miðvikudagur, mars 20, 2019

Jafndægur á vori og veðrið eftir því

Samkvæmt dagatali bloggheimilisins er í dag jafndægur á vori. Flestum er kennt að sólin rísi í austri og setjist í vestri en það er ekki alltaf alveg rétt. Þótt nafnið bendi til þess að dagurinn sé þá jafnlangur nóttunni er það ekki alveg rétt heldur: Á vorjafndægrum eru dagur og nótt ekki alveg jafnlöng — við njótum örlítið meiri dagsbirtu en myrkurs. Jafndægur eru einu tveir dagar ársins þar sem sólin rís nákvæmlega í austri og sest nákvæmlega í vestri.*

Myrkur vetrarins er semsagt að baki. Þetta hefði getað orðið mikill gleðidagur ef ekki hefði verið fyrir hefðbundið vetrarveður: kalt og vindasamt. Hér í höfuðborginni hiti við frostmark og leiðindarok en stefnir í öllu verra við Breiðafjörð, á Vestfjörðum og Ströndum og Norðurlandi vestra. Þar hljóðar spáin uppá:
Suðvestan hvassviðri eða stormur, með dimmum éljum og skafrenningi, einkum á fjallvegum.
Samt markar þessi dagur upphaf vorsins því dagsbirtan hefur haft sigur yfir myrkrinu. Vindbarið húrra fyrir því.

___
* Allar upplýsingar og orðalag um vorjafndægur eru af Stjörnufræðivefnum.

Efnisorð: