miðvikudagur, október 16, 2019

Fjölmiðlar normalísera velgengni bankabófa

Október er hrunmánuðurinn. Í byrjun október fyrir ellefu árum voru fréttamenn á innsoginu, næturfundir, og neyðarlög sett. Nöfn persóna og leikenda sem með einum eða öðrum hætti orsökuðu hrunið voru á allra vörum. Núna yrði sagt um bankabófana að þeir hefðu verið teknir af lífi á samfélagsmiðlum, enda almennt og víðtækt hatur á mönnum sem hirtu lítt um þótt kviknaði í kofanum meðan þeir sköruðu eld að eigin köku.

Auðvitað áttu þeir sér formælendur (oft borgaða almannatengla eða aðstoðarmenn) sem vörðu þá og allar þeirra gjörðir, „bankahrunið kom að utan“ eins og tugmilljarðarnir hafi eitthvað minna horfið ofan í vasa bankabófanna þótt einhverjir skuldabréfavafningar hjá Lehman Brothers hafi hrundið skriðunni af stað.

En allavega. Nú eru ellefu ár liðin. Og ekki ber á öðru en það sé búið að taka ofurríku og ofursnjöllu Íslendingana í sátt. Mikil stemning virðist hafa verið yfir (einhverjum aulalegum)sjónvarpþætti sem Steindi sér um, en þar vann hann það afrek að fá sjálfan Björgúlf Thor til að koma fram í þættinum. Og sá lék á als oddi, auðkýfingurinn sjálfur, rosa skemmtilegur. Ekkert lítill í sér frammi fyrir alþjóð, við hljótum jú öll vera búin að fyrirgefa eigendum Landabankans, og gleyma Icesave.

Markaðurinn, fylgirit Fréttablaðsins, stillti svo Bjarna Ármannssyni á forsíðu og átti við hann opnuviðtal. Hvergi minnst á útrásar- og sjálftökuferil hans hjá Glitni (hann var ekki við stjórnvölinn þegar bankinn fór á hausinn en var sterklega grunaður um innherjaviðskipti), ofurlaunin eða neitt svoleiðis græðgislegt á þeim sjö árum sem hann stjórnaði bankanum, þar til ári fyrir hrun. Við hljótum að gleðjast að hann eins og aðrir eigendur og stjórnendur bankanna sálugu telji sig enn menn meðal manna og viljum endilega að honum sé hampað í fjölmiðlum.

Strákar, þið eruð stórkostlegir, getum við fengið annan umgang?

Efnisorð: , ,