mánudagur, september 09, 2019

Ferðir í borgarlandslaginu í síðustu viku

Mikið var rætt um lokanir gatna í síðustu viku, og flestum blöskraði að varaskeifa appelsínugula trúðsins fengi að setja borgina á annan endann til þess eins að láta sér í léttu rúmi liggja hvaðeina sem íslenskir ráðamenn sögðu. Vonandi fengu samt Kínverjar skilaboðin, þótt þessi boðleið hafi verið heldur langsótt.

En það er önnur ferð sem mig langar að ræða hér. Ég tók mér líka á hendur ferðalag, nema mín ferðaáætlun fór öll úr skorðum og ég endaði lengst útí móa. Þannig var að aldraður einstaklingur sem ég þekki þurfti að endurnýja strætókortið sitt og þar sem ekki eru lengur seld kort á Lækjartorgi eða Hlemmi var augljóst að gera þurfti sér ferð í Mjóddina. Enda þótt aldraði einstaklingurinn sé auðvitað vanur að nota strætó þá fannst mér ég líka alveg sinnt mínum innkaupum í Mjóddinni eins og annarstaðar og úr varð að við fórum þangað saman. Nema svo kom babb í bátinn þegar í Mjódd var komið því í farmiðasölu Strætó var sagt að þar væru ekki lengur seld kort fyrir aldraða og öryrkja heldur þyrfti að sækja þau á Hestháls þar sem skrifstofur Strætó eru.

Það reyndist hafa verið heppilegt fyrir aldraða einstaklinginn að hafa þegið bílfarið því það er ekki áhlaupaverk að komast frá Mjódd að Hesthálsi. Samkvæmt leiðaleit Strætó þarf að taka tvo strætisvagna. Ferðin í vögnunum tekur minnst 15 mínútur og mest 38 mínútur eftir því hver er fyrri vagninn; síðan þarf að ganga fimm mínútna leið frá staðnum sem seinni vagninn (15 eða 18) stoppar — sem virðist vera á Vesturlandsvegi. Þetta er væntanlega ekki mjög hentugt fyrir marga aldraða og öryrkja.

Auk þess sem Hestháls er ekki í alfaraleið er byggingin sem hýsir Strætó innst í botnlanga og er þar heldur nöturlegt umhverfi fyrir gangandi fólk. En það skipti auðvitað litlu fyrir okkur úr því við vorum bílandi.

Þar sem ég sat í bíl fyrir utan skrifstofur Strætó meðan aldraði einstaklingurinn, eftir að hafa beðið mig margsinnis afsökunar á veseninu og að tefja svona mikið fyrir mér, beið í röð eftir að fá hið langsótta skírteini, tók ég eftir því að við vorum ekki ein um að vera á bíl. Hreinlega allir sem komu að húsinu voru á bíl. Og allir starfsmennirnir sem voru að ljúka vinnudeginum stigu líka upp í bíla á bílastæðinu. Enginn virtist treysta sér til að nota strætisvagnaferðir til að sækja þjónustu Strætó , og starfsfólkinu virtist ekki heldur finnast þessi heppilegt að komast þangað eða þaðan með strætisvagni.

Það má telja það undarlega ráðstöfun að senda aldraða og öryrkja — af öllum þeim sem ætla að kaupa sér strætókort — þarna út í buskann. Minnir helst á flutning Tryggingastofnunar í álíka strætófjandsamlegt hverfi í Kópavogi. Enda varð aldraða einstaklingnum það á orði að það væri eins og Strætó væri að reyna að losna við að selja öryrkjum og öldruðum þessi kort. Og bað mig svo afsökunar eina ferðina enn.

Mér finnst að Strætó ætti frekar af biðjast afsökunar.

Efnisorð: , ,