mánudagur, ágúst 05, 2019

Hlustaði eingöngu á mömmu sína, en forhertist svo eftir það

Alla helgina hef ég verið að hugsa um skammirnar sem mamma hans Bergþórs Ólasonar lét dynja á hann eftir að uppvíst varð um orðbragð hans og hegðun á Klausturbarnum. Einu skammirnar sem hann tók mark á.

Ég hefði sannarlega viljað vera fluga á vegg þegar skammirnar dundu á Bergþóri sorakjafti, ekki bara til að sjá svipinn á honum eða heyra hvort hann beitti málþófi og andsvörum, heldur aðallega til að vita hvernig ræðunni lauk. Sagði hún að lokum við hann að nú skyldi hann snúa sér að því að ofsækja öryrkjann sem tók upp samtalið? Benti hún honum á að þeir Miðflokksmenn yrðu að finna sér eitthvað þingmál til að ræða linnulaust næstu mánuði svo að Klausturræpan gleymdist og fylgi flokksins yxi í samræmi við fjölda klukkustunda í ræðustól Alþingis? Eða tók hún upp símann og benti á samviskulausan almannatengil sem gæti hannað þá atburðarrás fyrir Klausturdónana? Eða gekk kannski Bergþór af fundi móður sinnar með heilög loforð á vörum um að vera héreftir góði strákurinn og móður sinni til sóma?

Og hvað finnst mömmu hans um eftirleikinn?

Vill einhver vinsamlega taka viðtal við þessa konu. Hún hefur annaðhvort mikið á samviskunni (fyrir utan að hafa alið Bergþór upp) eða áhrifaleysi hennar til að snúa syni sínum af villubraut er brjóstumkennanlegt.

Ekki að Gunnar Bragi eða Sigmundur Davíð hafi neitt heldur látið sér að kenningu verða, hvort sem mæður þeirra höfðu eitthvað við framferði þeirra að athuga eða ekki. Um það hafa nokkrir ágætir pennar rætt.
1) Þórður Snær Júlíusson, tekur m.a. fyrir sameiginlegt bréf þremenninganna Sigmundar Davíðs, Gunnars Braga og Bergþórs.
2) Elísabet Ýr Atladóttir, bendir á hvernig Klausturdónarnir afskræma #metoo og segjast „vera „þolendur kynferðisofbeldis“, hafa orðið fyrir „erfiðri reynslu“ og að þeir hafi „opnað sig“ í því sem þeir héldu að væri „öruggt umhverfi“.
3) Kári Stefánsson (ekki beinlínis að fjalla um siðanefndarúrskurð) skrifar opið bréf til Sigmundar Davíðs: „í leit þinni að pólitískum stuðningi í samfélaginu ert þú að gera út á þá vonlausu og firrtu og í stað þess að varða þeim leið út úr því ástandi ertu að ala á vonleysinu og firringunni. Þú ert að fylgja fordæmi öfgaflokka í Evrópu og Trumps í Bandaríkjunum.“

Hér er svo aftur nýleg ræpa Miðflokksmanna eftir niðurstöðu Siðanefndar Alþingis, sem þeir líta á sem pólitískar ofsóknir. Nema hvað.
1) Gunnar Bragi. Hann segir líka að Ríkisútvarpinu sé ekki treystandi því það hafi fjallað sjaldnar um kynferðisáreitnismál Ágústs Ólafs Ágústssonar en Klausturmálið.
2) Sigmundur Davíð,
3) Bergþór Ólason, nefnir líka Ágúst Ólaf.

Hér vil ég bæta því við að mér finnst að Ágúst Ólafur hafi gert Samfylkingunni mikinn ógreiða með því að setjast aftur inná þing, enda hentugt fyrir þá sem vilja beina umræðunni frá svívirðilegu orðfæri Klausturdónanna að draga hann fram sem dæmi um tvískinnung. Dæmi um þetta sjást í athugasemdakerfum við næstum hverja frétt um Klausturmálið. Því mun aldrei linna meðan Ágúst Ólafur situr á þingi.

Eiginlega mætti segja að Þórhildur Sunna ætti líka að segja af sér, því hún hefur líka fengið skömm í hattinn hjá siðanefndinni. Það var ekki heppilegt að hún gagnrýndi þann úrskurð (þótt hann væri furðulegur) því eftir það hefur úrskurður sömu nefndar minna vægi, og ekki hægt að benda á að Klausturdónar einir hafi fengið þann þunga skell. Það væri slæmt að missa Þórhildi Sunnu af þingi en ef einhverntímann á að auka álit Alþingis verður kannski gott fólk að sýna fordæmi.

En nú er ég eins og hver annar draugfullur þingmaður sem týnir fötunum sínum í 48 tíma blakkáti — hef gleymt að ég var að tala um mömmu hans Bergþórs. Og hvernig meira segja skammarræða sem svíður undan getur snúist upp í fyrirlitlega málsvörn sé forherðingin nógu mikil.

Við sitjum öll uppi með þessa svívirðu.

Efnisorð: ,