fimmtudagur, mars 28, 2019

Samgöngur bótaþega

Váfuglinn hefur hrapað og þúsund manns eða meir sjá framá að verða bótaþegar. Eðlilega eru allir fréttatímir undirlagðir þessum fréttum. Ugg setur að almenningi við tilhugsunina um efnahagsniðursveiflu þjóðfélagsins; nú eru allir búnir að gleyma að fyrir nokkrum dögum gekk áróður atvinnulífsins útá að kjarakröfur verkalýðsins gætu sett hér allt á endann. Fróðlegt verður að sjá hvort leiðarar Fréttablaðsins á næstunni muni ganga útá að skamma Skúla eins og þar hefur verið skammast útí verkalýðsforystuna. En af tóninum sem víða hefur heyrst í dag er líklegra að honum verði klappað á bakið og verði sýnd samúð.

Í gær voru mér annarskonar samgöngumál hugleikin en loftfimleikar fjármálagosans. Þá sá ég auglýsingu (bls. 9) um flutning Tryggingarstofnunar frá Laugavegi í Hlíðarsmára 11 í Kópavogi. Það er í sömu götu og Sýslumaðurinn á höfuðborgarsvæðinu er til húsa. Nú vill svo til að nýlega átti ég erindi á síðarnefndu stofnunina og get upplýst að annarsvegar er þetta ekki auðfundið, hinsvegar að þangað eru strætósamgöngur afleitar. Það er strætóstoppistöð í brekkunni upp frá Smáralind, en bara leið 24. Sá vagn stoppar í Mjódd en fer hvorki á Lækjartorg né Hlemm, það er því ansi langsótt fyrir marga að nota strætó til að komast í Hlíðarsmára. Hinsvegar stoppa margir vagnar við Smáralind. En allmargir bótaþegar (þessir sem ekki eru á flugfreyjuhælum) sem eiga erindi til Tryggingastofnunar eiga líklega erfitt með að klífa brekkuna upp í Hlíðarsmára. Eiga svo eftir að ganga inn alla götuna til að finna stofnunina sem auglýsir að hún sé nú „með betra aðgengi“.

Við Laugaveginn voru bara örfá stæði fyrir utan Tryggingastofnun, satt er það. Og stofnunin þurfti vissulega að flytjast af Hlemmi vegna myglu,en hefði ekki mátt finna aðra staðsetningu sem lá betur við almenningssamgöngum? Meðan opinberir aðilar keppast við að hvetja fólk til að nota bílinn minna auglýsir Tryggingastofnun stolt: næg bílastæði. Það hlýtur bara að vera að bílastyrkir til aldraðra og öryrkja verði hækkaðir rausnarlega og í boði fyrir alla í tilefni flutningana.

Efnisorð: , , , , ,