fimmtudagur, nóvember 22, 2018

Fávitar og sinnaskiptin

Sólborg Guðbrandsdóttir heitir ung kona sem hefur tekið að sér að safna skjáskotum af óumbeðnum kynfæramyndum og hótunum um kynferðisofbeldi á samfélagsmiðlum. Það eru þolendur hins stafræna kynferðisofbeldis sem senda henni skjáskotin sem hún svo birtir á instagramsíðu sem kallast Fávitar.

Undanfarið hafa birst viðtöl við Sólborgu um þetta stafræna ofbeldi og Fávitasöfnunina. Það sem hér fór á undan og það sem á eftir kemur er úr viðtali á Vísi sem birtist í gær.
„Sólborg sér oftast sjálf nöfn þeirra sem hafa sent þolendum skilaboð og myndirnar og segir því fara fjarri að þar fari fyrst og fremst einhverjir stereótýpískir perrar. Þvert á móti virðist gerendurnir oft á tíðum frambærilegir og vinalegir á yfirborðinu. Hún kýs hins vegar að nafngreina þá ekki því hún telur að það muni draga frá ástæðu þess að hún haldi síðunni úti.

„Ég er með þetta Instagram til að fræða um kynferðislega áreitni og sýna fram á hversu ótrúlega algengt það er að verða fyrir kynferðislegu áreitni og taka einhverja umræðu, tala um þetta, þetta verði ekki tabú. Þetta eru alls konar einstaklingar í samfélaginu og það að ég sé að fara að nafngreina einhvern á netinu til að reyna að svala reiði einhverra sem eru að skoða Instagrammið er bara ekki að fara að skila neinu,“ segir hún.

„Ég vil, án þess að ég sé eitthvað að bakka gerendur upp, þá vil ég að það sé rými fyrir þá til að læra af mistökum sínum. Ég vil að þeir verði betri og við náum einhvern veginn að koma í veg fyrir að þetta gerist aftur. Það verður að vera rými. Það er ekki nóg að við ætlum að henda einhverjum út á land og það eigi að drepa hann eða meiða hann, þetta skilar nákvæmlega engu.“

Erum við þá að mála fólk of mikið út í horn ef það er staðið að einhverju svona?

„Fólk er klárlega að mála sig sjálft út í horn en eins og við viljum að það sé hjálp fyrir þolendur í samfélaginu þá verður líka að vera hjálp fyrir gerendur. Ég vil bara búa í samfélagi þar sem við getum aðstoðað hvort annað og frætt. Við erum öll bara fólk. Við erum ekki skrímsli þó að mörgum finnist þessi hegðun vera í þá áttina.“

Sólborg er hvorki í þeim hluta viðtalsins sem hér er birtur né annarstaðar í viðtalinu (né öðrum viðtölum sem ég hef lesið) að segja að allir karlmenn beiti stafrænu kynferðisofbeldi né fer hún fram á refsingar yfir þeim fávitum sem beita því, og það kemur skýrt fram að hún vill ekki og ætlar ekki að nafngreina þá. Þetta er mjög augljóst og skiljanlegt öllum sem hafa einhvern lesskilning. En auðvitað lesa menn bara út úr þessu það sem þeir vilja og sem hentar þeirra heimsmynd. Sú heimsmynd gengur útá að karlmenn séu í stórhættu því konur séu orðnar brjálaðar og saki alla karlmenn um kynferðisofbeldi, ljúgi því auðvitað eins og þær eru langar til.

Skal nú nefndur til sögunnar Guðbjörn Guðbjörnsson sem skrifar athugasemd við viðtalið.
„Er þetta [innskot blogghöfundar: skjáskotin] aðallega fólk frá Orkuveitunni og slíkum perra vinnustöðum? Er fólk virkilega að velta sér upp úr facebook síðum, þar sem hver sem er - með hvaða prófíl sem er - og alhæfir síðan um alla kynferðisglæpi karlmanna?



Hvenær ætla karlmenn að standa upp mótmæla alhæfingum frá einhverjum stelpum og kerlingum með grænt hár og hring í nefinu um að þeir séu almennt kynferðisafbrotamenn eða perrar?* Þarf ekki einhver karlmaður að standa upp og kæra til lögreglu fullyrðinar og alhæfingar á borð við þær sem hér koma fram í þessari grein og láta fólk sem þetta - blaðamann sem ásakanda - sæta rannsókn hjá lögreglu?

Eða er konum almennt stætt á því að ásaka karlmenn hryllilega um glæpi og misnotkun, þegar í raun er um örfáa einstaklinga að ræða? Á slíkum konum að vera leyft að "kriminalísera" drengi og karla almennt án þess að þeir geti komið við vörnumj eða að þær þurfi að færa fram sannanir?
Guðbjörn skrifar bara þessu einu athugasemd en hún er svo stútfull af bulli að undrum sætir. Rétt upp hönd sem las bara eitthvað af þessum atriðum útúr viðtalinu við Sólborgu.

Kannski fældi það Guðbjörn frá því að skrifa meira, að í næstu athugasemd á eftir er honum einmitt bent á að Sólborg segi ekkert af því sem hann telur upp. Reyndar svara honum þrjár manneskjur og er sótt talsvert að honum. Einn segir t.a.m. „ Hér að ofan eru skjáskot af ofbeldi skíthæla gegn konum, jafnvel barnungum, og Guðbjörn telur að karlmenn þurfi að rísa til varnar. Fórnarlambsblætið gerist varla verra...“ En í síðustu athugasemdinni sem er beint gegn Guðbirni er hann spurður hvort hann eigi dóttur. „ Ef svo er, myndir þú samþykkja viðlíka dónaskap í hennar garð??? Ef ekki, máttu grjóthalda kjafti.“

Þetta er algeng spurning þeirra sem reyna að höfða til forstokkaðra karla sem hamast gegn kvennabaráttu almennt og sérstaklega því að konur upplýsi um kynferðisofbeldi. Hugsunin er sú að ef karlmaður á dætur þá hljóti hann að skilja að með slíkri hegðun vinni hann gegn hagsmunum dætra sinna.

Og það er nú fyrst sem þetta verður persónulegt. Það er að segja, blogghöfundur ætlar að rifja upp persónuleg mál dóttur Guðbjörns, jafnvel þótt það sé augljóslega ósmekklegt að gera það.

Guðbjörn sagði frá því í viðtali í fyrra að dóttur hans hefði verið nauðgað þegar hún var 16 ára. Hann segir að maðurinn sem nauðgaði dóttur hans hafi verið sýknaður í héraðsdómi og Hæstarétti.
„Guðbjörn vill meina að ástæðan fyrir svona dómum sé hugarfar og skapgerð dómaranna. Hann telur að flestir þeirra séu nákvæmlega sömu karlremburnar og hann var sjálfur fyrir nokkrum árum.

„Þegar gömul karlremba eins og ég verður fyrir svona áfalli þá opnast augu manns, en ég var áhugalaus og fáfróður um þessi mál og með gamaldags viðhorf. Ég fór að skoða aðra dóma og önnur mál. Fyrir það fyrsta er aðeins lítið hlutfall nauðgunarmála kært til lögreglu. Hlutfall þeirra sem sakfelldir eru er síðan ömurlega lágt. Þetta strandar á dómstólunum og það er því miður Sjálfstæðisflokkurinn sem skipar þangað menn í sinni eigin mynd, gamlar karlrembur af báðum kynjum. “ segir Guðbjörn.
Hann segir einnig:
„Ég vil heldur ekki segja að hér sé á ferðinni eitthvert allsherjarsamsæri, en það er einhvern veginn eins og að næstum allt kerfið standi með kynferðisbrotamönnum. Það eitt og sér hlýtur að verða til þess að þessi mál verði rannsökuð til hlítar.“ 

Guðbjörn hefur heillast af baráttu og dug foreldra þolenda Roberts Downey:
„Undanfarnar vikur og mánuði hef ég dáðst að hugrekki Bergs Þórs Ingólfssonar leikara og það hlýtur að vera siðferðis- og borgaraleg skylda okkar allra að styðja hann þar til að síðasta steini í þessu máli hefur verið velt við.“
Semsagt, Guðbjörn fullur skilnings. Guðbjörn fullur gagnrýni á kerfið. Guðbjörn í bata frá gamaldsags karlrembunni sem hann var áður.

Ef eingöngu væri miðað við athugasemd Guðbjörns við fréttina um Fávitaskjáskotasíðuna þá væri svarið við spurningunni um hvort hann myndi bregðast öðruvísi við ef hann ætti dætur; að já hann eigi dætur en honum sé algjörlega skítsama um áreiti og ofbeldi sem stelpur verða fyrir. En ef viðtalið frá í fyrra er tekið til hliðsjónar þá er svarið að jú hann eigi dóttur sem hafi einmitt orðið fyrir kynferðisofbeldi og hann sé bara alveg hreint í rusli yfir því sem hún varð fyrir, hann standi með stúlkum og gagnrýni þá sem standi með kynferðisbrotamönnum.

Hvað gerðist?

Þessi sinnaskipti föðurins sem var fullur skilnings og lýsti yfir stuðningi við baráttu gegn kynferðisofbeldi fyrir ári síðan eru óskiljanleg.

Efnisorð: , , , ,