fimmtudagur, júlí 04, 2019

Ekki eru öll grá hár eins

Það er ánægjulegt hve margt fólk mætti í miðbæinn, þrátt fyrir slæma veðurspá, og mótmælti brottvísunum barna. Þar var fólk á öllum aldri, mörg börn en líka margir miðaldra og þaðanaf eldri. Þrátt fyrir óþægilegar tölur sem má sjá í skoðanakönnunum eru semsagt ekki allt fólk sem er komið yfir miðjan aldur á móti flóttamönnum og hælisleitendum. Kannski ekki allt hlynnt Miðflokknum heldur. Það gladdi mig að sjá þau sem afsanna slíkt.

Annars er fátt til að gleðjast yfir á þessum degi. Það er vond tilhugsun að börnin, sem barist er fyrir að fái að verða hérna áfram, verða mjög líklega send úr landi í næstu viku.

Og þó þau fengju að vera kyrr, svona útaf mótmælum og athygli fjölmiðla — hvað um þau börn sem síðar meir eiga eftir að koma hingað (eða þau sem þegar eru komin), hljóta þau sömu meðferð?

Helvíti sem þetta er ömurlegt system í þessu 'barnvæna' landi.

Efnisorð: , , ,