föstudagur, maí 15, 2015

Afkróað

Það var einstaklega góð hugmynd að leyfa sjónvarpsáhorfendum að fylgjast með sauðburði í beinni útsendingu. Ég sá margar ær bera, sumar tveimur eða jafnvel þremur lömbum, og hafði áhyggjur af lömbunum þegar þau ýmist fengu ekki nægilega athygli frá móður sinni, eða vöfruðu um garða án þess að rata aftur í króna þar sem móðirin beið áhyggjufull eftir týnda sauðnum.

Ég var ekki ein um að horfa spennt á allt þetta drama því með því að ýta á þartilgerðan takka á fjarstýringunni mátti sjá tvít frá fólki sem einnig eyddi deginum (kvöldinu, nóttinni og morgninum) í beint frá burði útsendinguna. Flestir notendur Twitter voru á léttu nótunum eða lýstu áhyggjum yfir erfiðum burði, lömbum og líðan ánna. Nokkrir skemmtu sér við að tala um löngun til að kveikja upp í grillinu, sem mér fannst ekki heppilegur húmor mitt í allri dramatíkinni.

Verra var þó að fólk sem neytir engra dýra eða dýraafurða notaði tækifærið til að hamra enn frekar á þeirri staðreynd að bændur halda sauðfé til þess að framleiða kjöt. Öll kjötneysla var reyndar dregin fram við þetta tilefni og áhorfendum, sem voru í krúttkasti yfir sætu lömbunum, var núið því um nasir að þeir væru hræsnarar og vont fólk. Þetta fannst mér gríðarlegur óþarfi. Ég tek það fram að ég dáist að fólki sem er vegan, mér finnst það að borða aldrei dýr eða dýraafurðir af samviskuástæðum einstaklega virðingarverð afstaða. En þetta fólk sem tjáði sig á twitter, gat ekki valið sér verri stund til að afla vegan málstaðnum fylgi heldur en að reyna að eyðileggja þá ánægju sem margir áhorfendur fundu til fyrir framan sjónvarpið, sumir að sjá íslenskt sauðfé „í návígi“ í fyrsta sinn, og flestir alsælir með að horfa á sauðburðinn. Talsmenn vegan lífstíls gerðu sjálfum sér og málstað sínum einstaklega mikinn ógreiða með þessu. Þeir hefðu getað farið í alla fjölmiðla og beitt öllum brögðum strax á morgun til að benda fólki á hvað yrði um litlu lömbin, en í staðinn voru þeir pirrandi, og ég fyrir mitt leyti fann til andúðar á þeim.

Enn verra álit hef ég á fólkinu sem hefur stillt gæludýraeigendum upp við vegg og hótar þeim að missa húsnæðið ef þeir ekki losa sig við gæludýrin. Í dag rann út fresturinn sem Brynja, hússjóður Öryrkjabandalagsins, gaf öryrkjum sem búa í fjölbýlishúsum í eigu ÖBÍ til að losa sig við dýrin. Fyrir tveimur dögum sagði Garðar Sverrisson formaður stjórnar Brynju hússjóðs að hann ætli að framfylgja gæludýrabanninu en það verði þó enginn borinn út alveg á næstunni því íbúarnir muni fá aðvaranir og svo aðrar aðvaranir á næstu vikum á mánuðum áður en húsaleigusamningi þeirra verður sagt upp. Miðað við þau orð stjórnarformannsins þá hefst það ferli núna og íbúarnir geta engst um í vanlíðan yfir þessum hræðilegu valkostum lengi enn.

Ég hélt ekki að ég ætti eftir að skammast útí Örykjabandalagið. En í þessu máli finnst mér sem ráðamenn þar séu alveg lausir við nokkra samkennd með fólki sem margt hvert býr við félagslega einangrun vegna fötlunar sinnar og hefur bætt sér hana upp með því að mynda tilfinningasamband við dýr. Að ætla að rjúfa þau tengsl, jafnvel með þeim afleiðingum að lóga verður dýrinu, er ótrúlega grimmileg aðför að fólki sem á bókstaflega ekki í önnur hús að venda. Eina leiðin til að koma í veg fyrir þann skaða er að Brynja hússjóður hætti við þessa vanhugsuðu aðgerð, og leyfi fólkinu að hafa dýrin hjá sér. Það mætti örugglega umstafla í húsunum svo að gæludýraeigendur séu ekki í sama stigagangi og fólk með ofnæmi. Það bara getur ekki verið að eina lausnin sé að svipta skjólstæðinga Öryrkjabandalagsins dýrunum sínum.

Efnisorð: , ,