sunnudagur, september 27, 2015

Dritbruni, legusár og soltin dýr

Ríkisútvarpið hefur undanfarna daga flutt fréttir af dýravelferð. Matvælastofnun fór í fyrra í eftirlitsferðir á svínabú, nautabú og fylgdist með kjúklingum sem sendir voru til slátrunar. Niðurstöðurnar voru í öllum tilvikum hræðilegar, en um leið staðfesting á öllu því sem áður hefur verið sagt um verksmiðjubúskap. Það eina sem kemur á óvart er meðferðin á nautgripunum (og kannski umdeilanlegt hvort hægt er að kalla nautgriparækt verksmiðjubúskap hér á landi), sem öfugt við það sem maður hefði haldið, eru sumir hverjir vannærðir vegna aðstæðna sinna.

En þetta er semsagt úr fréttunum, tekið saman á einn stað þeim til fróðleiks sem eru að velta fyrir sér þessu með sniðgöngur, og hvort þær virki betur í nærumhverfinu.

Ill meðferð á gyltum á svínabúum
„Matvælastofnun hefur farið fram á að gyltum á íslenskum svínabúum verði slátrað vegna slæmra legusára. Legusár fundust á gyltum á öllum búum sem heimsótt voru í fyrra. Allt að önnur hver gylta var með sár.

Á íslenskum svínabúum eru gyltur hafðar á básum í mun meira mæli en í nágrannalöndunum. Samkvæmt nýrri reglugerð er bannað að hafa þær á básum nema á fengitíma og í kringum got, en svínaræktendur fá allt að tíu ára aðlögunartíma.

Þóra Jónasdóttir, dýralæknir dýravelferðar hjá Matvælastofnun, segir að í fyrra hafi Matvælastofnun farið í eftirlit á níu af ellefu svínabúum á landinu sem halda gyltur. Legusár hafi fundist á gyltum á öllum þessum búum. Á milli 15% og 50% gyltna á hverju búi hafi haft legusár.“

Nautgripir svelta
„Dæmi eru um að nautgripir á íslenskum búum séu vanfóðraðir því þeir þurfa að keppa við stærri nautgripi um æti. Þetta, ásamt þrengslum, for, bleytu og óhreinindum, er meðal alvarlegra athugasemda sem Matvælastofnun gerði við velferð nautgripa á nærri 30 bæjum í fyrra.“

Sársaukafullur dritbruni
„Fimmti hver kjúklingur sem Matvælastofnun skoðaði í sláturhúsum á Suðvesturlandi í fyrra var með brunasár á fótum. Þéttsetnum húsum með blautu gólfi er helst um að kenna.

Kjúklingar, sem eru ræktaðir til kjötframleiðslu, ala ævina yfirleitt í þéttsetnum húsum. Ef troðningurinn er of mikill, og undirlagið þess vegna blautt, geta fuglarnir fengið sársaukafull brunasár neðan á fæturna, svonefndan dritbruna. Þvagsýra í driti kjúklinganna hefur líka slæm áhrif. Sárin eru flokkuð í væg og alvarleg brunasár.

Matvælastofnun skoðaði í fyrra fætur kjúklinga í úrtaki sem komu til slátrunar á Suðvesturlandi. Þóra Jónasdóttir segir að brunasár hafi fundist á rúmlega 20% kjúklinganna. Þar af hafi 2-3% haft alvarleg brunasár.“

Eina vonarskíman í þessu eru dýravelferðarlögin, en með þeim „fékk Matvælastofnun auknar heimildir en áður til að fylgja málum eftir, ef ekki er farið að tilmælum stofnunarinnar. Til dæmis má beita sektum áður en gengið er svo langt að taka dýrin af eigendunum. Þóra segir að Matvælastofnun sé hins vegar ekki enn byrjuð að beita þessum nýju úrræðum. Mikil vinna sé nú lögð í að koma þeim í notkun. Hún segir að stofnunin geti farið að beita þeim fljótlega.“

Ekkert af þessu kemur Dýraverndunarsambandinu á óvart.
„Dýraverndarsamband Íslands hefur skilgreint þauleldi sem verksmiðjubúskap þar sem velferð dýra er fórnað fyrir hámörkun nytja, og þetta er gott dæmi um það. Við erum auðvitað bara fegin að það kemur fram, en við erum hins vegar viss um að legusár eru ekki ný,“ segir Hallgerður Hauksdóttir, formaður Dýraverndunarsambands Íslands.

Reyndar hefur verið sýnt svo oft framá erlendis að verksmiðjubúskap fylgir ill meðferð á skepnum. Það má jafnvel halda því fram að verksmiðjubúskapur byggi á slíku skeytingarleysi um velferð dýra að hægt sé að tala um skipulagða grimmd.

Ef þetta væru einstök dæmi (eins og ég vona að eigi við um nautgriparæktunina hér á landi) væri hægt að afsaka það með vankunnáttu eða hugsunarleysi, en til þess eru dæmin of mörg á heimsvísu. Þessar niðurstöður Matvælastofnunar benda eindregið til að íslensk verksmiðjubú séu ekki undantekning frá þeirri reglu. Á öllum íslenskum svínabúum eru gyltur með legusár, það er ekki af hugsunarleysi — heldur afleiðing hugsunarháttar sem setur gróðavon ofar velferð dýranna.

___

Viðbót: Í fréttatíma Ríkissjónvarpsins 29. september var talað við Tryggva Aðalbjörnsson fréttamann sem hefur fjallað um dýravelferðarmál í ofangreindum fréttum, og áðurnefnda Þóru Jónasdóttur. Einnig voru sýndar myndir af gyltum sem lágu á svo viðurstyggilega þröngum básum að þær gátu sig hvergi hreyft og ekki rétt úr fótunum. Sjón er sögu ríkari, og í þessu tilviki hræðileg sjón.

Efnisorð: ,