þriðjudagur, janúar 31, 2012

Svo er þeim líka bara skítsama, enda búnir að fá borgað

Það virðist augljóst að ástæðan fyrir því að lýtalæknar neita að láta Landlækni fá nöfn kvenna sem hafa fengið silíkonpúða er ekki persónuvernd kvennanna, heldur sú að þeir óttast að upp komist um skattsvik sín. Það er allavega ekki umhyggja fyrir konunum sem hindrar þá í að gefa þeim færi á að njóta aðstoðar hins opinbera við að komast að því hvort þær séu með tifandi tímasprengjur fastar við sig.

Efnisorð:

þriðjudagur, janúar 24, 2012

Ég vil líka breyta þessu öfgafulla samfélagi

Ekki vissi ég um sérlegt kvennahorn Vinnumálastofnunar þar sem konum er vísað á matseld og barnauppeldi fyrr en ég las það í pistli Sóleyjar Tómasdóttur og hjá Þórhildi Laufeyju Sigurðardóttur á Knúzinu. Það er nú ágætt að þessi hluti vefsíðu þessarar opinberu stofnunar er afmarkað við konur, ekki má hrella karlmenn með því að upplýsa þá um nýjustu tísku í kökuskreytingum.

En talandi um Sóleyju Tómasdóttur. Í pistlinum skrifar hún um í hvernig samfélagi hún vill búa. Og mikið hjartanlega er ég sammála henni, eins og alltaf.

Efnisorð:

mánudagur, janúar 23, 2012

Meðvitundarleysi markaðarins

Ég er auðvitað mjög sátt við að Guðný Þorsteinsdóttir vakti athygli* á kynskipta ísnum en þó ég hafi ekki vitað um tilvist hans fyrr en í gær þá náði ég varla að verða hissa áður en markaðsstjóri Emmessíss tilkynnti að ísinn yrði tekinn af markaði. Það þykja mér nokkuð snögg viðbrögð og mættu fleiri taka sér það til fyrirmyndar. Eitthvað virtist því markaðsstjórinn vita um hvernig ætti að lágmarka skaða og reyna að sjá til þess að fjöldi fólks færi ekki að sniðganga fyrirtækið. En að öðru leyti virðist hann vera algerlega úr öllu sambandi við samfélagið og samfélagsumræðuna.

Nú hefur Femínistafélag Íslands starfað í næstum níu ár. Allan þann tíma hefur félagið verið mjög sýnilegt og vakið athygli á mörgum málum sem varða jafnrétti kynjanna, þ.á m. staðalmyndum og hvernig þær birtast í auglýsingum og markaðsherferðum. Oft og iðulega verður uppi fótur og fit þegar félagið ályktar um einhver mál eða sendir frá sér tilkynningar eða talkonur þess koma fram í fjölmiðlum. Þegar yfirlýstir feministar tjá sig um jafnréttismál er hið sama uppi á teningnum, ekki síst ef um stjórnmálamann er að ræða — og þá sérstaklega ef viðkomandi heitir Kolbrún Halldórsdóttir eða Sóley Tómasdóttir.

Þessvegna er með miklum ólíkindum að hægt sé að vera svo meðvitundarlaus að halda að staðalímynd sé eitthvað sem fyrirtæki eigi að nota sér til markaðssetningar og útskýra það svona: „Við héldum bara að það væri þarna ákveðin staðalímynd og við ætluðum ekkert endilega að vera að búa hana til eða auka á hana eða eitthvað slíkt“. Markaðsstjórinn virðist halda að staðalímynd sé eins og jólakökumót og úr því að það sé fyrir hendi þá sé upplagt að nota það.** Hefur hann ekkert lesið eða heyrt um gagnrýni feminista á staðalímyndir?***

Um bleika og bláa litinn sem einkennandi lit fyrir annarsvegar stelpuís og hinsvegar strákaís**** þá segir hann: „Þetta er bara eitthvað sem byrjar strax á fæðingardeildinni og við töldum bara að þetta væri eitthvað sem væri samþykkt, eins langt og það nær.“ Og þessi litaskipting, og einmitt að hún byrji á fæðingardeildinni, hefur auðvitað aldrei komið til umræðu í samfélaginu, svo ég segi nú ekki á þingi?

Árið 2012 er jafnréttisbaráttan — svo ég segi ekki kynjastríðið — enn í fullum gangi. Þessvegna er furðulegt að álykta að „nú árið 2012 myndi þessu bara vera tekið sem þetta er, léttur húmor og grín.“ Ekki að ég haldi að kynskiptur ís sé alvarlegasta vandamál samtímans, en slíkt meiriháttar meðvitundarleysi á samtíma sinn og samfélag er skaðlegt.

Það er greinilega hægt að komast í ágætis starf hjá sæmilega virtu fyrirtæki, hugsanlega með einhverja menntun í markaðsfræðum, en án þess að vera með nokkurri meðvitund. Þar sem margháttuð fjölmiðlaumræða virðist ekki ná til fólks í svona störfum þá legg ég til að feministar, hvort sem er í félagi eða utandeildar, taki hús á auglýsingastofum og markaðsdeildum og neiti að fara fyrr en allir starfsmenn hafa hlýtt á stuttan fyrirlestur um feminisma, staðalímyndir og samfélagslega ábyrgð.

__

* Góður punktur hjá Agnari, bróður Guðnýjar, um hvernig talað er um konur sem gagnrýna. Eins og hann segir: „Karlmennirnir hafa kannski meiri vigt í svona málum heldur en konur að mati viðkomandi aðila“, og er þá að tala um hvernig karlmennirnir 100, sem sendu bréf vegna Þjóðhátíðar, eru ekki gagnrýndir jafn harkalega og konur sem voga sér að ræða nauðganirnar þar. (Svipað sagði ritstjóri Fréttablaðsins reyndar.)

** Forsvarsmenn Lego aðhyllast líka staðalímyndamarkaðssetningu fyrir börn.

*** Hann er kannski eins og bloggarinn og vinur hans sem fylgjast greinilega ekki með feminískri umræðu og lesa ekki Knúzið, en fullyrða samt að feministar hafi ekki tjáð sig um PIP brjóstapúðana. Viðhorfið er þá: ef ég sé það ekki þá er það ekki til.

**** Markaðsstjórinn meðvitundarlausi segir að ekki hafi verið gerð „vísindaleg könnun“ hjá Emmessís á bragðskyni fólks eftir aldri og kyni. Nú legg ég til að hann rannsaki, vísindalega eða bara í sínu nánasta umhverfi, hvernig gangi að fá stráka á grunnskólaaldri til að borða matvöru sem merkt er stelpum, lesa bækur sem kynntar eru sem stelpubækur eða ganga í bleiku. Hann þarf ekki að birta niðurstöðurnar.

Efnisorð:

miðvikudagur, janúar 18, 2012

Hundrað kallinn að standa sig

Það er full ástæða til að fagna því framtaki eitt hundrað karlmanna sem skrifað hafa Elliða Vignissyni, bæjarstjóra í Vestmannaeyjum, Karli Gauta Hjaltasyni, lögreglustjóra í Vestmannaeyjum og Tryggva Má Sæmundssyni, framkvæmdastjóra ÍBV og nefndarmanns í Þjóðhátíðarnefnd.

Í bréfunum er spurt hvort til standi að gera ráðstafanir vegna þeirra fjölda nauðgana sem framdar eru ár hvert á Þjóðhátíð (fimm nauðganir voru kærðar síðast), hvort leyfi verði gefið fyrir að halda hátíðina í ár og af hverju ÍBV og Vestmannaeyjabær hafi ekki lagt neinn kostnað í áróður sem beinist að hugsanlegum nauðgurum. Einnig er spurt hversu margar nauðganir þurfi til að Vestmannaeyjabær taki fyrir að Þjóðhátíðin verði haldin.

Bréfin má lesa hér og hér eru nöfn karlmannanna aðgengileg eitt hundrað.

Ég er þakklát þessum karlmönnum.

Efnisorð: ,

þriðjudagur, janúar 17, 2012

Karlar sem flokka konur, birta af þeim myndir og dæma

Ein af afleiðingum þess að upp komst um notkun iðnaðarsilíkons í brjóstapúða er sú að karlmenn hafa nú opinskátt skemmt sér við að viðra skoðun sína á brjóstum. Þeir hafa notað öll niðrandi orðin, talað um kosti og galla stórra og smárra, og ýmist dásamað stækkunarmöguleikana eða fordæmt þá fordild kvenna að leggjast undir hnífinn (til að þóknast karlmönnum sem hafa brjóst á heilanum). Og svo hafa þeir legið löngum stundum á netinu til að skoða myndir af brjóstum og birt á bloggum eða við fréttir til að leyfa lesendum að njóta með sér. Í nafni upplýstrar umræðu um skaðsemi iðnaðarsilíkons hafa svo karlmenn sem eru áhugamenn um brjóst þyrpst inná síðurnar til að gefa einkunnir og viðrað skoðun sína á brjóstum. Allir ógurlega glaðir að skoða brjóst og láta vita hvað þeim þyki flottast.

Þetta er auðvitað mikil tilbreyting frá öllum 'hinum' karlmönnunum sem liggja á netinu og skoða kvenmannsskrokka í bútum og gefa þeim einkunn eftir útliti og hvernig þeim hugnist að konur líti út.

Dæmi um niðrandi orðalag má finna hér, og dæmi um brjóstasýningablogg* hér. Af því síðarnefnda eru þessar athugasemdir karla:

„Brjóst : bæta hressa kæta !!“

„stór brjóst er ekkert flottara, lítil og krúttleg brjóst eru oft flottari ...natrual er samt best“

„flott brjóst!!! :o)“

„mér fannst svona annað hvert dæmi sýna bara fullkomlega fallega konu.“

„Orginalið verður alltaf fallegra en eitthvað allt i plati"

„það er fátt fallegra en kona sem er sátt við útlit sitt, rétt eins og hún var sköpuð, með öllum þeim útlistskostum og göllum sem hún hefur, svo lengi sem hún er sátt þá er ég nokkuð sáttur :)“**


Mér finnst bloggfærslan sjálf, sem þessar athugasemdir voru skrifaðar við, jafnt sem ummæli karlanna*** einstaklega klígjuleg og perraleg enda hefur alltaf farið í mig þegar karlmenn taka sér vald til að dæma líkama kvenna.
___
*Ég las ekki textann sem var á milli brjóstamyndanna, langaði ekkert að glápa á brjóstamyndir, og lét mér nægja að skrolla framhjá og niður að textanum þar sem blogghöfundurinn þykist hafa tekið myndirnar saman af manngæsku (en ekki gægjuþörf) einni saman.

** Mér finnst athugasemdir kvenna við þessa bloggfærslu sorglegar en ekki eins klígjulegar og kalla-athugasemdirnar.

*** Þetta eru þó dæmi um „jákvæðar“ athugasemdir þar sem engin niðrandi orð um brjóst eru notuð. Kannski á ég bara að vera þakklát fyrir það og láta ekki á mig fá þegar karlmenn smjatta á útliti kvenna?

Efnisorð:

föstudagur, janúar 13, 2012

Hæfir betur á hálkuna

Til að glöggva mig á hvenær bíómyndin sem ég ætla að horfa á verður sýnd fór ég á vef Ríkisútvarpsins til að skoða dagskrána. Sé þá fréttina um að iðnaðarsalt hefur verið selt matvælafyrirtækjum sem matarsalt undanfarin 13 ár. Matvælastofnun komst að þessu nýjasta hneyksli í því sem virðist ætla að verða röð hneyksla: díoxín mengun í Skutulsfirði, Vestmannaeyjum og á Kirkjubæjarklaustri og tröllaukið magn kadmíums í túnáburði — og til þess að vera í stíl við yfirhylmingar þessara mála (hverjum þjónar Matvælastofnun eiginlega?) eða kannski til að skemma ekki söluna fyrir jólin þá fékk Ölgerðin að selja iðnaðarsaltið á undanþágu frá því í nóvember. Mikið hlýtur það nú að auka á ánægju okkar sem höldum alltaf eins og fífl að í nútímasamfélögum sé hagur neytandans hafður í huga en ekki bara gróði einkafyrirtækja (eða lýtalækna með einkastofur).

Það væri annars ágætt að fá að vita fljótlega hvaða matvælafyrirtæki það eru sem keyptu iðnaðarsaltið. Það salt sem ég ætlaði að strá yfir poppið til að maula með myndinni er merkt Kötlu* — en ég hef eiginlega misst lyst á því að borða popp í kvöld.

___
Viðbót: Birtur hefur verið listi yfir matvælafyrirtæki sem keyptu og notuðu iðnaðarsaltið. Þ.á m. er fjöldi bakaría og Mjólkursamsalan.
* Rétt er að taka fram að Katla er ekki eitt fyrirtækjanna á listanum. Það verður því poppað á heimilinu í kvöld!
Viðbót á mánudagsmorgni: Pistill Guðmundar Andra Thorssonar um fúsk og fyrirlitningu gagnvart íslenskum almenningi er góður. Hann bendir m.a. á að „Þetta er hugsunarháttur sóðans sem hugsar: Þetta getur ekki átt að vera svo naujið, þetta hlýtur að vera nógu gott – það finnur enginn muninn.“

Efnisorð:

miðvikudagur, janúar 11, 2012

PIP og hvernig bregðast skal við

Seint mun ég gleðjast yfir því að konur flykkist undir hnífinn til að stækka brjóst sín eftir tískustraumum — innblásnum af klámvæðingu. Enn síður gleðst ég yfir því að einhverjar þeirra eiga á hættu að iðnaðarsilíkon leki úr brjóstafyllingunum og út í líkama þeirra. Tilhugsunin er skelfileg og hlýtur að valda þeim kvíða og ótta.

Þessvegna tek ég undir með Álfheiði Ingadóttur varðandi það hvernig leysa eigi úr þessu máli.
„Mikilvægast er hins vegar að konur sem fengið hafa PIP-púða hér á Íslandi fái strax aðstoð heilbrigðisyfirvalda til að láta fjarlægja þá – ef þær óska eftir því – sér að kostnaðarlausu. Það er forgangsverkefni að mínu mati. Engin kona ætti að þurfa að ganga deginum lengur en hún sjálf vill með þessa púða. Þeir eru heilsuspillandi og ógn við heilsu hundruða kvenna ef ekki þegar í dag þá á allra næstu árum.“

Er ég þó ekki hlynnt ríkisreddingum á vandamálum sem einkagróðabissness veldur — en hér er um heilsufarsvá að ræða sem bregðast verður við með öðrum hætti en þeim að segja konunum að þær geti sjálfum sér um kennt.

___
Viðbót: Þorgerður E. Sigurðardóttir flutti líka fínan pistil í Víðsjá um þetta efni, sem lesa má hér.

Efnisorð: ,

þriðjudagur, janúar 10, 2012

43.000, ef ske kynni

Mér finnst stórmerkilegt að fólk sem hefur alið allan sinn aldur á Íslandi sé hissa á að samgöngur fari úr skorðum þegar geisar annað eins vetrarveður og undanfarið. Endalaust bætir á snjóinn, smá hláka breytti þar litlu um nema auka hálkuna, og síðastliðinn sólarhring hefur vart verið hundi út sigandi. Samt ætlast fólk til að það komi að götum og gangstéttum auðum í hvert sinn sem það stingur út nefinu.

Auðvitað er snjórinn fyrir okkur, hvort sem við erum fótgangandi eða akandi, og tefur för okkar. Fólk kemur of seint í vinnu, skóla, læknisheimsóknir og allt fer úr skorðum. Og það er pirrandi og svekkjandi. En að kenna borgarstjóra um þetta ástand er fáránlegt. Hann ræður ekki veðrinu. Þetta veður er óvenjulegt og ekki hægt að ætlast til að borgin eigi 43.000 snjóruðningstæki til að sjá til þess að enginn borgarbúi verði var við snjókomuna og allir komist ferða sinna eins og ekkert hafi í skorist.

Á hverjum morgni þegar ég vakna er komið blað innum bréfalúguna hjá mér. Iðulega er svo borinn út póstur um hádegisbil. Sá sem ber út póstinn er betur settur en blaðberinn sem er á ferðinni áður en traktorar með sköfu ryðja gangstéttir og skóflum beitt á innkeyrslur, gangstíga að húsum eða snarhálar tröppur. Ég hef ekki séð borgarbúa ryðjast í fjölmiðla til að hvetja alla til að vera búna að moka áður en blaðberar hefja störf; krafan er öll á borgina að moka svo þeir sjálfir komist í vinnuna.

Ég hef heldur ekki orðið vör við að fólk almennt vilji hækkað útsvar svo hægt sé að kaupa öll þau snjóruðningstæki sem þurfa greinilega að vera til taks ef skellur á óvenju snjóþungur vetur. En um að gera að eiga þau á lager, heilan helling.

Efnisorð:

föstudagur, janúar 06, 2012

Hlægilegt að skipta sér af

Það eina sem breytist við áramót er dagsetningin. Það sem var svekkjandi árið 2011 stefnir í að vera jafn svekkjandi árið 2012. Icesave er enn á dagskrá, forsetinn ætlar í athyglissýki sinni að halda sér í umræðunni og umræðan sjálf virðist ekkert ætla að breytast þrátt fyrir áskoranir þar um.

Ég álpaðist til að lesa blogg sem ég hafði aldrei áður séð þar fjallað var um dýravernd. Þar var fólk, sem flestallt kallar sig dýravini, að rakka niður dýravini fyrir að gagnrýna konu nokkra fyrir að beita kött ofbeldi. Hún hafði semsé sagt frá því að hún hefði sparkað aðkomuketti út fyrir að míga í skó. Tekið var fram að hann hefði verið vælandi undan sparkinu. Þegar einhverjir dýravinir gerðu athugasemdir við frásögn hennar og bentu henni á að það væri aldrei forsvaranlegt að beita dýr ofbeldi þá virðist hún ekki hafa útskýrt mál sitt heldur eytt færslunni. Vinir hennar fóru svo í einhverskonar stríð við það fólk sem gagnrýndi hana. Bloggið sem ég las, og rakti þessa sögu, gekk út á að hneykslast á þeim sem hefðu vogað sér að gera athugasemdir við frásögn konunnar enda hafi öllum sem til hennar þekktu verið ljóst að hún var að grínast og myndi aldrei vera vond við dýr.

Fólk hefur lent í ótrúlegustu vandræðum vegna þess sem það skrifar á netið. Enda tekur það þá áhættu að það verði misskilið. Saklausasta grín sem allir kunningjarnir bera kennsl á getur í augum ókunnra virkað sem hræðilegur hrottaskapur eða glæpsamleg fyrirætlan. Um daginn las ég á bloggi konu nokkurrar að hún væri að hugsa um að selja dóttur sína sem er um 3ja ára. Þar sem ég hef lesið bloggið lengi og veit að hún skrifar alltaf í hálfkæringi um heimilislífið og börnin þá brosti ég út í annað í stað þess að fá fyrir hjartað af áhyggjum. En jafnframt hugsaði ég með mér að það væri einsgott að enginn ókunnugur rækist á þessa bloggfærslu og kærði konuna fyrir að ætla að selja barnið. Ef einhver hefði nú skrifað í athugasemdakerfið (án þess að rjúka strax til og hringja á lögregluna) að þetta væri svakaleg yfirlýsing og hvort konan væri orðin brjáluð, þá held ég ekki að það hefði verið henni til neinna málsbóta að rífa kjaft og saka viðkomandi um að vera ólæsan fávita. Hvað þá að eyða færslunni sem myndi eingöngu sýna fram á slæma samvisku. Betra væri að reyna að útskýra málið, biðjast afsökunar á að hafa komið öðrum í uppnám og reyna að benda á bloggfærslur þar sem húmorinn gagnvart heimilislífinu kæmi berlega í ljós.

En í dýraverndunarbloggfærslunni var ekkert slíkt gert heldur var það gert hlægilegt að hafa áhyggjur af velferð dýra. Dýraverndunarsinnar dæmdir ómarktækir og vitleysingar (hér er ég að túlka orð sem þar féllu, bæði í færslunni sjálfri og í athugasemdum, ekki vitna beint til þeirra). Þar sem fólkið sem þar skrifar þykist allflest samt vera hlynnt góðri meðferð á dýrum er sérlega sorglegt hvað þeim þykir skemmtilegt að hlægja að fólki sem leggur sig allt fram við að beita sér í þágu dýra og starfar jafnvel við dýraverndunarmál. Það er ekki talið því til tekna heldur gert hlægilegt. Í stað þess að segja: mikið er nú gott að einhver grípur inn í (jafnvel þó það sé hugsanlega á misskilningi byggt) þegar álitið er að verið sé að níðast á dýrum. Og það er allsekki reynt að ræða við dýravinina sem vilja skipta sér af þegar einhver lýsir því fjálglega yfir að hafa beitt dýr ofbeldi heldur látið eins og slíkt sé fáránleg afskiptasemi.

Mikið er það ömurleg umræða.

___

Viðbót til skýringar: Ég er ekki að mæla því fólki bót sem skrifar tryllingslegar ofbeldishótanir í athugasemdakerfi DV þegar fjallað er um ofbeldi gegn dýrum (eða mannfólki). Að lýsa í smáatriðum hvernig refsa eigi fyrir hryllilegt ofbeldi með engu síður hryllilegu ofbeldi er undarleg aðferð til að segja að maður sé á móti ofbeldi. Það sem ég skrifaði í pistlinum átti við um það fólk sem er nafngreint á blogginu sem ég vísa í.

Efnisorð: