laugardagur, febrúar 23, 2019

Leslisti vegna ástands

Miðflokkurinn hefur nú bólgnað út í stíl við egó formannsins og er nú orðinn stærsti stjórnarandstöðuflokkurinn á þingi; eina konan í þingflokknum er kona sem sat Klausturfundinn fræga, og eru nú öll Klaustursvínin saman í flokki. Vegna Klaustursvíns varð að skipta um formann umhverfis- og samgöngunefndar og Jón Gunnarsson er nýi nefndarformaðurinn, sem er einhver „eindregnasti stóriðjusinni landsins, svarinn andstæðingur umhverfisverndarsjónarmiða gegnum tíðina“.

Svo ákvað sjávarútvegsráðherra með stuðningi hvalveiðiskýrslu Hagfræðistofnunarleyfa hvaladráp í fimm ár í viðbót. [Viðbót eftir Silfrið 24.2.2019 þar sem rætt var um þessa ákvörðun sjávarútvegsráðherra sem er í trássi við yfirlýstan vilja VG og umhverfisráðherra, og var í því sambandi minnt var á orð Drífu Snædal, nú forseta ASÍ; að fyrir VG verði ríkisstjórnarsamstarfið „eins og að éta skít í heilt kjörtímabil“.]

Það stefnir í verkfall því ríkisstjórninni fannst nægilegt að minnka skattbyrði láglaunafólks um 6.760 krónur á mánuði en hækkaði ekkert álögur á þá ríkustu til að eiga betur fyrir (veglegri) skattalækkunum. Hér eru nokkur góð dæmi um hvernig verja má þessari miklu búbót:
Hálft mánaðarkort í strætó
Rúmlega hálfan tank af bensíni
Einn innkaupapoka í Bónus
Efri eða neðri part af regnfötum á eitt af börnum mínum
Einn skó
Eina vodkaflösku til að drekkja sorgum mínum
ATH: Þú getur aðeins valið eitt af ofangreindum atriðum, bannað að segja svartur, hvítur, já og nei.
Til upplífgunar er hér bent á nokkrar góðar greinar, pistla og jafnvel gott gys. Lesum til að gleyma!
(Djók, þetta er meira og minna til að ýfa upp erfiðar tilfinningar og efla baráttumóð, ekki veitir af.)

Viðtal við Möggu Stínu í Stundinni 16.2.2019:
„Við höfum búið við þennan nýfrjálshyggjukapítalisma í um fjóra áratugi og mér finnst mér ekki vera stætt á því að sitja bara hjá þegar við kjósum yfir okkur ruglið og græðgisvæðinguna einu sinni enn, sem hefur náð einhverjum hæðum frá síðustu aldamótum, þrátt fyrir hrunið. Staðan núna er orðin alveg eins og fyrir hrun, fólk hreykir sér kannski ekki af því að það sé að éta gull í rísottóinu en þetta er samt allt komið í sama far. Auðvaldið lærði nokkur fágunartrix og þeir sem báru byrðarnar og borguðu brúsann fyrir hrunið eru orðnir fleiri og fátækari, og reiðari.
[…]
Við sem þjóðfélag erum farin að samþykkja ótrúlega sjúka hluti. Við erum 350 þúsund manna samfélag og við samþykkjum að 900 börn búi í ósamþykktu iðnaðarhúsnæði. Við samþykkjum að 4.000 börn búi við fátækramörk. Yfirvöld verða að skilja og bregðast við þeirri staðreynd að þetta er ekki í boði, við getum ekki þaggað þetta rugl niður öllu lengur. Það er ekki hægt að una við þetta. Það dugar ekki fyrir mig að sitja hjá þegar staðan er svona. Það er ekkert annað en ofbeldi að fólki skuli borguð svo lág laun að það geti ekki dregið fram lífið. Ég kalla það ekkert annað en ofbeldi að hið opinbera skuli níðast á öryrkjum, á utangarðsfólki, á fátækum börnum. Það er lögbundinn réttur hvers einstaklings að hafa þak yfir höfuð sér og í sig og á. Fátækt fólk er beitt kerfisbundnu ofbeldi af hálfu hins opinbera.“

Leiðari Jóns Trausta Reynissonar í Stundinni 11.1.2019:
„Okkur er sögð saga um að þau fátækustu meðal okkar á vinnumarkaði muni „stráfella“ fyrirtæki, fella stöðugleikann og fæla burt ferðamenn, með því að biðja um hærri laun.
[…]
Okkur hafði verið seld saga. Söguþráðurinn var sá að við yrðum að lækka skatta á þá auðugustu og lágmarka eftirlit með stórtækum athöfnum þeirra. Ástæðurnar voru einna helst þrjár: 1. Að þeirra hagur væri með beinum hætti okkar hagur, þannig að þess meira sem þeir auðugustu græddu, þess fleiri „brauðmolar“ féllu okkur hinum í skaut. 2. Að auðugasta fólkið flytti peningana sína bara úr landi ef það þyrfti að borga skatta eða sæta tilteknum reglum. 3. Að það væri ósanngjarnt að skattleggja fólkið þar sem það hefði áunnið sér auðæfin.
[…]
Þrátt fyrir að skattar hefðu verið snarlækkaðir á þá auðugustu urðu Íslendingar heimsmethafar í aflandsviðskiptum – engir aðrir af einu þjóðerni færðu viðskipti sín í jafnmiklum mæli í ógagnsætt lágskattaumhverfi skattaskjóla eins og Tortóla, eins og sjá mátti af Panamaskjölunum.

Við reyndum líka að einfalda regluverkið og minnka eftirlitið, til að heilla þá auðugustu, svo þeir yfirgæfu okkur ekki og brytu ekki reglurnar. Það virkaði ekki heldur. Bæði átti sér stað fyrrnefnd ásókn í enn meiri skattaskjól og svo áttu sér stað stórfelld, skipulögð og samræmd efnahagsbrot meðal þeirra sem réðu yfir fjármagnsflæði bankanna.
[…]
Ísland hefur enn í dag ákveðið að hygla stóreignafólki, á sama tíma og varað er við ógninni af lágtekjufólki í húsnæðisvanda.
[…]
Þeim verst settu hafa alltaf verið sagðar leiðbeinandi sögur af afleiðingum athæfis þeirra. „Sælir eru fátækir í anda, því að þeirra er himnaríki. Sælir eru hógværir, því að þeir munu jörðina erfa.“ Samkvæmt söguþræðinum í dag er dyggð þeirra efnaminnstu fyrir andlátið enn að vernda stöðugleikann. Markmið þeirra á þannig í vissum skilningi að vera stöðugur skortur. Helsta einkenni farsælla ríkja og friðsamra samfélaga er hins vegar jöfnuður. Sagan, yfirstandandi þróun og fyrirkomulag gefur lágtekjufólki fullt tilefni til að efast.“

Indriði H. Þorláksson um skattapólitík í Stundinni 22.2.2019:
„Breyt­ingin á almenna tekju­skatt­inum 2009 til 2011 fól í sér fjölg­unar á skatt­þrepum þ.m.t. nýju þrepi fyrir lægstu tekjur en auk þess var per­sónu­af­slátt­ur­inn hækk­aður veru­lega og skattlut­föll í efri þrep­unum og þrepa­skilin ákveðin þannig að skattar lækk­uðu í neðri hluta tekju­ska­l­ans en hækk­uðu í efri hlut­an­um. Þessi breyt­ing var hluti af breyt­ingum á öðrum beinum sköttum ein­stak­linga, þ.e. fjár­magnstekju­skatti og eign­ar­skatti (auð­legð­ar­skatt­i), sem saman mið­uðu að því að flytja skatt­byrð­ina af fólki með lágar tekjur yfir á þá sem hæstar tekjur hafa og mestar eign­ir. Þessu tengd­ist einnig gjald­taka fyrir aðgang að auð­lindum þjóð­ar­innar sem afhentur hafði verið fáum útvöldum og erlendum stór­fyr­ir­tækj­um.
[…]
Frá 2013 hefur aftur sótt í sama horf. Auð­leg­ar­skattur var aflagð­ur, veiði­gjöldin lækk­uð, álver­unum gef­inn eftir orku­skatt­ur­inn og geta þau því flutt út enn meiri hagnað án skatta. Skatt­leys­is­mörk og skil skatt­þrepa, nema það efsta, voru látin drag­ast aftur úr launa­þróun og þótt hækkun fjár­magnstekju­skatts­ins hafi verið látin standa og í hana bætt lít­il­lega hefur þró­unin orðið sú að síauk­inn hluti tekna kemur fram sem fjár­magnstekjur eða er lok­aður inni í eign­ar­halds­fé­lögum og kemur alls ekki til skatt­lagn­ingar vegna laga­á­kvæða um einka­hluta­fé­lög og skatt­lagn­ingu þeirra. Skatt­lagn­ing raun­veru­legra fjár­magnstekna er því bæði lítil og götótt. Við þetta bæt­ist að sjálf­taka for­stöðu­manna fyr­ir­tækja, einkum fjár­mála­stofn­ana, kommiss­ara hags­muna­sam­taka, svefn­bæja­stjóra o.fl. er að koma á áður óþekktum launa­mun í sam­fé­lag­inu. Hin efna­hags­lega gliðnun sem fram kemur í söfnun auðs á fáar hendur og mis­skipt­ing tekna ásamt með­vit­aðri og ómeð­vit­ari mis­skipt­ing skatt­byrði er bak­sviðið fyrir kröfum verka­lýðs­hreyf­ing­ar­innar og kallar á rót­tækar breyt­ingar á skatt­kerf­inu. Dúsa dugar skammt.“

Baksíðupistill Steinunnar Stefánsdóttur um „öfgafemínisma“ í Mannlífi 22.2.2019:
„Meðan hugtökin femínismi og femínisti voru að síast inn voru þau iðulega notuð sem skammaryrði en eftir því sem þau náðu meiri útbreiðslu og sátt varð um notkun þeirra varð máttlausara að reyna að festa skömm við þessi hugtök. Og þá urðu til hugtökin öfgafemínismi og öfgafemínisti.
[…]
Því er oft haldið fram að í femínisma felist að konur vilji taka völd. Það er bæði rétt og ekki rétt. Femínistar vilja að valdastólar vítt og breitt og í öllum lögum samfélagsins séu skipaðir konum til jafns við karla og þar sem slíkir stólar hafa verið skipaðir fleiri körlum en konum fram til þessa þá felst auðvitað í því að einhverjum körlum sem í óbreyttum heimi hefðu hlotnast völd munu verða af þeim. Í þessu samhengi er samt mikilvægt að hafa í huga að konur og karlar eru ekki tvö lið sem berjast hvort gegn öðru því öll erum við bara fólk, fólk sem hlýtur að eiga sama rétt og sömu möguleika, óháð kyni. Það eru nú allar öfgarnar.“

Leiðari Steingerðar Steinarsdóttur um kynferðisofbeldi, vændi og áfallastreituröskun í Mannlífi 15.2.2019:
„Ég man að þegar ég var barn var mér sögð saga af kennara sem barði reglulega þrjá drengi úr nemendahópi sínum. Þetta voru bræður og mjög uppvöðslusamir. Þegar tekið var á kennaranum fyrir þetta og honum bannað að slá drengina sagði hann: „Þeir eru barðir heima og skilja ekki annað.“ Ég man enn hvað þetta stakk mig í hjartað. Tíu ára gömul skildi ég að það er enn verra ofbeldi að níðast á þeim sem aðrir hafa þegar brotið niður en að ráðast gegn manneskju er stendur sterk á svellinu.

Mikið vona ég að réttlætiskennd og dómgreind annarra samborgara minna sé svipuð og þeir skilji að með því að notfæra sér neyð og vanlíðan konu í vændi er verið að beita hana síendurteknu ofbeldi. Og að sá dagur renni upp að eftirspurn eftir vændi í okkar samfélagi þurrkist upp.“

Grein eftir Gunnar Hrafn Jónsson í Stundinni 27.1.2019 um þá sem eru viðkvæmir fyrir viðkvæmni. Útgangspunkturinn er Gillette auglýsingin sem (sumir) karlmenn álitu árás á karlmennskuna.
„Menningarstríð geisar í hinum vestræna heimi, þar sem tekist er á um grundvallargildi á tímum fjölmenningar og réttindabaráttu. Birtingarmyndir þessara átaka eru margar og fjölbreyttar í dægurmenningunni en rauði þráðurinn er oftar en ekki sjálfsmynd ungra karlmanna.
[…]
Stór, hávær og vaxandi hópur ungra karlmanna á netinu skilgreinir sig pólitískt til hægri og hefur mjög sterkar og íhaldssamar skoðanir á því sem þeir álíta óæskilegar breytingar á bæði samfélagsmynstri og dægurmenningu Vesturlanda. Kjarninn í þessari hugmyndafræði er oftar en ekki andstaða við allt sem tengist femínisma, menningarlegri fjölbreytni og auknu tilliti til hinsegin fólks í samfélaginu. Þessi hreyfing hefur meðal annars verið afdráttarlaus í stuðningi sínum við Donald Trump.

Það er ekki hægt að tala um þessi menningarstríð án þess að minnast á hugtakið menningar-marxisma sem fyrrnefndur Jordan Peterson hefur meðal annars haldið á lofti. Þetta fyrirbæri er það sem Social Justice Warriors eru sagðir vera að berjast fyrir og það sem ógnar hvítum karlmönnum nútímans svo mjög.

Þeir sem berjast gegn menningar-marxisma kvarta mikið undan viðkvæmni og PC-menningu sem tröllríði öllu nú til dags. Þeir segja að vinstrið hafi tapað hugmyndafræðilega með falli kommúnismans en sé nú að reyna að smygla sér aftur til áhrifa undir yfirskini samkenndar. Hið raunverulega markmið með femínisma og réttindabaráttu minnihlutahópa sé að endurmóta samfélagið eftir höfði marxista.

„Sú hugmynd, að konur hafi verið kúgaðar í gegnum söguna, er hræðileg kenning,“ segir Peterson. „Hugmyndin um að hvítir njóti forréttinda er lygi marxismans.“ Þá segir hann að þeir sem trúi á tilvist transfólks séu jafn slæmir og þeir sem trúi á flata jörð.

Frá þessum sjónarhóli eru það marxistar í skúmaskotum samfélagsins sem stunda kúgun og fasisma með því að neyða sínar skoðanir upp á aðra. Breytt samfélagsgerð og róttækar breytingar á hugmyndafræði síðustu áratugi séu þannig hluti af samsæri frekar en félagsfræðilegri þróun sem hefur átt sér stað samtímis um öll Vesturlönd.
[…]
Fylgjendur kenninga um menningar-marxisma hafa í dag flestir afneitað þessum eldri hugmyndum eða útfært þær á nýjan hátt sem sniðgengur meintan þátt gyðinga í samsærinu. Bandaríski stjórnmálamaðurinn Pat Buchanan og norski hryðjuverkamaðurinn Anders Behring Breivik eru meðal þeirra sem hafa varið miklu púðri í að aðlaga þessa hugmyndafræði að nútímanum með skrifum sínum.
[…]
Lind vildi meina að kommúnistar hefðu notað menningar-marxisma til að grafa undan bandarískum gildum áratugum saman. Meðal annars væri hippamenningin runnin undan rifjum marxista og friðarhreyfingar almennt. Menningar-marxista sagði hann róa öllum árum að því að tryggja yfirráð femínista, hinsegin fólks og blökkufólks í vestrænu samfélagi. Það væri gagngert hugsað til að veikja þessi samfélög að innan og innleiða alræðishyggju.“

Öðruvísi og skemmtilegur og fróðlegur leiðari Kjartans Hreins Njálssonar í Fréttablaðinu 5.2.2019:
„Árið 2019 er alþjóðlegt ár lotukerfisins. Flest þekkjum við lotukerfið – þessa undarlegu kassaröð sem hékk á vegg í skólastofunni sem stolt yfirlýsing um að hér væru sannarlega vísindi stunduð – en fæst höfum við freistað þess að raunverulega skilja skammstafanirnar, loturnar og gildisrafeindirnar sem mynda grundvöll þessa sögulega afreks mannsandans sem lotukerfi Rússans Dmítrí Mendelejev er.
[…]
Breski heimspekingurinn Bertrand Russell komst að þeirri vafasömu niðurstöðu eftir að hafa kynnt sér eiginleika joðs og áhrif efnisins, eða skort þess í líkamanum, á gáfnafar einstaklinga, að ómögulegt væri að aðskilja sálina frá líkamlegum ferlum. Þannig væri andlegt líf mannskepnunnar, heilsa hennar og allur sá harmur sem hún upplifir í raun ekkert nema lotukerfið.“

Sá hinn sami Kjartan Hreinn skrifaði leiðara 22.1.2019 þar sem hann gagnrýndi skýrslu Hagfræðistofnunar um hvalveiðar, og sagði þá m.a.:
„Jafnframt er ómögulegt að horfa fram hjá siðferðilegum álitamálum þegar hvalveiðar eru annars vegar. Ef hægt er að velta upp hugmyndum um lagasetningu til að sporna við hryðjuverkastarfsemi róttækra náttúruverndarsinna, líkt og gert er í skýrslunni, þá ætti sannarlega að vera hægt að fjalla um ný vísindi um vitsmuni þessara spendýra og margslungið hegðunarmynstur.

Skýrslan dregur óneitanlega dám af þeirri skaðlegu og aldagömlu hugmynd að manneskjan sé á einhvern hátt ofar öðrum lífverum sett. Að náttúran sé auðlind sem óhætt sé að hagnýta út í hið ýtrasta. Blessunarlega eru slíkar hugmyndir á undanhaldi. Það að einblína aðeins á stofnstærð eða heildaráhrif og hundsa velferð hvers einstaklings er vitnisburður um bjagað gildismat, það gengur þvert gegn nútíma þekkingu og á lítið erindi í upplýsta umræðu um samspil mannskepnunnar og náttúrunnar.“

Að lokum þetta: Af einhverjum orsökum var ekki sagt múkk um það hér á blogginu þegar Auður Ava Ólafsdóttir fékk bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs síðastliðið haust. Líklega hefur fögnuðurinn yfir þessum tíðindum sent blogghöfund í ótímabundið blakkát. En lesið Ör, og lesið auðvitað líka Ungfrú Ísland og lesið allar hinar bækur Auðar Övu.

Efnisorð: , , , , , , , , , , ,