föstudagur, nóvember 30, 2018

Dagur þrjú í Klausturgate

Fréttamenn hafa spurt Bjarna Ben hvort hann hefði lofað Gunnari Braga sendiherrastöðu (eða svo gott sem) en hann neitaði því staðfastlega að Gunnar Bragi ætti neitt inni hjá Sjálfstæðisflokknum fyrir að hafa gert Geir H Haarde að sendiherra (og Árna líka til að dreifa athyglinni frá því að dæmdur maður fékk eftirsóknarvert starf). Bjarni bætti því jafnframt við að Gunnar Bragi væri líka búinn að draga þetta til baka og biðja sig afsökunar á að hafa logið þessu uppá sig. En enginn fjölmiðlamannanna spurði hann afhverju Sigmundur Davíð hefði staðfest þessa sögu á barnum þegar Gunnar Bragi var að stæra sig af þessu. Það væri fróðlegt að heyra svör Bjarna við því.

Þegar Bjarni Ben var spurður hvort honum þætti að Klaustur-þingmennirnir ættu að segja af sér varð hann flóttalegur og vildi nú ekki alveg taka undir það, sagði „það ekki fara vel á því að þingmenn lýsi skoðunum sínum á því hvað aðrir þingmenn eigi að gera varðandi stöðu sína“. Enda hefur hann aldrei sagt af sér eftir nein hneykslismál sem tengjast honum, og slapp alveg við að taka pokann sinn þegar Sigmundur Davíð hraktist úr embætti eftir að Panamaskjölin komu í dagsljósið.

Þegar Sigmundur Davíð sagði í viðtali í dag að kjafthátturinn á Klaustri hefði ekki verið neitt einsdæmi [það kom mér ekki á óvart] og hann hefði oft setið með þingmönnum sem hefðu haft jafnvel verra orðbragð — og að nú væru þeir meðal þeirra sem hneyksluðust mest. Mér varð hugsað til viðtalsins á Stöð 2 þar sem Heimir Már spurði Pál Magnússon hvort hann þekkti svona orðbragð eins og var viðhaft á Klausturbarnum. Páll sagðist aldrei á lífsleiðinni hafa heyrt annað eins. Hann andmælti um of, þótti mér.

Efnisorð: , , ,