mánudagur, september 30, 2019

Septemberuppgjör 2019

Síðasti dagur september og kominn tími á að fara yfir það helsta sem gerðist eða var rætt um í mánuðinum.

Brexit, sagan endalausa. Sif Sigmars, sem býr í Bretlandi, skrifaði pistil um miðjan mánuðinn, áður en hæstiréttur lýsti þingfrestun Borisar ólöglega. Þar bendir hún á að lýðræðið sé í hættu, og ekki bara í Bretlandi.

Enn eina ferðina standa öll spjót á Trump en ég nenni ekki að ræða það. Endalaust er verið að búast við því að hann verði ákærður en ekkert gerist. Látið mig vita þegar kvikindið er endanlega farið frá völdum.

Ekki það, ég fyrirlít hann eftir sem áður. Ofan á allt annað hefur hann verið að níða Gretu Thunberg niður. Hún er annarsvegar orðin helsta andlit baráttu gegn hamfarahlýnun og hinsvegar er hún orðin helsta skotmark karla sem afneita loftslagsbreytingum, styðja Trump og miðflokkinn, og hatast við allt sem kvenkyns er. Að hún er barn að aldri er þeim engin hindrun; þeir rakka hana niður samt. Almennilegt fólk er þó ánægt með framtak Gretu og í dag skrifaði Guðmundur Steingrímsson afar fínan pistil þar sem hann bendir á að við erum sammála henni. (Guðmundur skrifaði líka fyrr í mánuðinum ákaflega skemmtilega um heimsendaspár sem hafa alla tíð hrellt hans kynslóð.)

Í dag skrifaði svo Arnar Tómas Valgeirsson um helíumblöðrur en skortur er á helíum (sem þar að auki væri betur notað í gagnlegri hluti eins og gert er í heilbrigðisgeiranum):
„þótt vissulega séu stærri vandamál í heiminum þá koma þau ekki í veg fyrir að unnið sé að smærri vandamálum líka. Lítil vandamál eru oft auðveld viðureignar, í þessu tilfelli einfalt bann á skemmtilegum óþarfa.“

Samgöngur á höfuðborgarsvæðinu eru bæði skipulagsmál og loftslagsmál. Breytingar hafa verið gerðar, með lokum gatna og svo hefur verið samið við ríkið um að ýmiskonar breytingar — en er örugglega byrjað á réttum enda? Hilmar Þór Björnsson arkitekt skrifaði þessi orð í ágætum pistli:
„Það er löngu ljóst að einkabíllinn er ekki heppilegt samgöngutæki í borgum. Margar borgir stefna nú að því að snúa þróuninni við og takmarka einkabílaumferð verulega innan borgarmarkanna. Þessi þróun kemur í kjölfar þess að öflugum almenningssamgöngum hefur verið komið á fót, en ekki áður eins og er að gerast hér á höfuðborgarsvæðinu.“
Enn og aftur: ef ferðum væri fjölgað og ókeypis væri í strætó mun það minnka mjög notkun einkabíla, þó ekki væri nema allt skutlið með krakka í tómstundir.

Borgaryfirvöld ætla að byggja þetta helvítis „gróðurhvelfingar Aldin BioDome“ í Elliðaárdal hvað sem tautar og raular. Nú hefur komið í ljós að breytingar sem gera þarf á fráveitulögn fyrir bygginguna munu kosta á bilinu 89 til 429 milljónir króna. Hærri upphæðin verður örugglega nær lagi. Þannig að ekki nóg með að það eigi að planta hlussu byggingum þarna heldur á að fara í vafasamar lagnatilfærslur (skólp Breiðhyltinga gæti flætt í Elliðaárnar ef illa tekst til) sem kosta munu útsvarsgreiðendur of fjár. Svo ekki sé minnst á raskið og ónæðið meðan á framkvæmdum stendur.

Hræðileg uppákoma varð þegar settur ríkislögmaður fór með offorsi að Guðjóni Skarphéðinssyni — sem er í skaðabótamáli við ríkið — og sagði hann sjálfum sér geta um kennt fyrir að hafa verið í gæsluvarðhaldi í 1.202 daga og síðan dæmdur fyrir aðild að Guðmundar- og Geirfinnsmálinu og setið í fangelsi í fjögur og hálft ár. Enda þótt Guðjón ásamt öðrum sakborningum í því máli hafi verið sýknaður af Hæstarétti fyrir ári síðan, lét ríkislögmaður það sem vind um eyru þjóta „sakfellingardómur Hæstaréttar frá 1980 [hafi] fullt sönnunargildi í málinu“ og lætur eins og Guðjón sé sekur maður sem eigi allt illt skilið. Enn er alls óljóst hvernig fer með skaðabæturnar en nú þykist þingið ætla að skera úr um þær. Skaðinn sem ríkislögmaður hefur valdið Guðjóni ætti að bætast við bæturnar. Þetta er algjör skandall.

Öllu minni samúð hef ég með leikaranum, sem rekinn var frá Borgarleikhúsinu, eftir að fjöldi kvenna sagði frá kynferðislegri áreitni af hans hálfu, og hefur nú dregið leikhúsið og leikhússtjórann fyrir dóm og vill skaðabætur. Fjöldi manns í athugasemdakerfum stendur með honum og finnst metoo hafa gengið of langt. Heimtað er að konur sem „eyðileggja líf karla“ (frasinn „tekinn af lífi“ hefur örugglega heyrst) og með lagni tókst fjölmiðlum að upplýsa um hver ein þeirra sem tjáði sig um leikarann er; nú virðist sem eigi að fara í meiðyrðamál við hana, þó ekki leikarinn sjálfur (held ég) heldur leikstjóri sem áður hafði ákveðið að kæra hana ekki fyrir meiðyrði af virðingu við pabba hennar. (Minnkaði virðingin fyrir pabbanum?) En þetta mál alltsaman hefur orðið til þess að forsvarskonur metoo hér á landi hafa sent frá sér yfirlýsingu þar sem er áréttað að konur sem segja sögu sína eru ekki skyldaðar til að koma fram undir nafni.

„Erfðagjafir felast í að ánafna hluta af eigum sínum eftir sinn dag til málefnis sem viðkomandi er annt um“ segir í kynningu á átaki Almannaheilla, Blindrafélagsins, Krabbameinsfélagsins, Rauða krossins, SOS Barnaþorpa, Styrktarfélags krabbameinssjúkra barna og UNICEF á Íslandi. Þar er útskýrt hvernig hægt er að ráðstafa hluta eða öllum eigum sínum til góðgerðafélaga, og einnig bent á síðuna erfðagjafir.is þar sem fræðast má nánar um hvernig þetta fer fram.

Sama dag — og það var örugglega tilviljun — birtist í blaðinu pistill um dánaraðstoð. Þar er einnig fjallað um skilyrði og bent á fylgiskjöl og þess háttar. En pistillinn sjálfur og sagan sem þar er sögð er afar áhugaverð.

Efnisorð: , , , , , , , ,