föstudagur, apríl 19, 2019

Málsvari vændiskúnna, nauðgara og annarra andfeminista í fjölmiðlaherferð

Arnar Sverrisson sálfræðingur, ellilífeyrisþegi og krossfari gegn feminisma hefur nýlega skrifað greinar um vændi sem birst hafa á Vísi.* Fyrri greinin birtist í byrjun mánaðarins og var viðbragð hans við Kveiksþætti RÚV í marsmánuði þar sem Lára Ómarsdóttir fjallaði um vændi frá ýmsum hliðum. Sitthvað hafði Arnar útá þáttinn, og þó sérstaklega nálgun Láru að setja.
Lára virðist hafa gengið í skóla Stígamóta eins og fleiri fréttamenn RÚV. (Ástarsamband RÚV og öfgakvenfrelsara er eftirtektarvert.) Yfirlýsingar hennar eru „náttúruhamförum“ líkastar…
Verður ekki farið nánar í þá grein en hún sýnir afstöðu greinarhöfundar ágætlega.

Í seinni greininni sem birtist í fyrradag beinir Arnar spjótum sínum að vændislögunum sem sett voru fyrir tíu árum. Þar notar hann orðalag á borð við: „fjarstæðuofstopa má sjá í áróðri kvenfrelsunarsamtaka, sem helga sig banni á vændi kvenna“. Þá kvartar hann hástöfum yfir því hve litla andstöðu frumvarpið fékk: „Það er með fullkomnum ólíkindum, að kvenfrelsurum skuli hafa tekist að þvinga umgetið frumvarp gegnum Alþingi Íslendinga. Þrjátíu og þrír þingmenn tóku ekki afstöðu. Hvílíkir amlóðar!“
„Löggjöfinni er augljóslega beint gegn karlmönnum. Hún gerir þann karlpening að glæpamönnum, sem kynlífsþjónustu kaupir. Röksemdir fyrir löggjöfinni eru dæmalaust ruglingslegar og felast að mestu leyti í hugarórum flutningskvenna, skefjalausum áróðri, sem sjaldnast hefur við einhver gild fagleg eða vísindaleg rök að styðjast.“
Sjálfur telur hann upp mótrök þeirra sem eru á móti sænsku leiðinni, þ.e. banni á kaupum á vændi.** En burtséð frá því þá hefur hann greinilega lesið talsvert af greinum þar sem rætt er um skaðsemi þess að að stunda vændi og ofbeldið sem vændiskonur verða fyrir, og áhrif þess á samfélög að vændiskaup séu látin óátalin. Hann vitnar t.d. í þetta:
„Samfylkingin gegn vændisánauð kvenna (Coalition Against Trafficking in Women - CATW) staðhæfir fullum fetum: „Í alls konar vændi felst kúgun kvenna, án tillits til, hvort konan sé fús til þess eða ekki. Vændi hefur áhrif á allar konur, réttlætir sölu sérhverrar konu, og umbreytir henni til jafngildis kynlífs.“
En svo klikkir Arnar út með því að segja: „Áróðurssamtök þessi hreykja sér af því, að „hafa endurskilgreint umræðuna um vændi og mansal víða í veröldinni og innan vébanda Sameinuðu þjóðanna.“

Semsagt, allir sem tala gegn vændi eru með áróður, ofstopa og öfgar, jafnvel þótt málflutningurinn njóti stuðnings alþjóðasamfélagsins.

Jafnvel þótt Arnar virðist hafa kynnt sér þau rök (sem hann kallar „skefjalausan áróður“) að konur í vændi hefi verið fórnarlömb „misnotkunar karla og annars ofbeldis af þeirra hálfu, bæði í uppvexti og starfi“ þá er niðurstaða Arnars alltaf í hag karlmanna sem vilja kaupa vændi. Hann er alltaf á þeirra bandi. Þeirra er þjáningin að vilja fá kynferðislega útrás á konum (sem myndu aldrei annars vilja vera móttakendur þeirrar útrásar en láta sig hafa það gegn gjaldi) en allskonar öfgalið reynir að koma í veg fyrir það.

Karlmenn þjást saklausir í þessu máli. Arnar Sverrisson er þeirra málsvari.

Í dag, föstudaginn langa, er viðeigandi að lesa í Passíusálmunum. Þar má lesa þetta:

blánaði hold, en bólgnaði und,
sonur guðs sárt var kvalinn
saklaus á þeirri stund

________
*Arnar hefur á þessu ári líka skrifað í Morgunblaðið og Vikudag og er mjög á sömu línu. Í Mogganum virðist hann vera að tala um vændi sem konur kaupa og stilla því upp til að sýna að konur séu ekki fordæmdar fyrir að kaupa vændi. Í Vikudegi skrifar hann gegn því að „trúa konum/stúlkum blint, þegar þær saka pilta/karlmenn um kynferðislegt ofbeldi“, og segir ofstæki þeirra sem „kasta vilja fyrir róða siðuðu réttarkerfi og dæma karla á grundvelli framburðar kvenna“. Áður en Kvennablaðið dó (afsakið meðan ég bæli niður harmakvein) skrifaði hann þar andfeminískar greinar um árabil sem féllu í kramið hjá ritstjórn.
** Athygli vekur hin nákvæma heimildaskráning: „Úr opinberri, breskri skýrslu“.

Efnisorð: , , , ,