fimmtudagur, apríl 16, 2015

Hversdagslegt misrétti

Hversdagslegt misrétti er átak sem hófst á málþingi kynjafræðinema í framhaldsskólum. Átakið felst í að tvíta (þ.e. skrifa og birta á samfélagsmiðlinum Twitter) lýsingu á hversdagslegu misrétti sem manneskjan sem tvítar hefur orðið fyrir eða orðið vitni að. Með því að merkja það svona:#6dagsleikinn, tengjast frásagnirnar saman og úr verður margradda kór.

Vert er að benda á að fólk sem ekki er skráð á Twitter getur fylgst með öllu því sem fram fer hér. Einnig á t.d. þessari síðu Vísis.

María Lilja Þrastardóttir sem er einskonar ljósmóðir átaksins segir að það minni á EverydaySexism, sem var átak sem hófst árið 2012 gegn áreiti og misrétti sem konur verða fyrir en stendur enn. Þegar ég skrifaði um EverydaySexism skoðaði ég bara vefsíðuna en það er líka á Twitter og samkvæmt því sem þar stendur bárust 40.000 tvít bara í dag.

Íslenskumælandi tvítarar slá það met seint, en af þeim frásögnum sem hrúgast inná Hversdagslegt misrétti er áreitið og misréttið hér á landi alveg á pari við það sem gerist erlendis, sé miðað við höfðatölu auðvitað. Af þeim lýsingum sem þar má lesa koma konur jafnt sem karlar með óviðeigandi eða hallærislega gamaldags athugasemdir og smána þannig manneskjuna sem fyrir því verður, hvort sem það er stelpa, kona, strákur eða karl. Fjölmörg dæmi eru um það á síðunni, skrifuð af báðum (eða fleiri) kynjum. Ógeðfelldustu athugasemdirnar og kynferðislega áreitið er þó áberandi í eina áttina: karlar á öllum aldri eru þar gerendur, kvenfólk á öllum aldri þolendur.

Það sem vakti mesta athygli mína þegar ég las fréttir um átakið, og fylgdist með því vinda fram, er að það er afar lítil mótstaða eða gagnrýni komin fram. Örfáir ungir karlmenn tuða eitthvað en eru ekki dónalegir eða með hótanir. Öðru vísi mér áður brá, hugsaði ég, minnug sturlunarinnar sem greip um sig þegar myndaalbúmið Karlar sem hata konur sýndi framá hugsunargang karlmanna, þennan sama hugsunarhátt og er uppspretta þess misréttis og áreitni sem konur á öllum aldri verða fyrir. Úlfúðin sem Karlar sem hata konur vakti hefur síðan oft verið endurtekin þegar gerður er aðsúgur að konum sem segja frá nauðgunum eða ofbeldi sem þær urðu fyrir af hálfu karlmanns. En bara ef þær nafngreindu nauðgarann og ofbeldismanninn, annars fengu þær undantekningalítið samúð og skilning.

Og þar í liggur munurinn og ástæða þess að Hversdagslegt misrétti hefur ekki fengið yfir sig holskeflu af ógeði og hótunum: sögurnar eru af nafnlausum karlmönnum. Meðan eingöngu er sagt að gerandinn í sögunni sé „maður, strákur, yfirmaður minn, eldri maður í ræktinni“ nýtur átakið ef til nokkurs skilnings, jafnvel má álíta að einhverjir (karlmenn) verði miklum mun fróðari hvernig hlutskipti það er að verða fyrir áreitni og misrétti eins og sögurnar sýna. En það er bara meðan þær eru ekki að „eyðileggja líf“ karlmanna, meðan enginn karlmaður sem hefur hikstalaust látið útlitstengdar eða kynferðislegar athugasemdir vaða, er afhjúpaður sem karlpungurinn sem hann er. Þá er hætt við að átakið velgi karlveldinu undir uggum. Við vitum núorðið hvernig það bregst við.

Efnisorð: