur einmitt sem ögrandi status á Facebook, í þeim tilgangi að fá fram umræður, sem virðist vera að takast afar vel.“
Það er alltaf góð málsvörn að segjast bara hafa ætlað að ögra. Meinti ekkert með þessu krakkar mínir, var bara að stríða ykkur. Ætliði ekki örugglega að kjósa mig?

Þegar Einar tilkynnti framboð sitt fékk hann svohljóðandi stuðningsyfirlýsingu í athugasemdakerfi bloggsíðu sinnar.
„Ég styð Einar eindregið. Háskólinn er í tómu tjóni og núverandi rektor hefur orðið ber að dómgreindarleysi og tómum þvættingi.Furðulegt er að háskóli sem kveðst taka sig alvarlega haldi uppi námsbrautum á borð við „kynjafræði“. Þarna þarf að hreinsa út og Einar er rétti maðurinn til þess.“
Einar sagði reyndar, í fyrrgreindum facebook umræðum, til að taka af öll tvímæli um viðhorf sín til leikskólakennaranámsins (og þá kannski kynjafræðinnar líka eða annarra óæskilegra námsgreina) að
„sem rektor myndi ég einmitt ekki láta eigin persónulegu skoðanir ráða för varðandi starf sérfræðinga innan háskólans.“
Kannski heldur Einar að þessi yfirlýsing sé nóg. En varla er nemendum og kennurum sama um að rektorsefnið fyrirlíti heilu námsgreinarnar. Eða ætlar Einar kannski bara að vera rektor yfir raunvísindadeildinni?

Hér má sjá álit hans á tilvonandi undirmönnum sínum og skólanum sem hann hyggst stýra.
„Ég veit sannarlega að þú tilheyrir ekki þeim hópi, en ég skil auðvitað að þeir herskarar af kennurum við HÍ sem eru algert undirmálsfólk í fræðum sínum á alþjóðavettvangi séu dauðhræddir við að utanaðkomandi fái að sjá hvað þeir eru að gera.
[…]
Hins vegar skil ég svo sem ekki af hverju mér finnst þetta svona átakanlegt (nema það sé vegna þess að ég veit að þú tilheyrir þeim allt of fáu í HÍ sem eru alvöru háskólafólk en ekki feikandi undirmálslið). Ég ætti auðvitað að vera löngu búinn að sætta mig við að (forysta) HÍ er í menntamálum nákvæmlega eins og bankarnir fyrir hrun: Allt snýst um að falsa bókhaldið og auglýsingabæklingana nógu vandlega til að hægt sé að telja þeim sem enga innsýn hafa í alþjóðlegt háskólastarf trú um að HÍ sé annað og meira en ömurlegt drasl.“

Vonandi fær framboð Einars Steingrímssonar engar undirtektir. Maður sem hatast opinberlega við sumar námsleiðir skólans og hrakyrðir rannsóknaraðferðir heilu fræðigreinanna — og segir þetta allt vera ömurlegt drasl — er vægast sagt óheppilegur í stól rektors.

Efnisorð: ,