miðvikudagur, júlí 29, 2015

Utanríkisráðherra verður að vera skýr í máli

Eftir óvænt útspil Gunnars Braga Sveinssonar utanríkisráðherra á dögunum þar sem hann sagðist hlynntur endurskoðun á hvalveiðistefnu Íslendinga, hefur hann nú snúist öndverður við öllum vangaveltum um að hætta hvalveiðum. (Og einsgott að ég var ekki farin að hrósa honum fyrir það eins og ég fyrirhugaði.) Það var nefnilega ekki erfitt að ímynda sér að hann orðaði hlutina varlega („endurskoðun … koma til móts við alþjóða hvalveiðiráðið) í stað þess að tilkynna skyndilega: ég leggst alfarið gegn öllum hvalveiðum því þær skaða samstarf Íslands við aðrar þjóðir. En kannski var það bara óskhyggja, eða utanríkisráðherra bara svona misskilinn, eins og forsætirsráðherra er gjarnan þegar hann úttalar sig af visku sinni.

En svo er spurning hvort Gunnar Bragi var tekinn á teppið einhverstaðar, af forsætisráðherra, hagsmunaðilum (Kristján Loftsson í Hval eða Gunnar Bergmann Jónsson sem gerir út á hrefnuveiðar eða pabbi hans Jón Gunnarsson þingmaður) eða jafnvel af kaupfélagsstjórum á Skagfirska efnahagssvæðinu sem gera út Gunnar Braga sjálfan. Því snúningurinn er algjör.

„Ég kveð ekkert upp úr um það hvort að við eigum að gera það [draga úr hvalveiðum] eða ekki. Ég reyndar ítreka í viðtalinu að við megum aldrei gefa eftir rétt okkar til að veiða hvali. Ég vil líka taka það fram að hrefnan er undanskilin við þetta. Ég held að við eigum að veiða hrefnuna sem aldrei fyrr,“ segir Gunnar.“

Einhverstaðar í Bandaríkjunum er tannlæknir sem er ánægður með svo karlmannlega afstöðu: drepa meira!

Það er annars af Skagfirska efnahagssvæðinu að frétta að „Ferðamálastofa hefur útnefnt Skagafjörð gæðaáfangastað Íslands vegna verkefnisins Matarkistan Skagafjörður. Skagafjörður kemst þannig í hóp annarra gæðaáfangastaða í Evrópu sem hafa hlotið EDEN-tilnefningu, en það stendur fyrir European Destination of Excellence“ (úr frétt á rúv.is).

Á vef Ferðamálastofu kemur fram að EDEN-verkefnið nýtur fjárhagstuðnings COSME-verkefnis (2014-2020) Evrópusambandsins. Sé heimasíða EDEN-verkefnisins lesin kemur í ljós að eingöngu komi til greina staðir í löndum innan Evrópusambandsins eða löndum í umsóknarferli að ESB.

Nú hlýtur Gunnar Bragi að verða snar í snúningum áður en þetta verður mistúlkað, og benda á að Ísland sé hreint ekki umsóknarríki, og þar af leiðandi sé Skagafjörður enginn gæðaáfangastaður!

Efnisorð: , ,