laugardagur, maí 16, 2015

Pantigate og þjóðaratkvæðagreiðslan

Írar ganga til þjóðaratkvæðagreiðslu 22. maí næstkomandi. Um tvennt verður kosið, annarsvegar um að lækka aldurstakmörk til forsetaframboðs úr 35 í 21 ár, og hinsvegar um hvort samkynhneigðir fái að ganga í hjónaband.

Samkynja pörum á Írlandi hefur verið heimilt að staðfesta samvist sína á borgaralegan hátt frá árinu 2010. En rétt eins og hér á landi er það álitið jafnréttismál að samkynja pör geti gengið í hjónaband, og í nóvember 2013 ákvað írska þingið að efna til þjóðaratkvæðagreiðslu um málið.

Pantigate
Í fyrra gekk á netinu upptaka úr írsku leikhúsi þar sem dragdrottningin Panti Bliss steig á svið að lokinni leiksýningu og hélt ræðu. Umfjöllunarefnið var hómófbóbía, og ræðan var bæði átakanleg og hnyttin. Hér má sjá Noble Call ræðuna hafirðu ekki séð hana fyrr eða vilt sjá hana aftur (og aftur). Ég vissi það ekki fyrr en nýlega að ræðan var flutt sem innlegg í miklar umræður sem hófust eftir sjónvarpsþátt og eftirleik hans, hefur þetta fár verið kallað einu nafni Pantigate en sagan sú hófst í janúar og stóð fram í apríl á síðasta ári.

Þetta byrjaði allt með því að 11. janúar 2014 var Rory O'Neill (sem er einnig þekktur sem dragdrottningin Panti Bliss) gestur í laugardagsþættinum (e. Saturday Night Show) á ríkissjónvarpsstöðinni RTÉ sem stjórnað er af Brendan O'Connor. Þegar Rory O'Neill segir frá reynslu sinni af því að vera samkynhneigður á Írlandi spyr Brendan hann hvort hann geti nefnt dæmi um fólk sem hafi viðhorf andstætt samkynhneigðum. Rory nafngreinir kaþólsku dálkahöfundana Breda O'Brien og John Waters auk Iona stofnunarinnar (sem virðist ekki hafa aðra starfsemi en halda á lofti íhaldssömum kaþólskum viðhorfum).

Tekið skal fram að megnið af því sem hér fer á eftir kemur af vefsíðu um Pantigate sem Chrissy Curtin skrifaði og myndskreytti. Atburðir eru raktir í tímaröð og gera lesendur margt vitlausara en sökkva sér niður í síðuna og skoða myndböndin og myndskreytingarnar. En fyrir þau sem ekki vilja hvika frá þessari bloggsíðu eða finnst þægilegra að fá styttri útgáfuna á því ástkæra ylhýra þá eru hér helstu atriði.


14. janúar
Eftir kvartanir frá félögum Iona stofnunarinnar og John Waters vegna ærumeiðinga í laugardagsþættinum fjarlægir RTÉ upptöku af sjónvarpsþættinum af vef sínum.
Í þessu sambandi skiptir máli að John Waters var einnig á þessum tíma meðlimur útvarpsréttarnefndar sem kölluð er BAI (e. Broadcasting Authority of Ireland).

15. janúar
Ritskoðuð útgáfa þáttarins birtist á vef RTÉ.

RTÉ skipar öðrum vefsíðum að fjarlægja öll myndbönd og útskrifuð handrit af viðtalinu.

Fréttabann er á fjölmiðla svo þaðan heyrist ekkert um málið, en stuðningur við Panti eykst á netinu og þar fer fram öll umræðan og gagnrýni á ritskoðun RTÉ.

Uppákoman í laugardagsþættinum fær nafnið Pantigate.

16. og 20. janúar Rory O’Neill fær hótanir um lögsókn frá John Waters og Iona félögum.

23. janúar
John Waters hættir hjá BAI, og er þar með frjáls að því að fara í mál við Rory O'Neill.

Ríkissjónvarpsstöðin RTÉ greiðir bætur til John Waters, Breda O'Brien og félaga í Iona stofnuninni en ekki er skýrt opinberlega frá upphæð bótanna.

25. janúar
Brendan O'Connor les opinbera afsökunarbeiðni í laugardagsþættinum fyrir hönd RTÉ.

30. janúar
Kvartanir hrúgast yfir RTÉ og BAI í kjölfar afsökunarbeiðninnar í laugardagsþættinum.

Averil Power öldungardeildaþingmaður fer fram á að Pat Rabbitte ráðherra samskiptamála ræði bótagreiðsluna og afsökunarbeiðnina.

Á sama fundi tekur Jim Walsh öldungardeildaþingmaður málstað Iona stofnunarinnar.

Í liði með Panti (e. Team Panti) barmmerki eru seld til stuðnings Pantigate.

1. febrúar
Skýrt er frá því að bótagreiðslan hafi verið alls 85.000 evra, eða um 12.5 milljónir íslenskra króna.

Panti Bliss flytur Noble Call ræðu sína í Abbey leikhúsinu í Dublin, í lok síðustu leiksýningarinnar á The Risen People eftir James Plunkett. Í ræðunni segir hún frá reynslu sinni af hómófóbíu á Írlandi og hvernig orðið hómófóbískur hefur verið þaggað niður í umræðum um LGBT málefni.

Á sama tíma er umræða um hómófóbíu, notkun orðsins hómófóbíu og hjónabönd samkynhneigðra í laugardagsþættinum.

Noble Call ræðan fer sem eldur um sinu og horft er á hana rúmlega 100.000 sinnum á YouTube á tæpum tveimur dögum.

2. febrúar
Mótmæli gegn hómófóbíu á vegum LGBT samtaka. fyrir utan Gaiety leikhúsið í Dublin. 2000 manns mæta til að sýna stuðing sinn. The Irish Times segir ranglega að stuðningsmennirnir hafi verið 750 að tölu. Þess má geta að Breda O'Brien og John Waters voru á þessum tíma bæði dálkahöfundar hjá blaðinu, en hann er síðan hættur.

Fréttir um að óánægju með bótagreiðslurnar sé eingöngu meðal lítils hóps á netinu verða til þess að Chris Tierney hönnuður og ljósmyndari gerir ljósmyndaseríuna Sendið skilaboð til RTÉ og Iona til að sýna fram á að þetta mál varði almenning.

4. febrúar
Stuðningur við ræðu Panti streymir inn: Graham Norton, Madonna, RuPaul, Dara O'Briain og Stephen Fry tvíta og senda tölvupóst.

6. febrúar
Umræða í neðri deild þingsins, þingmenn lýsa skoðunum sínum á bótagreiðslunum.

7. febrúar
Panti kemur fram í fréttum Channel 4 til að tala um Noble Call ræðu sína og hómófóbíu á Írlandi.

2. mars
Panti fær boð um að fara til New York til að taka þátt í skrúðgöngunni Dagur heilags Patriks fyrir alla.

9. mars
Pet Shop Boys gefa út lag sem er að uppistöðu Noble Call ræðan og heitir það The Best Gay Possible – Oppressive Dance Mix.

28. mars
John Waters hættir að skrifa fyrir Irish Times.

20. apríl
Rory O’Neill/Panti Bliss fær tilfnefningu til þriggja Stolt Írlands (e. Pride of Ireland) verðlauna: fyrir ævistarf, hugrekki og sérstaka viðurkenningu.

Öldurnar lægði nú eftir þetta einstaka mál sem hófst með því að Panti Bliss notaði orðið hómófóbía og ríkissjónvarpið ástundaði ritskoðun og greiddi móðguðum hatursmönnum samkynhneigðra skaðabætur.

En í desember 2014 var tilkynnt hver væri maður ársins – og það var Panti Bliss. Stephen Fry afhenti henni viðurkenninguna — sem var sjónvarpað á RTÉ.


Þjóðaratkvæðagreiðslan
Í febrúar á þessu ári var svo tilkynnt að þjóðaratkvæðagreiðslan um hvort samkynhneigðir fái að ganga í hjónaband færi fram 22. maí og eftir því sem nær dregur hafa fólk og stofnanir lýst yfir andstöðu eða stuðningi við tillöguna. Mjög líklegt er að niðurstaða þjóðaratkvæðagreiðslunnar verði samkynhneigðum í vil, það sýna skoðanakannanir, en víðtækur stuðningur er við málið í þjóðfélaginu enda þótt alltaf séu einhverjir sérvitringar og trúsöfnuðir á móti því að samkynhneigðir fái þessi réttindi á við aðra. (Eftirfarandi samantekt er í boði Wikipedia.)

Allir fjórir stóru stjórnmálaflokkarnir tala fyrir málinu, bæði þeir sem eru í stjórn og stjórnarandstöðu. Minni flokkarnir eru því einnig hlynntir.

Ráðstefna kaþólskra presta er á móti, og hefur dreift bæklingum til allra sókna. Meþódistakirkjan hefur lýst því yfir að hún styðji hefðbundið hjónaband karls og konu. Church of Ireland (sem er einhverskonar afleggjari frá ensku biskupakirkjunni) tekur ekki afstöðu en hvetur meðlimi sína til að kjósa samkvæmt eigin sannfæringu.

Tvennskonar samtök múslima og einn angi öldungakirkju fóru fram á „samviskufrelsi“ einstaklinga og fyrirtækja (sbr. samviskufrelsi íslenskra presta sem heimilar þeim að neita samkynja pörum um hjónavígslu á grundvelli eigin samvisku) sem þýðir í raun að það mætti neita samkynja pörum um ýmisskonar þjónustu og afgreiðslu. Sú tillaga hlaut ekki hljómgrunn.

Aftur á móti lýsti Islamic Centre því yfir að aldrei ætti að mismuna fólki og að viðhorf sumra múslima gagnvart samkynhneigðum væri ósamrýmanlegt mannúð og mildi Íslam, og hvatti múslima til að nota stjórnarskrárvarinn rétt sinn til að kjósa eftir eigin sannfæringu. Fyrrverandi erkidjákni biskupakirkjunnar talaði á svipuðum nótum og sagði að nú væri tækifæri til að sýna samkynhneigðum að þeir væru metnir að verðleikum.

Mæður og feður skipta máli, heitir hópur sem hefur barist gegn ættleiðingum og stjúpættleiðingum samkynhneigðra, og hrinti hann af stað herferð fyrir því að kjósa nei. Sama sinnis er Öldungardeildarkirkjan og Iona stofnunin. Nú í maí voru stofnuð samtök sem vilja verja (hefðbundið) hjónaband en stofnfundur var fámennur og sagði talsmaður samtakanna að það væri vegna þess að fólk sem vildi segja nei þyrði ekki að láta í sér heyra.

Allskyns góðgerðarstofnanir í þágu barna hvetja fólk hinsvegar til að kjósa já við samkynja hjónaböndum. Sömuleiðis verkalýðsfélög, félög hjúkrunarfræðinga, ljósmæðra og lækna. Feministafélög og lögmannasamtök hafa einnig lýst yfir stuðningi.

Það lítur allt út fyrir að samkynja pör fái samþykki írsku þjóðarinnar til að ganga í hjónaband. Það er þó ekki endilega ávísun á að hómófóbía hverfi, því miður. En vonandi verður kjörsókn góð næstkomandi föstudag — og megi betri málstaðurinn sigra!

Efnisorð: , , ,