fimmtudagur, september 10, 2015

Lof og last


LOF

Tabú er feminísk hreyfing sem beinir sjónum sínum að margþættri mismunun gagnvart fötluðu fólki. Það er því fagnaðarefni að Tabú hafi opnað nýja og endurbætta vefsíðu.

Katrín vs. Terminator
Mikill fjöldi virtra vísindamanna á sviði gervigreindar hefur skrifað undir áskorun til Sameinuðu þjóðanna um að banna framleiðslu drápsvélmenna. Á sama máli er Katrín Jakobsdóttir sem hyggst leggja fram þingsályktunartillögu um bann við framleiðslu og beitingu sjálfvirkra vígvéla. Það er gott framtak hjá henni. Svo hélt hún líka frábæra ræðu við setningu Alþingis í vikunni.

LÍ í LÍ
Bragi Björnsson lögmaður setti fram afar góða hugmynd í grein þar sem hann ræddi (þá) fyrirhugaðan flutning aðalstöðva Landsbankans úr Austurstræti. Hann lagði semsé til að
„Landsbankinn af þessu tilefni færði Listasafni Íslands að gjöf listasafn bankans og þær viðbætur er kunna að verða á því um ókomna tíð. Gjöfinni fylgdi sú kvöð að bankanum væri heimilt að sýna hluta safnsins í útibúum og öðru húsnæði bankans, en meginþorri verkanna yrði almenningi til sýnis í gömlu höfuðstöðvunum, sem breytt yrði í listasafn sem bankinn ræki á sinn kostnað.“
Jafnvel enn betri er hugmynd sem Kristín Þorsteinsdóttir setti fram í leiðara, að Listasafn Íslands flytji í gamla Landspítalann að því tilskyldu að spítalinn flytjist burt af svæðinu. Það væri sannarlega fögur umgjörð um höfuðsafn íslenskrar myndlistar.

LAST

Það er algjört hneyksli að konur fái ekki nálgunarbann á eltihrella nema með tilstuðlan fjölmiðla.

Tískuslys
Á forsíðu Fréttablaðsins daginn eftir þingsetningu var tískuúttekt á klæðnaði þingmanna. Hingað til hefur verið mikilvægara umfjöllunarefni fjölmiðla hvað þingmenn láta útúr sér en hvað þeir bera utaná sér. Eitt er að hafa þessa tískuumfjöllun á innsíðum blaðsins (ef það þykir nauðsynlegt að upplýsa lesendur um hvar þingmenn kaupa fötin sín) en sem forsíðuefni var það ótrúlega hallærislegt.

Hin sanna ásýnd rasismans
Það er erfitt að halda því fram að þeir sem eru á móti flóttamönnum séu í raun ekki vont fólk eftir að hafa séð myndskeið af útsendara rasískrar sjónvarpsstöðvar í Ungverjalandi þar sem hún sést ítrekað sparka í flóttamenn, meiða börn. Þvílík illgirni, þvílíkur óþverraskapur.

Fárið í kringum kallafótboltann
Íþróttafréttamenn og aðrir fótboltaáhugamenn stunduðu grimma sögufölsun þegar þeir héldu því fram að íslenska karlalandsliðið í fótbolta hefði verið fyrsta íslenska liðið til að vinna sér inn þátttökurétt á EM í fótbolta. Vinsældir feminista jukust ekkert við að benda á að kvennalandslið hefði oftar en einu sinni keppt á EM. Þegar konurnar unnu sér inn þátttökurétt á mótið var því heldur ekki fagnað með þjóðhátíð á Ingólfstorgi.

Það er ekki til að bæta vitleysuna að heyra æsta fótboltaáhugamenn (og popúlíska stjórnmálamenn sem njóta lítils fylgis) ræða það eins og einhverja nauðsyn að byggja rándýrt íþróttamannvirki sem á meira og minna eftir að standa autt. Og svo er fenginn fótboltakall sem af ítrasta hlutleysi á að reikna út hvort það sé góð fjárfesting. Það verður fróðlegt að sjá niðurstöðuna og hvort hún verður í stíl við hvernig rekstur Laugardalsvallar hefur gengið.

Í öllum fagnaðarlátunum yfir fótboltaleiknum fór sú staðreynd ekki hátt – allavega ekki miðað við allar yfirlýsingarnar um hvað þetta væri nú allt stórkostlegt — að leiknum lauk með markalausu jafntefli. Hversu ömurleg er þessi íþrótt eiginlega?

Efnisorð: , , , , , , , , ,