föstudagur, maí 01, 2015

Á alþjóðlegum baráttudegi verkafólks

Þorvaldur Gylfason skrifaði hreint ágæta grein í gær um hækkun lámarkslauna sem vert er að lesa. Hann ræðir þar stöðuna á vinnumarkaði og bendir á hverjir beri ábyrgð á henni.
„Aukin misskipting sem kristallast í skefjalausri sjálftöku hefur ásamt öðru hleypt illu blóði í kjaraviðræður. Hátekjumenn hafa ítrekað storkað launþegum með lágar tekjur. Nýtt dæmi er þriðjungshækkun stjórnarlauna í HB Granda, sem þiggur enn sem fyrr svo að segja ókeypis aðgang að sameignarauðlindinni í sjónum.

“
Hann nefnir fleiri dæmi, svo sem bónusa í bönkum, og að það hafi verið eitt fyrsta verk núverandi ríkisstjórnar að afturkalla hækkun veiðigjalda,
„eins og til að auglýsa að nógir séu helvítis peningarnir eins og Fjölnismenn sögðu stundum hver við annan“.

Þorvaldur segir að fyrir launþegum vaki að halda hlut sínum gagnvart hátekjuhópum 
og að nú sé „almennari áhugi en áður á að efla hag þeirra sem bera minnst úr býtum“.

Það er alveg rétt hjá Þorvaldi því ný könnun sýnir að 91,6 prósent aðspurðra eru hlynntir kröfum um að hækka lágmarkslaun á íslenskum vinnumarkaði í 300 þúsund krónur á mánuði innan þriggja ára. Drífa Snædal framkvæmdastjóri Starfsgreinasambandsins segir að þessar niðurstöður staðfesti þann meðbyr sem málstaður SGS hafi í samfélaginu.
„Það er kominn tími til þess að lágmarkslaun dugi fyrir framfærslu og almenningur tekur undir með okkur í þeirri sjálfsögðu kröfu. Það er ánægjulegt að fá staðfestingu á því að við séum á réttri leið og svona afgerandi stuðningur gefur okkur byr undir báða vængi í þeim átökum sem framundan eru. Samtök atvinnulífsins verða að hlýða á kröfur okkar og samfélagsins alls. Það er í þeirra valdi að afstýra erfiðum og langdregnum átökum.“
Allsherjar vinnustöðvun var hjá félagsmönnum Starfsgreinasambandsins í gær (hálfan daginn) en ef svo fer fram sem horfir verður tveggja daga allsherjarverkfall í næstu viku, hafi ekki eitthvað verulega mikið breyst. Verkfallið mun ná til um tíu þúsund starfsmanna. Sá fjöldi bætist ofan á verkfall Bandalags háskólamanna en Félag geislafræðinga, Félag lífeindafræðinga, Ljósmæðrafélag Íslands á Landspítala, Stéttarfélag lögfræðinga hjá Sýslumanninum á höfuðborgarsvæðinu, Félag íslenskra náttúrufræðinga á Landspítala og Ljósmæðrafélag Íslands á Sjúkrahúsinu á Akureyri, eru enn í verkfalli.

Með þennan stuðning almennings að baki kröfu verkalýðsfélaganna um lágmarkslaun, og einbeittan ásetning félagsmanna að leggja niður störf þar til ásættanlegir samningar nást, ættu Samtök atvinnulífsins að sjá skynsemina í því að semja fyrr en seinna. Því eins og bankabónusahugmyndir, stjórnarlaun og arðgreiðslur hafa sannað: Nógir eru helvítis peningarnir.

Efnisorð: ,