sunnudagur, ágúst 31, 2014

Gos en ekki áfengi

Enn er byrjað að gjósa. Stærra og flottara gos, myndavænna. Náttúran stendur sig alltaf í Íslandskynningunni. Svo kemur bara í ljós hvort við viljum nokkuð túristana sem koma, ekki eru svo góðar móttökur sem færeyskir fiskimenn fá, ja nema þar til almenningi blöskrar meðferðin á þeim.

En þrátt fyrir bölsýni gærdagsins og heimskulegar ákvarðanir þeirra sem neituðu Færeyingunum um nauðsynlega skipaþjónustu - þá er til fólk sem tekur jákvæðar ákvarðanir, þó ekki sé nema í sínu einkalífi (sem auðvitað hefur alltaf áhrif á aðra) og það gefur tilefni til smá bjartsýni. Hér á ég við viðtöl við fólk sem hefur hætt að drekka (án þess að eiga við alkahólisma að stríða) eða tekið þá ákvörðun að byrja aldrei á því einfaldlega vegna þess að áfengislaust líf er eftirsóknarvert. Það er nauðsynlegt að kynna þann valkost í landi þar sem „áfengisneysla er mikið norm og hvað hún er beintengd við allt sem þykir skemmtilegt og spennandi.“

Það kemur mjög skýrt í ljós í viðtölunum að hjá fólki sem býður ekki spennt eftir helginni til að geta skellt í sig áfengi — með tilheyrandi eftirköstum — eru „allir dagar jafn góðir.“

Það er sannarlega jákvæður boðskapur.

Efnisorð: , ,

laugardagur, ágúst 30, 2014

Fréttir sumarsins 2014

Um síðustu helgi gaus. Eða ekki. Eða bara smá en það sást ekki. Í vikunni gaus, það sást, en var bara smá og sást svo ekki meir. Eldgos hefur verið mál málanna í öllum fréttamiðlum sem von er en utan úr heimi eru fréttirnar öllu válegri. Tvö lítil smágos eru ekkert (a.m.k. meðan þau eru svona meinlaus) í samanburði við manngerðar hörmungar framdar af meira og minna brjáluðum mönnum víða um heim, ýmist af valdafíkn eða trúarofstæki, nema hvortveggja sé.

— Borgarastríð í Sýrlandi þar sem allir stríðandi hópar í landinu hafa gert sig seka um mannréttindabrot og grimmdarverk gagnvart almennum borgurum.
— Árásir Ísraela á Palestínu þar sem mannfall meðal almennra borgara er svívirðilega hátt.
— Ástandið í Úkraínu þar sem Rússar ógna sjálfstæði landsins.
— Boko Haram sem heldur stórum landsvæðum í Nígeríu í heljargreipum með morðum og mannránum í stórum stíl.
— Uppgangur íslamskra vígamanna úr samtökunum Íslamska ríkið (ISIS) sem herja á alla þá sem ekki eru sammála þeim í trúmálum í Írak og Sýrlandi, og beita almenning svipuðum aðferðum (mansal, mannrán, aftökur, fjöldamorð) og Boko Haram en hafa meiri liðsstyrk og hafa lagt undir sig stærra landsvæði.
— Fjöldi karlmanna sem búsettir eru í Bandaríkjunum og Evrópu leggja land undir fót til að ganga til liðs við ISIS. Það var ekki við því að búast að þeir væru allir hrifnir af vestrænu lýðræði, jafnrétti kynjanna eða trúfrelsi (það gera heldur ekki allir sem skrifa athugasemdir í íslenska vefmiðla), en hvað fór svo úrskeiðis að þeir aðhyllast íslamskt ríki þar sem allir eru drepnir sem ekki aðhyllast einhverja öfgaútgáfu af trúnni?

Og ef einhver skyldi halda að það sé bara í miðausturlöndum og Afríku sem allt er farið til fjandans:
— Kynþáttastríð á götum smábæjar í Bandaríkjunum.

Það er þungbær staðreynd að árið 2014 sé mannkynið ekki komið lengra.


Efnisorð: , , , , ,

þriðjudagur, ágúst 26, 2014

Hvíti Kristur

Óvænt innsýn — það ætti kannski að kalla það innlit — fékkst í hugarheim innanríkisráðherra í Kastljósviðtali kvöldsins. Í stað þess að sitja við yfirheyrsluborð Kastljóssins í Útvarpshúsinu var landsmönnum öllum boðið heim til Hönnu Birnu. Og sjá, þar er allt svona skínandi hvítt. Ekki laust við að stemningin minni á kapellu, kirkjulegir kertastjakar og allt. Í miðri hvítri uppstillingunni sat svo innanríkisráðherra, í klæðnaði í stíl við umhverfið, alvörugefin einsog hæfði tilefninu (og umhverfinu), og sagði frá skriftum lögreglustjórans sem trúði henni fyrir hvað honum reyndist þungbært að verða að rannsaka ráðuneytið hennar, og á móti bað hún hann að sjálfsögðu — en samt ekki af neinni afskiptasemi — um að yfirheyra nú Gísla garminn fljótlega, enda hlýtur að vera VIP röð fyrir betri borgara í yfirheyrsluherbergin. (Ef Gísli verður dæmdur sekur fær hann örugglega að hefja afplánun strax á Kvíabryggju einsog Baldur ráðuneytisstjóri um árið, það er bara pöbullinn sem þarf að bíða eftir að röðin komi að þeim í yfirheyrslum og afplánun.)

En hvort það er Gísli sem hefur logið svona að henni eða hún er sjálf að ljúga þessu öllu allan tímann (sannarlega laug hún í þingsal að hvergi í ráðuneytinu væri til lekaplaggið margfræga — en segir nú að hún hefði e.t.v. átt að skýra betur að hún meinti plaggið eins og það lítur út með viðbótinni sem Gísli er grunaður um að hafa skrifað) þá var öll uppstillingin til að undirstrika að hún væri með tandurhreina samvisku.

fimmtudagur, ágúst 21, 2014

Konur sem eru beggja blands gagnvart konum sem eru á móti konum sem eru á móti feminisma

Hér á eftir fer þýðing á pistli eftir bandarísku bloggessuna og rithöfundinn Jenny Lawson sem hún birti á bloggi sínu The Bloggess.
___

Jæja ... Núna er mikið talað um tumblr sem heitir Konurgegnfeminisma (e. WomenAgainstFeminism). Þar eru bara myndir af konum sem halda á handskrifuðum skiltum sem er skrifað á „Ég þarf ekki feminisma af því að …“ Sumar ástæðurnar sem þær gefa fyrir að þurfa ekki feminisma virðast næstum vera skopstælingar („Hvernig í fjandanum á ég að opna krukkur og lyfta þungum hlutum án eiginmanns míns?“) og sumar („Ég þarf ekki að láta líkamshárin vaxa til að sanna að ég sé jafningi karlmanna“) fá mig til að undrast hvaðan í ósköpunum þær fá þessar skilgreiningar sínar á feminisma.

Fyrst velti ég fyrir mér að byrja með mitt eigið „Ég þarf ekki ___ af því að“ tumblr þar sem fólk héldi á álíka óskiljanlegum skiltum. Skiltum á borð við:


Ég þarf ekki bækur af því að VEISTU HVER SKRIFAÐI BÆKUR? HITLER. HITLER SKRIFAÐI BÓK. NEI TAKK, NASISTAR.

Ég þarf ekki peninga ÞVÍ ÉG Á TÉKKHEFTI, FÁVITI.


Ég þarf ekki loft því HELLINGUR AF ÞVÍ ER PRUMP. ÉG ÆTLA EKKI AÐ ANDA AÐ MÉR PRUMPI. ÞIÐ GETIÐ ANDAÐ AÐ YKKUR PRUMPI.


En svo mundi ég að ég er of löt til að búa til tumblr síðu og að þetta var allt frekar fáránlegt. Málið er þetta: Finnst þér að karlar og konur eigi að hafa jafnan rétt efnahagslega, í samfélaginu og á sviði stjórnmála? Þá ertu líklega feministi. Það eru milljón hliðar á þessu máli og ég veit það. Þetta er flókið. Það er ekki bara ein gerð af feminista, ekki frekar en ein gerð af kristnum eða múslimum, eða körlum eða konum. Það er ekki einu sinn bara ein gerð af hákörlum. Sumir eru hættulausir og vinalegir. Sumir sogast upp í hvirfilbylji og hakka í sig andlit fólks þar til gaurinn úr 90210 stoppar veðrið með sprengjum. (Varúð, endinum kjaftað.) Málið er að hákarlar, rétt eins og feministar, eru frábærir og gagnlegir, og heimurinn yrði verri án þeirra. Auk þess eru þeir rosalega skemmtilegir og enda þótt manni finnist þeir stundum vera fávitar vegna þess að þeir éta krúttlega seli æpir maður samt „VÁSÉRÐETTA!“ þegar Hákarlavikan er á dagskrá. Ég held að þetta sé léleg samlíking. Reyni aftur.

Feministar eru eins og býflugur. Þær eru krúttlegar og loðnar en fólk hleypur burtu frá þeim því það skilur ekki að þær vilja gera góða hluti. Við værum í djúpum skít án býflugna. Í alvöru. Og já, sumar býflugur eru fávitar og kannski drap einhver þeirra afabróður þinn og sumar þeirra lítur maður hornauga þegar þær haga sér eins og brjálæðingar en fyrir rest áttar maður sig á að það þarf að taka góðu býflugunum með slæmu býflugunum og kannski bara gera uppá milli hvaða hunang þú vilt borða. Vel á minnst, fáðu þér óunna hunangið, það er langtum heilsusamlegra. Þetta síðasta tilheyrir ekki samlíkingunni. Það er bara heilræði frá langafa (sem var býflugnabóndi). Og feministar, rétt eins og býflugur, gefa af sér óætt vax og verða auðveldlega ringlaðar af reyk.

Ég hef tapað þræðinum.

Nei, bíddu. Ég fann hann aftur.

Feminismi er í sjálfu sér góður. Hann er ekki nærri því fullkominn og þarf miklar umbætur og stundum fer allt í klessu og baklás og verður hrikalegt en það þýðir ekki að hann sé ekki þess virði að berjast fyrir. Bakkaðu og settu „mannkyn“ í stað „feminismi“. Það virkar, er það ekki? Það er vegna þess að feminismar eru gerðar úr manneskjum. Körlum og konum. Reyndar er Sir Patrick Stewart einn af mínum uppáhaldsfeministum.

[Á skiltinu sem er merkt Amnesty International stendur: Verjum rétt kvenna og stúlkna.]












[Myndatexti: Svona lítur feministi út. Patrick Stewart, feministi. Laun móður hans fyrir fjörtíu tíma vinnuviku í spunaverksmiðju voru 3 pund og 10 skildingar. Hún var einnig þolandi heimilisofbeldis og hann er talsmaður gegn heimilisofbeldi. Meira neðst.]

Ég er ekki að segja að þú getir ekki valið að vera ekki feministi en þú verður að vita hvað þú ert að velja. Ekki taka ákvörðun um hóp útfrá mestu öfgaskoðunum hópsins. Ekki fara í vörn ef þú kafar dýpra og rekst á erfiðar hugmyndir um millikyn, kynþátt, kyngervi, nýlendukerfi, feðraveldi og karlfrelsi. Hlustaðu bara. Sumt af þessu mun verða skýrara fyrir þér. Sumt ekki. Sumt gerir það seinna þegar þú ert orðin önnur manneskja. Þú átt eftir að skipta um skoðun á sumu af þessu og heimurinn mun líka breytast. Sumt af þessu er kjaftæði. Sumt af þessu er sannleikur. Það er þess virði að hlusta á það allt.

Og nú er komið að þér að taka ákvörðun. Ertu feministi? Já? Nei? Jæja, hafðu ekki áhyggjur af því vegna þess að á morgun máttu aftur taka ákvörðun. Og það á við um alla daga það sem eftir er ævinnar.

Sjálf er ég feministi (ásamt mörgu, mörgu öðru). Ég trúi á jafnrétti og mér finnst við eiga verk fyrir höndum. Ég er þakklát þeim körlum og konum sem unnu að því frelsi og réttindum sem ég hef í dag og ég er stolt af því að fylgja hreyfingu sem ég vonast til að geri heiminn betri og öruggari fyrir dóttur mína (og fyrir karlana og konurnar sem hún mun deila með þeim heimi). Ég er ánægð með hvað við höfum náð langt og ég er glöð að við erum orðin meðvitaðri um feminísk málefni sem ekki snúast bara um gagnkynhneigðar, hvítar konur, jafnvel þótt það sé stundum erfitt að horfast í augu við þau málefni. Og ég er ánægð með að Konurgegnfeminisma tumblrið er til. Því þótt ég sé ósammála þeim flestum er ég glöð yfir að þessar konur hafa vettvang til að tjá sig, og líka vegna þess að ef við vitum hverjar eru röksemdirnar eða misskilningurinn getum við betur tekist á við það. Eða verið samþykk því. Eða hunsað það. Eða rætt það við syni okkar og dætur svo þau geti sjálf tekið upplýsta ákvörðun. Þú ræður.

Við eigum öll rétt á að tjá skoðun okkar. Það er nú einu sinni það sem feminismi snýst um.*

*Eða kannski ekki. Ég varð smá ringluð eftir að hákarlasamlíkingin fór á hliðina.


___
Birt með góðfúslegu leyfi bloggessunnar.

Efnisorð: ,

mánudagur, ágúst 18, 2014

En ef nýi uppfærði orðaforðinn er ekkert betri?

*Varúð, umræða um kynferðisbrot*

Þegar ég las Á mannamáli í fyrsta skipti man ég eftir þeirri óþægilegu tilfinningu að vera ósammála höfundinum í einum kaflanum, í annars stórgóðri bók sem ég held mikið uppá og mæli endalaust með. Í dag er þessi kafli birtur (í styttri útgáfu) á Knúzinu. Og þar sem ég hef nú mikið hrósað bókinni og ótal oft vitnað í hana hér á blogginu ætla ég að leyfa mér að viðra skoðun mína á þessum tiltekna kafla, í trausti þess að ég verði ekki þarmeð grunuð um að vera á móti bókinni í heild eða Þórdísi Elvu Þorvaldsdóttur höfundi bókarinnar.

Kaflinn er semsagt um orðið „fórnarlamb“. Ég nota oft orðið fórnarlambshugtakið um konur sem hafa orðið fyrir nauðgun. Og bara yfirleitt um fólk sem verður fyrir kynferðisofbeldi. Ég sé ekkert að því.

Þórdís dregur upp mynd af lambi sem er fórnað,drepið. Hún talar síðan um að það sé enginn styrkur fólginn í því að vera líkt við skepnu „sem hefur enga stjórn á aðstæðum sínum“. Ég er ekki endilega að hugsa um styrkinn, upphefðina eða valdeflingu konu sem er að byggja sig upp eftir að hafa verið nauðgað, ég er að einblína á nauðgunina sjálfa. Hún fer nefnilega yfirleitt þannig fram að konan er grunlaus um fyrirætlanir nauðgarans, rétt eins og lambið sem leitt er til slátrunarinnar eða borið á fórnarstallinn hefur ekki hugmynd um hvernig það ferðalag endar. Mér finnst ekkert ljótt að bera þetta tvennt saman. Hvorugt veit hvað til stendur, hvorugt hefur stjórn á aðstæðum sínum. Eða er verið að halda því fram að konur hafi stjórn á aðstæðum sínum þegar þeim er nauðgað?

Reyndar mælir Þórdís með að frekar sé notað orðið „brotaþoli“ (og ég hef alloft notað það orð), en í Knúzgreininni er því sleppt sem kemur fram í bókarkaflanum að hún hafi áður talað um þolanda og geranda. Hún hvarf frá því m.a. vegna þess að það er of almenns eðlis, það tiltaki ekki heldur „hvað það er sem viðkomandi mátti þola“. En það gerir „brotaþoli“ heldur ekki. Hvaða brot er verið að tala um? Mér finnst helsti gallinn við orðið brotaþoli reyndar vera það að það er svo dómsskjalalegt, klínískt. Og svo er það karlkyns, eins og þolandi. (Já ég veit að karlmenn verða fyrir nauðgunum, en það truflar mig að öll orð miðist við karla.) Fórnarlamb er hvorugkynsorð, getur átt við fólk af hvaða kyni sem er, á öllum aldri.

Þórdís vill heldur ekki nota orðið „gerandi“ en frekar ofbeldismaður og kynferðisbrotamaður. Þar get ég tekið undir með henni þó mér finnist mega nota orðið nauðgari áfram, en til þess tekur hún ekki afstöðu í bókarkaflanum. Ég hef reyndar hugsað mér að nota orðið fórnarlamb áfram líka, jafnvel sálarmorð þegar sá gállinn er á mér (mjög óvinsælt orð), auk þess sem ég hyggst áfram lýsa nauðgurum á neikvæðan hátt (en ég hef séð því líkt við skrímslavæðingu) og vera á móti því að umgangast þá eða veita þeim nokkuð brautargengi, en þessar skoðanir mínar virðast eiga sér formælendur fáa um þessar mundir. Ég er reyndar svolítið hugsi yfir því. Nei ekki því að allir séu ekki alltaf sammála mér, heldur hvað það virðist vera mikil stemning fyrir því að haga orðum sínum þannig að þau dragi sem mest úr alvarleika nauðgana: Konur eru brotaþolar einhvers en af því bíða þær ekki varanlegan skaða; nauðgarinn er allsekki skrímsli (varla vondur maður) og allir verða að vera góðir við hann því annars vill aldrei neinn játa að vera nauðgari. Það er búið að gera þetta allt mjög hlutlaust, draga úr glæpnum. Mér finnst þetta eitthvað skrítið.

Mér finnst í raun mjög gott að rætt sé um hugtök sem notuð eru, og ætla ekki að fara framá það að fólk hætti að nota annað orðalag en ég — en vil gjarnan að mér sé sýnd sama kurteisi enda tel ég mig ekki tala niður til þeirra sem hafa orðið fyrir kynferðisofbeldi. Það er sannarlega ekki ætlun mín.

Efnisorð: ,

miðvikudagur, ágúst 13, 2014

Tvær jákvæðar fréttir sama daginn

Þegar ég skrifa undir áskorun á undirskriftalista og sendi til vina og vandamanna með hvatningu um að skrifa undir, býst ég ekki endilega við að undirskriftarlistinn hafi nein áhrif. En nú berast þau ánægjulegu tíðindi að útsendingar BBC World Service eru hafnar að nýju vegna fjölda áskoranna. Og það sem er enn betra: silfurreyninum við Grettisgötu er borgið. Ég þarf því að éta ofaní mig svartsýnisspá mína um að öllum sé sama um einhverjar hríslur, það geri ég með glöðu geði.

Trú mín á áhrifamætti undirskriftalista eykst mjög við þessi tíðindi.

Efnisorð: , ,

mánudagur, ágúst 11, 2014

Að ala upp karlmenni

* Aðvörun: tengt er á fréttir með óhugnanlegum myndum. *

Það vekur eðlilega óhug þegar fréttist af því að sjö ára gamall ástralskur drengur hafi verið dreginn með föður sínum til mannvíga í Sýrlandi. Mynd hefur birst af drengnum þar sem hann heldur á höfði fallins sýrlensks hermanns.

Allt venjulegt fólk hlýtur að setja spurningarmerki við uppeldisaðferðir föðurins almennt og þá innrætingu á lítilsvirðingu fyrir mannslífum sem hann virðist staðráðinn að innræta syni sínum.

Nokkrum dögum áður en myndin af drengnum með mannshöfuðið birtist, birtist mynd í Sunnlenska sem stoltur íslenskur faðir tók af syni sínum með dauða tófu sem þeir feðgar börðu til bana. Í fréttinni virtist sem þetta væri hið besta mál — fjölmiðlinum fannst semsagt þetta til eftirbreytni þó það sé ekki bara lögbrot að berja refi til dauða heldur andstyggileg meðferð á dýri. Í athugasemdum við fréttina var fólk almennt sammála um að þetta væri ekki á nokkurn hátt réttlætanlegt en þó fannst sumum þetta bara hið besta mál. Einn þeirra sagði:

„Hann verður karlmenni þessi drengur“

Alveg er ég viss um að það var líka viðhorfið hjá pabba stráksins sem hélt á höfði sýrlenska hermannsins.

Já, ég var að líkja saman dauða manns og dauða dýrs. Fyrst og fremst var ég þó að gagnrýna uppeldisaðferðir karlanna og ræktaða fyrirlitningu á lífi annarra, líka dýra.

Efnisorð: , ,

laugardagur, ágúst 09, 2014

Gleðiganga múmínálfanna

Í dag eru hundrað ár síðan finnlandssænska myndlistarkonan og rithöfundurinn Tove Jansson fæddist í Helsinki. Hún lést 2001 og hafði þá skrifað tugi bóka, þaraf eru bækurnar um múmínálfana kunnastar en einnig skrifaði hún bækur fyrir fullorðna.

Hundrað ára afmælið ber uppá sama dag og gleðigönguna, sem er viðeigandi enda átti Tove „bæði í ástarsamböndum við konur og karla. Eftir þrítugt fór hún að prófa sig áfram á því svæði sem hún kallaði „spöksidan“, eða draugasvæðið og síðar flutti hún sig reyndar alfarið yfir á það svæði og bjó í áratugi með konu.“

Ég get ekki einu sinni logið að sjálfri mér að það sé frumlegt hjá mér að nefna gleðigöngu í sambandi við Tove; í fyrra birti Þórdís Gísladóttir, sem hefur verið kvenna ötulust í greiningu á múmíndalalífi, grein á vefritinu Druslubækur og doðrantar sem heitir „Litbrigði ástarinnar: Um samkynhneigð í heimi múmínálfana“ í tilefni hinsegin daga.

Ég nýti mér augljóslega það sem Þórdís hefur skrifað (allur fróðleikur og tilvitnanir hér eru í hana) en reyni ekki sjálf að leggjast í djúpar pælingar um múmínálfana, enda þótt gaman væri að skoða fjölbreytileika í Múmíndal. Mæli hinsvegar með því að fólk lesi allt sem skrifað hefur verið um múmínálfana á Druslubókablogginu, þar sem einnig er vísað á greinar í tímaritinu Börn og menning, nú eða á Múrnum þar sem Stefán Pálsson tiltók uppáhalds múmínálfana sína. Svo mæli ég auðvitað með því að fólk fari í gleðigönguna ef það ætlar ekki að sitja heima að lesa múmínálfabækurnar sínar. En svo má auðvitað lesa þær þegar heim er komið.

Efnisorð: ,

þriðjudagur, ágúst 05, 2014

Andfeministi fær það óþvegið

Pistill Kristínar Jónsdóttur um viðræðuhæfi Evu Hauksdóttur er frábær.

Þarna er fyrsta flokks greining á frjálshyggjuviðhorfum Evu. Einnig er rætt um ömurlegt viðhorf hennar gagnvart þolendum nauðgana sem birtist með þráhyggjukenndum hætti, ljóstrað upp um bloggfærslu sem var látin hverfa (en hefur verið birt aftur til að afsanna orð Kristínar) og í lokin er gefin út afdráttarlaus yfirlýsing um pistlaröðina „hættur femínismans“.

Þetta eru afskaplega tímabær skrif þar sem er tekið skynsamlega og snyrtilega á því samfélagsmeini sem Eva Hauksdóttir er.

Efnisorð: , ,

mánudagur, ágúst 04, 2014

Skálkaskjól

Ég er enn með óbragð yfir ráðningu Geirs H. Haarde og Árna Þórs Sigurðssonar. Það er undarlegt hvað mörgum pólitíkusum finnst eðlilegt að verði sendiherrar þótt almenningur hvæsi í hvert sinn sem þeir eru skipaðir. En þó stjórn Jóhönnu og Steingríms hafi alveg getað stillt sig um að veita starfsfélögum sínum sendiherrastöðu þá hafa núverandi stjórvöld rifjað upp gamla takta með ráðningu Geirs og Árna. Reyndar er þetta sérkennilegt par, annar var nýlega dreginn fyrir Landsdóm og dæmdur eftir að hafa siglt þjóðarskútunni í strand, einsog það er oft orðað, og mörgum þykir hann af þeim sökum ekki eiga rétt á neinum vegtyllum. Hinn er maður á miðjum starfsaldri og ætti ekki að þurfa neinn slíkan starfslokasamning, er að auki úr Vinstri grænum og þessvegna er andskotanum erfiðara fyrir Vinstri græn og aðra stjórnarandstæðinga að gagnrýna ráðningu Geirs. Enda mun flokksforusta VG vera verulega ósátt við þetta mál, einsog sjá má á pistli Björns Vals varaformanns.

Það er furðulegt að Árni skuli hafa látið hafa sig útí að taka þátt í þessu, enn verra ef hann var svo ólmur í stöðuna að hann skeytti engu um hvernig til hennar var stofnað. Því auðvitað er þetta plott hjá núverandi stjórn: Árni var ekkert ráðinn óvart um leið og Geir. Einhverntímann komst ég að því að ég ætti 88% samleið með Árna Þór, en ég vissi þá ekki í hverju hin 12% væru fólgin.

Efnisorð: ,