miðvikudagur, október 24, 2018

Kvennafrí 2018 og úrtöluröddin úr andfeminísku áttinni

Helvíti fengu konur kaldar kveðjur á kvennafrídeginum (afsakið ofstuðlunina) frá ritstjóra Kvennablaðsins. Steinunn Ólína lét sig hafa það að rífast yfir öllu því sem henni finnst að konur ættu frekar að gera heldur en ákkúrat því sem þær vildu gera — og gerðu. Á fundinum á Arnarhóli var nefnilega talað máli innlendra og erlendra verkakvenna, þótt Steinunn hafi kosið að líta framhjá því til að geta gert lítið úr samstöðu kvenna.

Ég las útdrátt úr pistli Steinunnar Ólínu á DV (það er miðill sem ég skoða miklu heldur en Kvennablaðið) en lét mig svo hafa það að lesa pistilinn allan á Kvennablaðinu. Húrrahróp karla og annarra andfeminista voru mjög áberandi á báðum stöðum. En við upprunalega pistilinn voru samt nokkrar konur sem svöruðu ritstjóranum andfeminíska.

Fríða Bragadóttir:
„Alltaf erum við að draga á eftir okkur vagninn af samviskubiti, skyldum, væntingum, óskráðum reglum, og nú megum við ekki halda þennan dag fyrir okkur sjálfar. Þakka þér Steinunn fyrir að minna konur á að þær eiga auðvitað ekki að vera með þá frekju að gera eitthvað fyrir sig sjálfar, auðvitað eiga þær að halda áfram, hér eftir sem hingað til, að hugsa fyrst og fremst um alla aðra. Mikið er nú gott að alltaf skuli einhver vera tilbúin/n að minna okkur á að við verðum að passa okkur á að vera ekki á röngum stað á röngum tíma, að nota ekki röng orð og alls ekki berjast fyrir röngum málstað. Mögulega kemur að því í fjarlægri framtíð að búið verður að leiðrétta allt annað misrétti í heiminum, þá kannski megum við fá leyfi til að vera eins og við erum og gera eitthvað fyrir okkur sjálfar.“
Ásthildur Jónsdóttir:
„[…]Þessi pistill er frá a-ö sami söngur. Konur eiga að sinna öllu og öllum öðrum fyrst og af því þær hafa náð ákveðnum árangri eiga þær að hætta þessu væli og slá skjaldborg um einhvern annan og þær sem hafa náð langt eru hvort sem er ekkert að gera neitt merkilegt. Henni tekst meira að segja að horfa alveg framhjá frábærri konu, Sólveigu Önnu Jónsdóttur. Kvennafrídagurinn á að snúast um alla nema konur. Þó konur sjái að mestu leyti um umönnun á þeim sem hún telur þarna upp í sínum dæmigerðu kvennastörfum sem lægstu taxtarnir gilda um er það forréttindafrekja kvenna að taka einn dag á ári fyrir konur. Þær eiga að nota hann í að berjast fyrir öðrum hópum.“
Svala Jonsdottir:
„Það er ekkert sérstaklega mikið í anda kvennabaráttu eða jafnréttis að níða niður aðrar konur. Sorglegt að gera það á þessum degi kvennasamstöðu. Og karlarnir eru stikkfrí eins og venjulega. Allt er öðrum konum að kenna.“
Anna Soffía Óskarsdóttir:
„Steinunn ekki bulla - dagskráin var klár þegar þú birtir þennan pistil. Um hvað heldurðu að Sólveig Anna hafi talað, Um hvað heldurðu að hafi verið talað undir merkjum erlendra kvenna á vinnumarkaði?“

Takk, Fríða, Ásthildur, Svala og Anna Soffía, fyrir að nenna að svara þvælunni, og enn meir fyrir standa með konum og kvennabaráttu. Það er sárt þegar konur gera það ekki.

___
[Viðbót] Talandi um kaldar kveðjur. Sigríður Andersen, nei ég get ekki. Úff. Lesa fréttina.Það segir allt um þetta útspil hennar að Eldur Ísidór hrópar upp yfir sig: „ROKKSTIG! Thats what I call a rebel....“

Efnisorð: , ,