þriðjudagur, september 01, 2015

Margt er líkt með skyldum

Þegar ég var búin að ná úr mér mesta ógeðshrollinum eftir að hafa séð skopmyndina alræmdu sem birtist í Mogganum í dag (en ég sá í öðrum fjölmiðlum; mæli sérstaklega með grein Kjarnans um ritstjórnarstefnu Morgunblaðsins sem hefur tekið afstöðu gegn flóttamönnum), staldraði ég við orðalag textans. „Helferðartúrismi ákallar hin blæðandi hjörtu“.

Helferðartúrismi er auðvitað herfilegt orð (og hugsunin sem liggur að baki því sturluð) en blæðandi hjörtu hef ég yfirleitt eingöngu rekist á í enskum texta. Það er áhugavert að sjá að blæðandi hjarta orðræðan á upp á dekk í Mogganum, það sýnir þráðbein tengsl við skoðanasystkin yst á hægri væng stjórnmálanna vestanhafs. Þá er samsetningin yfirleitt „bleeding heart liberal“ og sá sem talar eða skrifar er Repúblikani, stækur frjálshyggjumaður eða teboðstrúður. Þetta er alltaf meint í niðrandi skyni og er beint að vinstrisinnuðu fólki sem vill traust velferðar- og heilbrigðiskerfi, og allskonar réttindi handa fólki sem verður fyrir mismunun (konur, samkynhneigðir, fatlaðir). Og þetta orðalag – þegar ég sá það á íslensku – minnti mig meira en lítið á uppnefnið „góða fólkið“ sem er klínt á fólk sem berst fyrir kvenréttindum og ýmsu því sem íslenskum karlmönnum þykir vega að stöðu sinni í heiminum og kalla forræðishyggju. „Góða fólkið“ er líka ávallt notað í niðrandi skyni.

Efnisorð: , , , , ,