fimmtudagur, febrúar 26, 2009

Ný ríkisstjórn, ný hugsun, takk

Steingrímur klikkaði algerlega þegar hann réð Ormsson forstjórann til starfa sem stjórnarformann Nýja Kaupþingsbanka. Svo klikkaði hann aftur þegar fjölmiðlar spurðu hann útí málið og hann sagðist treysta manninum því hann þekkti hann af góðu einu.

Steingrímur, vinir glæpamanna þekkja þá oft af góðu einu.

Núverandi stjórnvöld þurfa að gera það að vinnureglu (og á ekki að þurfa að segja þeim það) að ráða engan til starfa nema spyrja um fyrri störf, tengsl við hrunið og skuldastöðu. Helst fá það skjalfest en a.m.k. að viðkomandi sé spurður. Það á ekki að láta hanka sig á að ráða bara einhvern vegna kunningskaparins. Það eru of miklar líkur á því að þeir sem hafa verið virkir í viðskiptalífinu séu tengdir einhverju misjöfnu.

Svo er fáránlegt af jafn feminískri ríkisstjórn að gera það ekki að skilyrði að nefndir og ráð* séu skipuð jafn mörgum konum og körlum.

___
*Og hættið svo með þessi „tilmæli“ til bankanna um hitt og þetta - setjið lög og reglur - þetta eru ríkisbankar og þeim á ekki að vera stjórnað af einhverju liði sem hugsar eftir gömlum hygla-vinum-sínum leiðum og andfeminískum sjónarmiðum.

Efnisorð: , , ,

þriðjudagur, febrúar 24, 2009

Hans heilagleiki hefur komið og gefið út álit sitt á Sigmari

Davíð Oddsson lítur svo á að þegar hann kemur í Kastljósviðtal þá sé það Sigmar sem eigi að sitja fyrir svörum. Það er Sigmar sem hefur ekki staðið sig í vinnunni, sem er að taka mark á röngu fólki og það þarf að skamma hann soldið fyrir það.

Davíð segist afturámóti bara ekki gagnrýndur af neinum - og þegar Sigmar les upp lista af nöfnum hagfræðinga sem hafa gagnrýnt Davíð þá segir hann bara að þetta séu menn sem ásælist starf Seðlabankastjóra. Hinsvegar, segir Davíð, þá treysta honum allir svo ofboðslega mikið betur heldur en nokkrum öðrum enda hafi hann verið ofsóttur og sagt satt svo lengi.

Komið til mín, allir
þér sem erfiði hafið
og þungar byrðar

Og hann gagnrýndi að enginn væri að telja kjark í þjóðina - og þarsem Sigmar var ekki tilbúinn með lista yfir nöfn fólks heldur bara sagði að það væru margir að því þá leit Davíð á það sem enn einar ofsóknirnar að mega ekki segja þetta.

Og svo er eitthvað heilaþvegið lið að halda vöku fyrir konunni hans á nóttunni.

Þessi þjóð á varla skilið svona góðan mann.

Efnisorð: , , , ,

mánudagur, febrúar 23, 2009

Málsvörn nauðgara: þær vilja þetta allar

Karlmenn sem eru sakaðir af nauðgun segjast oft vera saklausir. Gildir þá engu hvaða sögu konan sem kærir þá segir. Og alltaf eru einhverjir sem trúa þeim. Yfirleitt allir vinir þeirra og ættingjar; semsé allir þeir sem ekki eru beinlínis skyldir eða tengdir konunni sem nauðgað var (þó snúast hennar ættingjar og vinir oft á sveif með nauðgaranum). Afstaða þessara aðila er þá byggð á „eindreginni neitun“ nauðgarans (eins og það er kallað) og hans frásögn af því sem fór á milli hans og konunnar.

Í dag var karlmaður sakfelldur fyrir nauðgun í héraðsdómi Suðurlands. Dómurinn var óvenju þungur eða fjögur og hálft ár (og þá á ég við húrra jibbí að hann sé þó þetta þungur enda þótt ég velti því fyrir mér nú sem oftar hvað þurfi til að karlar séu dæmdir til þyngstu refsingar, sem er 16 ár).* Þar kemur líklega inní að mjög mikið sá á konunni. Karlmaðurinn sem nauðgaði henni þrætti þó og spann upp eigin útgáfu af sögunni. Dómarar trúðu honum ekki, en ég væri ekki hissa á að vinir hans trúi honum ennþá þrátt fyrir dóminn.

Þessvegna er fróðlegt að lesa dóminn. Ég vara reyndar við að fólk leggi það á sig, enda lýsingarnar óhugnalegar.** En framburður nauðgarans er í svo hróplegu ósamræmi við það sem greinilega gerðist - og ég er algerlega sannfærð um að margir nauðgarar segja þessa sögu eða svipaða þegar þeir bera af sér sakir í samtölum við vini og vandamenn. Málsvörnin felst þá í - þegar menn þá ekki bara þræta fyrir að hafa verið á staðnum - að konan hafi stokkið á manninn alsaklausan og heimtað kynlíf. Og þar sem hún vilji harkalegt kynlíf þá sé von að það sjái á henni í kjölfarið.***

Og nei, það kom mér ekki á óvart að nauðgarinn fílar klám.****

___
* Annarstaðar á landinu fékk karlmaður fjóra mánuði skilorðsbundna eftir að hafa ítrekað misþyrmt konu. Alltaf gaman að því hvað sumum dómurum finnst réttlætanlegt að berja konur. Kannski verður suðurlandsnauðgarinn heppinn, ef hann áfrýjar til Hæstarétts, og fær frænda norðurlandsdómarans eða spilafélaga pabba hans sem dómara í málinu og fær þá að sleppa. Spilafélaginn er allavega alltaf jákvæður í garð nauðgara.

** Ég ítreka að þetta er skelfileg lesning. Ég læt slóðina fylgja með vegna þess að það skiptir máli að geta bent á hvaða aðferð karlmenn beita til að ljúga sig útúr ásökunum um nauðgun. Hér er slóðin á dóminn sjálfan.

*** Ég er búin að sjá þetta í nokkrum dómum undanfarið, t.d. þegar dómstóll lýsti því yfir að körlum sé frjálst að flengja börn kærustunnar. Þar var bent á að karlinn notaði flengingar í kynlífi sinni með konunni (semsagt hann örvast af flengingum) en þá lýsti hann því yfir að hún vildi þetta endilega. Samt hafði stórséð á henni og hún sagt vinkonu sinni frá því að hann hefði misþyrmt sér.

**** Hann kom með klámmynd til að horfa á meðan hann nauðgaði konunni.

Efnisorð: , , , ,

fimmtudagur, febrúar 19, 2009

Ástæða þess að lýðræði virkar ekki: Of margir fávitar hafa kosningarétt

Auðvitað er það fáránlegt að atkvæði Vestfirðinga og annars landsbyggðarfólks hafi meira vægi í kosningum en atkvæði höfuðborgarbúa. Og furðulegt að rúmlega þrjúhundruðþúsund manna þjóð þurfi öll þessi kjördæmi þegar eitt myndi duga.

En eigi að breyta kosningalögum, þá er þetta brýnast í mínum huga:

Svipta ber alla þá kosningarétti sem hafa kosið Sjálfstæðisflokkinn einhverntímann á síðustu 18 árum.

Efnisorð: , ,

miðvikudagur, febrúar 18, 2009

Ógjörningur

Ég er sammála formanni Náttúruverndarsamtaka Íslands að það er helvíti hart að vinstri grænn ráðherra skuli skrifa uppá hvalveiðar. Vonandi verða viðbrögð umheimsins svo hörð að Íslendingar neyðast til að hætta við þetta rugl, að Steingrímur afturkalli hreinlega ákvörðunina sem hann tók tilneyddur. Annars virðist reyndar sem það verði ekkert af þessu hvorteðer, Steingrímur talaði þannig, enda þótt svo virðist sem honum hafi verið ógjörningur að taka aðra ákvörðun. Hvort það verði svo til þess að styrkja Sjálfstæðismenn í sessi er svo enn önnur saga.

Annars er mér spurn. Ef tveir þriðju þjóðarinnar styður hvalveiðar á þeim forsendur að við eigum að fá að ráða hvað við gerum og okkur komi ekki álit umheimsins við - finnst þá fólki almennt að alþjóðasamfélagið eigi heldur ekkert að styðja okkur í þrengingunum sem blasa við okkur? Eða sér fólk ekki að annað atriðið geti haft áhrif á hitt?

Efnisorð: , , , ,

föstudagur, febrúar 13, 2009

Spennandi tímar - fyrir Sjálfstæðismenn

Sjálfstæðisflokkurinn er í svo miklum kosningabaráttustellingum að hann er alveg búinn að gleyma því að það þurfi að gefa ríkisstjórnum svigrúm, næði og vinnufrið til að sinna brýnum málum. Hin nýja ríkisstjórn er vart búin að sitja nema viku og það dynja á henni blammeringar og fyrirspurnir - sem oft eru ekki annað en tækifæri fyrir Sjálfstæðismenn til að koma í ræðustól Alþingis og skeggræða áhugamál sín.

Þannig kom Þorgerður Katrín í óundirbúnum fyrirspurnartíma í gær og vildi krefja nýja fjármálaráðherrann svara við því að hinn nýi ráðuneytisstjóri (sem hún sagði hafa fengið starfið í hreinsunum - þ.e Baldri Guðlaugssyni sem almennt er álitinn hafa notað innherjaupplýsingar til að losa sig við feig bréf sín í Landsbankanum var skipt út) hafi áður viðrað skoðanir sínar á arðsemi álvera. Þetta varð henni tilefni til að mæra álver og hve ægilega arðbær þau séu.

Efnisorð: , , ,

fimmtudagur, febrúar 12, 2009

Það er svo 2007 að kaupa kynlíf

Enn og aftur á Steinunn Stefánsdóttir góðan leiðara í Fréttablaðinu. Þar fjallar hún um afar brýnt mál; vændisfrumvarpið og segir þar að „vændi er ein af mörgum birtingarmyndum kynbundins ofbeldis.“ Steinunn reifar helstu atriði varðandi vændi en hefur auðvitað ekki pláss til að rekja allar hliðar þess. Samt er þetta frábært hjá henni.*

Vonandi tekur hin feminíska ríkisstjórn upp vændisfrumvarp Kolbrúnar Halldórsdóttur að nýju og ógildir þannig gjörning Sjálfstæðismanna frá vorinu 2007 sem hafði þann tilgang að gera körlum auðveldara að kaupa sér aðgang að líkömum kvenna. Nú ætti að vera lýðum ljóst að verslun með konur er ein birtingarmynda frjálshyggjunnar (les: græðgisvæðingarinnar) sem er loks liðin undir lok. Það ætti því að vera auðveldara að fá hljómgrunn fyrir frumvarpinu hjá almenningi, svo ekki sé talað um í þingsal þar sem loksins er þingmeirihluti fyrir feminískum lagabreytingum.

Ef öll önnur rök þrýtur má reyna að slengja því framan í frjálshyggjuguttana á þingi að það sé „svo 2007“ að kaupa kynlíf.

---
Viðbót: Frumvarpið er komið fram og nýtur mikils stuðnings í þjóðfélaginu.
__
*Í sama blaði er reyndar fjallað um meinta vændisstarfssemi í húsi gegnt lögreglustöðinni á Hverfisgötu, sem einnig er steinsnar frá húsnæði Ríkislögreglustjóra, og er þar talað um „gleðikonur.“ Mér er alltaf jafn óskiljanlegt í hverju gleðin á að vera fólgin. Vændi er vændi, ekki uppspretta gleði né gleðilegur atburður í sjálfu sér, hvað þá að vændiskonur megi vera glaðar með stöðu sína

Efnisorð: , , ,

þriðjudagur, febrúar 10, 2009

Græðgi karla verðlaunuð

Enn einu sinni kemur í ljós að launamunur kynjanna er umtalsverður, nú síðast í rannsókn sem sýndi að enn meiri munur er á landsbyggðinni en á höfuðborgarsvæðinu.

Lausnin, að mati margra karlmanna, er auðvitað ekki að borga öllum jafnt, heldur sú að konur verði duglegri að fara fram á hærri laun. Þær eigi ekki að sætta sig við lægri laun en karlar og þannig leysist málið. Bara spyrja stelpur mínar og þá fáið þið það sem þið viljið. Í mörgum tilvikum er hinsvegar ekkert hægt að vita hvað karlarnir hafa í laun því launaleynd ríkir víða.

Þetta hef ég allt fjallað um áður.

Nú leikur mér forvitni á að vita hvernig fer fyrir öllum vellaunuðu guttunum sem fengu betri laun en jafn vel menntaðar konur með sömu starfsreynslu. Hvað gerist þegar þeir koma niðurlútir og hnípnir að skrá sig atvinnulausa* og eru þar með komnir í flokk með fólki sem er afætur** á kerfinu? Geta þeir samið um hærri atvinnuleysisbætur í krafti kynferðis síns - úps, ég meina vegna þess að það er nóg að biðja bara um meiri pening og þá fær maður hann? Eða þurfa þeir, rétt eins og konur sem eru atvinnulausar, að þiggja það sem að þeim er rétt?

Getur ekki verið að sú krafa að konur eigi að biðja - sem eintaklingar, hver við sinn vinnuveitanda - um hærri laun en þeim er boðið - sé einfaldlega röng? Byggir hún ekki á þeirri hugmynd sem okkur (sem samfélagi) er að verða æ ógeðfelldari, að heimta meira og meira og að græðgin sé verðlaunuð? Er ekki skárra að vinnuframlag (rétt eins og atvinnuleysi) sé föst tala sem gildir fyrir öll?***

___
* Af tillitssemi við alvöru fólk er nú hægt að skrá sig á netinu, áður mátti skríllinn standa í röð og afhjúpa sig sem atvinnuleysingja.
** Alltaf vinsælt hjá frjálshyggjuguttum og öðru ómerkilegu fólki að finnast öryrkjar og atvinnulaust fólk vera sníkjudýr og tala um það sem svikult og latt.
*** Laun fyrir vinnu miðist auðvitað við menntun, starfsaldur og reynslu. En ekki kyn, frekju og græðgi.

Efnisorð: , , ,

mánudagur, febrúar 09, 2009

Stutt er milli Spandau og Svörtulofta

Ég las á einhverju bloggi uppástungu um að Jóhanna forsætisráðherra léti taka hita og rafmagn af Seðlabankanum og þá myndi Davíð fyrir rest flæmast þaðan út.

Ég hef aðra uppástungu.* Lokum hann þar inni.

Rudolf Hess var einn af sjö nasistum sem fengu þann dóm í Nürnberg réttarhöldunum að dúsa til æviloka í Spandau fangelsinu í Berlín. Nokkrir þeirra fengu að fara fljótlega og þegar tveimur var sleppt 1966 var Rudolf Hess einn eftir. Hann hafði heilt fangelsi, sem upphaflega átti að rúma 600 fanga, alveg útaf fyrir sig. Hann hírðist þar lengi einn, ein tuttugu ár og þegar hann drapst úr elli 1987 var fangelsið rifið.

Þetta hlýtur að ríma ágætlega við persónugerð og fyrirferð Davíðs Oddssonar. Ég legg til að húsnæði Seðlabankans við Arnarhól - sem oft er kallað Svörtuloft - verði að hans einka prísund.** Kannski er hann bara best geymdur þar, einn og engum til skaða. Hann virðist hvorteðer ekkert vilja fara þaðan.

___
* Þetta er þá plan C
** Mér er slétt sama hvort honum verður færður matur stöku sinnum, þarf ekkert að hafa fyrir því mín vegna, en það væri a.m.k. ágætt ef að fljótlega uppúr því að almennt starfsfólk flyttist í nýjar höfuðstöðvar bankans, myndi almenningur og fjölmiðlar hætta að tala um Davíð. Það er búið að eyða í hann nógu púðri.

Efnisorð: , ,

sunnudagur, febrúar 08, 2009

Það þarf að lóga helvítinu

Eftir ánægjulegan dag í faðmi fjölskyldu og fjalla blasa við vondar fréttir þegar heim er komið og góða skapið rýkur út í veður og vind. Helvítið hann Davíð ætlar ekki að hætta.

Þetta var auðvitað fyrirsjáanlegt; þessi maður tekur ekki við skipunum frá neinum enda lítur hann á sig sem æðsta vald í málefnum þjóðarinnar. Þó þúsundir manna hafi krafist afsagnar hans á torgum úti, þótt heilu mótmælafundirnir hafi snúist um hann og gegn honum þá finnst honum sem hann væri að hlaupast frá verkum ef hann drullaðist út úr bankanum.

Smáræði eins og bréf frá forsætisráðherra hefur auðvitað ekkert að segja, enda lítur hann á það embætti sem sitt og Geir var þar bara útaf því að Davíð þóknaðist það. Annað þóknast honum ekki og hann hlustar ekki á neitt píp.

Þá er bara eitt eftir, plan B.

Efnisorð: , ,

sunnudagur, febrúar 01, 2009

Ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur

Ég er hæstánægð með nýju ríkisstjórnina. Loksins jafn margar konur og karlar í ríkisstjórn og kona forsætisráðherra. HÚRRA!


Jóhanna Sigurðardóttir, forsætisráðherra.
Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir, félags- og tryggingamálaráðherra,
Össur Skarphéðinsson iðnaðar- og utanríkisráðherra,
Kristján Möller samgönguráðherra,
Steingrímur Sigfússon, fjármála-, landbúnaðar- og sjávarútvegsráðherra,
Ögmundur Jónasson heilbrigðisráðherra,
Katrín Jakobsdóttir menntamálaráðherra,
Kolbrún Halldórsdóttir umhverfisráðherra,
Gylfi Magnússon viðskiptaráðherra
Ragna Árnadóttir dóms- og kirkjumálaráðherra.

Það er hætt við að Kolbrún Halldórsdóttir - ný umhverfisráðherra - og Össur Skarphéðinsson - gamall og nýr iðnaðarráðherra - verði ekki á einu máli um virkjanir og spurning hvort búið sé að gera ráð fyrir hvernig á að leysa það. En ég nenni ekki að svekkja mig á smáatriðum núna. Í dag ætla ég að einblína á fagnaðarefni.


___

Get ekki annað en hneykslast - eins og Jenný Anna - á þeirri fáránlegu ákvörðun að slíta útsendingu frá blaðamannafundinum þar sem ríkisstjórnin var kynnt, til þess eins að sýna einhvern helvítis boltaleik. Greinilegt að RÚV hefur fengið massífar kvartanir því lofað er að seinnihluti blaðamannafundarins verði sýndur eftir leikinn. ... Helvítis fíflin. Þeir sýndu seinnihlutann í hálfleik í boltaleiknum! Átti ég semsagt að þurfa að horfa á leikinn til að fylgjast með hvenær blaðamannafundurinn yrði sýndur? Ég er búin að stilla milljón sinnum yfir á ríkissjónvarpið að bíða eftir að helvítis handboltinn yrði búinn!
- Eru skemmdarverk í gangi í Ríkissjónvarpinu? Nú í upphafi fréttatímans var borðinn neðst á skjánum þegar fyrsta frétt var kynnt ekki um ríkisstjórnina heldur hvernig handboltaleikurinn fór! Og þegar talað var um að Ingibjörg Sólrún ætlaði ekki að sitja í ríkisstjórninni þá stóð á borðanum að kosningar yrðu 25.apríl. Er einhverjum svo illa við nýju ríkisstjórnina að það má bara ekki minnast á hana?

Efnisorð: , , , ,