þriðjudagur, apríl 28, 2015

Að kæra eða halda skoðanafasismapartí, þar er efinn

Samtökin ’78 ákváðu að sitja ekki þegjandi undir hatursáróðrinum frá skoðanabræðrum Gylfa Ægissonar og hafa því kært tíu stykki hómófóbíska fábjána fyrir hatursáróður.

Forsagan er sú að Hafnarfjarðarbær hyggst láta gera námefni til að efla hinseginfræðslu í grunnskólum. Gylfi Ægisson ærðist, verandi helsti talsmaður hommahatara landsins, og í kjölfarið hófst mikil orrahríð á samfélagsmiðlum og í athugasemdum vefmiðla. Pétur Gunnlaugsson á Útvarpi Sögu ræddi við hlustendur sem spöruðu ekki illa ígrunduð gífuryrði og bætti Pétur heldur í fordómasúpuna en hitt. Samtökin ‘78 höfðu líklega úr nógu að moða þegar ákveðið var að kæra. Sú ákvörðun hefur svo aftur vakið upp umræðu um hvort rétt sé að svara hatursáróðri með kæru.

Jónas Kristjánsson talar tildæmis um upphaf endaloka tjáningarfrelsis á Vesturlöndum og segir að „Þöggunarkrafa Samtakanna 78 er skoðanafasismi.“ Minna má það ekki vera.

Pistlahöfundi á Fréttablaðinu, Kjartani Atla Kjartanssyni blaðamanni, finnst kæran afturámóti vera tímaeyðsla og að hinsegin fólk eigi að eyða tíma sínum í eitthvað viturlegra en kæra hatursáróður. Hann er með einfaldari lausn:
„Ég myndi halda að svarið við öllum þessum fordómum sé bara að halda gleðigöngu; að halda partí.“
Sjálfur er Kjartan ekki í þeim sporum að vera atyrtur opinberlega fyrir kynhneigð sína, og honum gerðar upp glæpsamlegar hvatir, og veit því ekkert hvað hann er að tala um. Samt lítur hann svo á að hann sem hvítur gagnkynhneigður karlmaður — og þar með hluta hóps sem nýtur mestra forréttinda í heimi hér — viti betur en þeir sem verða fyrir hatursáróðrinum hvernig eigi að bregðast við.
„Mér er persónulega svo nákvæmlega sama hvað einhverjum gömlum manni finnst um hinsegin fólk og alla þá sem eru öðruvísi en hann. Og mér er svo nákvæmlega sama hvað einhverju fólki sem hringir inn á Útvarp Sögu finnst.“
Auðvitað er honum sama. Hann ber ekki einu sinni fyrir sig tjáningarfrelsi heldur finnst þetta bara píp. Hann virðist enda alls ófær um að setja sig í spor annarra.

Kjartan Atli var reyndar ekki búinn að opinbera skilningsleysi sitt þegar séra Baldur Kristjánsson skrifaði ágætan pistil sem svarar þeim sem gagnrýna Samtökin '78 fyrir kæruna.
„Gáfumennirnir og ritsnillingarnir Egill Helgason og Karl Th. Birgisson fara mikinn (og Jónas Kristjánsson) og hneykslast á samtökunum 78 fyrir að ætla sér að kæra hatursáróður í garð samkynhneigðra. Minni spámenn vitna óspart ólesnir í Voltaire og myndu þó aldrei láta lífið fyrir Gylfa Ægisson. Þetta sýnir að við höfum flutt inn fleira en bílamenningu og hamborgara frá Bandaríkjunum, einnig það viðhorf að tjáningarfrelsi sé og eigi að vera óskert, hver og einn megi segja og gera það sem honum lystir og eigi jafnvel að níðast á sem flestum í orði og borði til þess að ekki dragi úr þessum heilaga rétti. Ekki hefur þó spurst til manna mígandi utan í íslenska þjóðfánann í nafni tjáningarfrelsis.

Evrópumenn hafa farið aðra áhersluleið í tjáningarfrelsi og eiga þó Voltaire. Meiddir af ofsóknum tveggja styrjalda hafa þeir í viðleitni sinni til að byggja góð samfélög sett þær lagalegu skorður gegn óheftu tjáningarfrelsi að ekki megi valda hópum manna hugarangri og vanlíðan vegna þátta sem eru mönnum eiginlegir svo sem þjóðerni, litarhætti eða kynhvöt. Gjarnan er miðað við að bannað sé, að viðlagðri refsingu, að veitast með hrokafullum óhróðri að hópum manna ekki síst þar sem talið er að slíkt geti leitt til ofbeldis, meiðinga, eignarspjalla já og dauða einstaklinga úr minnihlutahópum. Þetta er hin hliðin á tjáningarfrelsinu, ef svo má segja, því eru settar skorður til að vernda hópa sem eiga undir högg að sækja. Það er óheft, en menn verða að vera ábyrgir orða sinna þegar þeir reyna að bera menn út vegna þátta sem mönnum eru eðlislægir.“
Mér finnst hvorki kæra Samtakanna ‘78 vera skoðanafasismi, tímasóun, né tilefni til að halda partí. En ég er hjartanlega sammála Baldri í þessu máli, og ekki síst þessum orðum hans:
„Það verð ég að segja að talsvert meiri reisn er yfir evrópskum viðhorfum að tjáningarfrelsi en bandarískum. Í Evrópu er hugað að velferð fólks og þess gætt að ekki sé hægt að ráðast að því með hroka og yfirgangi þess sem finnur meirihlutann að baki sér.“

Efnisorð: , , ,