miðvikudagur, desember 05, 2018

Staðan í Klausturgate: Enginn segir af sér

Enginn þingmannanna sem sátu að sumbli á Klausturbarnum ætlar að segja af sér. Ekki heldur konan í hópnum, þessi sem hefur starfað sem þroskaþjálfi* og situr í velferðarnefnd þar sem málefni fatlaðra eru til umfjöllunar, konan sem hæddist að Freyju Haraldsdóttur og lét algjörlega óátalið þegar einhver viðstaddra líkti Freyju við sel (en hvorki vegg, stól né reiðhjól einsog Sigmundur Davíð hefur reynt að halda fram). Gunnar Bragi og Bergþór Miðflokksmenn fóru í leyfi (á Vog eða til Kanaríeyja á Klörubar?) en Karl og Ólafur voru reknir úr Flokki fólksins og ætla að vera utan flokka en allsekki segja af sér.

Þá er það formaður Miðflokksins, stofnandi hans og helsta stjarna. Eða segir maður stjarna um einhvern sem nýtur álíka persónudýrkunar meðal síns fólks og ýmsir einræðisherrar sögunnar svo maður segi ekki forystusauðir sértrúarsafnaða. Það hvarflar að fólki að kjósendur Miðflokksins myndu drekka Kool-Aid ef Sigmundur bæri það á borð fyrir þá.

Sigmundur Davíð, eins og venjulega þegar hann á í vök að verjast, notar aðallega þá aðferð að svara ekki spurningum beint (eða yfirleitt) heldur flytur ræður þar sem hann er iðulega í mótsögn við það sem hann sagði í síðasta viðtali, eða jafnvel bara nokkrum mínútum fyrr í sama viðtali. Þannig er hann bæði búinn að segja að hann kannist ekki við að nota óviðeigandi orðfæri og vitna í loforð sem hann gaf ömmu sinni um að blóta ekki; segjast oft hafa setið í álíka félagsskap þingmanna úr öllum flokkum þar sem orðbragðið hafi verið enn verra, ekki hafa tekið þátt í því eða tekið þátt í því og sjá ægilega eftir því; hann og konan hans hafi rifjað upp að hún hafi oft þurft að flýja úr slíkum samkvæmum því henni ofbauð umræðan — en jafnframt lætur Sigmundur eins og hann hafi fyrst núna verið að heyra gagnrýni á svona orðbragð og áttað sig á sinni þátttöku í slíkum samkvæmum.

Já svo má ekki gleyma að Sigmundur Davíð hélt því fyrst fram að síminn sinn hlyti að hafa verið hleraður og býsnaðist mjög yfir því að upptakan væri birt, en gefur svo í skyn að hann hafi tekið upp sjálfur álíka samtöl (og þá er von að hann haldi að einhver hafi komist í símann) og hann sé reiðubúinn að leggja þau gögn fram. Iðrun Sigmundar er jafn ruglingsleg, hann er bæði sjokkeraður (sem er eflaust rétt því enginn sexmenninganna átti von á að almenningur myndi heyra samtalið – á einum stað segir Sigmundur „ég vona að konan mín heyri þetta aldrei“) og iðrast, en í sömu mynd reynir hann að koma sök á aðra og segja jafnframt að hann læri af þessu. Svona eins og hann lærði af því þegar Anna Sigurlaug sagði honum trekk í trekk að hún hefði flúið samkvæmi þar sem hann tók þátt í viðbjóðslegu tali.

Já hún Anna Sigurlaug, alveg rétt. Hún er auðvitað búin að skrifa við eldhúsborðið stuttan pistil þar sem hún hneykslast á öllum þeim sem hneykslast á Sigmundi. Ötulustu stuðningsmenn hans hafa líka skriðið undan steini síðustu daga og sagst styðja hann og Miðflokkinn, einn þeirra segir að Sigmundur Davíð hafi vaxið í áliti hjá sér (hann sagði reyndar að SDG hefði vaxið sem maður, hvernig sem hann fór að því) en það sýnir fyrst og fremst siðferðisstig kjósenda flokksins og fylgismanna Sigmundar. Líklega fengi Miðflokkurinn svipað fylgi og áður í næstu kosningum því aðdáendur Sigmundar eru svipaðir og aðdáendur Donalds Trump: fólk sem dáist svo að hrokafullum sjálfdýrkendum að ekkert sem þeir gera eða segja fær aðdáendur til að missa álit á þeim.

Hinsvegar hefur verið einstakt að sjá hve mikill samhljómur er (nema hjá alhörðustu SDG aðdáendum) í athugasemdakerfum, aðsendum greinum, á mótmælafundi og málþingi, þar sem fólk sem er ósammála um alla skapaða hluti er sammála um að fordæma Sigmund Davíð og drykkjufélaga hans.

Það er þó eitthvað.


__
ps. Hlekkir á greinar og viðtöl verða (hugsanlega) sett inn síðar, sem og ótal neðanmálsgreinar, athugasemdir og viðbætur.

* Ansi merkilegt er það eftir að hafa áður fylgst með hve oft Sigmundur Davíð hefur orðið tvísaga (þrísaga, fjórsaga) um menntun sína; látið sem hann væri með doktorsgráðu þegar hann hefur í raun aðeins BA-gráðu og hefur gutlað við framhaldsnám án þess að ljúka prófi — að sjá nú að Anna Kolbrún Árnadóttir hefur einnig skreytt sig röngum fjöðrum. Hún er ekki menntaður þroskaþjálfi og á ekkert með að skreyta sig með því lögverndaða starfsheiti jafnvel þótt hún hafi hugsanlega fengið starf einhverstaðar sem ígildi þroskaþjálfa.

Efnisorð: , ,