föstudagur, júlí 05, 2019

Allt er þegar þrennt er vont

Í gær ákvað borgarráð að leyfa eyðileggingu Elliðaárdalsins. Þeim finnst í lagi að troða 4500 fermetra hlussuhýsi + bílastæðum beint ofaní útivistarsvæði. Svo ekki sé nú talað um raskið og ónæðið meðan á byggingu ferlíkisins stendur. Það eina sem getur komið í veg fyrir þetta er íbúakosning, en ég er reyndar ekkert of bjartsýn á að hún verði haldin né að niðurstaðan verði að hlífa Elliðaárdalnum.

Hvalveiðstoppið stóð stutt yfir. Nú er besti vinur aðal, hann Kristján Júlíusson búinn að gefa hinum Kristjáninum leyfi til að veiða langreyðar næstu fimm ár. Það er með ólíkindum hvað Sjálfstæðisráðherrum rennur alltaf blóðið til styrkveitenda flokksins.

Og svo kom útspil dómsmálaráðherra í kjölfar mótmæla gegn brottvísun barna. Hún hefur af miklum hagleik sett saman reglugerð sem miðar eingöngu að þeim tveimur málum sem í umræðunni hafa verið þessa viku (án samt nokkurra loforða um að þessum tilteknu börnum verði hlíft við brottvísun) — þetta er semsé ekki reglugerð sem breytir stöðu annarra barna sem hafa komið eða eiga eftir að koma hingað. Bara verið að redda sér frá þessu fjölmiðlafári og æstum múgnum. Svo virðist eiga að leggja allt kapp á að — ekki að tryggja börnum sem koma úr erfiðum aðstæðum búsetu hér, nei — fleygja meiri peningum í kerfið svo það virki hraðar og vísi börnum fyrr úr landi áður en þau festa rætur (það er verst greinilega að mati ráðherra), og verða þannig Íslendingum einhvers virði. BURT MEÐ ÖLL BÖRN er stefnan. Samt var ákall mótmælanna í gær: FYRIR ÖLL BÖRN. En auðvitað stóð aldrei til að hlusta á það heldur bara losna undan óvæginni gagnrýni.

Ég hata borgaryfirvöld fyrir að skipuleggja burtu græn svæði í borginni.

Ég hata að óðir peningakallar geti fengið ráðherra til að gefa sér leyfi til að pynta dýr sem eru þaraðauki í útrýmingarhættu.

Ég hata að það sé stefna ríkisstjórnarinnar að hrekja börn burt.

Við ættum að taka á móti miklu fleiri flóttamönnum, miklu fleiri hælisleitendum. En af öllum þeim sem við eigum ekki að vísa burt hljóta börn að vera efst á lista.

Svei þessari ríkisstjórn og fólkinu sem í henni situr.

Efnisorð: , , , , , ,