laugardagur, október 13, 2018

Undarlega braggamálið

Það skal játast að ég las fréttir um braggann í Nauthólsvík aðeins lauslega. Fannst ekki beint ný tíðindi að framkvæmdir á vegum hins opinbera færu fram úr fjárhagsáætlun. Varð hugsað til Perlunnar þegar þau rök heyrðust að nær hefði verið að nota þessa peninga í dagvistunarmál. (Borgin/Davíð Oddsson lét einmitt reisa Perluna þegar nær hefði verið að nota pening í leikskóla.) En svo kom í ljós að engin útboð hefðu verið í verkið og ýmislegt sem nokkuð augljóslega mátti fetta fingur útí.

Eitt hafði þó alveg farið framhjá mér — alveg þangað til ég las pistil eftir einn af borgarfulltrúum Sjálfstæðisflokksins. (Það er reyndar sérstaklega áberandi hve Sjálfstæðismenn hamast í þessu máli, sbr. bygging Perlunnar hér um árið.*) Nema hvað, í pistlinum segir Örn Þórðarson borgarfulltrúi:
„Nauthólsvegur 100 eða Bragginn vakti fyrst athygli mína fyrir tveim árum, þegar kynnt voru áform um að Reykjavíkurborg ætlaði að útbúa félagsaðstöðu í húsnæðinu fyrir nemendur í Háskólanum í Reykjavík, fyrir 82 milljónir króna. Áhugaverð hugmynd, en ég áttaði mig ekki á hvers vegna sveitarfélagið væri að útbúa félagsaðstöðu fyrir háskólanemendur, sem er ekki lögbundið verkefni eða telst til kjarnastarfsemi sveitarfélaga“

Ekki hafði ég fram að þessu vitað til hvers átti að nota þennan bragga. Hneykslun mín er umtalsverð, en undrunin enn meiri. Hvernig stendur á þessu? Og hefur einhverstaðar komið svar við þessari spurningu sem kemur fram í lokaorðum borgarfulltrúans?
„Og hvers vegna var ákveðið að eyða hátt í hálfum milljarði í félagsaðstöðu háskólanema sem heyrir undir ríkið […]?“

Ég er svo aldeilis gáttuð.

___
* Atli Fannar taldi í gær (í þættinum Vikan með Gísla Marteini) upp nokkrar byggingaframkvæmdir á vegum Reykjavíkurborgar sem fóru langt framúr fjárhagsáætlun: Perlan, Ráðhúsið, Orkuveituhúsið, Harpa. Það er plagsiður að farið sé hressilega framúr áætlunum — en ekki var Dagur B. Eggertsson borgarstjóri þegar allar þessar byggingar voru reistar.

Efnisorð: