laugardagur, júní 15, 2019

Glæpavæðing samkenndar

Sif Sigmarsdóttir skrifar um glæpavæðingu samkenndarinnar í pistli í dag. Hún er þar að tala um þessi ömurlegu dæmi sem hafa verið í fréttum undanfarið frá Evrópuríkjum „ þar sem almennir borgarar eru ákærðir, dæmdir og sektaðir fyrir almenna manngæsku í garð flótta- og farandfólks fer snarfjölgandi“.

Sif nefnir dæmi: Sóknarprestur í Þýskalandi gæti átt fangelsisvist yfir höfði sér fyrir að skjóta skjólshúsi yfir flóttamenn frá Súdan.

Vefurinn Open Democracy hefur tekið saman 250 dæmi um slíkt á síðustu fimm árum. Þar á meðal eru spænskur slökkviliðsmaður sem átti yfir höfði sér þrjátíu ára fangelsi í Grikklandi fyrir að bjarga flóttafólki frá drukknun, franskur ólívuræktandi sem var handtekinn fyrir að gefa farandfólki mat við landamæri Ítalíu og sjötug dönsk amma sem var dæmd og sektuð fyrir að gefa fjölskyldu með ung börn far í bíl sínum.

Þar að auki samþykkti Ítalska ríkisstjórnin nú í vikunni „tilskipun sem gerir það formlega refsivert að bjarga flótta- og farandfólki á Miðjarðarhafinu. Hunsi hjálparsamtök reglurnar mega þau eiga von á háum sektum“.

Allt ofangreint miðar að því að stöðva för ‘óæskilegs fólks’ til Evrópu, og liður í því er að meina öðrum að hjálpa þeim á neinn hátt. Það er viðbjóðsleg og rasísk stefna, og enn viðbjóðslegra er að nota lög og dómstóla til að framfylgja þessari stefnu.

Þegar blogghöfundur las þennan ágæta pistil Sifjar sem fjallar um siðblindu, átök góðs og ills, og glæpavæðingu samkenndar þá flettist upp í fréttaminninu dæmi hér á landi — alls ótengd rasisma þó eða flóttamönnum yfirleitt — þar sem skilaboðin eru augljóslega þau að það borgi sig ekki að hjálpa öðrum.

Við skjóta leit fannst eitt þeirra frá árinu 2017.
Bjargvættur á ekki rétt á bótum úr ábyrgðartryggingu bifreiðar eftir að hafa slasast við að draga ökumanninn úr bifreiðinni. Þetta er niðurstaða úrskurðarnefndar í vátryggingamálum.

Málsatvik voru þau að þann 24. nóvember 2015 varð harður árekstur í Ljósavatnsskarði. Sagt var frá honum á sínum tíma og myndband birt af honum. Eftir áreksturinn kviknaði í annarri bifreiðinni.

Mikil mildi þykir að enginn hafi týnt lífi í árekstrinum. Það má meðal annars rekja til þess að ökumaður sem kom að slysinu brást við og dró slasaðan ökumann úr bifreiðinni sem kviknaði í. Við þá björgun kippti ökumaður brennandi bifreiðarinnar í hönd hans með þeim afleiðingum að bjargvætturinn slasaðist á hægri öxl.
Ekki veit ég hvort bjargvætturinn hefði átt rétt á einhverskonar opinberum bótum (líklega ekki úr því reynt var að sækja þær til tryggingafélagsins) en það er óneitanlega nöturlegt að slasist einhver við að bjarga mannslífi þá geti tryggingafélög — eða úrskurðarnefnd á vegum tryggingafélaga í þessu tiviki — úrskurðað alveg ískalt að hann eigi ekki að fá það bætt. Það eru ekki beinlínis skilaboð sem ala á samkennd. Vonandi verður það þó ekki til þess að fólk hiki við að bjarga öðrum. Það er samt auðvitað langur vegur frá því að bæta ekki einhverjum skaða eða beinlínis refsa fyrir að sýna samkennd, en hugsunin að baki er jafn brengluð fyrir því, hvort sem hún er rasísk eða í þágu kapítalískra stórfyrirtækja.

Vonandi verður það aldrei sett í lög hér að refsivert sé að rétta öðrum hjálparhönd.

Efnisorð: , ,