fimmtudagur, október 15, 2015

Úr lélegum launum í sjálfboðaliðastarf

Ríkisstjórnin hefur með óbilgirni sinni enn og aftur stillt ríkisstarfsmönnum upp við vegg. Verkfallsaðgerðir eru neyðarúrræði sem launþegar grípa ekki til af neinni léttúð.

Í verkfalli (ótímabundinni vinnustöðvun og tímabundnum skærum) eru um sex þúsund manns, þar á meðal löggan. Víðtækust áhrif hefur verkfall SFR – stéttarfélags í almannaþágu, það nær m.a. til ýmissa opinberra skrifstofa svo sem hjá tollinum og sýslumannsembættum, starfsmanna ÁTVR, og umsjónarmanna húseigna Háskóla Íslands og Háskólans á Akureyri með þeim afleiðingum að kennsla fellur niður. Listasafn Íslands er lokað og engar leiksýningar verða í Þjóðleikhúsinu.

Síðast enn ekki síst er Sjúkraliðafélag Íslands (SLFÍ) í verkfalli með þeim afleiðingum að heimahjúkrun leggst að mestu niður auk þess sem 1600 sjúkraliðar á Landspítalanum leggja niður störf. En eins og segir í frétt: um 600 sjúkraliðar fá undanþágu til að sinna bráðatilfellum á spítalanum.

Félagsdómur hefur úrskurðað að réttmætt hafi verið af ríkisvaldinu að draga 60% af launum allra ljósmæðra vegna verkfallsins í vor. Ljósmæður voru í verkfalli alla þriðjudaga, miðvikudaga og fimmtudaga á tímabilinu 7. apríl til 13. júní en þá setti Alþingi lög á verkfallið. 
Margar ljósmæðranna „unnu hins vegar kvöld, helgar og þá daga sem verkfallið varði og skiluðu því talsvert meiri vinnu af sér en fjörutíu prósentum“. Það er semsagt ekki metið til launa. Þessir 600 sjúkraliðar mega því búast við að vinna frítt meðan á verkfallsaðgerðum stendur. Það hlýtur að vera notaleg tilhugsun. Allavega fyrir fjármálaráðherra og heilbrigðisráðherra.

Efnisorð: