fimmtudagur, október 11, 2018

Hvað var það aftur sem maðurinn sagði um prinsipp og hugsjónir?

Það kom mér nákvæmlega ekkert á óvart að þingið samþykkti bráðabirgðarekstrarleyfi til að sjókvíaeldi tveggja fyrirtækja á Vestfjörðum mætti halda áfram.* Að VG léti öll rök um umhverfisvá sér um eyru þjóta er ein afleiðing þeirrar ákvörðunar að ganga til ríkisstjórnarsamstarfs með Sjálfstæðisflokknum.**

Ég átti hinsvegar ekki von á því að umhverfisráðherrann,*** sem er fyrrverandi framkvæmdastjóri Landverndar, skuli hafa bakkað með fyrri orð sín um afskipti ráðherra (sem ætti þá hér við um sjávarútvegsráðherra) af niðurstöðum úrskurðarnefnda. Já eða leggjast ekki hreinlega gegn því að mengandi sjókvíaeldi þar sem eldisfiskur er líklegur til að sleppa og kynblandast villtum dýrastofni. En nei, umhverfisráðherrann er greinilega strax orðinn jafn forstokkaður og allir hinir fyrrverandi umhverfissinnarnir í VG.

___
* Fréttin sem birtist um að fóðrun í fiskeldi á Austfjörðum verði eftir áramót fjarstýrt frá Noregi hefði örugglega engu breytt hefði hún birst fyrir atkvæðagreiðsluna. Því hefði örugglega verið haldið fram að þetta muni ekki gerast á Vestfjörðum. Enda snýst allt sjókvíaeldið á Vestfjörðum um að veita fólki vinnu, halda byggð í landsfjórðungnum. Eigendur laxeldisins þar eru auðvitað ekki með sömu gróðavon og þeir á Austfjörðum. Nei, „Guggan verður áfram gul og gerð út frá Ísafirði“.

** Það hefur örugglega ekki dregið úr áhuga VG á að samþykkja bráðabirgðarleyfið að Vestfirðingar verða nú ívið líklegri til að kjósa VG í næstu kosningum (sem vonandi verða sem fyrst).

*** Ansi ágæt grein eftir Björt Ólafsdóttur fyrrverandi umhverfisráðherra birtist um þetta mál. Hún kemst að vægast sagt allt annarri niðurstöðu en nýi umhverfisráðherrann og Vinstrihreyfingin – grænt framboð. (Græni parturinn í nafni flokksins hlýtur fljótlega að vera felldur burt.)

Efnisorð: ,