mánudagur, október 15, 2018

Dagbók Íslendinga, 15. október 1998

Fyrir tuttugu árum var haldinn dagur dagbókarinnar.
„Ákveðið var að áherslur yrðu tvenns konar: Annars vegar var fólk beðið um að halda dagbók í einn dag sem varðveitt yrði í þjóðháttadeild Þjóðminjasafnsins og hins vegar að senda inn gömul handrit, eins og dagbækur og bréf frá fyrri tíð, sem varðveitt yrðu á handritadeild Landsbókasafns.“
Verkefnið var vel kynnt í öllum fjölmiðlum og mun víðar, því sendiráð og Íslendingafélög erlendis voru með í kynningarpakkanum. „Og ekki stóð á viðbrögðum. Strax þann 16. október fóru dagbækur að streyma til þjóðháttadeildar og bárust jafnt og þétt næstu vikur og mánuði“, tæplega sex þúsund bækur alls. „Elsti dagbókarritarinn var 94 ára en þeir yngstu sex ára.“ [Dagbók Íslendinga, formáli.]

Hér má lesa örfá brot úr þeim dagbókarskrifum sem birt eru í bókinni Dagbók Íslendinga sem kom út árið eftir dagbókardaginn mikla. Gripið er niður jafnvel í miðri dagbókarfærslu ef þar þykir vera feitt á stykkinu.

„Við vitum það náttúrulega öll sem setjumst niður í dag í þeim tilgangi að skrifa dagbók fyrir daginn að þetta mun aldrei verða eins og venjuleg bók, með vitað eða ómeðvitað skrifum við með það í huga að fólk mun lesa þetta og pæla í því um ókomin ár. Ég hef skrifað dagbók síðan ég var u.þ.b. 11-12 ára og ætti að hafa nokkra æfingu í því og ætla hérna að reyna að gera mitt besta til að skrifa fyrir annað fólk.“
Elísabet María Hafsteinsdóttir, [17 ára] menntaskólanemi í Reykjavík.

„Það er allra besta veður, en það hefur fennt þó nokkuð í nótt.
Vinna er lítil að venju, unnir 2 tímar.
Ég er að láta nagladekk undir bílinn því til stendur að fara á Rif.
Mús kom í kofann hjá Höskuldi.“ 
68 ára verkamaður, bls. 51. [Þetta var allt sem hann skrifaði.]

„Já, það var annars fallegt veður í dag; glampandi sól og norðankul um miðjan dag — og jafnvel von á fyrstu snjókornunum hér sunnan heiða í kvöld. Þórarinn Eldjárn er að lesa Jónas á Austurvelli — það er víst liður í baráttu listamanna gegn ofríki Höllustaðafrekjunnar í hálendismálinu. Ég held að PP sé einhver ósvífnasti og hrokafyllsti ráðherra sem ég minnist. Hugsa sér, skera hálendið í 40 ræmur bara til að bjarga nokkrum bændaatkvæðum í Svínadal! […]

Heildstæð hugsun á ekki upp á pallborðið á Íslandi. Allsstaðar eintómir músarholukóngar. Og hvað á að gera við Austfirðinga? PP er búinn að ljá þeim vopnin í hendurnar til að rústa austurhálendinu með álgljáa í augum. […] Hvar á þessi markaðsvæðingar-, einkavinavæðingar- og hagvaxtargeðveiki að enda? Hvernig á allt að geta vaxið endalaust? Ætlar Davíð að láta okkur öll lifa á því að selja hvert öðru verðbréf? Hluti í aflanum sem við hvort eð er eigum.

Æ, fjandinn það er mannskemmandi að hugsa um pólitík. Vona að allt snjói í kaf í kvöld.“
Franz Gíslason, 62 ára, Reykjavík [Franz lést 2006].

„Dagurinn var ágætur. Allavega fór ég í jólaskap því það fór að snjóa.“
Arndís Huld Hákonardóttir, 12 ára, Borgarnesi.

„Fréttir þessa dags snerust mikið um hinn fræga miðlæga gagnagrunn og verð ég að játa að það eru farnar að að renna á mann tvær grímur varðandi það mál. Í fyrstu var ég mjög sáttur við þetta framtak Íslenskrar erfðagreiningar en umræðan síðustu vikur er búin að vera svo neikvæð að maður er farinn að hafa það á tilfinningunni að e.t.v. sé þetta ekki alveg eðlilegt og öruggt.“
Róbert Þór Gunnarsson, 35 ára, Höfn í Hornafirði.

[…] snerust fréttirnar að verulegu leyti um gagnagrunnsmálið sem nú er loksins komið til kasta Alþingis. Heilbrigðisráðherrann var að svipta okkur eignarrétti á upplýsingum sem við höfum gefið læknum og þeir sett í sjúkraskýrslur.“
Þröstur Haraldsson, 48 ára blaðamaður, Reykjavík.

„Í dag var skóli. Það var reyndar ósköp venjulegur dagur; skóli, hádegi, leikfimi, myndlist, kvöldmatur o.s.frv. Ekkert skrítið, ekkert skemmtilegt. Ósköp venjulegur dagur í skólanum, slagsmál, fótbolti, semsagt bara venjulegur dagur í mínu lífi.“
Steindór Haraldsson, 12 ára, Reykjavík.

„Þetta var venjulegur skóladagur en leið hægt, vegna þess að ég var svo spennt, ég var að bíða eftir D kærastanum mínum. Hann ar að koma af sjónum seinna um daginn. Þegar ég kom heim úr skólanum reyndi ég að gera mig sæta, því hann ætlaði að bjóða mér út að borða. Ég hélt nú samt að við værum að fara á Hróa Hött eða eitthvað en það var ekki. Hann náði í mig og við fórum á rólegan og fallegan stað niðrí miðbæ sem heitir Naustið. Það voru kerti á borðum og róleg tónlist. Mér hefur aldrei liðið jafn vel og þá. Enginn strákur hefur gert þetta fyrir mig, svo gaf hann mér hálsmen. […] Þessi dagur var með mínum bestu því ég hef aldrei fundið það fyrr hvað einhverjum þykir vænt um mig.“
17 ára stelpa í framhaldsskóla.

„Morgunblaðið var komið, næst var að líta yfir það, sem ævinlega. Vissulega er Mogginn góður gestur, þótt allar þessar heilsíðu auglýsingar slái skugga á ánægjuna. Okkur er lítt skiljanlegt þetta óhóf, eyðslan í dýrar auglýsingar, sem hljóta að skapa hærra vöruverð til neytenda og hver les þetta sér til gagns, dag eftir dag, ekki við eða pappírinn sem fer undir þetta. Víst er þetta tekjustofn blaðsins, en menn skyldu athuga hug lesenda blaðsins, vinsæld er peninga virði. Þær fréttir sem eru efst á baugi núna eru harmur þjóðar yfir dauða Guðrúnar Katrínar forsetafrúar.“
Valgarður Jónsson, 82 ára, Akranesi [Valgarður lést 2010].

„Forseti sleit fundi um kl. 20 og fórum við allir með fjórpróf Rótarýmanna: 1. Er það satt og rétt? 2. Er það drengilegt? 3. Eykur það velvild og vinarhug? 4. Er það öllum til góðs? Afar hollt er að hafa prófið yfir.“
Ólafur Helgi Kjartansson, 45 ára sýslumaður, Ísafirði.

„Ennþá kalt og mikið næturfrost, þetta kuldakast virðist ætla að verða meira en venjulegur haustkálfur. Gott hjá mér að vera búin að koma niður haustlaukunum. […] Fréttir fjölmiðlanna eru líka fremur vanabundnar og varla til að hrópa húrra fyrir. Gagnabrunnurinn, Kosovo, Clinton og það lið. […]

Ég sá í Bændablaðinu að 15. okt. er haldinn hátíðlegur víða um lönd sem alþjóðlegur dagur kvenna í landbúnaði. Tilgangurinn að benda stjórnvöldum og almenningi á mikilvægi þessarar stéttar. Ekki varð ég vör við að neitt slíkt væri í gangi hér um sveitir. En skyldum við sveitakonur ekki geta verið í öndvegi eins og hver annar, nema hvað?“
Steinunn Eiríksdóttir, 64 ára, Borgarfirði.


Efnisorð: