sunnudagur, nóvember 11, 2018

11.11.1918

Í dag er þess minnst að hundrað ár eru síðan fyrri heimsstyröldinni lauk formlega með vopnahléssamningi milli Þýskalands og bandamanna. Þegar upp var staðið lágu að minnsta kosti 15 milljónir í valnum, hermenn og óbreyttir borgarar. Þetta var mesta mannfall í stríði fram til þessa* en seinni heimsstyrjöldin — sem var bein afleiðing þeirrar fyrri — sló það met margfaldlega. Reyndar hefur undanfarin fjögur ár verið minnst stóratburða fyrri heimstyrjaldarinnar: Árið 1916 voru hundrað ár frá orustunni við ána Somme (sem stóð í 140 daga frá júlí fram í nóvember; á fyrsta degi féllu 60.000) þar sem breska heimsveldið og Frakkar börðust saman gegn Þjóðverjum; og orustan milli Frakka og Þjóðverja við bæinn Verdun** (sem stóð tæpa 10 mánuði frá febrúar fram í desember). Orusturnar við belgíska bæinn Ypres voru margar flest ár stríðsins og féllu þar hundruðir þúsunda, þar af allt að 800.000 í þriggja mánaða orustu sem stóð frá júlí til nóvember 2017. Um þetta hafa verið gerðar ótal greinar, bækur, kvikmyndir, útvarps- og sjónvarpsþættir, og á síðari tímum hlaðvarpsþættir. Þótt blogghöfundur hafi ekki brennandi áhuga á stríðum sem slíkum (og rugli þessum orustum öllum saman og þarf þessvegna að leita heimilda fyrir hverri setningu hér) þá eru þetta auðvitað heimssögulegir atburðir sem áhugavert er að heyra lærða jafnt sem leika fjalla um.***

Það má reyndar segja að allt þetta ár hafi verið einstaklega gjöfult þegar kemur að neyslu á fjölmiðlum. Árið 1918 var meiriháttar ár á Íslandi: frostavetur, eldgos, drepsótt og fullveldi. Ríkisútvarpið hefur hreinlega tekið flugið til að minnast þessara atburða, þó aðallega fullveldisins, og hafa sjónvarpsþættir og útvarpsþættir streymt frá þessari mikilvægu stofnun sem uppfyllir kröfur um menningar- og fræðsluhlutverk sitt sem aldrei fyrr. Það hefur verið nánast fullt starf að hlusta (gegnum hlaðvarp) og horfa á þætti um árið 1918, og hefur þó örugglega eitthvað farið framhjá blogghöfundi.

Og svo ég haldi áfram að hrósa Ríkisútvarpinu, þá hefur það sýnt tvær sjónvarpsþáttaraðir — sem eru alls ótengdar árinu 1918 — sem eru annars vegar um Víetnamstríðið og hinsvegar um sögu Danmerkur. Hvor um sig algjörlega frábærar, jafn ólíkar og þær eru.

Öfugt við árið 1918 sem var hörmulegt í alla staði er 2018 hin besta fjölmiðla- og fróðleiksveisla.

___
* Dan Snow sagnfræðingur hefur þó bent á að fimmtíu árum áður en heimsstyrjöldin fyrri hófst í Evrópu hafi milli 20 og 30 milljónir látist í átökum í Kína.
** Dýravinir eru varaðir við að lesa um orustuna við Verdun á Vísindavefnum.
*** Dæmi um leikmenn: Illugi Jökulsson skrifar til að mynda grein í Stundina um vopnahléssamningana 11.11. 1918.


Efnisorð: , ,