sunnudagur, ágúst 18, 2019

Fyrirhuguð heimsókn Mike Pence

Þegar ég las yfirskrift leiðara Magnúsar Geirs Eyjólfssonar í Mannlífi, sem borið var í hús á föstudag, hélt ég að þessi væri nú aldeilis hlynntur Mike Pence varaforseta Bandaríkjanna og öllu því sem hann hefur sagt og gert og stendur fyrir. Því hvað annað á það að þýða að segja: „Tökum Mike Pence fagnandi“?

Því komst ég að þegar ég las leiðarann, og ég er ekki frá því að þar sé ég sammála Magnúsi Geir, þótt ég myndi varla nota orðalagið að taka Mike Pence fagnandi.

Um Mike Pence varaforseta Bandaríkjana hefur verið skrifað í íslenska fjölmiðla síðan ljóst varð að hann væri á leiðinni. Þar má nefna grein eftir þjóðkirkjuprest sem ræðir „íhaldskristni“hans og þá „hættulegu blöndu íhaldssamra stjórnmála og afturhaldssamrar kristni sem nú ríður húsum í Bandaríkjunum“, og grein eftir formann Samtakanna '78 sem segir m.a. að Mike Pence hafi um tíma setið í stjórn samtaka „sem mæla t.d. með afhommunarmeðferðum“ og segir hreinlega að „Mike Pence er annálaður andstæðingur og illgjörðarmaður hinsegin fólks“. Jón Valur Jensson segir hinsvegar, og er þá að tala um viðhorf Mike Pence til þungunarrofs (í aths. á DV), að Mike Pence sé „velgerðarmaður og bjargvættur kvenna“, og að hann og aðrir slíkir séu „réttnefndir velgerðarmenn mannkynsins“. Sem segir sitt.

En þetta eru semsé meginrök Magnúsar Geirs fyrir því að segja „heimsókn Mike Pence mikið fagnaðarefni“:
Heimsókn þessi er gráupplagt tækifæri fyrir stjórnvöld til að sýna að þau láta mannréttindabrot í heiminum ekki afskipt, sama hvar þau eru framin.
Og hann telur upp:
„Forsætisráðherra og utanríkisráðherra gætu til dæmis byrjað á því að fordæma stefnu Bandaríkjanna í innflytjendamálum. Annars vegar hvernig forseti Bandaríkjanna kyndir undir rasisma og notar hvert tækifæri til að jaðarsetja alla þá hópa sem ekki eru hvítir á hörund og hins vegar viðurstyggilega framkomu ICE (innflytjendastofnunarinnar) gagnvart innflytjendum og flóttamönnum.“
Hann bendir líka á að „íslenskir ráðamenn [geti] leiðbeint varaforsetanum um eitt og annað“ varðandi kvenfrelsi, kynjajafnrétti og „kerfisbundna mismunun gegn LBGT-fólki innan bandaríska hersins“.
Svo nefnir hann að ráðamenn mættu minnast á hvernig Trump grefur undan frjálsri fjölmiðlun, loftslagsbreytingaafneitun stjórnar hans, byssuvandamálið, og
„gegndarlausan fjáraustur til Sádi-Arabíu til að fjármagna grimmilegt og tilgangslaust stríð í Jemen á kostnað þúsunda óbreyttra borgara“.
Magnús Geir bendir á að almenningur geti mótmælt heimsókn Mike Pence „ef íslensk stjórnvöld ætla að láta þessa stefnu óátalda“.

Ég er mjög efins um að íslensk stjórnvöld segi mikið eða jafnvel nokkuð um neitt af þessu. Líklegra er að þau segi einfaldlega:
Yes, money, ókei.

Efnisorð: , , , , , , , , , ,