þriðjudagur, maí 12, 2015

JVJ

Þegar ég hrúgaði inn fóstureyðingapistlum mínum varð mér meira en lítið hugsað til Jóns Vals Jenssonar þegar ég setti inn þá sem sneru að helstu andstæðingum fóstureyðinga: karlmönnum og kaþólikkum. Ákvað í kjölfarið að kíkja á bloggið hans (hann er reyndar með tvö blogg undir eigin nafni og svo a.m.k. eitt beinlínis gegn fóstureyðingum auk þess að vera þátttakandi á bloggi um „kristinn þjóðarflokk“* og kaþólska vefritinu kirkja.net) og lét af því verða í gær.

Fyrsti pistillinn (sá nýjasti þann daginn) var um innsetningu svissneska listamannsins Christoph Büchel á Feneyjatvíæringnum, en hann hefur sett upp mosku í aflóga kirkju, feneyskum yfirvöldum til talverðrar armæðu og kaþólikkanum Jóni Vali til gríðarlegrar hneykslunar. Jón Valur fer mikinn og hefur skrifað þrjá pistla til höfuðs moskunni í Feneyjum, auðvitað aðallega vegna þess að verkið er framlag Íslands til Feneyjatvíæringsins en ekki síst vegna gríðarlegrar óbeitar á íslam og múslimum. Hann segir m.a.
„Ríkisvaldinu ber skv. stjórnarskránni að styðja og vernda Þjóðkirkjuna, en ekki islamstrú. Hvernig í ósköpunum tókst Illuga Gunnarssyni að snúa þessu við með því að leggja því lið sitt með okkar tugum milljóna króna að fjármagna uppsetningu þessarar mosku í miðaldakirkju? Og áttaði hann sig ekki á því, að þetta er fjarri því að verða fellt undir skilgreiningu listar-atburðar og listsýningar þegar ekkert nema staðsetningin skilur þetta fyrirbæri frá öðrum moskum heimsins og starfsháttum þeirra? Og það er ekki að undra, að Sverrir Agnarssonfagnar þessu fyrirbæri sem hann telur að "leiði til líflegrar starfsemi múslima um heim allan" -- ekki til útbreiðslu listar, heldur Múhameðstrúar!“
Og:
„Þetta er í raun mál, sem ríkisstjórn Íslands ætti að sjá sóma sinn í að afturkalla -- yfir tuttugu milljóna (28 milljóna eða meira?) framlag íslenzka ríkisins í þessa ögrun við Feneyinga! … Já, glæfralegt mál er þetta af hálfu okkar fávísu bjartsýnisglópa. Þeir auka ekki réttlætið í heiminum eða álit á hyggindum Íslendinga með þessari þarflausu ögrun, þessu hneyksli.“
Hann hefur einnig skrifað álíka á hitt bloggið.

Jón Valur er reyndar ekki einn um að hatast útí moskuframlag Íslands suður þar því þeir eru fleiri karlmennirnir sem eru skoðanabræður Jóns Vals í þessu máli, eins og hann telur upp hér:
„Ágætir Moggabloggarar, m.a. Valdimar H Jóhannesson, Jón Magnússon hrl., dr. Vilhjálmur Örn Vilhjálmsson fornleifafræðingur, Ágúst H. Bjarnason verkfræðingur, Ívar Pálsson viðskiptafr., Halldór Egill Guðnason og Gunnar Th. Gunnarsson, hafa gagnrýnt þetta mál …“
Það eru ekki allir sem myndu vilja vera í þessum félagsskap.

Ég mæli sterklega með því að fólk lesi a.m.k. innlegg Jóns Magnúsonar fyrrverandi þingmanns Sjálfstæðisflokksins í málið þar sem hann fer mikinn. Ruglið alveg yfirgengilegt. Og ekki eru allir þeir sem skrifa athugasemdir við hans pistil eða Jóns Vals neitt skárri. En þetta segir Jón Magnússon:
„Listamaðurinn hefur m.a, í listsköpun lýst aðdáun á sjálfsmorðsfluginu á tvíburaturnana í New York 11. september. Það var því að vonum að íslenska listaelítan sem sér um Feneyjatvíæringinn skuli hafa valið hann til að koma íslömskum áróðri á framfæri í Feneyjum á kostnað íslenskra skattgreiðenda á forsendum listar.“
Ómar Ragnarsson (sem ég tel að sé ekki á sama máli og ofangreindir karlar) spyr Jón Magnússon út í þetta í athugasemdakerfinu, og Jón svarar:
„Ómar hann gerði það í gjörningi í London árið 2007 það koma fram upplýsingar um það á fésbókarsíðunni minni. En þar stóð hann að gjörningi sem að fregnum að dæma fól í sér aðdáun á sjálfsmorðsárásinni en auk þess dreifði þessi snillingur riti Adolfs Hitlers "Mein Kamp" í arabískri þýðingu. Greinilega reginsnillingur. Eðlilegt að listaelítan fyndi engan innlendan málara sem stæði honum á sporði.“
Þetta lepur Jón Valur svo upp eftir honum:
„Listamaðurinn svissneski er nú ekki betur innréttaður en svo, að hann er í hópi örfárra utan alræmdra öfgahreyfinga, sem hafa lýst aðdáun sinni á stærsta einstaka höfuðglæp þessarar aldar, árásinni á Tvíburaturnana 11. september 2001.·“
Í athugasemdum við þessa fullyrðingu Jóns Vals varpar Ómar Bjarki Kristjánsson ljósi á innsetninguna (ekki gjörninginn) Simply Botiful sem Jónarnir túlka svona sérkennilega. Úr lýsingu ÓBK:
„… í mjög, mjög stuttu máli, þá byrjar sýningin að komið er inní rými stútfullu af rafmagnstækjum og dóti og úr þessu herbergi eru ýmsar dyr, m.a. leynileg op sem ekki er gott að finna í fyrstu, og eitt af þeim er niður í rými sem ákveðin teppi eru á gólfi með myndum með tilvísunum í 9/11 og útfrá þessu er hægt að finna annað rými, - sem leiðir inní algjört myrkur. Eg vel er leitað í myrkrinu, að sumra sögn, er þar hægt að finna lítill klefa þar sem Biblían liggur á stól, ef itið var hærra uppá vegginn mátti sjá þar myndir af fáklæddum konum. Og þetta var einn hluti. Hvað þetta nákvæmlega þýddi hjá Buchel er alltaf túlkunaratriði, en að túlka það sem aðdáun hans á 9/11 er náttúrulega bull í hæstarréttarlögmanninum.“
Ekki kemur fram hjá ÓBK hvort hann sá þessa sýningu í Lundúnum árið 2007, en hér má lesa krítik á hana á ensku í bresku tímariti um samtímalist. Sá sem skrifar er einn ritstjóra tímaritsins og hann virðist hvorki líta svo á að listamaðurinn hafi verið að styðja málstað þeirra sem aðhyllast nasisma eða hryðjuverk í nafni íslam. En kannski hefur hann bara ekki skilið þetta eins vel og Jónarnir víðsýnu.

Þegar ég var búin að hlægja eins og hross í haga að þvælunni í Jóni Vali um samtímalist fann ég loks fóstureyðingapistla sem hann hefur nýlega skrifað í tilefni af ályktun KRFÍ um frjálsar fóstureyðingar.
„Greinilega eru femínistar eða rauðsokkur búnar að taka yfir Kvenréttindafélag Íslands sem í dag knýr á um að gera fóstur­deyðingar á Íslandi enn "frjálsari". “
og
„En ekki vill sjálft Kvenréttindafélag Íslands bæta réttarstöðu kynsystra sinna í móðurkviði, heldur býr félagið nú við stjórn yfirtökuhóps á vegum öfgafemínista sem krefjast þess, að fóstureyðingar verði gerðar frjálsar að ósk móður! “

Fyrir þau sem ekki hafa enn áttað sig á hve galinn Jón Valur er og hversu á skjön hann er við allt það sem venjulegu fólki þykir eðlilegt þá segir hann þetta um undirskriftasöfnunina gegn makrílfrumvarpinu:
„Hvaða áhrif hefur það á sam­keppn­is­stöðu íslenzks fiskútflutnings, að áður en fiskurinn er settur á markað, hafi verið klipinn stór hluti af verðmæti hans og settur í ríkissjóð… Mundi þá að því reka, að íslenzkar útgerðir yrðu ekki lengur samkeppnishæfar vegna lýðskrumandi græðgi landkrabba hér í meintan ofurgróða útgerðanna? “

Lýðskrumandi græðgi landkrabba! Það er engu logið á Jón Val Jensson. Hann sér alveg sjálfur um að gera sig hlægilegan.

___
* Þegar lesin er síða „Kristinna stjórnmálasamtaka“ má sjá stæka andúð á félagshyggjuflokkum, múslimum, hjónaböndum samkynhneigðra og samkynhneigð yfirleitt, auk auðvitað andstöðu við fóstureyðingar. Þá er ítrekað lýst yfir stuðningi við Snorra í Betel, sem er félagsmaður í Kristnum stjórnmálasamtökum „eins og fleiri meðlimir Hvítasunnukirkjunnar á Íslandi“. Á bloggum Jóns Vals er sömu afstöðu til þessara manna og málefna að finna.

Efnisorð: , , , ,