sunnudagur, nóvember 29, 2015

Nafnlausar netárásir

Það kætir óneitanlega nafnlausa bloggarann að Anonymous netaðgerðarsinnarnir skuli gera árásir á vefsíður stjórnarráðsins til að mótmæla hvalveiðum. Eins og talað (laumulega) úr mínu hjarta.

Efnisorð:

fimmtudagur, nóvember 26, 2015

Lengri útgáfa af bloggfærslunni í gær

Fyrir nokkrum dögum var Biggi lögga í sjónvarpsviðtali (sem ég nenni ekki að ræða frekar). Þar talaði hann m.a. um að þekkt sé að „stelpur þurfi að borga sig inn í partý með einhverskonar kynlífsathöfnum“. Ég hugsaði með mér að eitthvað þyrfti Biggi lögga að uppfæra hjá sér sögurnar, þetta væri pottþétt liðin tíð þótt frést hafi af svona ‘munnmaka-aðgangseyri’ í partý einhverntímann fyrir löngu.

En les ég þá ekki í sýknudómnum yfir stráknum sem þóttist ekki vita að grunnskólastelpa væri 14 ára, að hann hafi krafið hana um munnmök gegn því að fá að fara með honum á rúntinn! Og þegar hann svo kom á vettvang til að rukka (fyrirfram) um munnmökin, hafi hann ekki látið þar við sitja en haft við barnunga stúlkuna samfarir (sem við hin köllum nauðgun). Vinur hans sem beið úti í bíl sagði að hann hefði komið út aftur eftir 15-20 mínútur. Athugið: frá því að hann steig inn á heimili stelpunnar, sem hann hafði aldrei talað við fyrr, liðu í mesta lagi 20 mínútur þar til hann var búinn að klára sig af og kominn út í bíl aftur. Hversu mikinn tíma hafði stelpan eða hann sjálfur til að kynnast, stunda forleik, komast að því hvað hver vildi? En nei, það skipti auðvitað engu máli. Hann var búinn að fá stelpu til að játa því að hafa við hann munnmök (gegn því að fá að fara á rúntinn, sem hana langaði greinilega mikið til) og hann ætlaði að innheimta það aðgangsgjald nákvæmlega með þeim hætti sem hann sýndist.

Hvar var þessi drengur þegar kynfræðsla fór fram í skólanum hans, eða lífsleikni? Hvar var hann þegar bekkurinn hans eða einfaldlega allir með netaðgang horfðu á myndbandið Fáðu já? Eða strákarnir fimm sem fengu einnig sýknuklapp á kollinn eftir að þeir höfðu hver á fætur öðrum, og stundum margir í einu, framið það sem þeim fannst vera „algjörlega venjulegt kynlíf“ enda þótt stelpan hafi aldrei verið spurð álits. Fór líka framhjá þeim öll umræða undanfarinna ára um kynfrelsi stelpna, að þótt þær megi stunda allt það kynlíf sem þær vilji þá megi enginn krefja þær eða neyða til kynlífs sem þær vilja ekki?

Meðtaka þessir strákar ekki þessar upplýsingar eða komast þær ekki fyrir í klámfylltum hugum þeirra? Eða bægja þeir öllu frá sér sem stangast á við upplýsingarnar úr klámmyndum sem gefa sífellt skilaboðin ‘ávallt skal ríða öllum stelpum í öll göt við öll tækifæri og hóa í vinina því [klámmyndir segja að] engin takmörk eru fyrir hvað kvenfólk vill og þolir miklar ríðingar’.

Maður spyr sig.

Reyndar spyrja margir spurninga í ljósi nýjustu dóma. Hvernig stendur á því að stelpa sem kærir nauðgun eftir einn og hálfan sólarhring er talin ótrúverðug vegna þess að hún hafi ekki sagt frá fyrr og þessvegna er nauðgari hennar sýknaður, en í öðru máli þar sem karlmaður nauðgar öðrum karlmanni sem kærir ekki fyrr en eftir ár, þá er sakfellt. Er það þá ekki tíminn sem skiptir máli? Eða er bara svona mikið alvarlegra að karlmanni sé nauðgað af karlmanni? Það mætti ætla það, ekki síst vegna þess að verið var að dæma karlmann í skilorðsbundið fangelsi fyrir að hafa strokið öðrum karlmanni um lærið.

Ef hver einasta kona sem hefur orðið fyrir því að karlmaður strjúki henni um lærið myndi kæra, og það gengi svona ljómandi vel að dæma karlmenn seka fyrir slíkt óvelkomið káf — þá væri ekki bara ein fangelsisbygging í byggingu á Hólmsheiði heldur væri öll heiðin þakin fangelsum og flestar heiðar landsins.

Mér finnst ekki, svo það komi nú fram, að það megi nauðga karlmönnum eða káfa á þeim (og mér finnst í rauninni gott að menn séu dregnir fyrir dómstóla fyrir að káfa á fólki), en mér finnst að það ætti að taka mark á öllum sem kæra káf og kynferðisbrot, en ekki bara rjúka upp til handa og fóta í einhverju hómófóbísku krampakasti og taka þá karla út fyrir sviga sem leita á eða beita aðra karla kynferðisofbeldi og dæma þá seka fyrir það sem karlmenn komast upp með að gera konum í stórum stíl.


Efnisorð: , , , ,

miðvikudagur, nóvember 25, 2015

Gott er að vera nauðgari

Til hamingju með daginn nauðgarar. Það hefur enn einu sinni verið staðfest að löggan stendur með ykkur og dómstólar standa með ykkur. Þið hafið frítt spil.

Afsakið að ég skuli ekki samgleðjast.

þriðjudagur, nóvember 24, 2015

Tvennt úr óvæntri átt (en samt ekki sömu átt)

Stundum fæ ég einskonar hitasótt og helstu einkenni hennar lýsa sér þannig að ég verð skyndilega sammála fólki sem ég allajafna tel mig ekkert eiga sameiginlegt með eða hef lítið álit á, persónulega, pólitískt eða vegna atvinnu þess.

Það gerðist semsagt fyrir fáum dögum að ég las pistil eftir Þórlind Kjartansson og var hæstánægð með hann.* Pistilinn semsagt. Efni hans umfjöllun um málgagnið Betra land, sem gefið er út af sjónvarpsstöðinni Omega og Þórlindur veltir fyrir sér hvernig ályktanir útlendingur, „sem hefði eingöngu þennan takmarkaða glugga inn í íslenskt þjóðlíf,“ gæti dregið út frá lestri Betra lands. Pistillinn er afar smellinn og gagnrýnin hárbeitt.

Áðan las ég svo pistil eftir Siggu Dögg kynfræðing sem hún ku hafa skrifað í fyrradag. Mér hefur ekki verið vel við kynfræðinga (og tel mig hafa til þess góða ástæðu) en nú kemur sér vel að það er menntun og starf pistlahöfundarins, vegna þess að í þessum pistli reynir hún að „útskýra nokkur grundvallar atriði sem snerta samþykki í kynlífi“. Að gefnu tilefni. Og hún gerir það á þann hátt að pistill hennar ætti að vera skyldulesning á öllum heimilum og í allri kynfræðslu.


Þið lesið, á meðan er best að ég leggi mig.

___

* Þórlindur Kjartansson, annar ritstjóri Deiglunnar og fyrrverandi formaður SUS, hefur verið kallaður „einn aðalsölumaður og hugmyndafræðingur Landsbankans varðandi IceSave,“ en bankinn varð frá einkavæðingu og fram að hruni, „athvarf, útungunarstöð, klakstöð fyrir sjálfstæðismenn“.

Efnisorð: , , , ,

sunnudagur, nóvember 22, 2015

Frelsi frá veseni

Viðtal við formann Heimdallar í helgarblaðinu rifjaði upp fyrir mér áhugaverðar umræður sem áttu sér stað á alþingi 15. október síðastliðinn. Þær fjölluðu um brennivín-í-búðir frumvarpið, en viðtalið við heimdallarformanninn snerist að mestu leyti um áfengisneyslu föður hans. Flokksbróðir hans Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra lét ekki sjá sig í þessum þingumræðum enda þótt þingmenn óskuðu margsinnis eftir nærveru hans til að gera grein fyrir hvort frumvarpið væri í samræmi við lýðheilsustefnu. Þingmenn Vinstri grænna voru hinsvegar afar ötulir að stíga á stokk í þessum umræðum en Sigríður Ingibjörg Ingadóttir og Össur Skarphéðinsson úr Samfylkingu skröfuðu einnig drjúgt, sé miðað við þann tíma sem ég horfði á útsendinguna síðdegis þann dag.* Það var þó Róbert Marshall úr Bjartri framtíð sem stal algjörlega senunni með feikilega góðri ræðu og fer hún í heild sinni hér á eftir, auk þess sem Róbert bætti við næstu skipti sem hann kom í pontu. Má þar sjá hver er snertipunkturinn við helgarviðtalið við heimdallarformanninn.

„Frú forseti. Í umræðum um þetta mál er gjarnan talað um þrenns konar rök. Í fyrsta lagi að þetta sé hluti af einstaklingsfrelsi manna, það séu sem sagt sjálfsögð réttindi fólks að geta keypt áfengi í matvöruverslunum, í öðru lagi að það sé leyft mjög víða að selja áfengi í matvöruverslunum án þess að það hafi í för með sér einhvern sérstakan skaða og í þriðja lagi að áfengi sé í raun og veru eins og hver önnur neysluvara. Það eru fleiri auðvitað röksemdir sem taldar eru til, en þetta eru meginröksemdirnar og þær eru raktar ágætlega í grein eftir Róbert H. Haraldsson, einn okkar helsta heimspeking, í Fréttablaðinu í gær.

Það er mjög gott að nota mælikvarða heimspekinnar og vinnureglur heimspekinnar til þess að nálgast þetta mál og kasta frá sér fyrir fram gefnum skoðunum, fyrir fram gefnum hugmyndum sem maður kann að hafa um efnið, og þannig er í raun og veru mjög gott að nálgast öll mál. Við höfum auðvitað öll mjög mismunandi skoðanir á áfengi og skoðun okkar er yfirleitt byggð á eigin reynslu. Það er mín skoðun að áfengi sé viðbjóður. Það er kannski erfitt að nálgast þetta málefni án þess að láta þá skoðun og þá sannfæringu lita nálgun sína. En ég reyni engu að síður. Mér finnst það vera skylda mín að skoða öll rök í málinu og nálgast það án fordóma.

Þess vegna er mjög þakkarvert þegar maður á borð við Róbert H. Haraldsson, sem um langt skeið hefur verið einn okkar helsti og fremsti heimspekingur, dregur þetta mál upp og teiknar upp röksemdirnar með og á móti og vegur og metur rökin sem færð eru málinu til stuðnings. Það er alveg rétt sem hér hefur verið sagt og er sagt í grein heimspekingsins að það heyrist afskaplega mikið af „mér finnst“ og „ætla mætti“ og „ég held ekki“ röksemdum í þessari umræðu, en vísindin eru alveg skýr. Auðvitað eiga menn að taka mið af þeim og láta þau marka skoðun sína. Það er dómsmálaráðherra í Danmörku núna sem hefur þá hugmynd að lækka eigi skilgreindan lágmarksaldur glæpamanna niður í 12 ár. Allt sem við vitum, öll vísindi og allar rannsóknir segja okkur að það hefur verulega slæmar afleiðingar fyrir þessa einstaklinga. Þetta eru börn og það sem meira er, það mun hafa í för með sér gríðarlega alvarlegar afleiðingar fyrir þessa einstaklinga og fyrir samfélagið þegar fram líða stundir vegna þess að þeir munu fremja enn fleiri glæpi, þeir munu koma út úr slíku réttarkerfi sem harðnaðir glæpamenn langt fyrir aldur fram og afleiðingarnar verða skelfilegar.

En dómsmálaráðherrann í Danmörku er ekki sammála þessu. Honum finnst að menn eigi að sæta refsingu og það eigi að senda börnum þau skilaboð að brot þeirra muni hafa alvarlegar afleiðingar.

Vísindin í þessu máli segja okkur að áfengisneysla mun aukast ef þetta verður gert. Við verðum þá að vera tilbúin til að svara þeirri staðreynd, vegna þess að þetta er ekki eitthvað sem mér finnst, það er reynsla annarra þjóða, það er samantektir, það er tölfræði sem sýnir okkur þetta og þá dugar ekki að segja „mér finnst“ eða „ég er ekki sammála því“ eða „ég er ekki svo viss um það“. Menn verða að vera tilbúnir til þess að segja: „Mér finnst það í lagi. Það er fínt. Það er eftirsóknarvert. Það er gott fyrir samfélagið okkar að sé drukkið meira af áfengi.“ En ég er ekki sammála því. Ég held að það sé verulega slæmt. Þar er tölfræðin með mér í liði enn og aftur og tölurnar tala sínu máli. Mjög stór hluti af kostnaði við löggæslu okkar er vegna áfengisneyslu. Mjög stór hluti kostnaðar í heilbrigðiskerfi okkar er vegna áfengisneyslu. Meiri áfengisneysla þýðir meiri kostnaður í heilsugæslu, þýðir meiri kostnaður í löggæslu.

Þegar röksemdin um einstaklingsfrelsið er skoðuð þá verða menn að hugsa með sjálfum sér hvaða hagsmunir birtast okkur þar í raun og veru. Hverjir njóta góðs af því að geta keypt áfengi í matvöruverslun? Það er mjög gott fyrir neytendur, þ.e. þann hluta neytenda sem notar áfengi og það er auðvitað mjög gott fyrir hagsmuni verslunarinnar vegna þess að rannsóknir, tölfræðin, sýna okkur að það mun auka veltu hverrar matarkörfu út úr búð að geta keypt eina hvítvíns- eða rauðvínsflösku í búðinni. Það að menn geti sett léttvínsflösku eða bjór ofan í körfuna hjá sér hefur veltuaukandi áhrif, ekki bara vegna þess að það er meira í körfunni af því að áfengið er komið þangað, heldur er önnur vara sem selst líka út af því að þessi vara er komin í körfuna. Það bætast við ostar, það bætist við snakk, það bætist við sulta og Ritzkex. Það eru alls konar svona hlutir sem fylgja þessari ákvörðun. Þess vegna er þetta verulega jákvætt, hafi menn hagsmuni verslunarinnar í huga, mjög gott fyrir stórmarkaði fyrir verslunina í landinu, þeir munu græða á þessu.

Önnur röksemd sem heyrist og ég nefndi áðan er að sala áfengis í matvöruverslunum sé leyfð mjög víða, en hún er líka bönnuð á mjög mörgum stöðum. Á mörgum stöðum þar sem menn hafa tekið þessa ákvörðun er verið að reyna að finna leiðir til þess að spóla ofan af þeirri ákvörðun, ná henni til baka. Hvernig stendur t.d. á því að það skuli vera takmörkun á sölu á áfengi í matvöruverslunum í Noregi? Þar er áfengi vissulega til sölu en á ákveðnum tilteknum tímum, eftir tiltekinn tíma á kvöldin, um helgar, er óheimilt að selja það. Það er vegna þess að menn hafa komist að þeirri niðurstöðu að það borgar sig að takmarka með einhverjum hætti aðgengi að áfengi.

Í þriðja lagi er málið nálgast þannig að áfengi sé eins og hver önnur neysluvara. En það er það auðvitað ekki. Áfengi er ekki eins og hver önnur neysluvara vegna þess að þetta er vara sem veldur vímu, þetta er vara sem veldur því að fólk kemst í annarlegt ástand og sé hennar neytt í nægilega miklum mæli veldur hún ástandi sem er ekki hægt að kalla neitt annað en heilabilun. Við sjáum mjög mörg dæmi þess að fólk sem hefur komið sér í ástand heilabilunar valdi miklum skaða í samfélaginu. Þetta er líka vara sem elur af sér sjúkdóm sem heitir alkóhólismi og er gríðarlegt böl, ekki bara fyrir þann sem verður fyrir því að fá þann sjúkdóm, heldur alla þá sem eru í kringum hann, einstaklinga, maka, börn, ættmenni.

Þannig að röksemdin um persónufrelsið, einstaklingfrelsið, er ágæt svo langt sem hún nær, en hún á ekki eingöngu við hér í tilfelli þess sem drekkur vegna þess að persónufrelsi eins til þess að neyta áfengis kvabbar upp á frelsi þeirra sem gera það ekki og frelsi þeirra sem þurfa að vera í kringum þann sem neytir áfengis. Sumir hafa enga aðra kosti en að vera í kringum þá sem neyta áfengis eins og börn á heimilum. Það heyrist mjög oft í umræðunni, t.d. í dag í þessari umræðu voru þingmenn að tala um að þeir kynnu vel að meta áfengi og kynnu vel að fara með það. Það vill reyndar þannig til að ég heyri aldrei fólk segjast kunna fara vel með áfengi sem fer í raun og veru vel með áfengi. Með öðrum orðum, þeir sem fara vel með áfengi eru eiginlega aldrei að velta fyrir sér hvort þeir fari vel með áfengi eða ekki. Það eru eiginlega bara þeir sem eru alveg á jaðrinum sem afgreiða þessa spurningu í hausnum á sér, hinir eru ekkert að velta henni fyrir sér. En gott og vel. Það er frábært hjá því fólki. Það er ástæða til að óska því fólki til hamingju með það að kunna að fara vel með áfengi. En þetta er auðvitað mjög slæmt fyrir þá sem kunna það ekki. Menn geta haldið því fram að það muni hafa afar slæmar afleiðingar fyrir þá að geta keypt sér áfengi í hvert skipti sem þeir fara í matvörubúð og það muni reyna mjög á viljastyrk þeirra að fara fram hjá áfengisrekkanum í matvöruversluninni o.s.frv. Það er ekki hægt að horfa fram hjá því að fyrir mjög marga sem eru nánustu aðstandendur alkóhólista hefur ekkert jafn mikil áhrif á það hversu oft og hversu mikið þeir drekka eins og aðgengi að áfengi. Þegar aðgengið er þurrkað upp, ef svo má að orði komast, þá hættir drykkjan, þá lýkur neyslunni, þá kemst viðkomandi einstaklingur í það ástand sem hægt er að tala við hann í, sem hægt er að tjónka við hann í. Þeir sem hafa kynnst alkóhólisma, þeir sem hafa alist upp við alkóhólisma vita að þeir sem eru haldnir honum er ekki sjálfrátt, þeir verða að annarri manneskju, þeir geta ekki stýrt eigin gerðum. Þeir setja það sem þeim er kærast í lífinu til hliðar til þess að komast að því sem þeir eru með sjúklega áráttu og sjúklega fíkn í. Þeir ýta börnum sínum til hliðar. Þeir ýta mökum sínum til hliðar. Þeir kasta á glæ tækifærum, vinnunni sinni, húsunum sínum, ævi sinni, fórna öllu, alveg fullkomlega sjúklegt ástand.

Menn geta einfaldlega ekki afgreitt þessi rök á þann hátt að segja, já, þetta er bara frelsi einstaklingsins, þetta er frelsi þessara einstaklinga að fá að gera það við líf þeirra sem þeim sýnist, vegna þess að þetta er ekki bara frelsi þessara einstaklinga. Það eru miklu fleiri og miklu stærri hlutir hér í húfi en svo að hægt sé að afgreiða þá með svo léttvægum hætti.

Hvað er frjálslyndi? Menn þurfa að velta því fyrir sér. Hvað þýðir það að vera í frjálslyndu samfélagi? Er það ekki að vera í samfélagi þar sem ríkið skiptir sér ekki af einstaklingum, þar sem þeir geta notið frelsis til þess að vera eins og þeir eru? Hvar er frelsi barna alkóhólista þegar þetta er orðið að lögum? Hvar er frelsi þeirra sem vilja vera lausir við fyllibyttuna út úr sínu lífi þegar þetta er orðið að lögum og fyllibyttan kemst alltaf í áfengi? Hvar er frelsi okkar hinna sem viljum vera í edrú samfélagi? Skiptir það minna máli en þeir neytendur sem nota áfengi? Er það þannig?

Síðan er eitt sem er stanslaust klifað á í þessu samhengi, þessu máli, að það sé á einhvern hátt nútímalegt að leyfa þetta, þetta tilheyri einhvern veginn eðlilegri framþróun samfélagsins að heimila þetta. En er það þannig? Er samfélagið að þróast í þá áttina að vilja drekka meira áfengi? Er ekki þveröfug þróun í gangi? Er fólk ekki almennt farið að átta sig á skaðsemi þessa efnis, reyna að draga úr notkun þess? Erum við ekki alltaf að heyra meira og meira um fólk sem hefur ákveðið að gera það að raunverulegum valkosti í lífi sínu og valið þann valkost að lifa án þess að nota vímuefni? Er ekki nútímalegra að leggja áherslu á heilsueflandi vöru? Að passa upp á það að börn og fjölskyldur geti haft efni á því að kaupa heilsusamlega vöru? Er það ekki einstaklingsfrelsi? Er það ekki viðskiptafrelsi? Eru það ekki jákvæð neytendaaðgerð? Það held ég.

Virðulegi forseti. Því miður er það svo að það sem ég ætlaði að gera að umtalsefni í þessari ræðu minni umfram það sem ég hef nú þegar sagt kemst ekki fyrir á þeim 20 sekúndum sem eftir eru af ræðutíma mínum. Ég hef meira um þetta mál að segja. Ég vil að við ræðum það mjög vandlega. Það mun hafa mjög afdrifaríkar afleiðingar fyrir samfélag okkar ef þetta frumvarp verður að lögum og við þurfum vandaða umræðu og við þurfum að horfa til raka og vísindalegra gagna og hætta að vera með „mér finnst“ og „ég ætla“ og „ég hef ekki trú á því“ rök í þessu, heldur alvöruröksemdir og vel undirbyggðar, vandaðar skoðanir.“

Ögmundur Jónasson (Vg) sagði réttilega að „sennilega er þetta besta ræðan sem hefur verið flutt við þessa umræðu“.

En Róbert tók aftur til máls og sagði þá þetta:
„Það sem því miður hefur gerst hér í þessari umræðu er að flutningsmenn þessarar tillögu hafa gert þau reginmistök að rugla saman hugtökunum „vesen“ og „frelsi“ og einhvern veginn talið það vera frelsismál að menn gætu verslað áfengi í matvöruverslunum þegar það hefur ekkert með frelsi að gera, það hefur bara með vesen að gera. Það er voða þægilegt fyrir þá sem vilja kaupa sér áfengi að þurfa ekki að fara í eina búð í viðbót. Það er meira vesen fyrir þá að fara í eina búð í viðbót, en það hefur ekkert með frelsi að gera. Það eru mistökin í þessu máli.

Mér finnst mjög mikilsvert og ég er mjög ánægður með að geta verið að ræða slík hugtök hér í þingsal, mér finnst það skipta mjög miklu máli. En ég er að færa fyrir því rök að þetta hafi ekkert með frelsi einstaklingsins að gera, ekki nema þegar kemur að frelsi þeirra sem vilja og þurfa að vera án þeirra afleiðinga sem áfengisneysla hefur í för með sér. Það er ekki vesen að alast upp með alkóhólískt foreldri, það er miklu meira en vesen. Það veit sá sem hér stendur af eigin reynslu. Það er skerðing á frelsi. Það er brot á mannréttindum. Það er eitthvað sem við eigum ekki að bjóða börnum upp á í þessu landi.
Ef einhver þarf að leggja á sig smá vesen til að geta minnkað þau áhrif og dregið úr þeim afleiðingum sem áfengisneysla hefur fyrir sakleysingja í þessu landi, þá eigum við að gera það.“

Og síðan flutti hann það sem eru líklega lok ræðunnar frá því áður:

„Eins og ég sagði í ræðu minni um þá staðreynd að áfengisneysla mun aukast finnst mér kjarninn liggja í þeirri spurningu sem fylgir og menn þurfa að vera tilbúnir til að svara: Er jákvætt að áfengisneysla aukist? Svarið við því að mínu mati er nei. Ég held að það sé ekki mjög jákvætt að það gerist. Þá eru nokkur rök sem fylgja því. Ég get alveg svarað háttvirtum þingmanni að það er ekki víma fólks sem slík sem ræður för þar, það er fyrst og fremst sjónarmið sem varða þá sem þurfa að vera viðstaddir þessa neyslu. Það er auðvitað mjög óþægilegt fyrir fólk að þurfa að vera viðstatt drukkið ættmenni, það er mjög óþægilegt fyrir börn að upplifa foreldra sína í annarlegu ástandi. Það gerist auðvitað, en það má færa fyrir því rök að með aukinni áfengisneyslu muni það gerast í auknum mæli. Það hlýtur að birtast með einhverjum hætti þar.

Síðan er það staðreynd að aukin áfengisneysla hefur í för með sér aukna ofbeldisglæpi. Hún hefur í för með sér fleiri brot á umferðarlögum, það verður meira um ölvunarakstur. Hún hefur í för með sér meiri óspektir, meira eignatjón. Það verður meira um útköll lögreglu. Það verður meira um slys á fólki. Þegar áfengisneysla eykst þá aukast allir þessir hlutir sem eru fylgifiskar áfengisneyslunnar. Í þeim öllum felst gríðarlegur kostnaður fyrir samfélagið. Eins og Róbert H. Haraldsson rekur í grein sinni í Fréttablaðinu í gær þá er auðvitað mikill viðskiptaauki og virðisauki fyrir verslunina í landinu að geta þetta og það er hægðarauki fyrir neytendur sem nota áfengi, en kostnaðurinn við þessa auknu neyslu lendir á samfélaginu öllu.“

Það er í framhaldi af þessum orðum Róberts Marshall ástæða til að benda fólki á að lesa grein eftir Róbert H. Haraldsson sem birtist 5. nóvember, auk þeirrar frá 14. október sem nafni hans Marshall vísaði til í ræðu sinni. Nóvembergreinin fjallar um aðgengi að áfengi og vínmenningu. Eftir að hafa talað um hagsmuni verslunarinnar sem séu fólgnir í því að telja fólki trú um að áfengi sé „ósköp venjuleg neysluvara“ og „grunngæði“ segir Róbert H:
„Hin ástæðan, sem mér sýnist ekki síður veigamikil, tengist orðinu „vínmenning“. Með því að tala um vínmenningu í staðinn fyrir t.d. drykkjuskap, og með því að gefa sér að vínmenning batni með bættu aðgengi, er auðvelt að læða að fólki þeirri firru að samfélaginu beri að tryggja öllum sem bestan aðgang að áfengi. Er ekki allt sem stuðlar að menningu gott?“
Róbert segir að hamrað sé á orðinu „vínmenning“ í greinargerð með áfengisfrumvarpinu en segir að engin rök séu færð fyrir fullyrðingum sem þar komi fram. Lokaorð hans eru þessi (lesið samt endilega greinina):
„Orðalagið „bætt vínmenning“ er ekki annað en klisja sem notuð er til að kasta ryki í augun á fólki, og beina athygli þess frá kjarna málsins: Að stóraukið aðgengi að áfengi eykur til muna bölið sem af því hlýst og að réttnefnd menning er eitthvað sem bætir mannlífið en gerir það ekki verra.“

Ég held með öllum sem heita Róbert í þessu máli.

___
Ath. að ræðurnar eru óyfirlesnar af hálfu þingsins og gætu breyst eða slóðirnar á þessar bráðabirgðaútgáfur orðið óvirkar.
Til þess að textinn sé læsilegri felli ég út innskot eins og „forseti hringir“, og skrifa „háttvirtur“ þar sem annars stendur hv. að hætti þingritara.
* Það var margt fróðlegt sem kom fram og góðar ræður í þessari umræðu á þingi. Svandís hélt t.d. þessa góðu ræðu.

Efnisorð: ,

fimmtudagur, nóvember 19, 2015

Þrestir, viðvörun

Kvikmyndin Þrestir hefur verið sópað að sér verðlaunum á kvikmyndahátíðum og ég hef lesið talsvert af fréttum, viðtölum auk gagnrýni um hana. Samt kom myndin mér gríðarlega á óvart, ég hafði haldið að hún væri á mun léttari nótum. Það var þó ekki allt.

Mér finnst eiginlega að einhverstaðar hefði mátt vara við því að atriði í Þröstum gætu valdið váhrifum, hrundið af stað óþægilegum hugrenningum, vakið upp óþægilegar tilfinningar, ýft upp áfallastreituröskun. Semsagt, gefa áhorfendum kost á að halda sig fjarri með einhverskonar trigger warning.

Ágætis mynd þrátt fyrir þetta, en það gæti verið gott fyrir fólk sem á annað borð vill sjá myndina að geta brynjað sig áður en sum atriðin hefjast.

Efnisorð:

miðvikudagur, nóvember 18, 2015

Ritstjórnarstefna Reykjavíkur vikublaðs hins síðra

Það er ekki ofsögum sagt að Reykjavík Vikublað hafi tekið stakkaskiptum með nýjum ritstjóra. Eins og kunnugt er eignaðist Björn Ingi Hrafnsson nýlega öll bæjarblöðin (með eða án framsóknaraðstoðar) og gengu þá góðir ritstjórar á borð við Björn Þorláksson og Ingimar Karl Helgason úr vistinni. Björn Jón Bragason vermir nú sæti Ingimars Karls og stórsér á blaðinu sem var borið í hús um síðustu helgi (það var annað tölublað frá því hann tók við, hið fyrsta var sem betur fer ekki borið heim til mín).

Það kom mér í raun ekki á óvart að forystugrein Björns Jóns er um helsta hugsjónamál frjálshyggjumanna: brennivín í búðir.

En það sem vakti mesta athygli mína var hinsvegar dálkur við hliðina á forystugreininni. Dálkurinn er kallaður fleyg ummæli, og þar stendur:
„Betra er að tíu sekir sleppi en að einn saklaus líði.“
Nú veit ég ekkert hvað veldur því að BJB velur þessa tilvitnun en dettur tvennt í hug. Annarsvegar sé hann með dómsmál og sektardóma yfir fjárglæframönnum góðærisáranna í huga.

Eða þá að þetta er hans innlegg í helsta hitamál vikunnar á undan: karlmennina sem kærðir voru fyrir nauðganir en voru ekki settir í gæsluvarðhald og fóru úr landi.* Vegna tímasetningarinnar þykir mér það líklegra.

Hvor skýringin sem á við þykir mér þetta undarlegt og óviðkunnalegt, enda er oftast vitnað í þessi orð þegar verja skal eitthvað verulega slæmt athæfi.

Næst fer þessi snepill beint í sorpið.

__

* Það mál alltsaman hefur náð slíku flækjustigi að ég reyni ekki að rekja það frekar. Hinar frumlegu og fantalegu aðferðir Vilhjálms H Vilhjálmssonar sem ætlaðar eru til að þagga niður í kærendum kynferðisglæpa, svo og ýmiskonar yfirlýsingar hans undanfarið, valda mér viðbjóði.


Efnisorð: ,

mánudagur, nóvember 16, 2015

Viðbrögð Hollande

Viðbrögð Hollande við hryðjuverkunum í París eru þveröfug við hvernig Stoltenberg brást við þegar Breivik framdi sín voðaverk. Hollande ætlar að „gjöreyða hinu svokallaða Íslamska ríki“. Tíminn leiðir í ljós hvort honum tekst það, en í ljósi þess hvernig gekk þegar Bush yngri þóttist ætla að uppræta hryðjuverk með innrás í Afganistan og Írak, þá er myndi ég ekki veðja á Hollande.

Gallinn við þessar stríðsyfirlýsingar er líka sá að ISIS* vill einmitt slást við erlenda heri, því fleiri því betra. ISIS þráir heimsendi og hryðjuverkin í Líbanon og París eru liður í því að flýta fyrir lokabardaganum. Þeir vilja mæta óvinum sínum við Dabiq (sem er um 40 km norðan við Aleppo og 10 km frá tyrknesku landamærunum) en lokabardaginn skilst mér að eigi að vera við Jerúsalem, svona svo heimsendirinn komi nú örugglega. Og vígamenn íslamska ríkisins gera greinilega ráð fyrir að vinna allar orusturnar til þess svo að enda í eilífri sælu … eða eitthvað svoleiðis. Vígamenn ISIS hræðast varla hótanir Hollande heldur hljóta að fagna þeim. Markmiðinu með árásunum á París náð.

Í stað þess að svekkja sig á röngum viðbrögðum og stríðsæsingi Hollandes er betra að lesa tvo afar jákvæða og góða pistla. Annan skrifar Sigþrúður Guðmundsdóttir og hinn Guðmundur Andri Thorsson.

___

* ISIS er nú æ oftar kallað Daesh, eða Daesh-samtökin. Færslunni hér að ofan verður hugsanlega breytt í þá veru.

Efnisorð: ,

fimmtudagur, nóvember 12, 2015

Náttúruverndarlögin taka loks gildi

„Ný náttúruverndarlög voru samþykkt samhljóða í dag. Lögin sjálf og efni þeirra hafa fallið nokkuð í skuggann af þeirri staðreynd að lokavinnan var unnin í samstarfi allra flokka í umhverfis- og skipulagsnefnd Alþingis.“
Nokkurn veginn svona hljóðuðu inngangsorð Þóru Arnórsdóttur í Kastljósi, en í viðtölum við fulltrúa flokkanna undanfarið vegna náttúrulaganna höfðu þeir allir verið glaðbeittir en talað um að allir hefðu þurft að gefa nokkuð eftir til að ná málamiðlun en sögðu ekkert hverjar málamiðlanirnar hefðu verið. Aðallega samt talað um hvað það væri nú gaman að vera sammála og samþykkja lögin einum rómi. Sama var uppi á teningnum í fréttum í kvöld þegar talað við Sigrúnu Magnúsdóttur umhverfisráðherra sem talaði bara um þessi tímamót í samvinnu flokkanna og sagði ekkert efnislega um náttúruverndarlögin . Ekki tók ég eftir að fulltrúi Vinstri grænna ræddi um málamiðlanir. Það var því með nokkrum áhuga að ég settist niður til að horfa á Kastljós og heyra nánar um náttúruverndarlögin.

Ekki varð mér að ósk minni í fyrstu umferð. Höskuldur Þórhallsson fór með sömu rulluna og hinir, sem varð til þess að Helgi Seljan flissaði og spurði hvort lögin væru fyrst og fremst merkileg vegna þess að þinginu hefði tekist að vera sammála um þau. En Svandís Svavarsdóttir tók af skarið og sagði að þetta væru í raun sömu lög og voru samþykkt í hennar tíð sem umhverfisráðherra (en Sigurður Ingi lét fresta gildistöku þeirra um leið og hann tók við ráðuneytinu) en nú með breytingum, og svo tiltók hún þau atriði — sem reyndar höfðu áður verið rædd í fréttum, en þá án þess að segja hvert innihald laganna væri að öðru leyti. Og ekki talaði Svandís neitt um málamiðlanir.

Nú finnst mér helst að ástæða þess að hinir þingmennirnir og ráðherrann voru sammála um að ‘allir’ hafi gert málamiðlanir hafi verið sú að þeir hafi allir orðið að fallast á að náttúruverndarlögin frá 2013 hafi verið afar góð, og það hafi fyrst og fremst verið það sem þeir þurftu að éta ofaní sig. Auðvitað getur verið að viðbæturnar, sem allir eru sammála um að hafi verið þarfar, ekki síst Svandís, hafi verið það sem þurfti að semja fram og til baka um, en lögin sjálf frá 2013 virðast hafa fengið að halda sér óbreytt.

Mér sýnist að Svandís Svavarsdóttir og Vinstri græn hafi unnið mikinn sigur í þessu máli. Svo ekki sé nú talað um náttúruverndarsjónarmið.

Efnisorð: ,

mánudagur, nóvember 09, 2015

Þið eruð ekki almenningur

Tveir síðustu pistlar mínir voru svo jákvæðir að það entist mér alla helgina. Sú sæla stóð þar til ég sá forsíðu Fréttablaðsins í morgun. Síðan þá hef ég fátt annað gert en lesa allt sem skrifað hefur verið um Hlíðanauðgarana. Það er fátt sem ég get bætt við það, allt hefur verið sagt áður.

En semsagt. Tveir karlmenn eru sakaðir um raðnauðganir, annar þeirra var einn að verki í fyrra skiptið en síðara skiptið voru þeir tveir saman.* (Ekki er vitað að svo stöddu hvort þeir hafa áður nauðgað konum saman eða í sitthvoru lagi.) Lögreglan óskaði ekki eftir gæsluvarðhaldi yfir þeim meðan á rannsókn málsins stæði, enda þótt hægt væri að krefjast gæsluvarðhalds vegna almannahagsmuna. Lögreglan telur konur greinilega ekki almenning. Karlmennirnir tveir hafa frá því þeir gengu útaf lögreglustöðinni eftir yfirheyrslur haft allan tímann í veröldinni til að hagræða og eyða gögnum. Þeir hafa getað gengið frjálsir ferða sinna, og frjálsir að því að endurtaka leikinn.

Lögreglan fór ekki fram á farbann yfir þeim og þeir notuðu tækifærið og fóru báðir úr landi, sem flýtir ekki beinlínis fyrir rannsókn málsins. Miðað við hvað lögreglan á höfuðborgarsvæðinu þykist hafa ætlað að taka á ofbeldi gegn konum þá er þetta með eindæmum ömurlega léleg vinnubrögð og algjört kjaftshögg fyrir fórnarlömb nauðgaranna.

Þetta er sömuleiðis alvarlegt gagnvart öðrum konum - sem enn síður en áður treysta sér til að kæra. Enda til hvers? Það er ekki eins og það séu neinir almannahagsmunir í húfi þótt konum sé nauðgað.

___

*Hér er best að taka fram að ég hef engar sannanir fyrir sekt þeirra, en geng þó útfrá að fréttaflutningurinn sé réttur og að Hlíðanauðgararnir hafi gert allt það sem fréttir herma að þeir hafi gert.

Efnisorð: , , ,

föstudagur, nóvember 06, 2015

Föstudagsjákvæðni

Samfélagið er einn af mínum uppáhaldsþáttum í Ríkisútvarpinu (Hönnu G. Sigurðardóttur er þó enn sárt saknað) og á föstudögum ræða þáttarstjórnendur (sem eru nú Leifur Hauksson, Þórhildur Ólafsdóttir og Björn Þór Sigbjörnsson) við fólk um hvernig við getum bætt samfélagið. Það er verðugt umræðuefni og svörin margvísleg. Annar fastur liður á föstudögum er Jón Björnsson sem flytur pistil í lok þáttar og er ávallt skemmtilegur. Svo er breytilegt hvað gerist þar á milli en yfirleitt má ganga að fróðlegum viðtölum um lífsins gagn og nauðsynjar vísum.

Í þættinum sem var á dagskrá 30. október síðastliðinn var fyrst rætt við Guðrúnu Ögmundsdóttur, fyrrverandi allskonar og núverandi tengilið vistheimila, um hvernig við bætum samfélagið, og var ekki komið að tómum kofanum hjá henni frekar en fyrri daginn.

Einnig var rætt við Stefán Þór Björnsson, formann flóttamannanefndar um undirbúning komu flóttamanna til Íslands. En fyrir liggur að 55 flóttamönnum stendur til boða að koma hingað í næsta mánuði, fleiri bætast við eftir áramót. Vissulega er þessi tala mjög lág og enn hafa stjórnvöld ekki gefið upp endanlega tölu flóttamanna sem hingað koma. Þó sá hluti viðtalsins sem sneri að fjölda þeirra hafi verið svekkjandi og pirrandi þá reyndist þetta mjög fróðlegt og gott viðtal (sumt af því sem þar kom fram má lesa í frétt sem birt var sama dag). Greinilegt er að hvert skref í þessu ferli er úthugsað og allt lagt upp úr því að flóttamönnum farnist vel hér á landi. Mér létti talsvert við að heyra þetta, því eins og Útlendingastofnun lætur hefði mátt búast við harðsvíruðum móttökum sem miðuðu að því að brjóta fólkið endanlega niður, og að því loknu yrði því grýtt í gáma upp á heiðar.

Þetta var því góður þáttur á alla enda og kanta.

Efnisorð: ,

fimmtudagur, nóvember 05, 2015

Hæpið

Ríkissjónvarpið sýndi í gær annan þátt af Hæpinu í umsjón Katrínar Ásmundsdóttur og Unnsteins Manuels Stefánssonar.

Hæpið fjallar um málefni ungs fólks og þema tveggja síðustu þátta hefur verið ‘stelpur’. Fyrri þátturinn sem var á dagskrá 28. október (og var jafnframt fyrsti þáttur vetrarins) fjallaði um kvenfrelsisbyltingar á árinu, undanfara þeirra og ávinning. Ég hafði aldrei séð Hæpið (þótt þátturinn hafi fengið Edduverðlaun) fyrr en þarna og fannst efnistökin afar góð. Rætt var um: hrelliklám, free the nipple, kynfrelsi, kynferðislegt ofbeldi, 6dagsleikann (þ.e. hversdagsleg kvenfyrirlitning), þöggun, konur tala, beauty tips, appelsínugular og gular prófílmyndir,klám og disneyprinsessur.

Seinni þátturinn með stelpuþemanu var semsagt í gær og var beint framhald af hinum fyrri en fjallaði aðallega um réttarkerfið og kynferðisofbeldi.

Rætt var við breiðan hóp viðmælenda í þáttunum, þar á meðal starfskonu Stígamóta, sálfræðing og rannsóknarlögreglumann, og lögmaður sem finnst kynferðisbrot fái alltof mikla umfjöllun fékk einnig að tjá sig átölulaust. Mér fannst reyndar að hefði mátt sleppa viðtalinu við hann* en jafnframt tel ég það þáttagerðarfólkinu til hróss að vilja og geta rætt af stillingu við einhvern úr þeim herbúðum líka.

Hæpið endaði þó á jákvæðum nótum með því að Þórdís Elva Þorvaldsdóttir hvatti stráka til að endurskilgreina karlmennsku.

Ég mæli með að skoða síðu þáttarins á ruv.is, horfa á þættina á Sarpnum á netinu eða í þar til gerðum sjónvarpstækjum, og bendi á að von er á fleiri Hæpum næstu miðvikudaga. Ég bíð spennt.

___

* Var ég ein um að hugsa: „Til í allt án Villa“?

Efnisorð: , , , , , , , ,

þriðjudagur, nóvember 03, 2015

Hversdagslega kynjamisréttið á fjarlægri kappakstursbraut

Bílar, bílablað Fréttablaðsins er lítill kálfur sem fylgir blaðinu einu sinni í mánuði. Í dag var forsíða bílablaðsins lögð undir reynsluakstur í Þýskalandi í boði þarlends bifreiðaframleiðanda.

Hér verður ekki hirt um að ræða aksturseiginleika bílsins, en til að útskýra tilhögun reynsluakstursins þá var bílablaðamaðurinn ekki einn um að vera að reynsluaka slíku farartæki á kappakstursbrautinni og voru því margir bílar til reiðu. Til þess að enginn færi sér að voða fóru ökumenn á vegum bifreiðaframleiðandans á undan þeim sem voru að reynsluaka.

Svona segist bílablaðamanninum frá.
„Farið var út á braut í fjögurra bíla hópum með undanfara á sams konar bíl. Hóparnir voru tveir og skemmtilegt frá því að segja að þessir tveir undanfarar voru feðgin og dóttirin reyndur kappakstursökumaður sem náð hefur góðum árangri í keppnum. Ekki slæmt að hafa slíkan undanfara og útlit hennar skemmdi alls ekkert fyrir heldur!“
Kannski var þessi útlitsútlistun eingöngu ætluð lesendum uppi á Íslandi. En það væri fróðlegt að vita hvort bílablaðamaðurinn var svo hreinskilinn að segja beint við konuna: mundu að þú ert alltaf dæmd eftir útlitinu alveg sama hvernig þú stendur þig í starfi eða hversu góðum árangri þú nærð í þinni keppnisgrein.

Hvernig er það annars, var pabbi hennar alveg útlitslaus?

Efnisorð: ,