föstudagur, júní 21, 2019

Konur mega ekki ræða um kynferðisofbeldi sem þær eða aðrar konur verða fyrir, samkvæmt dómi

Hér hefur verið illilega svikist um að birta pistil á 19. júní. Ekki nóg með það heldur átti launsátursbloggið afmæli í gær og ekkert var birt þá heldur. Svik á svik ofan. En nú verður bætt úr því með því að skauta á hraðferð yfir það mál sem tengist umfjöllunarefni bloggsíðunnar verulega. Kynferðisbrotum, umfjöllun um þau, og feminisma.

Í vikunni voru semsé tveir feministar (eða ég gef mér að Oddný Arnardóttir sé feministi rétt eins og Hildur Lilliendahl) dæmdar til að greiða skaðabætur fyrir að hafa skrifað um svokallað Hlíðamál (sem einnig var skrifað um hér á síðunni) en það er nauðgunarkærumál sem snerist um að tveir menn voru kærðir fyrir að hafa í sameiningu nauðgað konu, og svo annarri nokkrum dögum síðar (eða þannig minnir mig að málsatvik hafi verið). Fréttablaðið var líka krafið um miskabætur og afsökunarbeiðni vegna forsíðufréttar þar sem sagði að íbúð karlmannanna hefði verið „sérútbúin til nauðgana“*, en feministarnir höfðu skrifað ummæli sín útfrá þeirri frétt.** Lögmaður karlmannanna sem voru kærðir í Hlíðamálinu er reyndar þekktur fyrir að hóta öllu og öllum skaðabótamáli sem leyfa sér að segja múkk um ekki bara þessa skjólstæðinga hans heldur alla aðra sem hann tekur að sér að verja, ekki síst í kynferðisbrotamálum. En nú endaði það semsagt að konur sem eru feministar voru dæmdar til greiðslu skaðabóta. Það er nefnilega eins og Þórdís Þorvaldsdóttir segir:
„Þú mátt trúa gömlum kreddum úr fornum trúarritum en ekki glænýjum fréttaflutningi um kynferðisofbeldi, þá ertu á hálum ís. Né máttu endursegja slíkar fréttir út frá eigin sannfæringu án þess að eiga skaðabótamál yfir höfði þér, jafnvel þótt þú nefnir engin nöfn, jafnvel þótt þér sé ekki einu sinni kunnugt um hverjir hinir grunuðu eru. Þér er nefnilega lagalega óheimilt að halda öðru fram en að þú trúir á sakleysi grunaðra ofbeldismanna, eða leyfir þeim að minnsta kosti að njóta vafans, óháð því hversu nákominn brotaþolinn er þér eða hversu lífsnauðsynlegur stuðningur þinn væri geðheilsu hans. Þú mátt ekki verja heiður fólks sem þú elskar þegar það lendir milli tannanna á Virkum í athugasemdum og er sakað um að hafa logið til um ofbeldið sem það var beitt, eða kallað það yfir sig með einhverjum hætti.“
Það má kæra fólk fyrir að taka (mark á fréttaflutningi) opinberlega afstöðu gegn nauðgurum og með þolendum.

En þegar nánar er að gáð reynist dómurinn í málinu vera mjög gildishlaðinn. Dómarinn sjálfur virðist síður en svo hlutlaus, ekki bara í dómsorði heldur í skrifum sínum gegn feministum og málefnum sem feministar brenna fyrir. Árið 2017 bar dómarinn, Arnar Þór Jónsson, blak af Robert Downey, sem áður hét Róbert Árni Hreiðarsson, og spurði hvort við sem samfélag vildum brennimerkja fólk; „Þegar öllu er á botninn hvolft, þá snýst þetta um það hvers konar samfélagi við viljum búa í“. Sama ár skrifaði hann gegn fóstureyðingum í Moggann. Hann svo skrifaði aftur grein í Moggann*** í fyrra þar sem hann hamaðist gegn stjórnendum Facebookhópsins Karlar gera merkilega hluti, en þar er Hildur Lilliendahl meðal stjórnenda; mánuði síðar er hann skipaður dómari í málinu gegn henni. Í greininni líkir hann stjórnendum, þarámeðal Hildi, við nasista.

Illugi Jökulsson skrifar ágætan pistil um dóminn:
„Dóminum yfir Oddnýju og Hildi verður vonandi áfrýjað. Hvaða skoðun sem menn kunna að hafa á orðum þeirra, þeim sem kært var fyrir, þá eiga þær eins og aðrir rétt æa að vera dæmdar af verkum sínum en ekki verða einshverskonar sektarlamb fyrir þörf dómara til að belgja sig. Og það verður að útkjá hvort æðri dómstólar á Íslandi gúteri þær forsendur sem dómarinn byggir niðurstöðu sína á.“
Mér þykir að auki blasa við að fara fram á ógildingu dómsins þar sem dómarinn hlýtur að hafa verið óhæfur til að dæma í máli feminista, þar af konu sem hann hefur beinlínis skrifað um, og sem honum virðist mjög í nöp við.

___
* Þetta orðalag breyttist í meðförum annarra og talað var um að íbúðin hefði verið „sérútbúin til nauðgana“.
** Oddný Arnardóttir, önnur hinna dæmdu útskýrir í hvaða samfélagslega samhengi ummælin féllu.
** Þetta eru læstar greinar sem þarf að borga fyrir og þessvegna er ekki hlekkur á þær hér.

Efnisorð: , , ,