þriðjudagur, júlí 16, 2019

Með hvers manns nef ofan í koppi

Í mörgum rómantískum bíómyndum er atriði þar sem foreldrar sýna nýju kærustu sonarins myndir af honum barnungum í matrósarfötum eða jafnvel nöktum á gæruskinni. Flest fólk ætti að hafa séð svona atriði í bíó eða jafnvel upplifað álíka vandræðaleg augnablik. Ætti því varla að þurfa umboðsmann barna til að segja foreldrum að birta ekki vandræðalegar myndir af börnum sínum á samfélagsmiðlum, eða þótt þær séu krúttlegar og fylgi krúttleg saga með. Meira segja óhófleg ánægja foreldra með börn sín getur verið pínleg fyrir börnin. En samt hamast fólk við að birta þetta allt og meira til. Þessvegna hefur bæði umboðsmaður og Persónuvernd þurft að gefa út leiðbeiningar eða jafnvel úrskurða í slíkum málum.

En hvað um gamla fólkið? Ættingjar fara hiklaust til fjölmiðla með lýsingar á vanrækslu á elliheimilum — sem er auðvitað þarft að gera uppiskátt um. Varla er þó nauðsynlegt að lýsa niðurlægjandi meðferð á hinum öldruðu, og ræða jafn bleyjur sem klósettferðir og allt sem því tilheyrir, á persónugreinanlegan hátt? Nú um helgina var t.a.m. frétt í DV* þar sem ættingjar kynna sig með nafni og segja hvernig þeir eru skyldir hinum aldraða (svo allir geti örugglega áttað sig á hver hann er) og lýstu aðstæðum hans fyrir alþjóð.

Má þetta eitthvað frekar? Getur enginn tekið í taumana þarna?

___
* Það er með vilja gert að hafa ekki hlekk á fréttina.

Efnisorð: , ,