mánudagur, maí 13, 2019

Frumvarp um þungunarrof samþykkt!

Alveg var ég viss um að atkvæðagreiðslu um þungunarrofsfrumvarpið yrði frestað, tekið af dagskrá og geymt þar til aldrei. En svo fór ekki, jafnvel þótt yndið okkar allra hann Sigmundur Davíð hefði stigið í pontu og farið framá frestun. Reyndar stigu held ég öll Klaustursvínin í pontu (kannski ekki Gunnar Bragi?) og tjáðu sig — sem flestum finnst óþarfi af þeim enda búin að segja nóg fyrir lífstíð. Og öll voru þau auðvitað á móti frumvarpinu en samt ekki vegna þess að þau væru á móti kvenfrelsi sko. Ekki mjög trúverðugt. Ekki mjög geðslegt fólk.

Hinir aðalandstæðingar frumvarpsins voru Flokkur fólksins sem var með afleitan málflutning. Já og svo voru nokkrir Sjálfstæðismenn sem alveg þvert ofan í allt sitt frelsishjal alla daga hafa ýmislegt við frelsi kvenna til að taka sínar ákvarðanir sjálfar. Í þeim flokki eins og almennt í málinu voru það karlmennirnir sem þóttust hlynntir sjálfsákvörðunerrétti kvenna en vildu þó ekki að þau trompi allt — eins og Bjarni Ben (einn af þeim sem skreytir sig með #heforshe) komst að orði. Svo var Sigríður Andersen auðvitað á móti frumvarpinu. Semsagt karlar og aðrir andfeministar upp til hópa.

En frumvarpið var nú samþykkt samt. Húrra fyrir því.

Þetta var löngu tímabær áfangi í kvenfrelsisbaráttunni.

Efnisorð: ,