sunnudagur, apríl 26, 2015

Spillingin kemur ekki á óvart og heldur ekki fyrirlitningin á baráttuaðferðum verkalýðsins

Það á auðvitað ekki að koma á óvart að Sjálfstæðismenn og Framsóknarmenn séu spilltir, snúi lögum og reglum sér í hag, sniðgangi sannleikann, og hugsi um eingöngu um eigin hag og fólks af sínu sauðahúsi. En þar sem fréttir eru uppfullar af framlögðum dæmum um hegðun og viðhorf þingmanna og ráðherra Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks er mér ljúf skylda að leggja orð í belg, mest þó sjálfri mér til skemmtunar enda horfell ég ekki á fjósbitanum á meðan.

Fyrstan skal telja fram Framsóknarþingmanninn í atvinnuveganefnd sem hefur með höndum það hlutverk að úthluta makrílkvóta. Konan hans á bát sem fær kvóta að verðmæti fimmtíu milljóna króna, en Páli Jóhanni Pálssyni finnst það ekki gera sig vanhæfan til að fjalla eða kjósa um málið í nefndinni. Það er auðvitað alltaf svoldið fyndið þegar látið er sem það komi ekki öðrum aðilanum við hvað hinn aðilinn sýslar í hjónabandinu, einsog það hafi engin áhrif á lífsafkomu beggja. (Auðvitað er ekki sanngjarnt að annað hjónanna sé gert ábyrgt fyrir skuldum sem hitt stofnaði til, og ég veit að til eru hjónabönd þar sem veit fólk hefur algerlega aðskilinn fjárhag, en ég held að það megi reikna með að ef annað hjónanna fær réttar tugi milljóna sé það hagur beggja). En Framsóknarþingmaðurinn reyndist svo hafa átt bátinn alveg sjálfur þar til konan hans tók við þessari verðmætu eign - sem óvart þurfti þá ekki nauðsynlega að gera grein fyrir opinberlega. Þannig að auðvitað var þetta sameiginleg eign hjónanna sem Framsóknarþingmaðurinn var að sjá til þess að yki á auð þeirra.

Næstan má telja fram Bjarna Ben sjálfan. Hann er formaður Sjálfstæðisflokksins sem lengi notaði slagorðið stétt með stétt. Það á ekki við um verkfallsstétt. Nei, Bjarna finnst fólk í verkfalli sleppa vel (en eins og allir vita þá þyngir það mjög pyngjuna að vera í verkfalli; og ekki hefur þessi sjúkrahússskríll samvisku yfir að stinga af úr vinnunni) en hingað til hafi verkföll átt að bitna jafnt á báðum viðsemjendum, þeir hafi þjáðst jafnt í verkfalli. Í fjölskyldu Bjarna eru eflaust til margar sögur um hvað verkföllin hafi lagst þungt á ættmenn hans. Það hlýtur einhver söguglöggur endurskoðunarsinni innan flokksins að geta tekið að sér að skrifa um þetta bók, ég sting upp á titlinum Harmsaga Engeyinga: Það sem verkalýðurinn lét okkur þjást.

Ekki má gleyma að Sjálfstæðisþingmaðurinn Pétur Blöndal, sem frægastur er fyrir að hafa áhyggjur af fé án hirðis, er þeirrar skoðunar að þeir sem fara í verkfall séu gerðir bótaskyldir gagnvart þeim sem verkfallið bitnar á. En auðvitað er enginn bótaskyldur sem borgar svo léleg laun að starfsfólkið sér enga leið aðra en verkföll til að bæta kjör sín. Nei, vinnuveitendur eru alltaf í rétti að mati Péturs. Sannur sinni sannfæringu og löngu búinn að gleyma því hvernig fór fyrir SPRON. Hver var bótaskyldur þar?

Síðastan skal telja fram Sjálfstæðismanninn Illuga Gunnarsson menningar- og menntamálaráðherra (má ekki stytta þennan titil eins og framhaldsskólanámið?). Líklega eru ekki öll kurl komin til grafar um húsnæðis- og fjármál hans, en samkvæmt fréttum var Illugi nærri búinn að missa íbúð sína vegna skulda en fyrrverandi yfirmaður hans (stjórnarformaður Orku Energy, fyrirtækis sem Illugi hefur verið ásakaður um að hampa umfram embættisskyldur sínar) keypti þá íbúðina og leigði Illuga aftur. Svo virðist sem Illugi búi því enn á sama stað, alveg eins og ekkert hafi í skorist, og allt gerðist þetta eftir að hann varð ráðherra. Það er auðvitað heppilegt að þurfa ekki að flytja, en það er síður heppilegt fyrir skattgreiðendur að Illugi noti vinnutímann til að endurgjalda vini sínum greiðann. Rétt eins og Páll Jóhann Pálsson reynir að láta sem hann eigi ekki bát og sé ekki vanhæfur, lætur Illugi eins og hann hafi ekki þurft að gera grein fyrir hagsmunatengslum sínum ið Orku Energy.

En þetta er allt á sömu bókina lært og þetta kusu kjósendur yfir sig, vitandi fyrir hvað Framsóknarflokkurinn og Sjálfstæðisflokkurinn standa.

Efnisorð: , ,