Náttúruverndarlögin taka loks gildi
„Ný náttúruverndarlög voru samþykkt samhljóða í dag. Lögin sjálf og efni þeirra hafa fallið nokkuð í skuggann af þeirri staðreynd að lokavinnan var unnin í samstarfi allra flokka í umhverfis- og skipulagsnefnd Alþingis.“Nokkurn veginn svona hljóðuðu inngangsorð Þóru Arnórsdóttur í Kastljósi, en í viðtölum við fulltrúa flokkanna undanfarið vegna náttúrulaganna höfðu þeir allir verið glaðbeittir en talað um að allir hefðu þurft að gefa nokkuð eftir til að ná málamiðlun en sögðu ekkert hverjar málamiðlanirnar hefðu verið. Aðallega samt talað um hvað það væri nú gaman að vera sammála og samþykkja lögin einum rómi. Sama var uppi á teningnum í fréttum í kvöld þegar talað við Sigrúnu Magnúsdóttur umhverfisráðherra sem talaði bara um þessi tímamót í samvinnu flokkanna og sagði ekkert efnislega um náttúruverndarlögin . Ekki tók ég eftir að fulltrúi Vinstri grænna ræddi um málamiðlanir. Það var því með nokkrum áhuga að ég settist niður til að horfa á Kastljós og heyra nánar um náttúruverndarlögin.
Ekki varð mér að ósk minni í fyrstu umferð. Höskuldur Þórhallsson fór með sömu rulluna og hinir, sem varð til þess að Helgi Seljan flissaði og spurði hvort lögin væru fyrst og fremst merkileg vegna þess að þinginu hefði tekist að vera sammála um þau. En Svandís Svavarsdóttir tók af skarið og sagði að þetta væru í raun sömu lög og voru samþykkt í hennar tíð sem umhverfisráðherra (en Sigurður Ingi lét fresta gildistöku þeirra um leið og hann tók við ráðuneytinu) en nú með breytingum, og svo tiltók hún þau atriði — sem reyndar höfðu áður verið rædd í fréttum, en þá án þess að segja hvert innihald laganna væri að öðru leyti. Og ekki talaði Svandís neitt um málamiðlanir.
Nú finnst mér helst að ástæða þess að hinir þingmennirnir og ráðherrann voru sammála um að ‘allir’ hafi gert málamiðlanir hafi verið sú að þeir hafi allir orðið að fallast á að náttúruverndarlögin frá 2013 hafi verið afar góð, og það hafi fyrst og fremst verið það sem þeir þurftu að éta ofaní sig. Auðvitað getur verið að viðbæturnar, sem allir eru sammála um að hafi verið þarfar, ekki síst Svandís, hafi verið það sem þurfti að semja fram og til baka um, en lögin sjálf frá 2013 virðast hafa fengið að halda sér óbreytt.
Mér sýnist að Svandís Svavarsdóttir og Vinstri græn hafi unnið mikinn sigur í þessu máli. Svo ekki sé nú talað um náttúruverndarsjónarmið.
Efnisorð: pólitík, umhverfismál
<< Home