föstudagur, febrúar 29, 2008

Börn eru mikils virði, líka eftir 18 ára aldur

Þegar vannærð börn í Afríku eru sýnd í fjölmiðlum er aldrei sagt hve mörg þeirra finna raunverulega til hungurs. Þó er það þannig að þegar fólk hefur ekki borðað í langan tíma hættir það að finna til hungurs, heldur líður bara ágætlega þó það sé orkulítið.

Hvernig ætli okkur yrði við ef sjónvarpsfréttamaður segði eitthvað um að í þessu Afríkuríki hefði orðið uppskerubrestur með þeim afleiðingum að nú ríkti þar hungursneyð og að börnin í bakgrunni myndar (augljóslega vannærð) biðu nú eftir matarsendingum – en þau væru ekki öll svöng. Og svo talaði hann fjálglega um hvað sumum þeirra væri alveg sama þó þau fengju ekkert að borða (vegna máttleysis getur mjög vannært fólk ekki borið sig eftir mat). Þegar sjónvarpáhorfendur væru svo búnir að smjatta á þessu góða stund gætu þeir sagt við hvern annan: Já, ég vissi það alltaf. Það eru alveg fullt af börnunum þarna sem eru bara ekkert að spá í mat. Þeim finnst þetta bara allt í lagi. Sko þau!

Aðrir myndu gúggla tölulegum staðreyndum um hungur og vannæringu og komast að því að á þessu stigi málsins væri ekki hægt að sanna með óyggjandi hætti að 5-10% barnanna finndu ekki til hungurs, en myndu samt vilja að vestrænar þjóðir héldu áfram að berjast gegn vannæringu. En þeir sem væru öðruvísi innrættir gætu einblínt á 5-10% og viljað stoppa allt hjálparstarf.

En þetta er nú bara bull í mér. Svona mundi enginn segja. Nema náttúrulega þegar talað er um vændi. Þá er alltaf reynt að finna til einhverja vændiskonu sem segist bara hafa gaman að þessu og ekkert hafa neitt slæmt um starf sitt að segja. Og svo er talað um hamingjusömu vændiskonurnar sem séu a.m.k. 5 % (eða eitthvað álíka)* og það megi engin lög og reglur – hvað þá einhver siðaboðskapur – vinna gegn heilögum rétti þeirra til að vera hamingjusamar í þessu göfuga starfi.

Við fyllumst verndartilfinningu þegar við sjáum börn á skjánum, hvað þá vannærð. Þá viljum við taka upp budduna eða ættleiða eða bara eitthvað, eitthvað til að láta okkur líða betur og helst börnunum líka.

Konur vekja ekki þessa tilfinningu. Nei, ég er ekki að segja að við eigum að fara með konur eins og börn, ég er að segja að eftir 18 ára aldur er saklausa barnið sem allir vilja vernda orðið að konu og þá er öllum sama um hvernig henni líður og hvað verður um hana. Konur frá vanþróuðum löndum eru seldar í stórum stíl til Vesturlanda, þar sem þær eru kynlífsþrælar. Þeim mönnum sem kaupa sér aðgang að þeim er alveg sama um það. Kannski vöknar sumum þeirra um augu þegar þeir sjá vannærð börn í sjónvarpinu (líklega þó ekki) – en fullorðna konu vilja þeir nota í annað en komast í samband við tilfinningar sínar.

Flestir þeirra sem nota vændiskonur þræta fyrir að hafa komist í tæri við konur sem eru í vændi vegna mansals. Enda allar vændiskonurnar sem þeir nota bara mjög happí með viðskiptin sko, gáfu vel í skyn að þeir væru stórkostlegir elskhugar og svona. Augljóslega ánægðar í starfi, bara alveg fullnægðar sko, stelpurnar.

Og vei þeim sem bendir á annað.

--
[Viðvörun: hér á eftir eru lýsingar sem geta hrundið af stað óþægilegum hugrenningum]

* 95% allra þeirra kvenna í klámiðnaðinum (vændi, klámi og strippi, hafa orðið fórnarlömb kynferðislegs ofbeldis í æsku. (Fórnarlömb mansals voru ekki með í þeim rannsóknum sem leiddu þetta í ljós). Auk þess er stór hluti þeirrra sem eru í klámiðnaðinum notendur fíkniefna og fjármagna neysluna með því að selja aðgang að líkama sínum. Það eru því fáar konur sem hefja störf í klámiðnaðinum án þess að hafa sögu um kynferðislegt ofbeldi og fíkniefnamisnotkun að baki. Þær konur sem hefja störf í klámiðnaðinum og hafa enga slíka sögu lenda eins og hinar oft í mjög ógeðfelldum aðstæðum með mjög ógeðfelldum mönnum; fleiri vændiskonum en öðrum konum er nauðgað. Þegar upp er staðið og starfið lagt á hilluna (þær sem lifa svo lengi) – hversu hamingjusamar verða þær til æviloka? Munu þær lifa ánægjulegu kynlífi á jafnréttisgrundvelli með maka sínum? Munu þær yfirhöfuð hafa áhuga á karlmönnum eftir að hafa orðið fyrir barðinu á þeim og séð allt það sem þeir gera við konur?

Í rannsókn, sem ég mun fjalla nánar um síðar (og hef svosem áður vísað lauslega í), vildu 89% hætta að vinna í vændi en höfðu engin önnur úrræði sér til framfærslu. En allar hljóta þær að hafa ljómað af hamingju. Eða að minnsta kosti ein, þannig er það alltaf. Ein konan í rannsókninni (bandarísk kona sem bæði strippaði og seldi sig á götunum, gegnum fylgdarþjónustur og nuddstofur) hafði verið brennd með sígarettum, stungin með hníf, barin margoft, þaraf eitt skipti fór hún úr kjálkalið og hljóðhimna sprakk. Hún var hárreitt – bæði til að kvelja hana en líka til að sýna henni hver valdið hefði og sæði sprautað í andlit hennar til að niðurlægja hana. Megninu af hinu - klípunum í brjóst og klof þegar hún var að strippa og svo munnsöfnuðinum sem hafður var við hana - tók hún með uppgerðarbrosi. Og þá hafa kúnnarnir sannfærst að hún væri þessi hamingjusama, ekki spurning. Eða kannski hafa einhverjir þeirra karlmanna sem nauðguðu henni – en a.m.k. tuttugu menn nauðguðu henni á mismunandi tímum ævi hennar, þar af varð hún fyrir hópnauðgun – áttað sig á að hún var ekki hamingjusöm. Kannski ekki.

Efnisorð: , , , , ,

fimmtudagur, febrúar 28, 2008

Fínt að vera rasisti, má bara ekki kalla neinn það

Það er fínt að vera rasisti svo framarlega sem enginn segir að maður sé rasisti.* Þá verður maður sko brjálaður!

Annars er ég viss um að liðsmenn beggja, rasistans og þess sem kallaði hann rasista, eru hæstánægðir með að báðir þessir kújónar hatast útí feminista. Þá eru allir sáttir.

--
* Ég hef margsinnis rekið mig á að fólk sem talar illa um eða hreinlega hatast útí innflytjendur, múslima, asískt fólk eða svart fólk (og yfirleitt allt þetta fólk), verður stórkostlega hneykslað ef einhver kallar það rasista. Ofsalega ósanngjarnt sko.

Efnisorð: ,

sunnudagur, febrúar 17, 2008

Tilkynni fjarvist vegna trúleysis

Stjórnarmaður í Fríkirkjunni mótmælir því að pólitísk deilumál séu rædd í kirkjunni hans.

Af sömu ástæðu fór ég ekki á fundinn þar sem virkjunarframkvæmdum í Þjórsá var mótmælt. Því inn í kirkjur stíg ég ekki inn fæti nema ég eigi engra annarra kosta völ (það þarf einhver að deyja).

Efnisorð: ,

þriðjudagur, febrúar 05, 2008

Konur verða aldrei öruggar fyrr en karlar hætta að nauðga

Þegar dómurinn yfir Anthony Lee Bellere er lesinn – en hann var í dag dæmdur í fjögurra ára fangelsi fyrir nauðganir og vörslu barnakláms – langar mig auðvitað til að leggjast í herferð til að vara ungar stelpur við að mæla sér mót við menn sem þær kynnast á msn. Mig langar að segja þeim að hressi gaurinn sem þykist vera aðeins eldri en þær (ekki gamall en nógu mikið eldri til að þeim þyki það spennandi) geti í raun verið kall en ekki strákur, og að meira segja stelpan sem verður vinkona þeirra á msn eða facebook geti verið kall sem hefur kynferðislegan áhuga á þeim og að þær megi aldrei aldrei aldrei mæla sér mót við neinn sem þær hafa kynnst á netinu og að þær eigi helst ekkert að tala við ókunnuga á netinu (og það er ekki lítið sem mig langar til að segja foreldrunum að ekkert barn undir 18 ára aldri ætti að vera með tölvu þar sem fullorðnir geta ekki fylgst með hvað þar fer fram). Mig langar til að vara þær við hryllingnum sem getur beðið þeirra ef þær láta undan forvitninni, ævintýragirninni, einmanaleikanum og þörfinni fyrir athygli og samþykkja að hitta einhvern sem þær í raun vita ekkert um annað en að hann vill hitta þær einar.

Sama hvöt grípur mig stundum þegar ég sé stelpur fullar niðrí bæ eða veit um vinkonur sem ætla á Þjóðhátíð. Mig langar að halda yfir þeim ræður: haldið hópinn, ekki drekka of mikið, ekki treysta neinum, ekki halda að strákurinn sem þú hittir fyrir 10 mínútum vilji draga þig afsíðis vegna þess að hann sé svo skotinn í þér, ekki halda verndin gegn einum strák sé að leita á náðir hóps af strákum, sama hvað þeir eru hressir.

En ég veit að þetta er heldur ekki rétta aðferðin. Því stelpur eiga ekki að þurfa að passa sig á ókunnugum, þær mega alveg trúa því að sæti strákurinn sem þær hitta á netinu hafi sama tónlistarsmekk og þær og langi til að horfa með þeim á mynd um helgina þegar foreldrar hans eru ekki heima. Þær mega fara á Þjóðhátíð og syngja og tralla inní hvaða tjaldi sem þeim dettur í hug að ramba inní.

Því það eru karlmenn sem verða að hætta að nauðga. Meðan þeir ljúga (á netinu, inná skemmtistöðum, um partý sem aldrei verður haldið) að konum og stelpum um hverjir þeir eru og hvað þeim gengur til, meðan þeir beita hótunum og ógnunum og hnefum og hrindingum, meðan þeir þröngva konum og stelpum sem vilja þá ekki eða vildu þá þar til þeim var ljóst hvað þeir ætluðu sér í raun að gera á og hvaða hátt, þá er engin kona óhult. Engin kona og engin stelpa getur varið sig fyrir þeim. Þeir eru flestir stærri og sterkari en við flestar erum, og það sem þá vantar upp á styrk sækja þeir til félaga sinna sem sjá um að halda fórnarlömbunum kjurum.

Ef karlmenn hættu að nauðga værum við óhultar. Það er eina lausnin.

Þar til þeir hætta því skiptir engu hvort þessi stelpa kemst undan, það er bara einhver önnur sem gengur í gin úlfsins, einhver önnur kona sem er dregin inní húsasund eða er króuð af inná heimili sínu af manninum sem borðar með henni sunnudagsmatinn hjá foreldrum hennar. Ein sleppur, önnur verður fórnarlamb.

En svona má auðvitað ekki segja. Loka bara allt þetta kvenfólk inni. Sumar eru þá reyndar lokaðar inni hjá þeim mönnum sem mest níðast á þeim, en það er þeirra vandamál, er það ekki?

Efnisorð: ,

sunnudagur, febrúar 03, 2008

Næsti forseti Bandaríkjanna

Standi bandarískir kjósendur frammi fyrir að velja milli konu og blökkumanns í embætti forseta Bandaríkjanna - munu þeir kjósa Repúblikana.

Efnisorð: , ,

föstudagur, febrúar 01, 2008

Reykingamönnum sigað á gesti

Árum saman voru í gildi þær reglur að veitingahúsum bar að hafa afmarkað svæði þar sem fólk gæti verið án þess að verða fyrir reyk annarra veitingahúsagesta. Þetta var sumstaðar illmögulegt í framkvæmd en annarstaðar var hægara um vik. Þó var undantekning ef reglum var beinlínis fylgt og gestir gátu setið óáreittir fyrir reykspúandi tóbaksfíklum. Þannig hefðu auðvitað gestir á Vegamótum sem reyktu átt að sitja uppi en þeir reyklausu niðri, en rekstraraðilum staðarins fannst greinilega betri hugmynd að hafa reyklausa fólkið á efri hæðinni - þar sem svo reykurinn frá reykingafólkinu liðaðist upp til þeirra.

Vegna þess að ekki var með nokkru móti hægt að fá veitingamenn til að fylgja þessum reglum og hlífa gestum sínum við eitrinu, var brugðið á það ráð að setja reglur sem bönnuðu reykingar alfarið á veitingahúsum, þ.m.t. matsölustöðum, kaffihúsum, börum og skemmtistöðum.* Þetta var að vísu gert útfrá einhverjum vinnuverndarlögum með vísun í að vernda bæri heilsu starfsfólks, en öllum var ljóst að gestir veitingastaðanna myndu njóta góðs af þessu og þetta var gert þeim til verndar líka.

Undanfarið hafa veitingahúsaeigendur farið mikinn í fjölmiðlum til að mótmæla þessu reykbanni og haft ýmis brögð til að skjóta sér framhjá banninu, nú síðast brutu þeir það alfarið „í mótmælaskyni.“

Alltíeinu þykjast þeir vilja setja upp afmörkuð svæði (með talsverðum tilkostnaði) þar sem verði reykt en annarstaðar ekki. Líklega eru þau með svo loftþéttum dyrum að aldrei sleppur reykur út, auk þess sem starfsfólkið sem þar þjónar til borðs hlýtur að vera sérstaklega ónæmt fyrir reyk - eða vera laust undan hallærislegum kröfum um vernd á vinnustöðum. (Og mikið yrðu nú álverin fegin að fá starfsfólk sem er til í að vinna í menguðu umhverfi án þess að skeyta um forræðishyggjuna sem vinnuverndarlög eru svo skínandi dæmi um). Og hvað verður um fólk sem réði sig til starfa eftir að reykingabannið tók gildi og hefði annars aldrei viljað vinna á veitingahúsi? Er þeirra frelsi fólgið í að hætta vinnunni, eða þýðir eitthvað að fara fram á að þeirra vakt verði reyklaus?

Og hvað er svo langt í að veitingahúsaeigendur haldi því fram að það sé svo þröngt á þingi í reykingaklefunum og hafi því endaskipti á hlutunum og setji þau reyklausu þar inn?

Ég hef hvergi fundið lista yfir þá u.þ.b. þrjátíu veitingastaði sem „leyfðu“** reykingar í mótmælaskyni. Geti einhver bent mér á hann get ég markvisst farið að forðast þá staði.

--
* Ekki einn bar eða einn skemmtistaður var reyklaus eða með reyk- og reyklaus svæði fyrir bannið. Þannig að val þeirra sem vildu fara út á meðal fólks á kvöldin var ekkert.

**Mér finnst fáránlegt að tala um að reykingarnar hefðu verið „leyfðar“, nær væri að fjölmiðlar töluðu um að veitingamenn hefðu sigað reykingamönnum gegn reyklausum gestum. En eitt af því jákvæðasta við reykbannið var að allir gestir gátu verið saman á einum stað, í stað þess að þessi vildi fara á reyklaust kaffihús en hin á kaffihús með reyk.

Efnisorð: ,