föstudagur, mars 08, 2019

8. mars 2019, verkfall láglaunakvenna

[Þau mistök urðu þegar pistillinn var birtur að sumt birtist tvisvar og annað hvarf. Nú á að hafa verið bætt úr því.]

Þessi pistill átti fyrst og fremst að vera um málefni kvenna en vegna sjónvarpsþáttarins Vikan með Gísla Marteini sem var sýndur í kvöld þarf aðeins að ræða hann fyrst. Valið á gestum í þáttinn virðist alltaf háð því skilyrði að minnsta kosti einn gestanna sé Sjálfstæðismaður (eða Viðreisn sem er Sjálfstæðisflokkur 2 og flestir þar fyrrverandi Sjálfstæðismenn). Í öðru lagi er sama fólkið aftur og aftur, sem er skiljanlegt hjá fámennri þjóð en jafn pínlegt fyrir því.

Í kvöld var semsagt meðal gesta Svanhildur Hólm, sem hefur margoft komið í þáttinn eins og eiginmaður hennar Logi Bergmann, og uppfyllir hún Sjálfstæðisflokksskilyrðið enda starfar hún sem aðstoðarmaður Bjarna Benediktssonar fjármálaráðherra. Við hlið hennar sat svo útvarpsstjórinn Magnús Geir sem einnig er Sjalli. Valið Svanhildi í kvöld er frekar spes því nú í dag stóð yfir verkfall láglaunafólks. Það hefði kannski verið nær að fá einhvern úr þeirra hóp eða sem er hlynntur aðgerðum verkalýðsfélaga á þessum degi, en ekki fulltrúa ríkisvaldsins (þess hins sama og bauð smánarlegar skattalækkanir). Svanhildur var ekki ókurteis þegar hún var spurð um skoðanir sínar á Sólveigu Önnu formanni Eflingar en mjög augljóslega að vanda sig við að segja ekki skoðun sína.

Það var samt ekki það sem truflaði mig mest. Heldur þetta: Atli Fannar, sem var með góðan pistil að venju, ræddi launahækkanir ríkisforstjóra eftir að Kjararáð var lagt niður, og nefndi sérstaklega launahækkanir forstjóra Íslandspósts sem fékk tvær launahækkanir í fyrra og hækkuðu laun hans um 43% á einu ári. Atli sagði réttilega að upplýsingar um þessar launahækkanir vörpuðu sprengju eftir sprengju inn í kjaraviðræðurnar. Í lokin spurði Atli Fannar: Hver er að hækka þessi laun? Satan?


Svo var svissað yfir á Gísla Martein sem sagði þetta góða spurningu og kannski kæmi svarið við henni á eftir. En ræddi það svo aldrei meir. Fyrir framan hann í sófanum sat þó Svanhildur Hólm varaformaður stjórnar Íslandspósts, stjórnarinnar sem hækkaði laun forstjórans. Það var varla óvart að Atli Fannar spurði þessarar spurningar í þætti þar sem Svanhildur var gestur; en afhverju fékk hún að komast upp með að svara ekki spurningunni? Sverja af sér að vera Satan eða reyna að réttlæta þetta? Nei í staðinn var hún spurð, eins og sessunautar hennar, um skoðun sína á Sólveigu Önnu sem hún svaraði milli samanbitinna tannanna.

Gísli mætti taka aðeins minna áberandi afstöðu, takk.

En aftur að verkfallinu og Sólveigu Önnu. Ég er ein þeirra sem fagna því að hún leiði Eflingu og finnst hún standa sig feiknavel. Mér finnst frábært, úr því að Samtök atvinnulífsins koma ekki með ásættanleg boð um launahækkanir, og ríkið ekki um skattabreytingar sem koma að gagni, að láta reyna á mátt verkfalla. Það má alveg gleðjast yfir því að Félagsdómur ákvarðaði ekki SA í vil og fagna því að félagsmenn Eflingar sem völdu að fara í verkfall geti farið í verkfall. Það er ánægjulegt að stór kvennastétt þar sem erlendar konur eru fjölmennar fari í verkfall á alþjóðlegum baráttudegi kvenna. Það er svo auðvitað vonandi að Samtök atvinnulífsins og ríkisvaldið sjái að sér og reyni að koma í veg fyrir fleiri og víðtækari verkföll með því að gera góðan samning við láglaunafólk.

Heldur þykir mér hlægilegt þegar talað er um að verkfallið í dag eða fyrirhuguð verkföll eigi eftir að stórskemma ferðaþjónustu á Íslandi. Þetta er sá árstími sem hvað fæstir ferðamenn koma og þeir sem ætla sér að heimsækja Ísland í sumar munu ekki finna fyrir neinum truflunum á ferðum sínum. Svo má líka hafa það í huga að höfuðborg Frakklands þar sem eru alltaf einhver verkföll (eða óeirðir eða hryðjuverkaárásir) er á hverju ári meðal mest sóttu borga heims. Lenti í þriðja sæti í fyrra. Samkvæmt því virðast verkföll ekki hafa mikil fælingaráhrif.

Aftur að alþjóðlegum baráttudegi kvenna.

Kveikur var með ágæta úttekt á vændi á Íslandi þar sem margar hliðar málsins komu fram, talað við íslenskar og erlendar vændiskonur, sumar þeirra fyrrverandi og aðrar sem vildu hætta. Einnig vændiskúnna og nokkra sem vildu kaupa vændi en lentu í fyrirsát Kveiksfólks. Heilmikið var talað við lögregluna í þættinum og þar er bara ekkert að gerast í að rannsaka vændisstarfsemi og bösta vændiskaupendur.

Kvöldið eftir tók Kastljós málið upp og fékk til skrafs hvern annan en Brynjar Níelsson. Hann kom ekki á óvart; talaði um vændi sem val kvenna sem allt eins hefðu getað fengið sér vinnu á skyndibitastað. Einnig lýsti hann andúð sinni á að nöfn vændiskúnna séu birt á vefsíðum dómstóla, og reyndar yfirleitt andstöðu við nafnbirtingu glæpamanna. Minnist ég þó aldrei hafa heyrt hann opinberlega leggjast gegn slíkri nafnbirtingu innbrotsþjófa, og ekki einusinni þegar menn eru dæmdir fyrir smygl (sem er líklega dæmigerður glæpur án fórnarlambs) en þar er nöfnum manna blastað á netið hikstalaust; einu undantekningarnar virðast vera þegar karlar kaupa vændi. Það yrði auðvitað mikill álitshnekkir fyrir karlmenn ef slíkt yrði heyrinkunnugt, en það sama á auðvitað við um innbrotsþjófa og smyglara sem og aðra glæpamenn hversu stór eða lítil glæpur þeirra er.

Brynjar virðist ekki hafa horft á Kveik eða kynnt sér aðra þætti eða skrif um veruleika vændiskvenna. Hann hunsar algjörlega staðreyndir um að langflestar vændiskonur hafa orðið fyrir kynferðisbrotum ungar að árum, eru með skerta sjálfsmynd, eru vímuefnaneytendur, eru fátækar, hafa verið lokkaðar eða kúgaðar til starfa; jafnvel allt framangreint. En þetta kemst ekki fyrir í heimsmynd Brynjars. Allar hans skoðanir virðast byggjast eingöngu á nýfrjálshyggjuhugmyndum um frjálst val og frjálsan markað með hvað sem er, einnig mannslíkama.

Á sama tíma og Brynjar var að tala með rassgatinu tjáði annar Sjálfstæðismaður sig einnig um vændiskaup og lýsti því með innblásinni dæmisögu hvernig „Góður og grandvar maður getur leiðst út í vændiskaup …í augnabliks skynsemisrofi kaupir vændi“.

Semsagt, Sjallar álíta konur velji sér vændi eins og hvert annað starf, valið standi t.d. milli þess að vinna á skyndibitastað eða stunda vændi, en karlar afturámóti velja ekkert heldur leiðast útí vændiskaup, jafnvel bara vegna augnabliks skynsemisrofs.

Það er spurning hvaða skynsemisrof varð í hausnum á yfirlögregluþjóninum á Vesturlandi þegar hann keypti sér vændi. Hann var böstaður og dæmdur fyrir vændiskaupin í fyrra — en nafn hans var auðvitað aldrei birt og varð því ekki fyrir neinum álitshnekki. Enginn vissi reyndar af þessu. Lögreglustjórinn frétti af því hjá ríkissaksóknara að hann væri til rannsóknar í vændiskaupamáli og mánuði síðar sagði yfirlögregluþjónninn sjálfur upp störfum (eða þannig er það orðað, honum hafa hugsanlega verið gefnir afarkostir). En vændiskaupamálið komst ekki í hámæli fyrr en hann fékk annan dóm, þá fyrir harðvítug slagsmál í öðrum landshluta við löggu sem að mér skilst var með honum á fylleríi. Í dómnum (þar sem þeir voru báðir ákærðir fyrir slagsmálin og báðir dæmdir fyrir líkamsárás) kom fram að aðili B (enn verið að gæta nafnleyndar) hafi áður hlotið dóm fyrir þessa og þessa lagagrein, og einhver las útúr því að það væru vændiskaup; annars hefði sú staðreynd að starfandi yfirlögregluþjónn keypti sér vændi einsog ekkert væri sjálfsagðara alveg farið framhjá öðrum en þeim sem ákærðu hann og dæmdu. En þannig vill Brynjar Níelsson einmitt hafa það.

Aldrei kom fram hvar yfirlögregluþjóninn keypti vændið, hugsanlega í heimabyggð eða kannski gerði hann sér ferð til höfuðborgarinnar og var böstaður þar. Höfuðborgarlögreglan er reyndar almennt ekkert mikið að fylgjast með vændi, hafa ekki í það peninga né mannskap, en hrukku þó í gang þegar Kveiksfólk sem var að vinna að þættinum um vændið lét þá vita að fíkniefnasala og sala á konum færi fram á nektardansklúbbnum (nektardans er líka ólöglegur) færi fram á Shooters. Löggan lokaði staðnum — en áður en Kveiksþátturinn komst í loftið var aftur búið að opna og allt til sölu sem fyrr: dóp og konur.

Af öðrum lögreglu- og dómsmálum er það að frétta að þar er allt eins og venjulega. Karlmaður sem í þrígang réðst á þáverandi sambýliskonu sína og lamdi hana fékk tveggja mánaða skilorðsbundinn dóm. Karlmaður sem dró sér bláókunnuga konu inná klósett á skemmtistað og nauðgaði henni, fær afslátt á dóm vegna þess að nærri tvö ár liðu frá því ríkissaksóknaraembættið fékk málið í hendur og þar til gefin var út ákæra og síðar það ár féll dómur í Héraðsdómi. Alls liðu nærri fjögur ár frá kæru þar til málið var dæmt í Landsrétti. Það er auðvitað glatað, en það er alltaf jafn undarlegt að það sé sá dæmdi — nauðgarinn — sem fær samúð dómstóla útá það. Konan sem hann ákvað að nauðga þurfti líka að bíða fyrst í tvö ár og svo önnur tvo (afþví hann ákvað að áfrýja) áður en málinu lauk. Afhverju er hennar bið ekki metin mikilvæg? Afhverju fær hún þá ekki hærri skaðabætur eða eitthvað? Það er alveg glatað að sjá þessa nauðgaraafslætti skipti eftir skipti.

Svo eitthvað sé minnst á það sem gerist utan landssteinana, svona á alþjóðlegum baráttudegi kvenna, þá er furðulegt mál í uppsiglingu í Alabama í Bandaríkjunum.
Dómari í Alabama hefur fallist á að fóstur sem var eytt hafi lagaleg réttindi og að karlmaður geti höfðað mál fyrir hönd þess. Maðurinn ætlar að stefna heilsugæslustöð þar sem fyrrverandi kærasta hans [sem var sextán ára] gekkst undir þungunarrof og framleiðanda pillunnar sem henni var gefin. Úrskurðurinn byggir á umdeildum lögum í Alabama um réttindi „ófæddra barna“.
Þetta er algjör bilun. Næst verður reynt að kæra konur fyrir morð vogi þær sér að fara í fóstureyðingu. Karlmönnum í frekjukasti gefinn algjör réttur yfir líkama konunnar.

Að lokum er hér mælt með mjög góðum pistli (með hræðilegum titli) eftir Þórdísi Elvu Þorvaldsdóttur sem birtist 8. mars og fjallar m.a. um klíku franskra fjölmiðlamanna og almannatengla sem
„notaði margvíslegar aðferðir til að niðurlægja og einelta konur. Konur hafa lýst því hvernig aðferðir þeirra urðu til þess að þær misstu smám saman flugið og kulnuðu í starfi. En kvenhatrið hafði ekki slæm áhrif á feril karlanna. Þvert á móti fengu þeir vaxandi völd og áhrif“.

Það er augljóslega langt í að barátta kvenna verði óþörf.

Efnisorð: , , , , , , , , ,