miðvikudagur, maí 01, 2019

1. maí 2019

Það liðu ekki margir dagar frá því að skrifað var undir kjarasamninga þar til Sólveig Anna Jónsdóttir formaður Eflingar, í félagi við Þuríði Hörpu Sigurðardóttur formann Öryrkjabandalagsins, birti grein um hvað væri næst á dagskrá. Einhverjir verkalýðsforingjar hefðu haft það náðugt eftir langa kjarabaráttu sem endaði með ásættanlegum samningum en ekki þessi verkalýðsforingi. Reyndar byrjar greinin á því að segja frá því að formaður Eflingar og formaður VR hafi hitt forsvarsmenn Öryrkjabandalagsins í vikunni eftir að skrifað var undir hinn svokallaða lífskjarasamning. Þau séu sammála um það að bæta þurfi kjör lágtekjufólks verulega:
„Þetta á ekki aðeins við um launafólk heldur einnig örorkulífeyrisþega og stóran hóp aldraðra. Enda þótt hóparnir þurfi að berjast hatrammri baráttu fyrir betri kjörum, er einn munur á. Launafólk getur samið um sín kjör og fylgt kröfum sínum eftir gagnvart atvinnurekendum, jafnvel með verkfallsaðgerðum. Þetta á ekki við um lífeyrisþega. Þeir eru undir náð og miskunn ríkisstjórnar og Alþingis komnir hverju sinni. Ljóst er að það fyrirkomulag hefur haldið öryrkjum og hluta aldraðra í fátækt.“
Og Sólveig Anna og Þuríður Harpa spyrja:
„Ættu örorkulífeyrisþegar og sömuleiðis ellilífeyrisþegar ekki að eiga sæti við samningaborðið? Ljóst er að þessir hópar eiga fullan rétt á því að lifa mannsæmandi lífi, eins og annað fólk. Þau sem tilheyra þessum hópum hafa velflest verið í verkalýðsfélögum ýmist allan eða stóran hluta starfsævinnar. Það er í öllu falli fullreynt að sýna traust til stjórnvalda. Það gengur ekki lengur að þau skammti sumum hópum úr hnefa eins og hingað til og taki þátt í að viðhalda grimmu og mannfjandsamlegu kerfi. Þetta er sanngjörn krafa tugþúsunda kvenna og karla. Næst á dagskrá hlýtur að vera Lífskjarasamningur númer tvö.“
Báðar þessar baráttukonur voru saman á útisviði á Ingólfstorgi í dag og héldu ræður í tilefni dagsins. Það er ánægjulegt að sjá slíka samstöðu verkalýðsforingja og lífeyrisþega.

Auglýsingar Húsgagnahallarinnar og Rúmfatalagersins um verðtilboð á vörum í — á degi þar sem ætti að vera lokað en starfsfólkið ekki látið vera enn meira á þönum en venjulega — fór í taugarnar á fleirum en mér. Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, gerði þessar auglýsingar að umtalsefni og var harðorður, eðlilega.

Ragnar Þór var líka ómyrkur í máli þegar hann ræddi boðaðar verðhækkanir hjá ÍSAM. Það batterí á Mylluna, Ora, Kexverksmiðjuna Frón og Kexsmiðjuna, og rétt á meðan atkvæðagreiðslu um kjarasamningana stóð tilkynnti ÍSAM um 3,9 prósenta hækkun á öllum vörum fyrirtækjanna yrðu samningarnir samþykktir.

Mér þótti reyndar alveg gleymast að ræða hvað ÍSAM er og hver á fyrirtækið. Þetta er skammstöfun á gamla nafninu Íslensk-Ameríska og er fyrirtæki í eigu Guðbjargar Matthíasdóttur, útgerðarkonu í Eyjum og stóreiganda Morgunblaðsins. Hún er ekki á flæðiskeri stödd og varla hefur hana munað mjög um þessa hækkun, hafandi nýverið greitt sér út 3,2 milljarða arð úr útgerðarfélaginu. Það er ekki óvart að ÍSAM, sem er í eigu manneskju sem styrkir taprekstur Moggans þar sem barist er gegn hækkun veiðigjalda og talað var gegn hækkun lægstu launa, skuli koma með þetta verðhækkunarútspil. Því var greinilega ætlað að spilla fyrir því að kjarasamningarnir yrðu samþykktir. Þetta er útfærsla á hugmyndafræði þeirra ríku og valdamiklu.

Það voru skilaboðin til verkalýðsins: dirfist ekki að heimta að geta brauðfætt ykkur og börnin ykkar. Við munum ganga á undan með verðhækkunum á brauði og keyra þannig af stað verðhækkanir sem gera launahækkanir ykkar að engu.

Slík eru viðhorf auðstéttarinnar. Þar er nú aldeilis ekki samhygðin með verkalýðnum og lífeyrisþegunum.

Baráttunni um brauðið er ekki lokið.

Efnisorð: , , ,