mánudagur, nóvember 09, 2015

Þið eruð ekki almenningur

Tveir síðustu pistlar mínir voru svo jákvæðir að það entist mér alla helgina. Sú sæla stóð þar til ég sá forsíðu Fréttablaðsins í morgun. Síðan þá hef ég fátt annað gert en lesa allt sem skrifað hefur verið um Hlíðanauðgarana. Það er fátt sem ég get bætt við það, allt hefur verið sagt áður.

En semsagt. Tveir karlmenn eru sakaðir um raðnauðganir, annar þeirra var einn að verki í fyrra skiptið en síðara skiptið voru þeir tveir saman.* (Ekki er vitað að svo stöddu hvort þeir hafa áður nauðgað konum saman eða í sitthvoru lagi.) Lögreglan óskaði ekki eftir gæsluvarðhaldi yfir þeim meðan á rannsókn málsins stæði, enda þótt hægt væri að krefjast gæsluvarðhalds vegna almannahagsmuna. Lögreglan telur konur greinilega ekki almenning. Karlmennirnir tveir hafa frá því þeir gengu útaf lögreglustöðinni eftir yfirheyrslur haft allan tímann í veröldinni til að hagræða og eyða gögnum. Þeir hafa getað gengið frjálsir ferða sinna, og frjálsir að því að endurtaka leikinn.

Lögreglan fór ekki fram á farbann yfir þeim og þeir notuðu tækifærið og fóru báðir úr landi, sem flýtir ekki beinlínis fyrir rannsókn málsins. Miðað við hvað lögreglan á höfuðborgarsvæðinu þykist hafa ætlað að taka á ofbeldi gegn konum þá er þetta með eindæmum ömurlega léleg vinnubrögð og algjört kjaftshögg fyrir fórnarlömb nauðgaranna.

Þetta er sömuleiðis alvarlegt gagnvart öðrum konum - sem enn síður en áður treysta sér til að kæra. Enda til hvers? Það er ekki eins og það séu neinir almannahagsmunir í húfi þótt konum sé nauðgað.

___

*Hér er best að taka fram að ég hef engar sannanir fyrir sekt þeirra, en geng þó útfrá að fréttaflutningurinn sé réttur og að Hlíðanauðgararnir hafi gert allt það sem fréttir herma að þeir hafi gert.

Efnisorð: , , ,