fimmtudagur, ágúst 29, 2013

Enn til varnar

Guðný Rós Vilhjálmsdóttir er sannarlega hetja dagsins. Eftir allan skítinn sem ausið var yfir hana fyrir að kæra Egil Gillzenegger Einarsson og Guðríði Jónsdóttur unnustu hans fyrir nauðgun, stígur hún fram og segir sína sögu. Hún á lof skilið fyrir hugrekkið.

Annað sem er ekki eins lofsvert er að DV sá ástæðu til að birta frétt uppúr viðtali sem Nýtt líf tók við Guðnýju og hafa athugasemdakerfið opið. Furðu margt fólk hrósaði reyndar Guðnýju fyrir hugrekkið en auðvitað skriðu skítaormar undan steini. Sá sem mest hafði sig einna mest í frammi var NN en ummæli hans hurfu skömmu síðar og öll viðbrögð almennilegs fólks við þeim, en fjöldi manns (þ.á m. Elísabet Ronaldsdóttir, hafi hún þökk fyrir það) reyndi að benda honum á að hann væri að bulla. Ég náði skjáskotum af nokkrum ummælum hans og læt þau fylgja hér, en sé reyndar að Hildur Lilliendahl hefur birt eitt þeirra í Karlar sem hata konur myndaalbúminu. Þar viðrar NN þá skoðun sína að það sé „eðlilegt fyrir konur að gráta þegar að þær upplifa einhverja kynferðislega reynslu í fyrsta sinn“. Það má ýmislegt lesa úr þessu, ekkert af því ber höfundinum fagurt vitni.

Aðrir nauðgaraverjendur voru t.a.m. Arnar Geir Magnússon en þegar honum var bent á að nauðgunarkæran á hendur Agli Gillzenegger hefði ekki farið fyrir dóm en þá sagði hann að niðurfelling máls væri alveg það sama og að dómur hefði fallið í málinu.

Svo eru það menn eins og Biggi Gattuso Símonarson sem finnst bara réttlátt að „drulla yfir hana eins og þið gerðuð við Gillz“.

Þeir eru hér með færðir til bókar.


NN á þessar tvær athugasemdir:





__
Viðbót: Hildur Lilliendahl var sett í bann á Facebook fyrir að deila skjáskotinu af ummælum NN. Hann heldur hinsvegar áfram að delera í athugasemdakerfi DV, en þar er þetta mál sem stendur rætt á einum fimm stöðum. Nú liggur NN helst á hjarta að benda á að Guðný líti ekki út fyrir að vera sköðuð, hún virðist ekki vera ónýt manneskja af því að dæma hvernig hún ber sig. Þó auðvelt sé að hlægja að heimsku NN og ályktunarhæfni hans, þá er hann fyrst og fremst sorglegt dæmi um viðhorf sem mæta fórnarlömbum nauðgana þegar þau segja frá.

NN:


Athugasemd 20. júní 2016: Þessari bloggfærslu var breytt til að fella út nafn manns sem nú er aðeins kallaður NN. Hann hafði samband eftir krókaleiðum til að biðja um að bloggfærslunni væri eytt í heild sinni sem ég gat ekki fallist á, enda finnst mér hún eiga erindi. Hinsvegar langar mig að trúa því að NN sjái eftir orðum sínum og sé ekki lengur sömu skoðunar og áður. Því hef ég eftir mikla umhugsun ákveðið að hlífa honum við eilífðar nafnbirtingu, og vona að hann sé sáttur við breytinguna.

Þessi ákvörðun markar ekki stefnubreytingu, og afar ósennilegt er að fleiri nöfnum verið kippt út, enda þótt gerð sé þessi undantekning, nú á tíu ára afmælisdegi bloggsins.

Efnisorð: , ,

mánudagur, ágúst 26, 2013

Um æði og aðra fugla

Það er ágæt hugmynd (sem ég las fyrst um í Draumalandi Andra Snæs) að merkja vörur frá bóndabýlum svo að neytandinn viti hvaðan þær koma, eða jafnvel kaupa beint frá býli. Það er þá hægara að fylgjast með hvernig farið er með dýrin, hvort grænmetið er lífrænt vottað og þar fram eftir götunum.

Ég vil endilega að æðardúnn verði merktur líka. Þá er hægt að kaupa dúnúlpu eða æðardúnsæng vitandi hvernig viðhorf æðarbóndinn hefur gagnvart fuglum og starfsfólki. Ekki bara æðarfuglinum samt og ekki bara starfsfólkinu sem hann drekkur kaffi með.

Þá myndi ég hvorki kaupa úlpu né sæng sem væri frá sjómanninum sem langar svo til að hafa æðarvarp í hólma við Raufarhöfn, en fyrst vill hann drepa allan fuglinn sem hefur hreiðrað þar um sig. Hann gefur lítið útá að hátt verð á æðardúni hvetji hann áfram, talar um hobbí. Fyrir það hobbí á fjöldi fugla af deyja, því þeir eru ekki af réttri tegund.

Ég myndi heldur ekki kaupa dún eða dúnfyllt föt eða sængur sem ættu uppruna sinn hjá Jóni bónda Sveinssyni í Reykhólasveit. Hann hefur verið dreginn fyrir dómstóla fyrir að „raska hreiðurstað arna og spilla friðlýstum náttúruminjum í þeim tilgangi að hindra arnarvarp í Miðhúsaeyjum“ en ernir eru alfriðaðir eins og kunnugt er. En Jóni er farið eins og sjómanninum á Raufarhöfn, að sumir fuglar eru æskilegir og sumir fuglar eru fyrir.

Þá er ekki par geðslegt hugarfar sem liggur að baki orðum Jóns sem nennir ekki að standa í að hreinsa dúninn (eða borga laun hér á landi fyrir það), heldur vill hann „flytja þrældóminn úr landi en flytja arðinn inn“. Þrátt fyrir einlægan vilja minn þá get ég ekki lesið úr þessu að hann hyggist borga starfsfólki, sem vel er búið að og vinnur hæfilega langan vinnudag, mannsæmandi laun fyrir að sjá um þrældóminn fyrir sig.

Það væri gott að geta sniðgengið dún sem þessir menn hyggjast selja.

Efnisorð: , ,

miðvikudagur, ágúst 21, 2013

Ólíkt hafast þau að fyrstu hundrað dagana

Nú eru u.þ.b. 100 dagar frá því að ríkisstjórn Sigmundar Davíðs tók við völdum. Mörgum verður hugsað til ríkisstjórnar Jóhönnu Sigurðardóttur sem var öllu afkastameiri á fyrstu 100 dögum sínum. Hún hafði enda sett fram 100 daga aðgerðaáætlun og að þeim tíma liðnum hafði hún uppfyllt 42 af 48 atriðum (sumir segja minna). Það þótti okkur sem kusum ríkisstjórnina allgott en vafasamt er að kjósendur núverandi ríkisstjórnar séu jafn glaðir.

Gauti Eggertsson segir í pistli að í Bandaríkjunum séu fyrstu 100 dagarnir oft taldir mikilvægir til þess að mæla dug og kjark nýrra stjórnvalda, og nefnir Franklin D. Roosevelt og Obama sem dæmi um forseta sem hafi tekið til hendinni svo um munaði. Hann telur svo upp þau tvö atriði sem ríkisstjórn Sigmundar Davíðs hefur gert á fyrstu hundrað dögunum sínum: 1) Lækkað skatta á útgerðarmenn og boðað niðurskurð í fjármálum, 2) ráðist að Ríkisútvarpinu. Svo fór ríkisstjórnin í sumarfrí.

„Lítið spurðist einnig af helsta baráttumáli Framsóknarmanna sem voru skuldamál heimilanna. Að vísu var samþykkt þingsályktunartillaga um þetta mál á sumarþingi þegar búið var að ganga frá forgangsverknunum að breyta lögum um RÚV og lækka skatta á útgerðarmenn. Sigmundur Davíð sagði þessa þingsályktunartillögu vera stærstu aðgerðir í heimi.
Stærstu aðgerðir í heimi voru, sumsé, að skipa nefnd til að leggja til tillögur um aðgerðir.

Ekkert spurðist hins vegar til þessara nefndar, fyrr en fyrir nokkrum dögum þegar í ljós kom að hún hafði ekki einu sinni verið skipuð. Þá var loksins drifið í því 100 dögum eftir að ríkisstjórnin tók til valda. Nú skilst mér að það séu um 30 dagar til stefnu fyrir nefndina að skila tillögum.

Á fyrstu 100 dögum sínum umbreytti FDR bandarísku þjóðfélagi á meðan það tók SDG 100 daga til að skipa nefnd og setja fram áætlun um að fresta fjárlögum.“

Þegar Jóhanna Sigurðardóttir hafði tekið við völdum eftir kosningarnar 2009 töldu andstæðingar vinstristjórnarinnar dagana og þóttust vissir um að ekki tækist að klára verkefnalistann. Sigmundur Davíð og Bjarni Ben eru ekki undir þeirri pressu. Þeir eru nefnilega þegar búnir að hygla útgerðinni með svo opinskáum hætti að ljóst er að kosningaloforð Framsóknar um skuldaniðurfellingu verða ekki uppfyllt. Alveg örugglega ekki næstu hundrað dagana og líklega aldrei.

Efnisorð: ,

mánudagur, ágúst 19, 2013

Knúz finnur upp hjólið

Knúzið í dag er ... sérstakt. Listinn sem er birtur þar undir titlinum Gátlisti forréttindakarlmannsins hefur áður verið birtur í VERU og ég skrifaði hann upp úr blaðinu fyrir margt löngu og birti hér.

VERA er mikil uppspretta feminísks efnis og nú þegar tímaritið er komið á timarit.is er hægur vandinn að sækja efnið þangað fremur en (eyða tíma í að þýða það uppá nýtt og) birta á Knúzinu sem nýjar fréttir. Forréttindalistinn hefur reyndar breyst, t.am. lengst úr 34 í 47 atriði, en það er samt eitthvað súrt við það að sjá VERU sniðgengna með þessum hætti. Látum vera að enginn Knúzverji þræli sér gegnum bloggið mitt, en lágmark hefði verið að vísa í VERU sem var málgagn kvenfrelsisbaráttunnar um árabil.


úr Veru 1.tbl 2004

Efnisorð: , , ,

fimmtudagur, ágúst 15, 2013

Lof og last

LOF

Það er fín málamiðlun hjá Ómari Ragnarssyni að leyfa vatni aftur að renna af fullum krafti niður Dynk. (Furðulegt að hingað til skuli allar málamiðlanir hafa átt að vera náttúrunni í óhag.) Áður var hann reyndar búinn að vara við því að ráðherra tæki ákvörðun eingöngu útfrá því að skoða stíflusvæðið en ekki fossana sem hverfa ef stíflan verður að veruleika.
„… á sínum tíma var aðeins gefinn kostur á að skoða sjálft stíflustæði Káranhjúka en alls ekki landið þar fyrir innan sem átti að sökkva.“

Það er gott framtak hjá veitingahúsum að taka fram að þau selji ekki hvalkjöt. Um að gera að beina viðskiptum sínum til þeirra.

Það er stórsniðug hugmynd að hafa hunda sem áheyrendur barna sem eiga í erfiðleikum með lestur. Húrra fyrir góðum hugmyndum sem bæta lífið!

Jón Gnarr borgarstjóri fær lof í lófa fyrir að mæta á opið hús (kampavínsklúbb) hjá Stígamótum.

Lof fær Bergþóra Gísladóttir fyrir athyglisverðar hugleiðingar um útrýmingaráttu Íslendinga.

Knúzið fær hrós á hrós ofan:

Ingimar Karl Helgason beitir rannsóknarblaðamennsku í grein þar sem hann spyr áleitinna spurninga um afdrif vændiskaupamála.

Á Knúzinu birtist líka frábær pistill um nauðgunarmenningu eftir Guðnýju Elísu Guðgeirsdóttur.

Við næsta Knúzpistli á eftir, sem var yfirlýsing frá feminíska hópnum sem gerði myndbandið sem mér líkaði ekki, komu þrjár athugasemdir sem ég get tekið hjartanlega undir, frá Gísla, Höllu Sverrisdóttur og Önnu Bentínu.


LAST

Sveitarfélög um land allt fyrir slóðahátt varðandi skólphreinsun. Hysja sig inn í 21. öldina, takk!

Lögreglan fyrir að opinbera klúður, klaufagang og hallærisheit þeirra sem til hennar leita. Þarf fólk að hugsa sig tvisvar um áður en það hringir í lögregluna ef ske kynni að vandræði þess verði gerð að aðhlátursefni? Núna er áhyggjufull móðir skotspænirinn. Verulega ósmekklegt.

Konur sem kaupa vændi í Kenýa. Jafnrétti er ekki fólgið í því að apa verstu ósiði karlanna eftir þeim.

Efnisorð: , , , , , , ,

þriðjudagur, ágúst 13, 2013

Víðsýnið nær ekki til allra átta

Eftir Gleðigönguna hefur spunnist talsverð umræða vegna ummæla nokkurra risaeðla um réttmæti þess að samkynhneigðir kyssist á almannafæri. Það þykir þorra fólks ekki gæfulegt viðhorf árið 2013 og hafa margir lagt orð í belg til að koma því á framfæri með ýmsu móti. Einn þeirra er Egill Helgason sem skýrir frá því að sonur sinn eigi vini sem aldir eru upp af samkynhneigðum körlum, hann sé í skóla með börnum allstaðar að úr veröldinni og að Egill telji hann ekki í neinni hættu á að skaðast af neinu þessu. Það er auðvitað mjög jákvætt og ágætt að Egill komi þessu á framfæri. En það vill svo til að Egill hefur áður tjáð sig um hvað er æskilegt og óæskilegt í lífi sonar síns.

„Ég vil að sonur minn læri að lesa, skrifa og reikna, kannski nokkur tungumál, tónlist, raungreinar, sögu, landafræði – og svo eitthvað fleira sem hann kann að fá áhuga á.

En ég vil alls ekki að hann sé neyddur til að læra kynjafræði.

Ef hann hins vegar finnur einhvern tíma hvöt hjá sér til að læra kynjafræði – ja, þá verður bara að hafa það.“

Þetta hljómar eins og hómófóbískur faðir fyrri tíðar sem ætlar rétt að vona að sonurinn verði ekki hommi. En Egill er auðvitað ekki hómófóbískur, það er ekki hipp og kúl hjá upplýstu og frjálslyndu fólki. Honum finnst hinsvegar kynjafræði síðasta sort, enda er Egill hvítur miðaldra (ómenntaður) karlmaður og frá þeim sjónarhól lítur hann niður á kvennabaráttu, jafnrétti, kynjafræði og aðgerðir í þágu feminisma (eins og Helga Þórey Jónsdóttir hefur sýnt framá). Og Egill vill í stuttu máli ekki að sonur sinn mengist af sjónarhorni sem er ekki hans eigið.

Ég féll semsagt ekki í stafi af hrifningu yfir víðsýni Egils Helgasonar.

Efnisorð: , ,

laugardagur, ágúst 10, 2013

Gay pride 2013

Friedrich Guzman, 18. apríl 1940

Paul Lemm, 4. nóvember 1942

Max Oestreicher, 2. júlí 1942

Wilhelm Schaper, 14. apríl 1942

Heinz Goldschmidt, 16. apríl 1940

Rudolf Oldenburg, 27. mars 1943

Ernst Pingel, 11. ágúst 1942

Frank Finke, 3. júlí 1942

Damian Reis, 11. ágúst 1942

Herbert Meyer, 30. mars 1940

Felix Lewandowski, 4. febrúar 1941

Ludwig Honig, 19. júní 1941

Wilhelm Funken, 8. janúar 1941

Curt Ganssauge, 9. júlí 1941

Alfred Viebach, 9. júlí 1941

Alfred Lederman, 12. júlí 1942

Otto Tölpel, 4. nóvember 1939

Egon Sander, 26. júní 1941

Alfred Fishel, 29. febrúar 1940

Felix Landowski, 4. febrúar 1941


Þetta eru örfá nöfn af þeim fjölda samkynhneigðra sem nasistar ofsóttu, fangelsuðu eða drápu. Dagsetningarnar eiga við um daginn sem þeir voru drepnir í Sachsenhausen-fangabúðunum. Nasismi er auðvitað alltaf gott viðmið þegar draga skal fram það versta sem mannskepnan getur hugsað sér — og hefur framkvæmt — en enn í dag eru samkynhneigðir ofsóttir vegna kynhneigðar sinnar. Ekki alltaf ofsóttir og drepnir af ríkisvaldinu, eða með þegjandi samþykki ríkisvaldsins, þó slíkt þekkist sannarlega. En einstaklingar og hópar um allan heim ofsækja enn, og drepa jafnvel, samkynhneigða. Hér á landi getum við hreykt okkur af því að vera lengra komin en margar aðrar þjóðir varðandi lagalegan rétt samkynhneigðra, og að almennt samþykki sé fyrir því að samkynhneigð sé viðurkennd í samfélaginu.

Enn er þó við ramman reip að draga, ekki bara í útlöndum þar sem er lífshættulegt að vera samkynhneigður, heldur hér meðal vor, þar sem einstaklingar og hópar hafa horn í síðu samkynhneigðra og veigra sér ekki við að úthrópa þá. Skemmst er að minnast ummæla imamsins í Menningarsetri múslima og hvernig þjóðkirkjan stóð lengi í vegi fyrir réttindum samkynhneigðra eins og hin kristna kirkja hefur einnig gert í öðrum löndum.

Nú hefur Þjóðkirkjan gert sig að viðundri eina ferðina enn, að þessu sinni vegna innflutnings á predikara sem hatast útí samkynhneigða. Þjóðkirkjan mun ekki sem slík standa að innflutningum (skilst mér) heldur önnur kristin trúfélög, en biskup á samkvæmt dagskrá að ávarpa samkomuna. Til að auka á flækjustigið hefur Þjóðkirkjan beðist afsökunar á að auglýsa samkomuna en biskupinn segir eitt annan daginn og annað hinn um þátttöku sína.

Hvernig sem það fer alltsaman dregur þessi fyrirhugaða samkoma (og ummæli á athugasemdakerfum af því tilefni) fram í dagsljósið að viðhorf til samkynhneigðra hér á landi eru ekki einróma jákvætt, og að til er fjöldi manna sem finnst fullkomlega eðlilegt að úthúða fólki vegna kynhneigðar. Það spillir heldur fyrir gleðinni sem annars ætti að ríkja þessa dagana.

Efnisorð: ,

miðvikudagur, ágúst 07, 2013

Ógeðslegt á báða bóga

Myndbandið sem nafnlausir róttækir feministar birtu í dag stuðaði mig ekki sérlega þegar ég sá það. Ástæðan var sú að ég skildi ekki nema lítið brot af textanum. (Ef hann hefði verið á dönsku hefðu líklega einhverjir notað hann sem sönnun fyrir því að hætta eigi dönskukennslu í íslenskum skólum því Danir tali hvorteðer óskiljanlega.) Ég náði þó að Gillzenegger „er Bleiki fíllinn“ og einhverju fleiri úr því erindi.

Þegar svo DV vísaði á textann (sem birtist á öðru vefsvæði hvar ég ven ekki komur mínar allajafna) sá ég að textinn er mun verri en mér heyrðist hann vera. Fyrrgreint erindi, og brot úr öðrum, er það eina sem ég get tekið undir.

„Þjóðhátíðarnefndarlufsur
Nauðgunarmenning blómstrar í ykkar nafni.
Þið fáið engin helvítis fokking jarðgöng
Öryggismyndavélar, áfallateymi og Gillz að stjórna balli
Nice try!
Gillz ER fokking bleiki fíllinn!
Þetta er nauðgunarmenning!
Eruð þið að ná þessu???
Þetta er nauðgunarmenning!


Nauðganir eru ekki einstaka harmleikur eða óheppilegt atvik.
Nauðganir eru hamfarir, drepsótt, stríðsyfirlýsing
Landsvæðið er líkamar okkar“

Megninu af restinni er best lýst sem ógeði. „Djók“-morðhótunin er ekki fyndin, ekki einu sinni sem háðsádeila á hótanir sem sagðar eru settar fram í gríni.

Myndbandi nafnlausu róttæku feministanna hefur svo verið svarað með öðru úr smiðju einhvers karlmanns, og það verður að segjast að hugarórar hans eru verulega ógeðslegir. Ansi er ég samt hrædd um að margir karlmenn taki undir þetta (en vonandi ekki margt annað) hjá honum.
„Við vorum með fyrsta kvenkynsforsetann, lesbískan forsetisráðherra
svo viljið þið meira og eyðileggið alltsaman“.

Við viljum meira af því að við viljum ekki nauðganir? Það er greinilega til of mikils mælst. En „nauðgunarmaðurinn“ eins og hann kallar sig hótar nauðgunum (þó ekki á nafngreindum konum eins og Egill Gillzenegger Einarsson hótaði hér um árið) og er greinilega þeirrar skoðunar að þær eigi feministar skilið. Og lýsir því í smáatriðum. Geðslegt.

Enda þótt feministarnir sem gerðu myndbandið hafi haft betri málstað að verja heldur en nauðgunarmaðurinn, þá má ekki á milli sjá hvor textinn er ógeðslegri. Þetta er öllum aðilum til skammar.

Efnisorð: , , ,