sunnudagur, nóvember 29, 2009

Lög senda skilaboð

Í Fréttablaðinu* um helgina var líka grein eftir Þórdísi Elvu höfund** Á mannamáli. Hún er þar að svara grein aðstoðarsaksóknara „Að horfa jafnt til sýknu og sektar“ sem birtist í blaðinu 12. nóvember. Grein Þórdísar er stórgóð og birti ég hana því í heild.*** Eitt af því sem hún vill láta breyta er að það þurfi að vera hægt að sanna ásetning nauðgarans. Það er auðvitað eitt af því sem hefur valdið því að margur nauðgarinn hefur sloppið við dóm; nema hann hafi tilkynnt það sérstaklega að nú hyggist hann nauðga konu þá eru allar líkur að hann skoppi frjáls maður útúr réttarsal og þessu þarf að breyta.

Um þetta snýst titill greinar Þórdísar Elvu: Leyfi til afnota af líkama annarra

Í Fréttablaðinu hinn 12. nóvember sl. birtist grein eftir Sigríði Hjaltested, aðstoðarsaksóknara í kynferðisbrotamálum hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, undir fyrirsögninni "Að horfa jafnt til sýknu og sektar". Grein Sigríðar er rituð í kjölfar þess að Fréttablaðið birti við mig viðtal undir fyrirsögninni "Hljótum að vilja vernda alla", en þar gagnrýndi ég m.a. núgildandi kynferðisbrotalög. Sú gagnrýni endurómar í bók eftir mig sem kom út nú í haust og nefnist Á mannamáli. Ég vil byrja á því að þakka Sigríði fyrir greinina. Málefnaleg umræða um kynferðisbrot er af skornum skammti, og var umrædd grein gott og þarft innlegg. Hins vegar erum við Sigríður ósammála um nokkur atriði sem rakin verða hér á eftir.

Sigríður sagði: "Nauðgun er því eitt af þeim brotum sem varða lengstri tímabundinni refsingu í almennum hegningarlögum, eða allt að 16 árum." Rétt er það, en mikil tregða hefur verið til þess að nýta refsirammann, sem fram til þessa hefur einungis verið nýttur til hálfs. Að vitna til hámarksrefsingar í kynferðisbrotamálum er sambærilegt við að gefa í skyn að silfurverðlaun íslenska handboltalandsliðsins á Ólympíuleikunum beri vitni um almennt gengi Íslendinga í hópíþróttum.

Bann við nauðgun má finna í 194. grein almennra hegningarlaga. Þar segir: "Hver sem hefur samræði eða önnur kynferðismök við mann með því að beita ofbeldi, hótunum eða annars konar ólögmætri nauðung gerist sekur um nauðgun…"

Eins og sjá má á þessu orðalagi leggja lögin mikla áherslu á verknaðarlýsingu nauðgunar, fremur en hvort samræðið hafi farið fram með samþykki beggja aðila. Ég er talsmaður þess að lögunum sé breytt í þá veru að byggja þau alfarið á samþykkisskorti, fremur en ofbeldi, hótunum og nauðung. Ástæða þess er sú að í ýmsum tilfellum þurfa menn ekki að beita slíkum brögðum til að ná fram vilja sínum, en ættu engu að síður að þurfa að axla ábyrgð á gjörðum sínum.

Mótspyrna sem skilyrði
Sigríður fullyrðir að mótspyrna brotaþola sé "ekki skilyrði" í nauðgunarmálum samkvæmt gildandi lögum. Nýlegir dómar benda til hins gagnstæða. Ég skrifaði bókina Á mannamáli í kjölfar sýknudóms Héraðsdóms Reykjavíkur í nauðgunarmáli nr. S-839/2007. Í dómsorði stóð að óhætt væri að "slá því föstu" að samræðið hefði farið fram gegn vilja brotaþolans. Þar sagði einnig: "Jafnframt er sýknað á þeirri forsendu að stúlkan hafi ekki veitt viðnám eða kallað eftir hjálp."

Maður nokkur var sýknaður í nauðgunarmáli fyrir Héraðsdómi Norðurlands vestra í máli nr. S-316/2007 með eftirfarandi orðum dómsins: "Þá verður að leggja til grundvallar framburð Y þess efnis að hún hafi verið með nokkurri meðvitund meðan ákærði leitaði á hana. Að þessu virtu þykir ölvunarástand hennar og svefndrungi ekki geta skýrt það hvers vegna hún spornaði ekki við athöfnum ákærða og kallaði ekki eftir hjálp en fyrir liggur að bróðir hennar var í næsta herbergi."

Með öðrum orðum: Þar sem konan var með "nokkurri meðvitund" meðan ákærði leitaði á hana var hún sjálfkrafa skyldug til að spyrna á móti. Þetta gilti burtséð frá því að ákærði játaði að hafa komið óboðinn upp í rúm til konunnar meðan hún svaf. Hann viðurkenndi jafnframt að hún hefði ekki gefið vilja til kynmaka í ljós á nokkurn hátt, né tekið þátt í athæfinu með neinu móti, en samkvæmt frásögn konunnar var hún of óttaslegin til þess að veita viðnám.

Í maí 2009 varð kona nokkur fyrir því að ókunnur maður átti við hana samræði og notfærði sér að herbergið var myrkvað og að konan skyldi telja hann vera annan mann sem hún hafði áður átt kynferðislegt samneyti við. Samkvæmt lýsingu brotaþolans voru mökin búin að standa yfir í nokkrar mínútur þegar hún sá framan í manninn og blasti þá við henni "glott og ekki sama andlitið" eins og hún orðaði það í skýrslu fyrir dómi. Hún tilkynnti brotið umsvifalaust og kærði manninn fyrir nauðgun. Í dóminum sagði: "…verður ekki séð að sú háttsemi ákærða sem lýst er í ákæru, og sannað er að hann hafi viðhaft gagnvart kæranda, falli undir brotalýsingu 2. mgr. 194. gr. almennra hegningarlaga" (Héraðsdómur Reykjavíkur, mál nr. S-676/2009.) Þótt sannað væri að maðurinn hefði ekki fengið upplýst samþykki brotaþolans fyrir kynmökunum var hann engu að síður sýknaður af nauðgun, einfaldlega því hann þurfti ekki að beita þeim aðferðum sem lýst er í núgildandi lögum. Hann var þó dæmdur til sex mánaða fangelsisvistar fyrir brot gegn blygðunarsemi konunnar (sem er lágmarksrefsing fyrir blygðunarsemisbrot, en refsiramminn leyfir allt að 4 ára fangelsisvist.)

Í engu þeirra þriggja mála sem nefnd eru hér að framan fékk ákærði samþykki brotaþolans fyrir kynmökunum, og þótti það sannað. Ef íslenskum nauðgunarlögum yrði breytt þannig að þau byggðu á samþykkisskorti (líkt og gert er í Bretlandi, Írlandi og víðar), í stað núgildandi ofbeldisákvæðis, hefði ákærði sennilega verið sakfelldur í öllum málunum.

En svo langt vill Sigríður ekki ganga. Hún telur að slík breyting hefði "fyrst og fremst táknræna þýðingu" en þykir ólíklegt hún myndi skila sér í fleiri ákærum og sakfellingum.

Lög senda skilaboð
Lög senda skilaboð. Til að mynda voru lög við lýði á Íslandi fram til ársins 2007 sem gerðu það að verkum að fella mátti niður refsingu fyrir nauðgun ef ofbeldismaðurinn og brotaþolinn gengju í hjónaband. Ákveðið var að fella þetta ákvæði niður því það þótti ekki við hæfi að lögin hvettu fólk til að vera í ofbeldissambandi. Orðalag núgildandi nauðgunarákvæðis sendir einnig ákveðin skilaboð. Þau undanskilja brotaþola sem telja sig ekki hafa verið beittir annars konar "ofbeldi", "hótunum" eða "ólögmætri nauðung" þegar þeim var nauðgað. Hæpið er að þessir brotaþolar leiti réttar síns, þar sem glæpurinn sem framinn var gegn kynfrelsi þeirra samræmist ekki skilgreiningu laganna á nauðgun.

Sigríður bendir réttilega á að í nauðgunarmálum verður að vera hægt að sanna ásetning ákærða til verksins. Hér myndi ég vilja að forsendum yrði breytt. Ef fartölva Jóns nokkurs Jónssonar er tekin traustataki þykir ekki nauðsynlegt að láta Jón sanna fyrir rétti að samþykki hans hafi ekki legið fyrir stuldinum. Gengið er út frá því að Jón vilji ekki láta stela fartölvunni sinni, og um leið að ásetningur þjófsins hafi verið að stela. Mætti ekki ganga að sama skapi út frá því að fólk vilji ekki láta hafa við sig ósamþykkt kynmök? Mætti ekki skylda fólk til þess að biðja um leyfi fyrir afnotum af skrokki annarrar manneskju, rétt eins og biðja þarf um leyfi fyrir afnotum af öðrum eigum?

Sigríður telur nauðsynlegt að starfsmenn réttarkerfisins njóti "leiðsagnar skýrrar verknaðarlýsingar lagaákvæðis" við störf sín. Hún segir að erfitt myndi reynast að túlka samþykkisákvæði, væri slíkt fyrir hendi í lögum. Vert er að benda á að ekki ríkir sátt um hvernig beri að túlka ofbeldisákvæðið heldur. Nauðgunarmálið sem varð til þess að ég skrifaði áðurnefnda bók sýnir berlega þennan ágreining, en í kjölfar þess tókust Héraðsdómur Reykjavíkur og Hæstiréttur Íslands á um hvað væri ofbeldi og hvað ekki. Við ættum þó öll að geta verið sammála um að nauðgun, þ.e. kynmök án upplýsts samþykkis beggja aðila, er ofbeldi í sjálfu sér.

Eiga ekki lögin að vernda alla?
Sigríður leggur áherslu á að íslenska réttarkerfið geri ráð fyrir sakleysi manna uns sekt þeirra er sönnuð og vísar í því samhengi í Mannréttindasáttmála Evrópu. Hér er vert að minnast þess að Ísland er einnig aðili að alþjóðasamningi Sameinuðu þjóðanna um borgaraleg og stjórnmálaleg réttindi. Í athugasemdum um stöðu Íslands árið 2005 lýsti Mannréttindanefnd Sameinuðu þjóðanna yfir "áhyggjum sínum yfir miklum fjölda tilkynntra nauðgana í aðildarríkinu samanborið við fjölda lögsókna vegna nauðgunar". Við þetta tækifæri minnti nefndin á að "óvissa torveldar sakfellingu en ekki lögsókn og að það er hlutverk dómstóla að ákvarða hvort sök teljist sönnuð eður ei". Með öðrum orðum á fólk rétt á því að dómstólar úrskurði um mál þeirra. Þó er yfirgnæfandi meirihluti tilkynntra nauðgunarmála hérlendis, eða 70%, felldur niður. Brotaþolarnir fá því ekki tækifæri til að leggja mál sitt undir dóm.

Sigríður spyr hvort við, sem samfélag, viljum ekki vernda saklausa frá því að vera dæmdir sekir. Ég spyr á móti: Eiga lögin ekki að vernda alla, en ekki aðeins þann hluta fólks sem er sviptur kynfrelsi sínu á hátt sem samræmist ákveðnu orðalagi? Viljum við að orðalag laganna firri þá, sem leita ekki samþykkis fyrir kynmökum, ábyrgð á gjörðum sínum?

Ég tek heilshugar undir með niðurlagi Sigríðar: Þegar upp er staðið hlýtur niðurstaðan ávallt að vera sú, að við viljum hafa lagareglur sem vernda alla.


Þetta var svar Þórdísar Elvu. Það sem mér fannst reyndar gagnrýnisverðast við grein aðstoðarsaksóknara var þetta:
Ég reikna fastlega með því að öll viljum við búa í réttarríki þar sem sú regla er í heiðri höfð að maður teljist saklaus uns sekt hans er sönnuð. Þetta er meðal þeirra grundvallarréttinda okkar sem staðfest eru í stjórnarskránni. Ákvæðið byggir auk þess á Mannréttindasáttmála Evrópu sem hefur verið lögfestur hér á landi. Það er ekki síst af þessari ástæðu sem þær kröfur eru gerðar til ákæruvaldsins sem áður hafa verið raktar. Við getum líka öll verið sammála um að við viljum vernda þjóðfélagið okkar gegn glæpum en viljum við ekki að sama skapi vernda saklausa frá því að vera dæmdir sekir? Ég bið menn að ímynda sér sem snöggvast að þeir sjálfir eða einhver þeim nákominn sé sakaður um nauðgun. Hvernig ætli málið myndi horfa við ef sá hinn sami héldi fram sakleysi sínu? Myndi hann ekki krefjast þess að umrædd grundvallarregla væri virt?
— Sagði aðstoðarsaksóknari.

Krúttlegt af starfsmönnum embættis saksóknara að segja svona tiltölulega hreint út hvar samúð þeirra liggur. Sjálfri stendur mér slétt á sama um stjórnarskrá, mannréttindasáttmála og réttarríki þegar málið snýst um hvort konur eigi að hafa rétt á að vera óhultar fyrir nauðgurum.

Ég vil endilega að aðstoðarsaksóknari og dómarar og almenningur allur ímyndi sér að nánum ættingja eða vinkonu sé nauðgað. Líkurnar á því eru reyndar ansi miklar.**** Í kjölfarið velti þetta fólk fyrir sér eftirfarandi staðreyndum:
- Af þeim 468 málum sem komu inn á borð lögreglu árið 2008 komust aðeins 156 mál í gegn um kæru og rannsóknarferlið inn á borð ríkissaksóknara sem tekur ákvörðun um ákærur.
- Af þessum 156 málum sem ríkissaksóknari fékk til skoðunnar á tímabilinu voru 105 mál látin niður falla. Það eru tveir þriðju málanna.
- Og þess vegna komust aðeins 51 mál fyrir dómara í héraðsdómi
- Meira en helmingur karlanna sem sóttir voru til saka fyrir nauðgun, voru sýknaðir en aðeins 24 voru sakfelldir.
- Tuttugu og fjögur, af þeim 1250 nauðgunarmálum sem komu inn á borð stígamóta og neyðarmóttökunnar á árunum 2002 -2006.
- Það þýðir að sakfellt var í aðeins einu nauðgunarmáli af hverjum 52 nauðgunarmálum sem upp komu á þessu tímabili.

Semsagt, 2% þeirra nauðgunarmála sem koma inn á borð Stígamóta og Neyðarmóttöku enda með sakfellingu.

Hversu margir saklausir karlmenn eru þá lokaðir inni vegna upploginna saka - svona sem hlutfall á móti þeim gríðarlega fjölda nauðgara sem gengur laus? Það er ekki jafnt hlutfall sýknu og sektar, það er alveg ljóst.

___
* Alveg er ég viss um að einhverjir halda að ég gangi sérstakra erinda Baugsmiðla, eins og ég vitna oft í Fréttablaðið. Svo er reyndar ekki en þetta blað berst innum lúguna hjá mér og ég les það upp til agna.
** Þórdís Elva skrifar undir greinina að hún sé áhugakona um aðgerðir gegn kynbundnu ofbeldi. Ég efast ekki um áhuga hennar en ég myndi frekar kalla hana baráttukonu og það af betra taginu.
*** Þó ég reyni að setja tengil á það sem birtist í Fréttablaðinu þá hef ég alltaf óþægilegan grun um að einn daginn virki tenglarnir ekki og vil því hafa textann allan hér.
**** Frá og með árinu 2006 og til dagsins í dag hafa 509 fórnarlömb nauðgara leitað til Neyðarmóttökunnar. Fórnarlömbin eiga líklega flest ættingja og vini, þannig að það þarf kannski ekki sérstaklega að þurfa að ímynda sér að þekkja konu sem hefur verið nauðgað, heldur eru miklar líkur á því.

Efnisorð: , ,

laugardagur, nóvember 28, 2009

Nauðgun án frekari valdbeitingar - leiðari dagsins

Steinunn Stefánsdóttir skrifar enn stórgóðan leiðara í Fréttablaði helgarinnar. Um leið tekur hún af mér ómakið því efnið sem hún skrifar um er einmitt eitt af því sem vakti athygli mína þegar ég las Á mannamáli, bók Þórdísar Elvu Þorvaldsdóttur um ofbeldi gegn konum á Íslandi. Þar fjallar Þórdís um fáránleikann sem felst í því að til þess að karlar séu sakfelldir fyrir nauðgun þurfa þeir helst að hafa lúbarið fórnarlamb sitt meðan á nauðguninni stóð. Nauðgunin ein og sér hefur lítið vægi og það eitt að kona hafi ekki veitt mótspyrnu eða hrópað á hjálp er nánast ávísun á að nauðgarinn skoppi frír og frjáls útúr dómsal.

Það sem mér hafði ekki verið ljóst fyrr en ég las bók Þórdísar, var að hér á landi er fylgt þeirri hefð að nauðgun teljist aðeins hafa verið framin hafi líkamlegu ofbeldi eða hótun um ofbeldi einnig verið beitt. Í Bretlandi og víðar er hinsvegar dæmt út frá því hvort konan hafi gefið samþykki sitt og hafi hún ekki gefið það telst það nauðgun. Þarf ekki að sýna glóðarauga eða marbletti. Ég hafði semsagt ekki áttað mig á að dómar í öðrum löndum byggðu á þessu og er auðvitað sammála Þórdísi og Steinunni um að þessu þarf að breyta.

Leiðari Steinunnar er annars svohljóðandi.
„Ofbeldi gegn konum er mun algengari ástæða fyrir heilsubresti kvenna en umferðarslys og malaría samanlagt. Þetta er sláandi fullyrðing en sönn.

Nú stendur yfir árlegt 16 daga átak gegn kynbundnu ofbeldi. Markmið 16 daga átaksins er að vekja athygli á að kynbundið ofbeldi ógnar lífi og heilsu kvenna um allan heim og ekki síður að knýja á um afnám þess.

Okkur er alltaf hollt að vera minnt á það grimmilega ofbeldi sem konur verða fyrir um víða veröld og hver hönd sem lögð er á plóginn í vinnunni gegn því er mikilvæg.

Staða íslenskra kvenna er vissulega sterk miðað við stöðu kvenna víða annars staðar. Hitt má ekki gleymast að verkefnin eru næg hér heima fyrir. Á síðasta ári leituðu til dæmis 547 einstaklingar til Stígamóta og það sem af er þessu ári hafa 530 konur leitað til Kvennaathvarfs.

Niðurskurðarhnífurinn hefur hangið yfir neyðarmóttöku kvenna um nokkurt skeið. Tilkoma neyðarmóttökunnar var bylting í móttöku þeirra sem fyrir þeirri óhamingju verða að vera nauðgað. Yfirlýsing Jóhönnu Sigurðardóttur við upphaf 16 daga átaksins um að staðið yrði vörð um neyðarmóttökuna í niðurskurðarvinnunni er því mikið gleðiefni.

Fréttir um að aldurshópurinn tólf til átján ára sé stærsti einstaki hópurinn sem til neyðarmóttökunnar leitar segja sína sögu um það grimmilega ofbeldi sem fer fram, einnig gegn stúlkum á barnsaldri, hér á landi.

Það er algert lágmark að ekki verði dregið úr þeirri þjónustu sem þegar er veitt konum og stúlkum sem verða fyrir nauðgun. Næsta skref er að fjölga kærum, ákærum og dómum í þessum málaflokki og lokamarkmiðið getur aldrei verið annað en að útrýma óværunni.

Skilgreiningin á orðinu nauðgun samkvæmt orðabók er að hafa samfarir við manneskju gegn vilja hennar. Þórdís Elva Þorvaldsdóttir bendir í bók sinni Á mannamáli sem út kom fyrr í haust að skilgreiningin á nauðgun samkvæmt núgildandi íslenskum lögum sé með öðrum hætti. Ákæruvaldið verði að sanna að kynmök hafi verið knúin fram með valdbeitingu, þ.e. ofbeldi, hótun um ofbeldi eða annars konar ólögmætri nauðung.

Í engilsaxneskum rétti er nauðgun hins vegar skilgreind út frá samþykki. Samræði telst sem sagt nauðgun ef annar aðilinn er því ekki samþykkur, jafnvel þótt hann, eða öllu heldur hún í flestum tilvikum, verjist ekki. Valdbeitingin er þannig ekki þáttur í skilgreiningu á nauðgunarhugtakinu í engilsaxneskum rétti fremur en í íslensku orðabókinni.

Fyrir liggur að stjarfi eða getuleysi til athafna eru náttúruleg viðbrögð við áfalli. Því er ljóst að nauðgun getur átt sér stað, og á sér oft stað, án þess að viðnám sé veitt. Glæpurinn er hins vegar nákvæmlega sá sami því líkamlegir áverkar blikna samanborið við þá andlegu áverka sem af nauðguninni hljótast.

Það væri því mikil réttarbót að nauðgun væri skilgreind í lögum út frá samþykki fremur en valdbeitingu. Þetta er eitt fjölmargra verkefna í baráttunni gegn kynbundnu ofbeldi heima fyrir.“


Mér finnst að Steinunn eigi að skrifa alla leiðara Fréttablaðsins.

Efnisorð: , ,

föstudagur, nóvember 27, 2009

Taumhald á skepnum

Ég er ekki æst í að gagnrýna ríkisstjórnina. Held að þar sé unnið hörðum höndum að því að lágmarka skaðann af hruninu. Öllu skynsömu fólki er ljóst að það verður ekki gert án þess að undan svíði.

Stærstu mistök núverandi ríkisstjórnar tengjast bönkunum.* Ríkisstjórnin sem hrökklaðist frá völdum í búsáhaldabyltingunni hafði skipað skilanefndir yfir hræjum Glitnis, Kaupþings og Landsbanka. Þær skilanefndir virðast vægast sagt hafa verið undarlega mannaðar og á fáránlegum kauptöxtum. Ríkisstjórnin núverandi hefði átt að endurmanna allar skilanefndirnar og setja strangar reglur um fjármuni sem til þeirra rynni. Að sama skapi hefði átt að hreinsa útúr bönkunum það lið sem allt frá því að fyrirtæki fóru í stórum stíl að verða gjaldþrota eða lenda í verulegum vandræðum hefur séð um að hrista af þeim skuldakuskið og rétta aftur sömu eigendum og komu þeim á kaldan klaka.

Lilja Mósesdóttir segir að „Hætta er á að ákvarðanir um afskriftir á skuldum fyrirtækja mótist af hagsmunum einstakra starfsmanna bankanna sem vilja fela mistök í útlánum fyrir hrun.“ Þetta er rétt hjá henni en hinsvegar hafa þessir bankamenn haft allt árið til að dunda sér við þessa gjörninga.

Lilja boðar betri tíð í þessum efnum (eða er það bara óskhyggja hjá henni?) og segir að fljótlega verði gripið til aðgerða til að tryggja virkt eftirlit með starfsemi bankanna.** Það að ríkisstjórnin skuli ekki tekið í taumana fyrr er óskiljanlegt og verður líklega til mikils skaða, svo ekki sé talað um hvað þetta misbýður réttlætiskennd hins almenna borgara.

Því það er ekkert réttlæti í að fólk sem átti stóran hlut í að koma efnahagslífi þjóðarinnar — og þarmeð fyrirtækja og einstaklinga — á hausinn, skuli fá að dunda sér við að hylja skítaslóðina eftir sig eða hygla einkavinum sínum og sökunautum.*** Hvað þá
á þeim launum sem þetta lið skammtar sér. Græðgishyggjan ríkir enn og það þarf að koma taumhaldi á hana og fólkið sem viðheldur henni.

Að þetta skuli ekki hafa verið stoppað strax á vormánuðum er alfarið á reikning þessarar ríkisstjórnar.
___
* Reyndar heyri ég ekki svo minnst á Árna Pál félagsmálaráðherra að mér finnist hann ekki mestu mistök ríkisstjórnarinnar. Hvað þá þegar Kristján Möller samgönguráðherra segir eitthvað, gerir eitthvað eða gerir eitthvað annað en hætta í kjördæmapoti.
** Kannski á hún við bankaumsýslufyrirbærið margboðaða sem hefur enn ekki litið dagsins ljós.
*** Viðbót: Mikið hefur svosem verið tiltekið af dæmum um þetta en Lára Hanna setur málið skilmerkilega fram í pistli 19. janúar 2010.

Efnisorð:

fimmtudagur, nóvember 26, 2009

Frelsi og vinátta

Á tímum góðærisins var orðinu 'frelsi' mikið hampað. Það stóð líklega fyrir eitthvað alveg frábært og eftirsóknarvert, a.m.k. kom orðið iðulega fyrir í auglýsingum og sem slagorð stjórnmálaflokka eða þeirra sem hugðu á prófkjör í einhverjum flokknum. Frelsið var einhverskonar yfirlýst stefna frjálshyggjunnar, sem hamraði auðvitað á orðinu, og þýddi þá frelsi til að græða sem mest með sem minnstum tilkostnaði (t.d. í launum til þeirra sem framleiða vöru eða með skattgreiðslum). Í rauninni þýddi frelsi í meðförum frjálshyggjumanna 'að vera laus við' — vera laus við að borga skatta, mannsæmandi laun, leggja til samfélagsins, virða rétt annarra,* bera virðingu fyrir öðru fólki. Og að sjálfsögðu að vera laus við íþyngjandi reglur um viðskipti. Hvað frelsi þýddi fyrir öðru fólki skipti litlu máli, það var allavega ekki sett í samhengi við jafnrétti og bræðralag á tímum óheftu frjálshyggjunnar. Í eyrum okkar hinna hefur orðið frelsi verið svo gjaldfellt að varla er hægt að heyra orðið án þess að fá hroll eða klígju.

Núna er orðið vinátta umþaðbil að hljóta sömu örlög. Símafyrirtæki eru farin að auglýsa með slagorðum vináttu og alltíeinu verða allir að eiga voða marga vini (en ekki endilega góða) en aðallega er verið að gefa til kynna að símafyrirtæki séu þau sem stuðla að vináttu og gott ef eru ekki sérlegir vinir þeirra sem beina til þeirra viðskiptum sínum** Þess er líklega stutt að bíða að fleiri fyrirtæki finni sér ástæðu til að klessa 'vina' orðinu einhverstaðar í auglýsingar sínar.

Mér sýnist að vinsældir vináttu-orðalagsins megi rekja til Facebook*** þar sem virðist helsta keppikefli margra vera að eignast sem flesta vini. Heyrst hefur um fólk sem á þúsundir vina**** en algengt virðist að fólk eigi einhverjar hundruðir. Svo virðist sem það þyki mikil ókurteisi að hafna boði um að gerast vinur einhvers og því nánast skylda að bæta öllum við vinahópinn sem það vilja. Ég velti því samt fyrir mér hvað valdi því að fólk hugsar sig ekki tvisvar um þegar einhver fer fram á vináttu þess en er persóna sem það myndi aldrei vilja umgangast eða bjóða heim til sín.

Nýlega sá ég kunnuglegt nafn á vinalista manns sem ég kannast við, ég elti slóðina og sá að á vinalista mannsins með kunnuglega nafnið (það er kunnuglegt því ég veit að hann beitti konu sína og börn líkamlegu og kynferðislegu ofbeldi) var sonur hans sem er landsþekktur fyrir að vera nauðgari. Hann átti líka fjölmarga vini, þar á meðal fólk sem ég kannast við og hélt framað þessu að væri með fullum sönsum. Ég sagði kunningjakonu minni frá þessu (hún er ekki á vinalista þessara feðga) og hún varð mjög hvumsa og sagði mér svo að hún væri með einn mann sem 'vin' á Facebook sem hún vissi að hefði nauðgað konu. Sjálf er hún þolandi kynferðisofbeldis en það var ekki fyrr en eftir að hafa hlustað á þusið í mér sem hún áttaði sig á að það var eitthvað verulega bogið við að lýsa yfir vinskap við mann sem hún vissi að væri nauðgari.

Kannski er það bara eitthvað hugsunarleysi sem veldur því að fólk gerist yfirlýstir vinir nauðgara en kannski er líka þessi svokallaða vinátta á Facebook eftirsókn eftir vinsældum sem eiga ekkert skylt við vináttu. Í það minnsta finnst mér orðið vinátta vera gengisfellt allverulega á vettvangi Facebook.*****

Og þarsem símafyrirtækin ætla nú að nota vináttuhugtakið til að selja vöru þá sýnist mér að það að segjast eiga vini sé umþaðbil að verða jafn súrt og að segjast vilja frelsi. Í stað þess að vera eftirsóknarvert að vera frjáls og eiga vini er það bara enn eitt sölutrixið og tengist engu af því sem áður þótti gott við þessi hugtök.

Lýsi því hérmeð yfir að ég á enga vini. Tók ekki undir frelsisbullið og tek ekki þátt í þessu heldur.

___
* T.d. mjög óvinsæll réttur annarra til að vera laus við sígaréttureyk eða fá starf sem er eyrnamerkt karlmönnum.
** Hér tókst mér mjög vandlega að sneiða hjá því að nota orðið 'viðskiptavinur'.
*** Þrátt fyrir einlægan vilja minn til að nota frekar íslensku en erlenda tungu þá á ég bágt með að nota þau íslensku heiti sem ég hef heyrt yfir þetta fyrirbæri, a.m.k. ekki fyrr en fólk hefur komið sér saman um hvaða orð á að nota. Fésbók, flettismetti, snjáldurskinna, smettiskinna og bóksmetti... Látið mig vita þegar þið ákveðið ykkur.
**** Þá er yfirleitt um frægt fólk að ræða sem aðrir vilja vingast við og vilja kannski ekki hafna vináttu ef ske kynni að það hefði neikvæð áhrif á frægðarferilinn.
***** Mér fannst oft segja mest um Moggabloggara að skoða listann af bloggvinum þeirra. Stjórnmálaskoðanir bloggarans sáust oft á vinavalinu. Væru t.d. þekktir rasistar ofarlega á bloggvinalistanum (nú eða kvenhatarar) langaði mig yfirleitt ekkert að lesa bloggið. Að sama skapi myndi ég ekki samþykkja að vera vinur einhvers á Facebook sem þætti sjálfsagt að vera vinur nauðgara. Af vinunum skulið þér þekkja þá.

Efnisorð: , ,

laugardagur, nóvember 21, 2009

Almannahagsmunir eða bara (ómerkilegir) hagsmunir kvenna

Stelpu er sagt upp vinnu. Kærastinn hennar ræðst á vinnuveitanda hennar fyrrverandi fyrir þá ósvífni að hafa sagt henni upp. Notar byssu og allt, greinilega brjálaður. Hann er lokaður inni og geymdur í gæsluvarðhaldi enda almannahagsmunir í húfi.

Karlmaður kynnist stelpu á netinu og þegar þau hittist fer hann með hana heim til sín þar sem hann heldur henni í 12 tíma og lemur hana og nauðgar á víxl. Hann er ekki lokaður inni.

Almannahagsmunirnir í fyrra tilvikinu eru* að karlkyns fyrrum vinnuveitendur ákveðinnar stúlkukindar eru í lífshættu ef sá byssuóði gengur laus.

Í seinna tilvikinu fer náttúrulega nauðgarinn aldrei aftur á netið,** kynnist aldrei aftur stelpum og mun þá líklega aldrei aftur nota vald sitt og líkamsburði til að loka neina konu inni eða beita valdi til að nauðga. Engum konum stafar nokkurntímann hætta af honum héreftir.*** Það er jú engin hætta á að hann ráðist á karlkyns vinnuveitendur. Það hlýtur að vera röksemdafærslan sem löggan beitir.

Þegar ég var lítil var mér kennt að englar pössuðu mig meðan ég svæfi. Nú þegar ég fer að sofa á kvöldin finn ég öryggiskenndina hríslast um mig við tilhugsunina um hve löggan passar mig og allar aðrar konur. En löggan er auðvitað ekki til þess að gæta öryggis kvenna, heldur til að vernda karlkyns atvinnurekendur. Sennilega er álíka gáfulegt að treysta löggunni og trúa á engla.
___
* Ég veit auðvitað ekkert nema byssuóði karlmaðurinn hafi haft uppi einhverjar þær hótanir sem benda til að hann eigi ekki að ganga laus. Hefði samt haldið að ef byssan væri tekin af honum og hann settur í nálgunarbann gagnvart manninum sem hann réðst á (nálgunarbann á að virka svo voða vel þegar karlmenn ofsækja fyrrverandi konur sínar)þá mætti sleppa honum út. Ekki að mér finnist hann eitthvað sérstaklega eiga að ganga laus, hann er greinilega klikkaður, en afhverju frekar að loka hann inni en nauðgara?

** Fari svo ólíklega að löggan, saksóknaraembættið og dómskerfið sameinist um að loka nauðgarann inni getur hann skemmt sér við að vafra á netinu á Litla Hrauni og uppfæra stöðu sína á Facebook. Svona eins og siðblinda ógeðið sem nauðgaði kærustunni fyrrverandi og drap svo vinkonu hennar fyrir að vitna gegn sér.

***Nauðgarinn segir auðvitað að þetta hafi alltsaman farið fram með vilja stelpunnar. Skyldi hann trúa því sjálfur eða er þetta bara venjubundið trix nauðgara þegar þeir eru spurðir um atburðarásina? Líklega hafa þeir sagt þetta, bræðurnir sem var verið að sleppa við ákærur eftir að hafa nauðgað konu nú í vor. Þar hafði löggan þó hnikað málinu til ríkissaóknara sem fannst ekki sannanir nægar. Enda vitnisburðir tveggja nauðgara gegn einni konu og eru eingöngu hennar orð gegn þeirra. Sem er auðvitað einskis virði.

Efnisorð: , ,

þriðjudagur, nóvember 17, 2009

Atvinnuleysi er ekki nógu mikið

Það fyrsta sem ég hugsaði þegar ég heyrði að aðstoðarmaður félagsmálaráðherra krefðist 229 milljóna úr þrotabúi Landsbankans — þessu sem á að standa undir Icesave afborgunum* — var að þessi maður þyrfti að verða atvinnulaus og það sem fyrst. Hvernig í ósköpunum stendur á því að hann er A) ráðinn sem aðstoðarmaður ráðherra og B) að hann er ekki rekinn um leið og það kemst upp að hann er svo gírugur að hann heimtar hundruðir milljóna fyrir það eitt að hafa verið á launaskrá hjá Landsbankanum? Ef hann verður ekki rekinn mjög fljótlega þá held ég að Árni Páll ætti að segja af sér ráðherradómi vegna skerðingar á starfsgetu.

Fleiri mættu reyndar missa vinnunna. Það hefur ekki verið skafið nægilega af efstu lögum banka og annarra fjármálastofnana, það lið sem þar situr mætti gjarna prófa lystisemdir atvinnuleysisins líka. Embættismannakerfið er gegnsýrt af flokksdindlum Sjálfstæðisflokksins sem þar hefur verið plantað inn áratugum saman, sama má segja um fólk sem flækist þar fyrir umbótum og uppstokkun af hálfu Framsóknarflokksins. Út með allt þetta lið.

Ef tölur um atvinnuleysi hækkuðu vegna þess að hundruðir eða jafnvel þúsundir af þessu hyski (hvað eru þetta margir annars?) væri ekki lengur í aðstöðu til að taka ákvarðanir í eigin þágu og flokksins síns eða auðmanna sem keypt hefur það til fylgilags við sig, þá yrði ég hæstánægð. Síst á þetta lið skilið starfslokasamninga á borð við þann sem aðstoðarmaðurinn í Félagsmálaráðuneytinu gerði við sína fyrri vinnuveitendur; vonandi er enginn svo vitlaus að gera samkomulag um slíkt við hann nú.

___
* Hann er svosem ekki einn um að vilja kría þennan pening út, almenn stemning meðal strákanna í Landsbankanum virðist vera fyrir því að fá soldið fyrir sinn snúð. Flottir gæjar. Hvernig ætli þeir sofi á nóttunni?

Efnisorð:

sunnudagur, nóvember 15, 2009

Hulduherir

Jafn ánægð og ég er með eigið nafnleysi og launsátursástand þá fyllist ég tortryggni þegar talað er um hópa fólks sem aldrei er upplýst nánar um.

Hverjir eru bakvið búð Jóns Geralds Sullenberger? (Mín ágiskun er að þar séu einhverjir sem jafnvel vita ekki alveg hvað sá ágæti maður heitir eða a.m.k. einhverjir sem eru jafn áfram um að klekkja á Jóni Ásgeiri og hann**).

Hvaða fólk var það sem var handvalið inná Þjóðfundinn? Ég sá glitta í Bjarna Ben og Ragnheiði Ríkharðsdóttur, voru fleiri þingmenn þarna auk Guðfríðar Lilju? Var kannski öllum þingmönnum boðið? Það hlýtur bæði að hafa aukið taugatitring en líka dempað frjálsleg skoðanaskipti (hafi þau á annaðborð verið leyfð, mér virðist reyndar að umræðunum hafi verið stýrt svo rosalega að það hafi bara verið talað útfrá fyrirframgefnum stikkorðum**) að hafa svoleiðis lið meðal handvalda pöbulsins. Hvað hefði gerst ef einhver borðnauta Bjarna hefði hreytt í hann vel völdum orðum, hefði borðið fengið plússtig fyrir extra heiðarleika?

Nýjasta nýttið er Þjóðarhagur.is sem er 100 manna hópur fjárfesta sem vill fá að kaupa Baugsbúðirnar, sem kallast víst Hagar. Þessi hópur — undir forystu manns sem virðist ekki vera með glæstan feril í fjármálum — er að hvetja almenning til að ganga til liðs við sig við kaupin, en þó er ekki gefið upp hverjir upphafsmennirnir hundrað eru (ófrumleg tilgáta er að hópurinn samanstandi af sömu mönnum og standa bakvið búðina hans Jóns Geralds eða allavega mönnum með sama markmið). — En nú er semsagt komið svar við því ... ***

Og svo langar mig ennþá að vita hverjir þessir kröfuhafar eru sem eignuðust Glitni/Íslandsbanka um daginn. Svona þar sem ég er viðskiptavinur þar.

____
* Það er engin hætta á að ég versli við Jón Gerald Sullenberger. Ekki vegna þess að ég styðji Jón Ásgeir (og sé þarafleiðandi í Baugsliðinu eða Baugspenni) heldur vegna þess að það eitt veit ég um Jón Gerald að hann sá um snekkjuna Thee Viking fyrir Jón Ásgeir og þarmeðtalið að útvega vændiskonur um borð. Ég versla ekki vísvitandi við melludólga.
** Ég hef lesið nokkur blogg sem hafa gagnrýnt þjóðfundinn útfrá hinu og þessu en Pétur Tyrfingsson neglir algerlega mína skoðun og bætir um betur.
*** Ojjjjjjjj, það er heldur betur komið í ljós hve þetta er geðslegt lið: Brynjar Goldfingerverjandi!

Efnisorð:

föstudagur, nóvember 13, 2009

Föstudagurinn þrettándi

Í mörg ár var beygur í mér þegar þrettánda dag mánaðarins bar uppá föstudag. Ég fór helst ekki útúr húsi og allsekki undir stýri á bíl. Þó taldi ég mig ekki vera hjátrúarfulla en þegar báðir foreldrar mínir lentu í alvarlegum bílslysum með tveggja ára millibili sem bar uppá föstudaginn þrettánda í báðum tilvikum — þá réði ég ekki alveg við þá tilfinningu að þetta væri ekki einleikið. Nú er langt um liðið og ég hef iðulega ekkert tekið eftir dagsetningunni heldur brunað um borg og bý áhyggjulaus þennan dag, og auðvitað ekkert sérstakt komið fyrir.

En um daginn rakst ég á blaðaúrklippur sem sýna bifreiðar foreldra minna verulega krambúleraðar, önnur dregin af vettvangi hin á slysstað og þær hafa legið efst í blaðabunka á skrifborðinu um nokkra hríð. Ég myndi þó ekkert tengja þennan gamla ótta minn við daginn í dag ef ég hefði ekki lesið blogg sem minnti mig óþyrmilega á þetta allt saman og ekki bættu myndirnar sem ég hef fyrir framan mig úr skák. Og nú er spurningin, á ég að stökkva útí umferðina og láta sem álögunum hafi verið aflétt eða húka heima allan daginn og ljúga því að sjálfri mér að ég sé alltof mikil raunsæismanneskja til að vera hjátrúarfull en hafi bara af tilviljun ekki farið útúr húsi í dag?

Jæja, ef ég fer út þá passa ég mig bara á að vera í hreinum nærfötum.

Efnisorð:

laugardagur, nóvember 07, 2009

Fótboltamenning er karlamenning upp á sitt versta

Femíninistafélag Íslands sendi frá sér ályktun fyrir stundu þar sem yfirhylming Knattspyrnusambands Íslands með strippstaðaför fjármálastjóra KSÍ er fordæmd.* Ég er í meira lagi sallaánægð með ályktunina og birti hana því orðrétt hér og slepp þar með að skrifa langa bloggfærslu** frá eigin brjósti þar sem ég hefði á talsvert minna kurteisan hátt sagt álit mitt á þessu öllu samani.

Hér er ályktunin.

Femínistafélag Íslands fordæmir framferði fjármálastjóra KSÍ og viðbrögð sambandsins í kjölfarið og krefst þess að stjórnin segi af sér og fjármálastjóranum verði vikið úr starfi hið fyrsta.

Fréttir af heimsókn fjármálastjórans á súlustað í Sviss hafa vakið verðskuldaða athygli í samfélaginu á undanförnum dögum, enda fáheyrt að menn sem gegni trúnaðarstörfum fyrir samtök sem kenna sig við forvarnir og heilbrigt líferni verði uppvísir að iðju sem tengist skipulagðri glæpastarfsemi, misnotkun á bágri stöðu kvenna og það með kreditkort vinnuveitandans upp á vasann.

Knattspyrnusamband Íslands er regnhlífarsamband fyrir stærstu íþrótt á Íslandi sem á að vera uppbyggileg og þroskandi fyrir fólk á öllum aldri. Eðlileg og sjálfsögð krafa samfélagsins er að stjórn þess og fólk sem þar gegnir trúnaðarstörfum hagi sér í samræmi við þá ábyrgð sem það ber.

Árið 2006 sendi Íþróttasamband Íslands frá sér yfirlýsingu, þar sem vændi og mansal var fordæmt í tengslum við heimsmeistaramótið í knattspyrnu sem fram fór í Þýskalandi. Þar segir m.a. ,,Megininntak íþrótta er mannleg reisn og heilbrigt líferni.” Þarft er að rifja upp í þessu samhengi að KSÍ neitaði að leggja baráttunni gegn vændi og mansali lið á mótinu þrátt fyrir fjölmargar áskoranir, m.a. frá 14 kvennasamtökum og jafnréttisnefnd Reykjavíkur.

Ljóst er að Knattspyrnusamband Íslands hefur brugðist hlutverki sínu stórkostlega. Áhugafólk um knattspyrnu og íþróttir á betra skilið.

___
* Váááá, hvað Femínistafélagið á eftir að fá yfir sig skítkastið frá öllum fótboltaköllum landsins fyrir þetta.
** Ég hef nú ýmislegt að segja um fótbolta yfirleitt, en það gæti orðið að sér færslu þegar fram líða stundir. En ef af yrði myndi ég örugglega minnast á hin víðfrægu karlakvöld KR þar sem tíðkaðist að panta strippara og ekki má gleyma þegar einn þjálfari þess félags var drepinn af mönnum sem hann hafði fengið til að skutla sér frá Vegas að Bóhem. Sá var nú aldeilis mærður fyrir að hafa verið svo góð fyrirmynd drengjanna sem hann þjálfaði, ekkert spurningarmerki var sett við að fjölskyldufaðir í æskulýðsstarfi var að þvælast fullur á þessum stöðum. Karlamenningu fótboltans þykir slíkt bara sjálfsagt.

Viðbót: Tilhugsunin um að fótbolti sé undirliggjandi sjúkdómur skemmtir mér verulega.

Efnisorð: , , ,

föstudagur, nóvember 06, 2009

Hugarfar fjárplógsmanna landsbúnaðarútvegs

Helsta ástæða andstöðu minnar gegn því að Ísland gangi í Evrópusambandið hefur verið annarsvegar fiskimiðin og hinsvegar landbúnaðurinn. Ég hef hugsað til þess með hrolli að spænski fiskveiðiflotinn ryksugi upp allan fisk og hverfi síðan á brott ropandi eftir að hafa svipt okkur helstu lífsbjörginni. Innlendur landbúnaður, talandi um lífsbjörg, hefur auðvitað verið undirstaða mataræðis okkar í 1100 ár eða svo. Lokist lánalínur eða siglingaleiðir er ákaflega mikilvægt að hafa matarforða innanlands, hvort sem hann er í formi fisks, kindakjöts eða grænmetis ræktuðu í gróðurhúsum.

Reyndar eru örlög kýrinnar mér mjög hugstæð. Hér fyrir nokkrum árum var mjög rætt um að flytja inn norskt kúakyn (ekki kýr á fæti heldur planta norskum fósturvísum í íslenskar kýr) sem væri stærra og afurðameira en íslenska landnámskýrin. Gott ef þessi áform voru ekki ein ástæða þess að bændur fóru að stækka fjós sín og leggja af básakerfið; þeir bjuggust við stærri kúm sem kæmust ekki fyrir í þröngum básum og þyrftu breiðari gangveg en þær íslensku.

Bergsveinn Birgisson skrifaði skáldfræðibókina Handbók um hugarfar kúa og þar er m.a. fjallað um norsku kýrnar* og kúarækt almennt. Ýmis viðhorf sem hann viðrar þar höfða mjög til sveitarómantíkurinnar í mér (sem er líka ein ástæða þess að ég vil ekki ganga í ESB) svo sem eins og þessi ræða sem fjallar um þessa hugmynd um að skipta út íslensku kúnni fyrir aðra og arðsamari kú:

„Ef fósturvísaleiðin yrði farin með íslensku kúna, yrði tryggt að hennar tími kæmi aldrei aftur. Þau fáu dýr, sem fengju að halda lífi, yrðu á skömmum tíma svo innræktuð að kynið myndi deyja út á nokkrum árum. — Íslenska kýrin mun þá að eilífu glötuð. Hennar genetíska arfi, hertum og aðlöguðum að íslenskum aðstæðum í 1100 ár, kastað á glæ. Ef til vill er fleira í íslensku mannlífi sem stendur frammi fyrir eilífri útslokknun? Þótt fáar rannsóknir séu til um kosti íslensku kýrinnar fram yfir önnur kyn, þá eru heldur ekki til haldbærar rannsóknir sem sýna hvaða kosti önnur kyn hafa fram yfir það íslenska. Að kasta íslensku kúnni væri að kasta því góða án þess að vita hvað hið góða er.“

Ég er kannski eins og ein sögupersóna bókarinnar sem er kynnt sem „miðaldra kúabóndi af Suðurlandi“ sem segist vera viss um að „íslensk nautgriparækt, og gott ef ekki íslensk menning, færi í súginn ef kúnni yrði hent á haugana.“** En þetta snýst ekki bara um þjóðernisrómantík og sveitastemningu heldur snýr málið að því sem er orðið kunnuglegt stef í umræðu hrunþjóðfélagsins, sem er orðin okkur mun nærtækari en spekúleringar um nyt í kúm.

„Hinn risavaxni efnahagur og útrás íslenska hagkerfisins kallaði á risavaxnar kýr, þessar raddir um að býtta út kúnum fylgdu sömu línu og útrásarvöxturinn eða eitthvað sjúkara lá undir, eins og til dæmis að á grimmum hagræðingartímum beina menn sjónum að öllu því óhagkvæma, allt gamalt verður óhagkvæmt, en hins vegar er hægt að græða meira á einhverju öðru nýju. Og hið óhagkvæma er óhagkvæmt sökum þess að einhverjir terlínuppdubbaðir fjármálagreiningarkrakkar með bachelor-gráðu í viðskiptafræðum hafa reiknað það út“.

Og nú kem ég aftur að viðhorfi mínu til inngöngunnar í ESB. Eftir bankahrunið varð illa upplýstum almúga eins og mér skyndilega ljóst að fiskveiðikvótinn væri veðsettur í þýskum banka. Og finnst mér þá litlu skipta hvort við göngum í ESB, þessi fiskur er ekkert á okkar snærum hvorteðer. Aðra uppgötvun gerði ég (og líklega fleiri) þegar ég las grein*** um eignarhald á íslenskum bújörðum.**** Þetta er áhugaverð lesning en það sem ég staldraði sérstaklega við var þetta:

„Eftir því, sem næst verður komið, rekur Lífsval ehf í dag fjölda stórra kúabúa víðs vegar um landið, hvert þeirra með um og yfir 400 þúsund lítra mjólkurkvóta. Talið er félagið eigi nú yfir 40% af öllum mjólkurkvóta í landinu auk verulegs kjötkvóta.“

Lífsval ehf er einkahlutafélög, sem er í eigu fjársterkra íslenskra aðila og eru nöfn þeirra nefnd og hvaða fyrirtækjum þeir tengjast. Þar á meðal stjórnarmenn eða yfirmenn í BYR, Glitni og MP-banka (enda hafði félagið „nær ótakmarkað[an] aðgang að fjármagni til kaupa á bújörðum og kvóta“ - enda „virðast hafa verið mikil tengsl fyrir hrun á milli eigenda Lífsvals ehf og BYRS svo og Glitni banka hf. Einnig Kaupþings hf.“), svo ekki sé minnst á einn barnalánspabbann. Og þessir menn eiga semsagt 40% alls mjólkurkvóta, sem þýðir að þeir eiga fleiri en eina kú og fleiri en tvær. Og þar sem þetta félag „og skyldir aðilar hafa keypt á annað hundrað bújarðir“ þá velti ég fyrir mér — er ástæða til að vernda íslenskan landbúnað almennt og kúarækt sérstaklega fyrir innfluttum landbúnaðarvörum eða hverju öðru því sem ESB aðild myndi krefjast að við tækjum upp á okkar arma, jafnvel hormónasligaðar norskar kýr sem skilja ekki þúfur?

Íslenskir auðmenn, þar með taldir kvótakóngarnir og búmennirnir sem svo byrlega blés fyrir í jarðakaupunum, hafa náð því að láta mér finnast ESB aðild vera bara frekar góður kostur. Jafn mikið og landsbúnaðarútvegs-guttarnir hafa hátt gegn ESB aðild þá er hegðun þeirra slík að allt er betra en auðsöfnun þeirra og það sem verra er, skuldsetningin og veðsetningarnar.***** Það er til lítils að vera með einhverja sveitarómantík yfir veröld sem var; kýrnar eru eflaust veðsettar uppí topp eins og allt annað. Lokum bara augunum og krossum við já þegar kosið verður um inngöngu í ESB. Þetta er hvorteðer allt farið í drasl hérna.

___
* Handbókin telur upp nokkra ókosti norsku kýrinnar s.s. að hún lifir ekki án fóðurbætis og getur ekki gengið í brekkum eða þýfðu landi. En hitt er ekki tekið fram, að íslenskar kýr eru með þaulræktað þúfnagöngulag.

** Í Handbók um hugarfar kúa kemur reyndar fram að íslenska kýrin var kynbætt á 19. öld með dönskum og þýskum kúm sem sigldu hingað eins og landnámskýrin.

*** Greinin er nafnlaus (og varla get ég fett fingur útí það) en miðillinn sem hún birtist hjá er vægast sagt vafasamur. Greinarhöfundur hefur þó hugsanlega ekki haft hugmynd í hverskonar félagsskap greinin myndi lenda í og veðjað á þennan nýja miðil. Ég yrði ekki hissa ef miðillinn verður lagður niður, því varla mun sómakært fólk skrifa þarna í framtíðinni. Hjá Silfri Egils skrifar allskyns fólk athugasemdir, misjafnlega sómakært, en þar koma þó oft gagnlegar upplýsingar sem vert er að hafa bakvið eyrað. Þar er t.d. bent á að eigendur mjólkurbúa hafi aðgang að opinberum styrkjum og muni fá enn betri styrki gangi Ísland í ESB. Hrollvekjandi er líka sú ábending að jarðauppkaupin tengist yfirráðum yfir vatni.

**** Ég hafði heyrt að auðmenn væru að kaupa sér land en hélt að þeir væru að því fyrst og fremst undir sumarhallir sínar og hrossastóðin sem karlmennska þeirra býður þeim að hafa tiltæk þegar þeir detta í það og finnst fyndið að ríða út einhverjum rándýrum hrossum sem þeir þekkja varla með nafni.

***** Eða eins og spurt er í greininni: „Hjá hvaða fjármálafyrirtækjum liggja skuldir þessara aðila?“ Það liggur við að ég gerist kaþólsk og ákalli heilaga guðsmóður við tilhugsunina. Læt mér nægja að hneigja höfuðið og biðja ESB að bjarga okkur frá þessum skríl.

Viðbót: Stutt Eyjufrétt um kúabændur í fjárhagsvanda. Þar er reyndar ekkert fjallað um í hvað þessar miklu fjárfestingar kúabænda hafa farið, geri ég þó ráð fyrir að þar séu nýju fjósin fyrir norsku kýrnar innifalin.

Efnisorð: , , , ,

fimmtudagur, nóvember 05, 2009

Neyðarmóttaka vegna nauðgana á sér ekki talsmann

Ég geri mér fullkomlega grein fyrir að það þarf að skera niður í heilbrigðiskerfinu eins og annarstaðar. En atlagan að Neyðarmóttökunni er sérlega alvarleg því hún á sér ekki hliðstæðu á höfuðborgarsvæðinu (ég held að enn sé opin neyðarmóttaka á FSA á Akureyri) og því ekki í nein önnur hús að venda. Þórdís Elva Þorvaldsdóttir fjallar um Neyðarmóttökuna í bók sinni Á mannamáli og hún segir þetta:

„Í lok febrúar 2009 var öllum hjúkrunarfæðingum Neyðarmóttöku Landspítalans í Fossvogi sagt upp störfum, sem afleiðing niðurskurðar í heilbrigðiskerfinu. Ætlunin var að sameina bráðamóttökur Landspítala og voru uppsagnir hjúkrunarfræðinganna á Neyðarmóttökunni liður í því ferli. Hjúkrunarráð Landspítalans sendi frá sér ályktun og lýsti yfir „miklum áhyggjum vegna þessara fyrirhuguðu breytinga og telur hætt við að þeim árangri sem náðst hefur í meðferð ákveðinna hópa sjúklinga sé ógnað, verði þær að veruleika.“

Upprunalegt skipulag Neyðarmóttökunnar var að sérþjálfað teymi lækna, hjúkrunarfræðinga og félagsráðgjafa tæki á móti brotaþolum og veittu þeim líkamlega og andlega aðhlynningu í kjölfar nauðgunar. Félagsráðgjöfunum var sagt upp í niðurskurði árið 2004 og þá áttu hjúkrunarfræðingarnir að taka við starfi þeirra, sem gerði enn frekari kröfur til sérhæfingar þeirra. Með uppsögnum hjúkrunarfræðinganna átti hlutverk þeirra að færast sem hver annar verkþáttur yfir til almennra hjúkrunarfræðinga á Slysa-og bráðadeild. Flestir þeirra hjúkrunarfræðinga sem sagt var upp höfðu starfað á bakvöktum á Neyðarmóttökunni frá upphafi. Við þetta tækifæri benti Guðrún Jónsdóttir, talskona Stígamóta, á að líkamlegir áverkar eftir nauðgun séu oft lítilfjörlegir í samanburði við það andlega áfall sem nauðgunin valdi. „Mér finnst afleitt að þarna tapist ómetanleg reynsla hjúkrunarfræðinga sem hafa skilning á einmitt þessu, og þarna taki yfir fólk sem er annars í störfum sínum að einblína á líkamlegt ástand.“ Guðrún sagði lítið standa eftir af upphaflegu hugmyndinni með Neyðarmóttöku vegna nauðgana og þarna væri sannarlega gróflega að henni vegið. Uppsagnir allra hjúkrunarfræðinga Neyðarmóttökunnar spara 10-20 milljónir á ári (eða 25-50% af þeirri fjárhæð sem fór í nokkurra daga ferðalag menntamálaráðherra á handboltaleiki á Ólympíuleikunum í Kína árið 2008).“


Við þetta má bæta þeim upplýsingum, sem einnig eru fengnar úr Á mannamáli, að á tímabilinu 2002 til 2006 leituðu 472 einstaklingar á Neyðarmóttökuna í Fossvogi og 67 á Neyðarmóttökuna á Akureyri.

Talsmenn ýmissa stéttarfélaga og hagsmunahópa hafa kvartað í fjölmiðlum undan niðurskurði og kjaraskerðingum, allt frá kvikmyndagerðamönnum til lögreglunnar. En konur (karlar og börn) sem þurfa að fara á Neyðarmóttökuna eiga sér engan talsmann. Það eru ekki til samtök kvenna sem á eftir að nauðga.

Því hafa nú hafa kvennasamtök og facebook hópar — undir forystu hinnar skeleggu Þórdísar Elvu — risið upp neyðarmóttökunni til varnar. Og ég legg hér með* mitt af mörkum: Vinsamlega takk ekki leggja niður þessa nauðsynlegu þjónustu við konur (karla og börn) í neyð. Heilbrigðiskerfi er ekki bara steinsteypa.**

___
* Ég hef leitað logandi ljósi að því sem ég hélt að ég hlyti að hafa skrifað um málefni Neyðarmóttökunnar í febrúar. Finn ekkert. Var mér þá alveg sama þegar ég heyrði þetta fyrst, eða vissi ég ekkert um þetta? Mig rámar reyndar í að ég hafi einhverntímann hugsað eitthvað á þá leið að það væri ekkert verið að loka og allt þetta starfsfólk væri enn innan Landspítalans og hægt að kalla í það með stuttum fyrirvara, og því hafi ég ekki sagt neitt við fréttum um niðurskurð. Því aðrir bloggarar skrifuðu um niðurskurðinn. En þó ég hafi ekki þá sagt neitt þá a.m.k. tók ég við mér núna.

** Ef það á að byggja á Landspítalalóðinni og færa alla starfsemi þangað og loka Borgarspítalanum á annað borð — er þá ekki hægt að nota Borgarspítalann sem fangelsi? Þarf örugglega litlu að breyta, eldhús á staðnum, salerni við öll herbergi o.s.frv. Meira segja þyrlupallur svo auðveldara sé að flýja ...

Efnisorð: , , ,

miðvikudagur, nóvember 04, 2009

Æ, einsog nauðgarar megi ekki ganga lausir?

Yfirleitt þegar karlmenn eru látnir sæta gæsluvarðhaldi fram að dómsuppkvaðningu er það vegna þess að þeir eru taldir ógnun við almannahagsmuni. Þá er yfirleitt átt við dópsmyglara. Nauðgarar sem nauðga konum eru auðvitað ekki ógnun við þann hluta almennings sem er karlkyns þannig að það er óhætt að láta þá ganga lausa, þeir nauðga hvoreðer bara konum.

Nú ber nýrra við, það er ekki einu sinni vegna þess að það sé þröngt í fangaklefum sem nauðgaranum sem fékk mjög þungan dóm* var sleppt, heldur af mannúðarástæðum. Það brýtur nefnilega á rétti hans hve langur tími hefur liðið frá því að dómur féll í héraðsdómi. Miðað við hvað nauðgunarmál hafa oft tekið geigvænlega langan tíma í réttarkerfinu — þar sem konan sem nauðgað þarf að bíða mánuðum ef ekki árum saman** eftir að geta byrjað að horfa til framtíðar — þá mætti halda að þessir mánuðir sem hafa liðið ættu ekki að skaða hið viðkvæma sálartetur nauðgarans mjög mikið.*** En það er auðvitað forgangsatriði að nauðgurum líði vel. Blessaðir mennirnir.
___
* Þ.e. mjög þungan miðað við að íslenska dómakerfið fullnýtir aldrei refsirammann.
** Þórdís Elva nefnir dæmi um rannsókn nauðgunarmáls sem tók 1050 daga, eða tæp þrjú ár.
** Hann er reyndar í farbanni, eyminginn. En við vitum nú hvað það virkaði vel fyrir Hótel Sögu nauðgarann. (Fyrir þau sem það ekki muna, þá fannst hann í Póllandi tveimur mánuðum eftir að hann átti að byrja að afplána dóminn).

Efnisorð: ,

þriðjudagur, nóvember 03, 2009

Endurtuggið efni

Allt sem ég ætla að segja er sagt annarstaðar. Sumt er ég búin að segja sjálf, oftast samt bara hugsa það. Færi ég útí meiriháttar gúggl-leiðangur kæmist ég líklega að því að ég sé endalaust að Hannesa* en haldi (því fram) að ég semji þetta sjálf.

Ég hefði t.d. getað skrifað um hina dæmalausu mynd og frétt í Fréttablaðinu (en hafði í raun ekki geð í mér til þess) þar sem tveir vitleysingar sem einhverra hluta vegna (heimskingjadýrkunar) eru vinsælir í sjónvarpi á Íslandi.** En Gísli málbein er auðvitað búinn að segja allt sem ég vildi sagt hafa.*** Hefði ég þó skrifað um þetta hefði ég líka talað um hve viðbjóðslegt mér fannst þetta og líklega sagt eitthvað um að morgunmaturinn hefði hreinlega ætlað uppúr mér — en þá er ég auðvitað nýbúin að tala um morgunmat á uppleið. Svo ekki gengur það.

Ýmislegt hugsaði ég líka um lánin sem fégráðugir foreldrar tóku hjá siðblindu bankafólki í sjóðs 9 bankanum sem er núna í eigu einhverra sem engin veit hver er. En mér hefði ekki tekist að skrifa hálfa línu um það án þess að hnýta frösunum „blessað barnalán“ og „syndir feðranna koma niður á börnunum“ einhverstaðar þar við. Og það gerði örugglega hálf þjóðin, sbr. þegar ég notaði „fé án hirðis“ frasann hér í síðustu færslu. Þannig að ég segi bara ekki múkk og hugsa mitt í hljóði.

Og talandi um siðblinda foreldra, þá hafði ég líka ýmis orð yfir eineltisorðræðu Jóns Magnússonar. En það var ég sjálf búin að segja áður en þá um hann þarna Hádegismórann sem þá ranglaði í tilgangsleysi um í Svörtuloftum.

Næst birti ég bara gamlar færslur mínar beint. Endursýndar öll föstudagskvöld.


____
* Hér er auðvitað átt við aðferð Hannesar Hólmsteins sem tók texta Halldórs Laxness og birti sem sinn eigin.
** Ég var einhvernveginn sannfærð um að Jakob Bjarnar hefði skrifað þetta, hann er jú með blæti fyrir öllu sem tengist klámi sbr. síendurteknar smáfréttir og viðtöl við Geira í Goldfinger. Guðmundur Andri Thorsson kallar það „þætti af einkennilegum mönnum.“
*** Í minni sveit voru einmitt líka kýr. Þar voru engar beljur.

Efnisorð: , , , ,